Ég á VIRK mikið að þakka
Ég á VIRK mikið að þakka
Rósa María Ingunnardóttir
„Ég er afskaplega fegin að hafa farið þessa leið,“ segir Rósa María Ingunnardóttir um samstarf sitt við VIRK Starfsendurhæfingarsjóð.
„Mér fannst þetta samt skammarlegt fyrst, fannst ég ekki eiga heima þarna. En sú tilfinning hvarf skjótt. Ég hafði orðið fyrir mörgum áföllum á skömmum tíma og var orðin þunglynd. Ég áttaði mig fljótlega á að ég ætti fullt erindi í þetta samstarf. Ég hafði verið á spítala vegna oförvunar, ég gaf egg með þessum afleiðingum, komist í lífshættu. Eftir að það skánaði fór ég aftur að vinna. Lenti svo aftur á spítala með bólgur á jafnvægisstaug. Nokkru seinna fékk ég mörgum sinnum blóðtappa. Um tíma gat ég ekki keyrt bíl. Allt var þetta mjög erfitt. Sjálfri finnst mér nú eins og þessi veikindi hafi stafað af því mikla álagi sem margvísleg áföll ollu mér. Það var komin í mig uppgjöf og ég var orðin mjög þunglynd.
Ég fann þó að á þeim stað vildi ég ekki vera. Því miður þekki ég marga sem eru í svona stöðu og vilja ekki gera neitt sér til hjálpar, ákveða að þeir geti alls ekki farið út á vinnumarkaðinn. Ég ákvað að enda ekki þannig og fékk tíma hjá sálfræðingi sem greindi mig með áfallastreituröskun. Það var byrjunin á uppbyggingunni. Meðan ég var sem verst vildi ég ekki fara út úr húsi. Ég var viss um að fólk myndi sjá hvað komið hefði fyrir mig. En ég hafði mig þó á fætur á morgnana.“
Erfið áföll
Áföll þau sem Rósa María varð fyrir voru mörg og sár.
„Mér finnst þetta hafa byrjað þegar besta vinkona mín var myrt erlendis. Mamma fékk um sama leyti krabbamein og dóttir mín sagði frá því í skólanum að hún hafði verið misnotuð af manni sem við mæðgur höfðum treyst vel. Við læknisskoðun fundust áverkar á barninu. Ég höfðaði í framhaldinu sakamál, sem tapaðist. Dóttir mín hefur nú náð sér ótrúlega, fékk góða aðstoð - meðal annars frá sálfræðingi.
Móðir mín dó úr krabbameini, aðeins 48 ára gömul. Það var mikið áfall. Mér fannst hún stundum hafa blendnar tilfinningar til mín. Ég ólst ekki upp hjá blóðföður mínum. Mamma gekk með mig þegar hún tók saman við fósturföður minn. Þau giftust og hann ól mig upp. Ég vissi alltaf að ég væri ekki dóttir hans. Mér fannst ég stundum fá þau skilaboð að ég væri ómöguleg. Ég leitaði viðurkenningar foreldra minna en fannst ég sjaldan fá hana.
Þegar ég var þrettán ára kynntist ég blóðföður mínum. Hann var mér sem ókunnugur maður. Þau kynni hafa ekki verið mér til gleði.
Eftir að mamma dó hættum við pabbi að tala saman. Ég læt það ekki á mig fá. Hann hafði gagnrýnt mig mikið. Sennilega er best að við vinnum úr okkar málum sitt í hvoru lagi.
Um svipað leyti og mamma dó létust einnig afi og svo amma. Áföllin komu því eitt af öðru og loks var svo komið að ég gat ekki meira. Ég náði ekki að vinna úr öllu því, sem gerðist á svo skömmum tíma. Út yfir tók svo þegar ég varð þess áskynja að sambýlismaður minn var í lauslegu sambandi við aðra konu meðan ég var á spítalanum. Við hættum að búa saman í kjölfar þess. Og vegna alls þessa varð ég veik, - það er mín túlkun.
Bakland mitt er fremur lítið. Sá sem helst hafði hjálpað mér var sá sem sakaður var um að hafa misnotað dóttur mína. Fólkið hans hafði verið henni og okkur báðum gott. Þetta var því mikið áfall.“
VIRK reyndist mér vel
Þannig var staðan þegar ég hóf samstarf við VIRK. Nóg var af viðfangsefnum til að vinna úr. Öll áföllin, fyrrnefnd veikindi og vefjagigt, sem ég var greind með.
