Fara í efni

Ríkisvaldið standi við lög og gerða samninga

Til baka

Ríkisvaldið standi við lög og gerða samninga

Stjórn VIRK bauð fulltrúum launamanna og atvinnurekenda í stjórnum lífeyrissjóða um allt land til upplýsingafundar mánudaginn 3. nóvember. Á fundinum var farið yfir ávinning af starfi VIRK fyrir lífeyrissjóði og mikilvægi þess að byggja upp gott og árangursríkt samstarf milli VIRK og lífeyrissjóða um allt land.
 
Fundurinn var vel sóttur og gekk greiðlega undir fundarstjórn Hannesar G. Sigurðssonar, stjórnarformanns VIRK, sem í inngangsorðum sínum ítrekaði kröfu stjórnar VIRK þess efnis að stjórnvöld standi við bæði lög og gerða samninga um fjármögnun og uppbyggingu á starfsemi VIRK enda væri árangursrík starfsendurhæfing ein arðbærasta fjárfesting sem völ er á, bæði til skamms og langs tíma, auk þess að styrkja einstaklinga og stuðla að öflugra samfélagi.

Ekki mögulegt að taka við einstaklingum í þjónustu árið 2015 sem ekki er greitt af
Í erindi sínu fór Vigdís Jónsdóttir framkvæmdastjóri VIRK yfir þróunina undanfarinn áratug, nýgengi örorku og fjölgun einstaklinga á örorku- og endurhæfingarlífeyri. Vaxandi vandamáli á Íslandi eins og öðrum vesturlöndum sem að óbreyttu ógnar lífeyriskerfinu og velferðarkerfinu í heild sinni. Hún sagði engar einfaldar lausnir vera til en flest vestræn ríki leggi nú mikla fjármuni í nauðsynlegar kerfisbreytingar til að bregðast við vandanum. OECD (Efnahags- og framfarastofnun Evrópu) leggi mikla áherslu á kröfu um aukna virkni og þátttöku, að meta getu í stað vangetu til starfa, aukna áherslu á starfsendurhæfingu og aukna samþættingu og samvinnu ólíkra aðila, allt saman þættir sem VIRK Starfsendurhæfingarsjóður lítur mjög til og grundavallar starfsemi sína á.

Vigdís greindi einnig frá vaxandi samstarfi VIRK við lífeyrissjóði um allt land og sagði m.a. af tilraunaverkefni VIRK og lífeyrissjóðsins Gildis þar sem þverfaglegt teymi fer yfir umsóknir um örorku og metur raunhæfi starfsendurhæfingar. Markmiðið væri að samhæfa endurhæfingu og ákvörðunar um starfsgetu og tryggja að starfsendurhæfing hafi átt sér stað áður en tekin er ákvörðun um starfsgetu/örorku til lengri tíma. Tilraunaverkefnið hefur gefið góða raun og í undirbúningi er að koma svipuðu verklagi á í samvinnu við fleiri lífeyrissjóði.

Vigdís sagði mjög mikilvægt að standa vörð um áframhaldandi uppbyggingu starfsendurhæfingar grundvallaðri á þverfaglegu mat og matsferlum. Um 50% fleiri einstaklingar leituðu til VIRK á árinu 2013 samanborið við 2012 og allt bendir til þess að um 1900 nýir einstaklingar komi inn í þjónustu á þessu ári.  Aukningin er mest í hópi þeirra einstaklinga sem hafa verið án atvinnu í langan tíma eða hafa brotna vinnumarkaðssögu. Fleiri og þyngri mál kæmu því inn á borð til VIRK sem mikilvægt væri að bregðast við því með aukinni samhæfingu í heildarkerfinu t.d. með auknu samstarfi lífeyrissjóða og VIRK.

Í lokaorðum sínum undirstrikaði Vigdís skýra afstöðu stjórnar VIRK sem kemur fram m.a. í umsögn til efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis að ef ríkið tekur ekki þátt í fjármögnun á VIRK eins og lög kveða á um og samningar gera ráð fyrir þá er ljóst að VIRK getur ekki tekið við einstaklingum í þjónustu á árinu 2015 sem ekki er greitt af í sjóðinn. Það felur í sér að ekki verður lengur fyrir hendi eitt heildarkerfi atvinnutengdrar starfsendurhæfingar með jöfnum aðgangi fyrir alla einstaklinga sem þurfa á þjónustunni að halda. Þetta mun einnig koma í veg fyrir að allir einstaklingar eigi kost á að ganga í gegnum skipulagðan og faglegan starfsendurhæfingarferil sem er forsenda þess að unnt verði að taka upp starfsgetumat í stað örorkumats.

Starfsemi VIRK mjög arðbær
Benedikt Jóhannesson tryggingastærðfræðingur hjá Talnakönnun gerði næst grein fyrir athugun sinni á ávinningi af starfsemi VIRK en starfsendurhæfingarsjóðurinn fékk Talnakönnun til að greina árangur og hagnað af starfsemi VIRK árið 2013 út frá ópersónugreinanlegum upplýsingum úr gagnagrunni VIRK. Markmiðið var að finna mælikvarða á sparnað af starfsemi VIRK sem taki mið af raunverulegum árangri undanfarin ár, árangri sem felst í að flýta endurhæfingu, stytta tímabil óvinnufærni einstaklinga og minnka tíðni örorku.

Benedikt sagði að mjög erfitt væri að finna einhlítan mælikvarða á árangurinn, en mikilvægt sé að skoðuð sé sama kennitala á hverju ári, fylgjast þyrfti með fólki eftir að það útskrifast og leita þurfi fleiri mælikvarða og kanna erlendar rannsóknir. Þá sé auðvitað mikilvægt að greingin byggi á skynsamlegri nálgun.

Benedikt sagði niðurstöður greiningarinnar, að gefnum varfærnum forsendum, benda eindregið í þá átt að starfsemi VIRK sé mjög arðbær, um 10 milljarða króna ávinningur hafi verið af starfseminni árið 2013 og ábatinn af starfseminni skili sér bæði til Tryggingastofnunar, lífeyrissjóða og ríkisins í formi aukinna skatttekna. Ofan á þetta bætist síðan ábati einstaklingsins.

Glærur Vigdísar má sjá hér og glærur Benedikts má sjá hér.
Umsögn VIRK til efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis má sjá hér.


Fréttir

06.06.2024
30.04.2024

Hafa samband