Fara í efni

Úthlutun styrkja VIRK

Til baka

Úthlutun styrkja VIRK

VIRK veitir einu sinni á ári styrki til verkefna sem auka fjölbreytni og framboð úrræða í starfsendurhæfingu og styrki til rannsókna sem stuðla að uppbyggingu og auka við almenna þekkingu á starfsendurhæfingu á Íslandi. Auk þess veitir VIRK styrki til úrræða fyrir þolendur kynferðisofbeldis.

61 umsókn barst til VIRK fyrir lok umsóknarfrests þann 15. febrúar 2022. Allar umsóknir hlutu faglega umfjöllun hjá sérfræðingum VIRK en ákvarðanir um styrkveitingar voru í framhaldinu teknar af framkvæmdastjórn VIRK.

Neðangreindir aðilar hlutu styrki að þessu sinni, heildarupphæð styrkja VIRK nam í ár tæplega 71 milljónum króna.

Styrkir til uppbyggingar og þróunarverkefna

Kvíðameðferðarstöðin - Sjálfstyrkingarnámskeið fyrir fólk með ADHD

Þátttakendur þurfa ekki að hafa fengið formlega greiningu á vandanum, aðeins telja einkennin há sér og getur því námskeiðið nýst breiðari hópi, t.d. þeim sem bíða eftir greiningu. Fyrir þá sem fengið hafa greininguna þá er hægt að vísa því fólki á námskeiðið í framhaldi af ADHD-greiningu. Námskeiðið skiptist upp í tvo þætti. Í fyrri helmingnum er veitt fræðsla um einkenni vandans, greiningarferlið, meðhöndlun og orsakir og áhrif ADHD á ýmis svið lífsins, meðal annars á líðan, samskipti og frammistöðu í starfi. Jafnframt er farið yfir styrkleika sem fylgt geta ADHD. Í seinni helmingnum er lögð áhersla á að efla sjálfstraust meðal annars með því að gera fólk meðvitað um styrkleika sína, draga úr sjálfsniðurrifi, bæta samskiptafærni og tilfinningastjórn.

Hera Rut Hólmarsdóttir - Hreyfilausnir

Markmið verkefnis er að bjóða upp á notendavæna fjarendurhæfingarþjónustu í formi virkrar sjúkraþjálfun/æfingameðferðar og fræðslu til að meðhöndla stoðkerfisverki. Notað er sérstakt snjallforrit „Physitrack“ þar sem hægt er að búa til árangursríka fjarendurhæfingu. Þar er boðið uppá fræðsluefni til að aðstoða einstaklinga til að draga úr eða læra að takast betur á við einkennin sín. Fjarendurhæfingin inniheldur, æfingameðferðir, fræðsluefni, sjálfsnudd, kennslu við kvikupunkta losun, bjargráð og hvernig hægt sé að auðvelda ýmsar daglegar athafnir. Einnig leiðbeiningar ef þörf er á kaupum á viðeigandi búnaði við æfingar eða bjargráð, líkt og nuddboltar, stuðningsspelkur, heitir/kaldir bakstrar.

Sjúkraþjálfunin Styrkur - LiðStyrkur

Verkefni sem hefur það að markmiði að auka þjónustu og möguleika á úrræðum fyrir einstaklinga með greinda slitgigt þar sem boðið er uppá heildstætt þjálfunar og æfingaprógramm fyrir þennan hóp. Einstaklingsbundin áætlun er gerð og farið skipulega í ákveðna þætti þar sem áhersla er lögð á ákveðna þjálfunarþætti svo sem, þol, styrk, jafnvægi, verkjahömlun, þyngdarstjórnun og bjargráð.

Gunnhildur Sveinsdóttir - Sjálfstyrkingarnámskeið á Suðurlandi

Styrkur veittur til þróunar á hópúrræði byggt á leiðum hugrænnar atferlismeðferðar sem ætlað er fólki sem er að kljást við lágt sjálfsmat og afleiðingar þess. Úrræðið er byggt á hóptímum þar sem boðið verður upp á fræðslu, kortlagningu vanda, hópverkefni og einstaklingsmiðuð heimaverkefni.

Ingibjörg Erla Jónsdóttir - ADHD KAOS, að ná fram skipulagi í óskipulaginu

Styrkur er veittur til þróunar á rafrænu sjálfshjálparnámskeiði fyrir fullorðna með ADHD sem byggist á hugmyndafræði HAM, DAM og ACT. Markmið námskeiðs er að auka lífsgæði og líðan og minnka hömlun á daglegt lif og auka þannig líkur á endurkomu til vinnu. Formleg ADHD greining er ekki skilyrði fyrir þátttöku. Í lok námskeiðs eiga þátttakendur að hafa öðlast betri innsýn inn í ADHD einkennin, fengið þekkingu á samslætti við annan vanda og áttað sig á því hverjir styrkleikar og veikleikar þeirra eru.