Ég tók þá ákvörðun einn daginn, fyrir tveimur árum, að ég vildi vinna úr þessu öllu saman. Líka æskunni. Ég ákvað að reyna að fá endurhæfingarlífeyri og komast til heilsu. Ég sneri mér til ráðgjafa VIRK hjá VR og sagði henni hvað mig langaði til að gera til að koma mér upp úr þessu. Ég var þá búin að afla mér upplýsinga um hvað gæti hentað mér. Ég hafði farið á námskeið í hugrænni atferlismeðferð og fór svo til ráðgjafans og sagði að ég vildi fara í meðferð hjá Kvíðamiðstöðinni. Ég hafði séð þá starfsemi auglýsta. Í framhaldinu fór ég í viðtöl og greiningu. Þar var mér sagt að ég væri með „of stóran pakka“, yrði að leita annað líka. Þá fékk ég í gegnum VIRK sálfræðimeðferð. Sá sálfræðingur er búinn að reynast mér ótrúlega vel. Ég fékk þetta allt greitt frá VIRK.
Þegar þarna var komið sögu var ég búin að sjá að ég yrði að fá mér meiri menntun og betur launað starf. Ég var með stúdentspróf og hafði lært förðunarfræði. Nú vildi ég komast í kerfisfræðinám. Í framhaldi af því sendi ráðgjafi VIRK mig í Strong-áhugasviðspróf. Ég fann nám í NTV, Nýja tölvu- og tækniskólanum, sótti um þar og komst inn. Þetta er dýrt nám en ráðgjafinn og sálfræðingurinn höfðu þá trú á mér að þær fengu styrki fyrir mig frá VIRK, VR og Kópavogsbæ og ég komst í námið. Þaðan útskrifaðist ég með mjög góða einkunn, var ein af þeim hæstu. Ég var atvinnulaus í aðeins þrjá daga. Þá fékk ég vinnu sem kerfisstjóri hjá góðu fyrirtæki. Byrjaði sem sumarafleysingamanneskja en fékk svo ráðningu áfram.
Mikil áskorun
Mér finnst ég því hafa dottið í lukkupottinn eftir allt saman, ef svo má segja. En ég hefði aldrei náð þessum árangri án aðstoðar VIRK. Trú ráðgjafans og sálfræðingsins á mér var einn lykillinn að uppbyggingunni. Annar var svo auðvitað hjá sjálfri mér. Ég hafði allan tímann hugann við að komast upp, ná árangri. Ég skoðaði allt sem gæti komið mér að gagni. Ég var svo stolt þegar vel gekk. Hugsaði: „Í dag hef ég tekið þrjú skref!“ Og svo þegar ég kom næst til ráðgjafans eða sálfræðingsins: „Nú hef ég tekið fjögur skref!“ Þetta var svo mikil áskorun.
Fyrst í meðferðinni þorði ég ekki að segja frá öllu sem komið hafði fyrir mig. Fannst það svo hræðilega mikið og reyndi að láta þetta líta betur út en það var. Ég vildi ekki vera stimpluð sem aumingi. En svo þegar líða tók á meðferðina fór ég að opna mig meira. Þá fór mér smám saman að líða betur. Liður í því ferli voru þau tvö sjálfstyrkingarnámskeið sem ég tók þátt í á vegum VIRK. Annað hjá Foreldrahúsi og hitt hjá Kvíðamiðstöðinni. Ég skoðaði og tók þátt í öllu sem mér datt í hug að gæti komið að gagni.
Ég neita því ekki að ég grét mikið meðan á öllu þessu stóð. Það var svo margt sem vinna þurfti úr. En þetta gekk og núna líður mér mjög vel. Við búum saman mæðgurnar í ágætri íbúð og höfum það gott. Ég er dugleg að hreyfa mig. Líkamsræktarstöðvar eru ekki fyrir mig, það hef ég sannprófað. En ég geng á fjöll, hjóla, hleyp og fer í göngutúra. Þetta virkar mjög vel. Ég hef grennst og er ánægð með útlit mitt. Einn daginn leit ég í spegil og sagði við sjálfa mig: „Þú ert nú bara sæt.“ Það var góð tilfinning.
Ég hef alltaf verið vinmörg og hef líka eignast góða vini í gegnum þessa meðferð alla. Konur sem höfðu lent í svipuðum aðstæðum að einhverju leyti og vilja komast upp. Láta sér líða vel og finnast þær eiga það skilið. Ég á VIRK mikið að þakka. Og líka þeirri trú sem ég hef nú á sjálfri mér. Ég finn mig sterkari núna en nokkru sinni fyrr.“
Viðtal: Guðrún Guðlaugsdóttir.
Lestu fleiri reynslusögur einstaklinga hér.