Fara í efni

Ráðgjafinn gaf mér nýtt líf

Til baka

Ráðgjafinn gaf mér nýtt líf

Ráðgjafi VIRK, á Suðurlandi setti sig í samband við rúmlega fertugan karlmann fyrir tveimur árum sem hafði átt við langvarandi og erfið veikindi að glíma. Þetta símtal varð til þess að breyta lífi þessa einstaklings sem glímt hefur við geðhvarfasýki frá barnsaldri.

„Ég hef fundið fyrir geðhvarfasýki frá ellefu ára aldri. Það hefur háð mér í öllu því sem ég hef tekið mér fyrir hendur í lífinu,“ segir maðurinn sem ekki vill koma fram undir nafni.

Hann upplifði bæði maníur þegar lífið blasir við og svo þunglyndi með tilheyrandi niðursveiflu. Maðurinn starfaði við pípulagnir og fleiri tilfallandi störf í iðnaði en hafði ekki lokið neinu námi. „Mig langaði að mennta mig, byrjaði oft í námi en kláraði það aldrei. Hafði ekki það úthald sem þurfti og gafst alltaf upp,“ segir hann. Það var stéttarfélag hans, Fit, sem hafði milligöngu um að ráðgjafi VIRK hafði samband.

Eftir að hrunið skall á haustið 2008 bættust við fjárhagslegar áhyggjur. Hann keypti húsnæði á versta tíma og sá ekki fram á að geta borgað skuldir sem höfðu hækkað mikið. Maðurinn sem er kvæntur og fjögurra barna faðir fann hvernig sjúkdómurinn náði sterkum tökum á sér sem leiddi síðan til þess að hann varð óvinnufær.

„Ég hafði aldrei heyrt talað um VIRK eða Starfsendurhæfingarsjóð þegar ráðgjafinn hringdi til mín. Þótt ég hefði enga trú á þessum ráðgjafa ákvað ég að mæta í tímann en var í mikilli vörn. Ég var í uppgjöf og sá enga leið fyrir mig aðra en að verða öryrki það sem ég ætti ólifað. Ég hafði starfað við ýmsa hluti í gegnum árin meðal annars sem sjómaður. Hins vegar hætti ég alltaf að vinna vegna kvíða sem ásótti mig stöðugt.

Mér var tekið opnum örmum hjá VIRK og ráðgjafinn vildi allt fyrir mig gera. Hann útvegaði mér tíma hjá sálfræðingi og hvatti mig til líkamsræktar. Fyrst var ég tekinn í greiningu og síðan fundið út hvaða meðferð myndi henta mér. Ég hafði verið hjá sama geðlækni um margra ára skeið og hann ákvað að prófa ný lyf fyrir mig.

Ráðgjafinn hvatti mig til að hlaupa þegar ég sagði honum frá áhuga mínum á því sviði. Ég finn núna að lykillinn að bættri líðan minni er hreyfing. Ráðgjafinn hvatti mig jafnframt til að hefja nám í pípulögnum sem ég kláraði nú um áramótin. Ég fann hversu hlaupið gerði mér gott þegar mest var að gera í skólanum og svo fór ég allra  minna ferða á reiðhjóli. Ráðgjafinn var öflugur í því að reka á eftir mér að hreyfa mig og sýndi mér mikinn stuðning. Ég þurfti á slíku sparki að halda. Áður datt ég í þunglyndi og uppgjöf á þriggja mánaða fresti.

Sálfræðingurinn kenndi mér að takast á við sjúkdóminn og læra á sjálfan mig. Ég finn þegar sjúkdómurinn byrjar að herja á mig og núna kann ég að bregðast við því. Auk þess var mér hjálpað að breyta mataræðinu til betri vegar og að passa upp á svefnvenjur. Öll þessi atriði skipta miklu máli í daglegu lífi einstaklings sem glímir við geðhvörf.

Ég hefði aldrei lokið náminu nema með hjálp ráðgjafans. Öll meðferðin gekk út á að setja sér markmið og ljúka þeim. Ég hafði aldrei áður náð neinu markmiði í lífinu. Það var alltaf einhver þröskuldur að þvælast fyrir mér. Ég leyfi mér ekki lengur að leggjast í dvala. Ég á mér nýtt líf, hef góða vinnu og ætlaði varla að trúa hversu vel mér gekk í prófunum. Mig langar helst til að halda áfram og læra meira.

Ég held að ráðgjafanum hafi ekkert litist á mig upphaflega. Ég var búinn að gefast upp og sá enga framtíð. Ég á honum margt að þakka, bæði námið og að ná tökum á þessum sjúkdómi. Ég er gjörbreyttur maður í dag og er eiginlega að byrja lífið upp á nýtt.“


Fréttir

18.10.2024
05.11.2024

Hafa samband