Sjöfn Evertsdóttir - Þróun hópmeðferðar fyrir þjónustuþega með starfshamlandi einkenni áfallastreituröskunar

Styrkur er veittur til þróunar á hópmeðferð byggða á hugrænni úrvinnslumeðferð (HÚM) fyrir þjónustuþega VIRK starfsendurhæfingarjóðs sem eru með hamlandi einkenni áfallastreituröskunar (ÁSR). HÚM tilheyrir meðferðarúrræðum hugrænnar atferlismeðferðar (HAM) og mæla klínískar leiðbeiningar í Bretlandi með HÚM eða áfallamiðaðri hugrænni atferlismeðferð (Á-HAM) sem fyrsta valkosti við meðferð áfallastreituröskunar (National Institute for Health and Care Excellence, 2018). Skortur hefur verið á hópmeðferðum fyrir þolendur áfalla og hópmeðferð byggð á HÚM hefur ekki verið í boði fyrir þjónustuþega VIRK starfsendurhæfingarsjóðs né almenning.

Starfstækifærið ehf. - Tækifærið

Styrkur er veittur til þróunar á valdeflandi og vinnumarkaðshvetjandi úrræði fyrir ungt fólk af erlendum uppruna. Ætlunin er að endurskipuleggja Tækifærið þannig að það henti starfsendurhæfingu þar sem einstaklingsbundinn hæfing og atvinnutenging fari fram á höfuðborgarsvæðinu í 3 mánuði. Þá er ætlunin að þróa þverfaglega starfsendurhæfingu þar sem tekið er á félagslegri stöðu, auk þess að bæta líkamlega og andlega heilsu, fyrir þá sem standa utan vinnumarkaðar og eru með takmarkaða vinnusögu.

Styrkur til rannsóknarverkefna

Hildur Thors, yfirlæknir á Reykjalundi - Hagkvæmnirannsókn á innleiðingu Redesigning Daily Occupations (ReDO®-16) á Íslandi

Tilgangur rannsóknarinnar er að kanna hvort hagkvæmt sé að innleiða ReDO® íhlutunina á Íslandi. ReDO® er inngrip sem fylgir fyrirfram ákveðinni handbók. ReDO® leggur sérstaka áherslu á að finna jafnvægi í virkni og daglegu lífi og að auka líkur á að einstaklingar snúi til vinnu eða náms á ný eftir slys eða veikindi. ReDO® byggir á að allar daglegar athafnir geti hugsanlega orsakað streitu eða veikindi. Megináherslan er að hver og einn finni iðjumynstur sem eflir heilsu. 

Styrkir til virkniúrræða

Hjálparstarf kirkjunnar, Reykjavík

Fyrir tveggja ára virkni- og valdeflingarverkefni fyrir konur sem eru á örorkulífeyri með barn/börn á framfæri. Markmið verkefnisins eru að þátttakendur bæti sjálfsmynd og trú á eigin getu, eflist í foreldrahlutverkinu og styrki félagslegt tengslanet sitt svo koma megi í veg fyrir félagslega einangrun og að þær komist út á vinnumarkaðinn eða í aðra virkni.

Klúbburinn Geysir, Reykjavík

Klúbburinn Geysir er atvinnumiðað endurhæfingarúrræði fyrir fólk með geðraskanir. Grundvallarmarkmið klúbbsins er að virkja félaga hans til starfa og koma þeim út í meiri samfélagsvirkni.

Björgin Geðræktarmiðstöð Suðurnesja, Reykjanesbæ

Björgin – Geðræktarmiðstöð Suðurnesja er grunnendurhæfingarúrræði og athvarf fyrir fólk með geðheilsuvanda. Markmið Bjargarinnar er að rjúfa félagslega einangrun, efla sjálfstæði einstaklinga, auka samfélagsþátttöku einstaklinga, draga úr stofnanainnlögnum, auka þekkingu almennings á geðheilbrigðismálum og þjálfa einstaklinga í atvinnutengdri hegðun.

Specialisterne, Reykjavík

Specialisterne á Íslandi starfað í þágu einstaklinga, 18 ára og eldri, með greiningu á einhverfurófinu. Specialisterne stuðla að því að einstaklingar á einhverfurófi eigi jöfn tækifæri og aðrir á atvinnumarkaði. Þeir draga fram styrkleika einstaklinga á einhverfurófi og finn rétt atvinnutækifæri fyrir hvern og einn.

Klúbburinn Strókur, Selfossi

Virkniúrræði sem styður við bataferli notenda heilbrigðiskerfisins. Markmiðið er að fólk með geðræn vandamál fái úrræði við sitt hæfi, auka tengsl fólks sem glímir við geðraskanir og/eða félagslega einangrun og efla einstaklinginn til sjálfshjálpar, fyrirbyggja innlagnir og brjóta niður fordóma.

