Fara í efni

„Ráðgjafinn var mín heilladís“

Til baka
Sandra Dögg Guðmundsdóttir
Sandra Dögg Guðmundsdóttir

„Ráðgjafinn var mín heilladís“

Sandra Dögg Guðmundsdóttir hafði lifað með verkjum í mörg ár þegar hún segist hafa klesst á vegg og ekki getað meir. Ég var bara algjörlega búin á því bæði á líkama og sál, segir hún en upphaf þessara verkja má rekja til þriggja slysa sem hún lenti í.

Þegar ég var 17 ára gömul þá fauk ég í ofsaveðri á Ísafirði og lenti það illa að 9. og 10. hryggjarliðir lögðust saman. Ég fór í sjúkraþjálfun eftir þetta en var svo ung að ég pældi ekkert í endurhæfingu né hvaða áhrif þetta myndi hafa á mig í framtíðinni, ég vildi bara geta farið að vinna eins og ég var vön að gera.

Nokkrum árum seinna lendir hún í harðri aftanákeyrslu og mánuði síðar slasaðist hún á leið til vinnu á línuskautum. Á þessum tíma hélt ég að ég gæti allt og hlustaði ekkert á líkamann og hélt bara ótrauð áfram enda alltaf verið að reka á eftir mér í þeirri vinnu sem ég var í á þessum tíma, segir Sandra Dögg Guðmundsdóttir.

Hreyfing góð
Í gegnum tíðina hefur Sandra Dögg þurft að kljást við afleiðingar þessara slysa og er daglega með verki. Í fyrstu deyfði ég þá með verkjalyfjum en svo hættu þau að gera gagn og ég hætti að taka þau inn og lærði að lifa með verkjunum. Maður beit bara á jaxlinn. Sandra Dögg hefur ávallt verið orkumikil og stundað hreyfingu og segir að það hafi bjargað sér enda linar það liðina og stirðleikann. Ég greindist með ADHD þegar ég var orðin fullorðin og ætli það hafi ekki verið kostur í þessu, segir hún.

Þarna sá ég hvað mig langað til að gera í framtíðinni
Það var ekki fyrr en 10 árum eftir síðasta slysið sem Sandra Dögg leitaði sér hjálpar og fékk að fara í svokallað verkjafjarnám á Reykjalundi þar sem hún var einstæð með 2 börn og komst ekki frá heimilinu. Ég vildi ekki leggja það á strákana mína að fara frá þeim eftir allt sem á undan hafði gengið, skilnað, flutninga og rótleysið. Þarna var ég búin að vera frá vinnu vegna veikinda og sumarfrís og þegar ég fór aftur að vinna byrjuðu verkirnir að versna til muna og ég var komin á þrot vegna verkja, segir Sandra en þá vann hún á leikskólanum Fífuborg.

Ég var tekin í alls konar próf af sjúkra- og iðjuþálfara og ég komst að því að ég var öll skökk og skæld og með skerta hreyfigetu sem hafði hamlandi áhrif á réttar hreyfingar í líkamanum. Hún segir að það hafi komið sér á óvart þegar hún uppgötvaði að hún hafi verið sú eina í hópnum sem hreyfði sig reglulega þar sem hreyfing hafði alltaf deyft verkina hjá henni og haft góð áhrif á hana. Þarna sá ég hvað mig langaði til að gera í framtíðinni, það var að hjálpa fólki með hreyfingu og miðla af reynslu minni, því það hefur svo mikið að segja að hreyfa sig, segir hún. Sandra Dögg segir að það sé einnig mikilvægt að kunna sér hófs því um tíma hafi hún farið út í öfgar og ofþjálfað sig. Á endanum bræddi ég úr mér vegna alls sem gekk á, segir hún. Ég vil hjálpa öðrum og deila minni reynslu.

