Fara í efni

Góðir gestir frá Póllandi

Til baka
Ása Dóra, Marta, Hubert, Vigdís og Malgorzata
Ása Dóra, Marta, Hubert, Vigdís og Malgorzata

Góðir gestir frá Póllandi

VIRK Starfsendurhæfingarsjóður hefur frá upphafi lagt mikla áherslu á samstarf og samskipti við erlenda aðila hvað varðar faglegar áherslur og árangursríka nálgun í starfsendurhæfingu, miðlað upplýsingum um starfsendurhæfingu á Íslandi og leitað samstarfs við þær þjóðir sem eiga mest sameiginlegt með okkur. Samstarf af þessum toga er VIRK mjög mikilvægt til að öðlast meiri og fjölbreyttari reynslu og þar með fleiri tækifæri til þess að gera þjónustu á sviði starfsendurhæfingar enn markvissari og árangursríkari.

Þessi mikla vinna hefur ekki aðeins eflt VIRK faglega heldur gert það að verkum að æ fleiri erlendir fagaðilar i starfsendurhæfingu horfa til VIRK sem fyrirmyndar á þessu sviði. Árangur og uppbygging VIRK hefur vakið athygli erlendis og töluverð eftirspurn er eftir fyrirlesurum frá VIRK á erlendar ráðstefnur og þing. Þá hefur erlendum heimsóknum erlendra fagaðila til VIRK farið mjög fjölgandi.

Þau Małgorzata Zakrzewska, Marta Białek og Hubert Pik frá pólsku sjálfeignarstofnuninni Ekon í Varsjá sóttu VIRK heim nýverið en sjálfseignarstofnunin vinnur að því að skapa og finna störf fyrir einstaklinga með skerta starfsgetu. Gestirnir leiða teymi sem undirbýr opnun greiningarstöðvar í Varsjá, þá fyrstu þar í landi, og heimsóttu Virk til að kynna sér starfsemi starfsendurhæfingarsjóðsins og þá sérstaklega matsferilinn sem VIRK hefur þróað.

Hugmyndafræðin sem matsferli VIRK byggir á, það hvernig starfsendurhæfingarferill er tengdur markvisst inn í matsferli sem endar með starfsgetumati sem og notkun á ICF kerfinu (International Classification of Function - alþjóðlegt flokkunarkerfi um færni, fötlun og heilsu gefnu út af  Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni WHO), tenging mælitækja við færnikóða innan ICF og notkun skýrivísa hefur vakið mikla athygli og áhuga erlendra fagaðila enda VIRK með allra fyrstu stofnunum á þessu sviði til að tileinka sér ICF á þennan hátt.

Auk þess að kynna sér starfsemi starfsendurhæfingarsjóðsins þá fóru gestirnir einnig í stuttar heimsóknir til samstarfsaðila VIRK á Reykjalundi, í Tryggingastofnun og til Vinnumálastofnunar þar sem þau fengu mjög góðar viðtökur.

Nánari upplýsingar um Ekon má sjá hér.


Fréttir

18.10.2024
05.11.2024

Hafa samband