Dagbók VIRK 2015 komin út
Dagbók VIRK 2015 komin út
Dagbók VIRK 2015 er komin til ráðgjafa okkar um allt land þaðan sem henni verður dreift til einstaklinga í þjónustu og þeir hvattir til þess að nýta sér hana í starfsendurhæfingu sinni.
Dagbókin, sem nú er gefinn út i fjórða sinn, hefur sama yfirbragð og fyrri dagbækur VIRK en hefur tekið nokkrum breytingum frá því hún var síðast gefin út fyrir tveimur árum síðan, m.a. var efnisröðun breytt og hún dagsett.
Einstaklingar í þjónustu VIRK eru hvattir til þess að nota dagbókina til auka starfsgetu sína og lífsgæði og nýta sér hvernig hún er markvisst byggð upp til að auðvelda markmiðssetningu og til hvatningar einstaklingnum. Í inngangi dagbókarinnar segir m.a.:
„Dagbókin þín mun þannig hjálpa þér við að taka virkan þátt í starfsendurhæfingunni og auka sjálfstraustið með því að minna þig á hverju þú hefur þegar áorkað.
Markmiðssetning er mikilvæg, eða eins og Kötturinn sagði við Lísu í Undralandi þegar hún spurði hann hvert hún ætti að fara: „Ef þú veist ekki hvert þú ætlar skiptir engu máli hvaða leið þú velur“. Vegna þess hve mikilvægt er að setja sér raunhæf og mælanleg markmið höfum við ætlað þeim veglegan sess í þessari dagbók, bæði skráningu þeirra og líka skráningu á árangri. Við getum sett okkur markmið um alla þætti sem skipta okkur máli. Þau geta átt við um hreyfingu, mataræði, vinnu eða annað. Að setja sér markmið um að „hreyfa sig meira“ er nokkuð gott en það er yfirleitt ekki nægilega skilvirkt. Ef við setjum okkur hins vegar markmið um að ganga rösklega í 30 mínútur á dag, fimm daga í viku þá er markmiðið bæði tímasett og mælanlegt. Markmiðið er einnig raunhæft fyrir flesta og því líklegra til að skila árangri.
Markmið hjálpa okkur til að ná árangri og að halda okkur við efnið svo að við gefumst ekki upp. Það er mikilvægt að hafa bæði skammtímamarkmið um hverju áætlað er að áorka frá degi til dags eða viku til viku,og langtímamarkmið sem leiðbeina okkur um hverju við ætlum að áorka eftir einhverja mánuði eða jafnvel ár. Skammtímamarkmiðin skipta máli því þau halda okkur við efnið og leyfa okkur að upplifa árangur þó að enn sé langt í lokamarkmiðin.
Ekki setja þér of mörg og langsótt markmið í einu, betra er að bæta smám saman við svo að verkefnið verði ekki óyfirstíganlegt.
Þegar frá líður mun dagbókin þín verða fjársjóður minninga og upplýsinga um hvað þú hefur gert til að bæta líf þitt og líðan til að öðlast aukna starfsgetu og meiri lífsgæði.
Vonandi verður þessi dagbók þér hvatning í starfsendurhæfingunni og nýtist þér í verkefnunum framundan.“
Eysteinn Eyjólfsson ritstýrði dagbókinni, Kristín María Ingimarssdóttir sá um útlit og umbrot og Guðjón Ó - vistvæn prenstsmiðja prentaði dagbókina.