Missti tökin og spilaborgin hrundi
Það urðu miklar breytingar á einkalífi Söndru Daggar á þessum tíma. Það var einfaldlega of mikið í gangi í einu og öll keðjan hrundi. Ég var búin á því á líkama og sál en ég vildi ekki viðurkenna það, segir hún. Hún sagði upp í vinnunni sinni þar sem hún var ekki viss um að hún gæti snúið til baka og trúnaðarlæknirinn hafði sagt henni að hún ætti hvorki að vinna við umönnun né þrif. Ég pældi ekkert í hvernig vinnan gæti haft áhrif á líkamsgetu mína því ég gat allt eða það hélt ég. Ég er vön að vinna fyrir mér og mínum, alltaf með verki. Eftir meðferðina sé hún mun duglegri að hlusta á líkamann og fara eftir því sem læknarnir segja. Það var virkilega erfitt að vera búin með alla orku, þetta var eitthvað sem ég hafði lesið um en aldrei dottið í hug að kæmi fyrir mig. Ég sem hafði alltaf verið í Pollíönnuleik, missti allt í einu tökin og fannst ég berskjölduð, spilaborgin var að hrynja. Það var vond tilfinning að geta ekki haldið áfram að hlaða á boltann sem var inn í mér, hann var að springa.

Hjálpað skref fyrir skref
Sandra Dögg segir að henni hafi verið tekið opnum örmum hjá ráðgjafa VIRK starfsendurhæfingar. Á þessum tíma átti ég erfitt með að skilja hvað var í gangi og vissi ekki út í hvað ég var að fara. Hún segir að ráðgjafinn hafi sýnt mikla þolinmæði við sig fyrst og hafi ávallt verið svo rólegur. Það hafi skipt miklu máli hve ráðgjafinn var yfirvegaður og alls ekki ýtinn. Ég sat bara hjá henni og vissi ekki hvað ég átti að gera, það var aðeins farið að dempa á lífsljósinu hjá mér, ég var langþreytt. Það eina sem ég hugsaði var að ég yrði að vera heil fyrir strákana mína. Ráðgjafinn hjálpaði mér að setja niður markmið og taka þetta skref fyrir skref. Hún lét mig vita að hún væri til staðar fyrir mig og mér fannst hún ná til mín og ég hefði ekki getað óskað mér neinn annan, segir hún. Sandra Dögg segir það líka hafa verið stórt skref fyrir sig að þiggja alla þessa hjálp enda vön að gera allt sjálf. Ég segi að ráðgjafinn sé heilladísin mín.

Fékk tækifæri til menntunar
Það er eiginlega Eflingu og ráðgjafanum að þakka að ég menntaði mig, segir hún. Í fyrstu var hún hrædd við að fara í nám þar sem hún hafði ekki góða reynslu af skólakerfinu með ADHD og lesblindu en langaði að mennta sig og hún og ráðgjafinn fóru yfir hvað var í boði hjá Mími símenntun. Ég byrjaði á því að fara á snilldar lesblindunámskeið, fór svo í nám og þjálfun og hugsaði með mér að fyrst ég náði þessu markmiði þá gæti ég farið í það sem hugur minn stæði til. Hún dreif sig því í menntastoðir og er nú í einkaþjálfaranum í Keili og í vor á hún einungis 10 einingar eftir af náminu. Ein af ástæðunum fyrir því að ég vil verða einkaþjálfari er til að hjálpa öðrum hvort sem það er til að hjálpa þeim við hreyfingu eða bara almennt hreysti. Hreyfing hefur ótrúlega góð áhrif á líkamann og þó maður hafi verki þá er lífið ekki búið. Það koma alltaf skin og skúrir, það verður bara að finna regnbogann. Það má ekki gefast upp. Maður getur allt ef viljinn er fyrir hendi það er bara spurning um hvað maður vil leggja á sig til að ná því.

Úr Fréttablaði Eflingar maí 2014.
Viðtal: Herdís Steinarsdóttir


Fréttir

18.10.2024
05.11.2024

Hafa samband