Grófin Geðrækt, Akureyri

Starfsemi Grófarinnar er byggð á hugmyndafræði valdeflingar, batanálgunar og jafningjasamskipta og stefnir að því að skapa tækifæri fyrir þá sem glíma við geðraskanir til að vinna í sínum bata.

Hlutverkasetur, Reykjavík

Hlutverkasetur er virknimiðstöð sem býður upp á umgjörð, hvatningu og stuðning fyrir þá sem vilja viðhalda virkni á markvissan hátt eða auka lífsgæðin - er öllum opinn og taka einstaklingar þátt af eigin forsendum.

Fjölsmiðjan á Suðurnesjum, Reykjanesbæ

Fjölsmiðjan á Suðurnesjum er atvinnutengt úrræði fyrir ungt fólk á aldrinum 16 – 24 ára sem hefur flosnað upp úr námi eða vinnu.

Hugarafl, Reykjavík

Félagasamtökin Hugarafl eru samtök fólks með geðraskanir og er notendastýrð starfsendurhæfing.

Bataskóli Íslands, Reykjavík

Bataskóli Íslands er samvinnuverkefni á vegum Reykjavíkurborgar og Geðhjálpar Skólinn er fyrir alla 18 ára og eldri sem glíma við geðrænar áskoranir, aðstandendur fólks með geðrænar áskoranir og starfsfólk á heilbrigðis og velferðarsviði. Flestir sem sækja skólann eru þar vegna eigin áskorana. Í skólanum eru kennd námskeið sem öll snúast um geðheilsu, bata og batahugmyndafræði.

Vesturafl, Ísafirði

Vesturafl er geðræktarmiðstöð þar sem boðið er upp á virkni og samveru sem miðar fyrst og fremst að því að rjúfa félagslega einangrun og hvetja notendur til þátttöku í samfélaginu.

Bergið Headspace félagasamtök, Reykjavík

Markmið verkefnisins er að bjóða upp á lágþröskulda þjónustu við ungt fólk á Norðurlandi. Til að tryggja aðgengi sem er kjarninn í hugmyndafræði Headspace þýðir að þjónustan á að vera í nærumhverfi ungmenna og um það snýst þetta verkefni. Verkefnið miðar að því að bjóða öllu ungu fólki á aldrinum 12-25 ára ókeypis ráðgjöf og stuðning á Akureyri.

Endurhæfingarhúsið Hver, Akranesi

Endurhæfingarhúsið Hver er ætlað fyrir öryrkja og einstaklinga sem hafa misst vinnu vegna veikinda, slysa eða áfalla. Helstu markmið Endurhæfingarhússins er að styðja við notendur sína til aukinna lífsgæða og þátttöku í samfélaginu. Þar er boðið upp á snemmbært inngrip í formi virkni sem eykur líkur á að einstaklingar geti nýtt sér starfsendurhæfingu þegar hún er orðin viðeigandi.

Múlaþing, Egilstöðum

Múlaþing er staðsett í húsnæði Starfsendurhæfingar Austurlands. Markhópurinn er einstaklingar frá 18 ára aldri sem eru að glíma við víðtækan heilsubrest, sem eru að takast á við andlegar áskoranir sem þurfa stuðning við að ná tökum og valdi yfir aðstæðum sínum og lífi. Markmið þessa er að styðja við og auka frekari árangur í starfsendurhæfingu við þá einstaklinga sem glíma við heilsubrest og hafa áhrif á atvinnuþátttöku síðar meir.

Styrkir til úrræða fyrir þolendur kynferðisofbeldis

Aflið, samtök gegn kynferðis- og heimilisofbeldi
Bjarkarhlíð
Samtök um kvennaathvarf
Sigurhæðir, Soroptimistaklúbbur Suðurlands
Stígamót

Styrkumsóknir – annað

Traustur Kjarni, Reykjavík

Traustur Kjarni eru félagasamtök sem hafa byggt upp samstarfsnet innlendra og erlendra jafningja og vinnur náið með IPS International að innleiðingu jafningjastarfa og stuðnings á Íslandi. Verkefnið er hluti af innleiðingu IPS (Intentional Peer Support) á Íslandi og snýr að því að þjálfa fyrrum fanga sem IPS jafningja í samstarfi við Batahúsið. Skapast hefur markaður fyrir jafningja víða t.d. í heilbrigðiskerfinu og með þjálfuninni verður einnig hægt að bjóða upp á slíkan stuðning fyrir fanga og fyrrum fanga sem mikilvægan lið í endurhæfingu þeirra og aukinni virkni í samfélaginu.

Nánar um Styrki VIRK.


Fréttir

18.10.2024
05.11.2024

Hafa samband