Fara í efni

Ávinningur árangursríkrar starfsendurhæfingar

Til baka

Ávinningur árangursríkrar starfsendurhæfingar

Um 6.500 einstaklingar hafa leitað til VIRK Starfsendurhæfingarsjóðs á undanförnum 5 árum, í dag eru um 2.300 einstaklingar í þjónustu á vegum VIRK. Um 74% einstaklinga sem útskrifast frá VIRK eru virkir á vinnumarkaði við útskrift – þ.e. eru annað hvort í launuðu starfi, atvinnuleit eða í lánshæfu námi við útskrift.

Á ári hverju fara því nokkur hundruð einstaklinga úr þjónustu VIRK í virka þátttöku á vinnumarkaði. Þetta eru í flestum tilfellum einstaklingar sem komu til VIRK vegna mjög alvarlegs og flókins vanda - yfir 70% af þeim sem leita til VIRK hafa ekki starfsgetu vegna andlegra sjúkdóma og/eða stoðkerfisvandamála - og gátu ekki tekið virkan þátt á vinnumarkaði nema að til kæmi sérhæfð aðstoð á sviði atvinnutengdrar starfsendurhæfingar. Að þessir einstaklingar séu nú í virkri þátttöku á vinnumarkaði í stað örorku er gríðarlega mikils virði — bæði fyrir þá sjálfa og samfélagið í heild. 

Talnakönnun hefur tekið saman fyrir VIRK nokkur einföld dæmi um fjárhagslegan ávinning af starfsendurhæfingu ef hún skilar þeim árangri að einstaklingur tekur fullan þátt á vinnumarkaði í stað þess að fara á örorkulífeyri.  Reiknað var hver heildarlaun einstaklings yrðu til 67 ára aldurs, tekið var saman hvað lífeyrissjóður og Tryggingastofnun myndu greiða og hvert tap einstaklingsins yrði en það miðast við þann hluta vinnulauna sem ekki fæst bættur frá öðrum. Niðurstaðan er samanlagt heildartap þessara aðila vegna varanlegrar örorku eða heildarávinningur þess að fjárfesta í árangursríkri starfsendurhæfingu fyrir viðkomandi einstakling. Á móti kemur síðan kostnaður við starfsendurhæfingu sem er metinn sem full laun viðkomandi einstaklings í 2 ár. Heildarávinningurinn getur numið vel á annað hundrað milljónir króna eftir mismunandi forsendum um laun og aldur - eins og sjá má á myndinni hér að ofan - og þá hefur ekki verið tekið tillit til aukinna lífsgæða viðkomandi einstaklings og sparnaðar annars staðar í velferðarkerfinu, s.s. innan heilbrigðisþjónustunnar.

Árangursrík starfsendurhæfingarþjónusta er þannig ein af allra arðbærustu fjárfestingum í okkar samfélagi, auk þess að styrkja einstaklinga og stuðla að öflugra samfélagi og aukinni velferð, og því mjög mikilvægt að standa vörð um uppbyggingu hennar til framtíðar.

Sjá nánar í grein Vigdísar Jónsdóttur framkvæmdastjóra í ársriti VIRK Starfsendurhæfingarsjóðs 2014.


Fréttir

18.10.2024
05.11.2024

Hafa samband