Fara í efni

„VIRK stóð vörð um starfsréttindi“

Til baka
Steinunn Þórisdóttir leikskólakennari
Steinunn Þórisdóttir leikskólakennari

„VIRK stóð vörð um starfsréttindi“

„Ég var lögð inn á Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri í janúar 2010 og hluti af endurhæfingunni fólst í því að mér var komið í samband við VIRK,“ segir Steinunn Þórisdóttir kennari og deildarstjóri á leikskólanum Krílakoti, Dalvík.

 „Ég hafði átt við mikla erfiðleika að stríða áður en ég lagðist inn, verið undir gríðarlegu álagi og átt í miklum fjárhagserfiðleikum. Við það að leggjast inn á sjúkrahús má segja að ég hafi „hrunið“, ef þannig er hægt að taka til orða. Ég fékk aldrei neina aðra greiningu en að ég væri haldin miklum kvíða, þunglyndi og áfallastreitu. Þetta þrennt var síðan unnið með. Fyrst um sinn komu sálfræðingur, iðjuþjálfi og félagsráðgjafi á sjúkrahúsinu að endurhæfingunni, ásamt starfsfólki deildarinnar. Fyrstu vikurnar snerist endurhæfingin um að halda út venjulegan dag heima, borða og gera einföldustu hluti, svo sem að elda mat og sinna fjölskyldulífi. Einnig þurfti að koma reglu á svefninn. Ég hafði ekki getað sofið sem neinu nam um margra mánaða skeið. Ég þurfti því að læra upp á nýtt að ná að hvílast.

Um svipað leyti og ég hóf samtalsmeðferð hjá sálfræðingi undir eftirliti geðlæknis kom VIRK að mínum málum. Þetta var líklega undir vorið 2010. Félagsráðgjafinn og iðjuþjálfinn á sjúkrahúsinu sáu um að koma mér í samband við VIRK. Eftir að þau tengsl voru komin á var endurhæfingunni að mestu stýrt af VIRK og af sálfræðingnum á vegum FSA en ég var, sem fyrr greinir, þá þegar komin í samband við hann.“

„Veikindin voru mér lexía“
„Í upphafi beindist starfsendurhæfingin hjá VIRK að mestu að því að byggja mig upp svo ég kæmist aftur inn á vinnumarkaðinn í nokkrum skrefum. Ég sótti nokkur sjálfsstyrkingarnámskeið sem gerðu mér gríðarlega gott. Þar var tekið á kvíða og félagsfælni, en mjög mikilvægt er fyrir fólk sem glímir við hvers kyns veikindi, andleg sem líkamleg, að komast í hóp annarra sem standa í svipuðum sporum. Bæði til að fá félagslegan stuðning og ekki síður til að átta sig á að maður er ekki einn í vanda staddur eða á nokkurn hátt minni manneskja en aðrir. Allir geta veikst eða gengið í gegnum  erfiðleika. Hver svo sem á í hlut. Þetta var mér mikilvægt að skilja og í raun mikil lexía. Fram að því hafði ég talið óhugsandi að svona lagað gæti komið fyrir mig og ég upplifði gríðarlega skömm yfir að hafa veikst. Mér fannst ég hafa brugðist sjálfri mér, fjölskyldu minni og samfélaginu. Mín endurhæfing fólst ekki síst í að sigrast á eigin fordómum og að hluta til í því að átta mig á að við erum öll mannleg og að veikindi geta sótt okkur heim hvenær sem er og hvar sem er.“

Var leitað lausna á fjárhagsvanda sem hafði valdið þér svo miklum áhyggjum?
„Nei, það var ekki til nein einföld lausn á fjárhagsmálunum, þar var ég í sama ferli og fjöldi fólks sem tók erlend lán og lenti í vandræðum eftir bankahrunið.

Á þessum tíma var ég aftur á móti í sambandi við mann sem ekki gerði mér gott. Í þeim málum fékk ég mikinn stuðning sem leiddi til þess að ég hef komið mér á betri stað. Sálfræðiaðstoðin fólst í hugrænni atferlismeðferð, kortlagningu ýmiskonar og úrvinnslu og sjálfsuppbyggingu, ásamt kvíðameðferð.

Viðtölin við ráðgjafa hjá VIRK miðuðu fremur að því að halda utan um praktísk mál. Styðja mig í umsóknum t.d. um endurhæfingarlífeyri og fleira af því tagi, sem og skipulagningu á félagslegum þáttum. Það starf ráðgjafans að halda utan um og fylgja eftir tengslum og samskiptum við vinnustaðinn var mikilvægt. Einnig sá ráðgjafinn um að standa vörð um réttindi mín sem starfsmanns, einkum hvað varðaði endurkomu mína til vinnu, sem reyndist mun þyngra í vöfum en gert var ráð fyrir.“

Fékk aftur fyrra starf
„Tengsl mín við vinnustaðinn fólust í fyrstu í því að koma reglulega í heimsókn, fylgjast með því sem var að gerast og hafa samskipti við fólkið sem ég hafði unnið með. Þetta gekk ágætlega. Einnig gekk ágætlega að fá að koma inn sem launalaus starfsmaður. Þyngra var að fá samstarf vinnuveitanda vegna endurkomu minnar í vinnu í skertu starfshlutfalli, en við ráðgjafinn óskuðum eftir því og að hlutfallið myndi aukast í þrepum eftir því sem geta mín ykist. Þetta reyndist gríðarlega þungt mál að sækja. Ég hefði aldrei getað sótt minn rétt ein, né hefði ég haldið vinnunni án aðkomu ráðgjafa VIRK. Áður en yfir lauk var Kennarasambandið komið í málið líka fyrir tilstilli VIRK. Þegar allt var komið í hnút leituðum við eftir stuðningi KÍ, sem var auðsótt og mjög áhrifaríkt.

Þrennt var einkum mikilvægt sem VIRK gerði fyrir mig. Í fyrsta lagi fékk ég ráðgjafa sem hélt utan um mín mál, leitaði lausna og stóð á rétti mínum. Í öðru lagi var þýðingarmikið að hafa svona stóran aðila eins og VIRK, sem er viðurkenndur í starfsendurhæfingu, til að keyra í gegn endurkomu mína í mitt gamla starf. Í þriðja lagi var mikilvægt að mynda tengsl og traust við einn og sama aðilann, ráðgjafann. Hann kynntist mér vel og ég fann hve mikinn metnað og áhuga hann hafði á því að ég næði settum markmiðum. Þessi afstaða ráðgjafans vakti mér aukinn baráttuhug.“

Hvernig er staðan hjá þér núna?
„Liðin eru þrjú og hálft ár síðan ég veiktist. Fyrir ári síðan var ég loks komin í fulla vinnu. Ég er líka búin að koma persónulegum málum mínum í góðan farveg. Nú er ég aftur komin í eildarstjórastarfið. Fyrir sjálfri mér er ég nú fyrst búin að ljúka endurhæfingunni. Ég er orðin örugg um að fullum bata sé náð, búin að vinna á veikindunum og er í rauninni mörgum sinnum sterkari og betur sett en ég var nokkurn tíma áður. Framtíðin fyrir mig og dætur mínar, sem eru á unglingsaldri, er björt.“

Úr ársriti VIRK Starfsendurhæfingarsjóðs 2014.
Texti: Guðrún Guðlaugsdóttir


Fréttir

06.06.2024
30.04.2024

Hafa samband