Jákvæðir starfshættir á heilsueflandi vinnustað
Jákvæðir starfshættir á heilsueflandi vinnustað
Fullt hús var á morgunfundi um jákvæða starfshætti og heilsueflandi vinnustaði sem VIRK, Embætti landlæknis og Vinnueftirlit ríkisins gengust fyrir í samstarfi við Endurmenntun Háskóla Íslands á Grand Hótel miðvikudaginn 15. janúar.
Aðalfyrirlesari var prófessor Illona Boniwell sem hefur verið leiðandi í jákvæðri sálfræði í Evrópu undanfarin ár og bar innlegg hennar yfirskriftina „Positive organisational practices for healthy and resilient workplaces".
Ilona Boniwell er forstöðumaður jákvæðrar sálfræði við Anglia Ruskin háskólann í Englandi, kennir jákvæða stjórnun við l'Ecole Centrale Paris og HEC og vinnur með fyrirtækjum m.a. við stjórnendaþjálfun um allan heim sem forstöðumaður Positran.
Morgunfundurinn var sá fjórði í fundaröð um heilsueflingu á vinnustöðum og er hluti af samstarfi VIRK, Embættis landlæknis og Vinnueftirlitsins um heilsueflingu og forvarnir á vinnustöðum. Markmið samstarfsins er að stuðla að betri heilsu og vellíðan vinnandi fólks á vinnustöðum, fyrirbyggja kulnun og minnka brottfall af vinnumarkaði.
Gunnhildur Gísladóttir sérfræðingur hjá Vinnueftirlitinu stýrði morgunfundinum - sjá má upptöku af fundinum hér.
Næsti morgunfundur verður haldinn þriðjudaginn 19. maí og á þeim fundi verður Christina Maslach, sem er m.a. heiðursprófessor við Berkleyháskóla í Kaliforníu, aðalfyrirlesarinn.