Fara í efni

Ég fékk annað tækifæri

Til baka
Sigurbjörg Eva Stefánsdóttir
Sigurbjörg Eva Stefánsdóttir

Ég fékk annað tækifæri

Þrautaganga Sigurbjargar Evu Stefánsdóttur var löng og ströng áður en hún leitaði samstarfs við VIRK Starfsendurhæfingarsjóð. Ofsakvíðaröskun, þunglyndi, félagsfælni og fleiri einkenni gerðu henni ómögulegt að vinna og líf hennar var í alla staði afar erfitt, hún hafði nóg af viðfangsefnum til að vinna úr.

Þegar hún hóf samstarf við VIRK í nóvember 2013 ræddi ráðgjafinn við hana og spurði m.a. hvenær Sigurbjörg Eva sæi fyrir sér að hún gæti farið að vinna. „Ég var fullviss um að ég gæti aldrei aftur farið að vinna, aldrei orðið eðlileg eða liðið vel. Sá ekki að ég gæti nokkurn tíma orðið „gamla ég“. Taldi að líf mitt væri ónýtt og skammaðist mín fyrir ástand mitt. Ég hélt mig inni, forðaðist gesti, gat varla farið í veislur, ef ég fór leið mér svo illa að ég stoppaði stutt við. Gat ekki farið í bíó, ekki borðað matinn minn ef ég fór út að borða. Leið skást heima. En þó ekki vel því kvíðaköstin komu eitt af öðru, líka þar.“

Ráðgjafi VIRK og Sigurbjörg Eva gerðu í sameiningu áætlun til starfsendurhæfingar sem fól í sér margvísleg úrræði. „Ráðgjafi VIRK byrjaði á að láta mig halda dagbók, þar átti ég að skrá hvernig mér liði, hvernig ég svæfi og hvort ég hreyfði mig. Mitt fyrsta markmið samkvæmt áætlunum okkar ráðgjafans var að vakna á morgnana fyrir klukkan tíu og fara út að ganga svolitla stund.“ segir Sigurbjörg Eva „Skömmu síðar fór ég í Kvíðameðferðarstöðina að ráði VIRK. Ég var þar í einkatímum hjá sálfræðingi.“ „Ég fór einnig fyrir tilstilli VIRK í Heilsuborg. Sjúkraþjálfari tók þar á móti mér og útbjó æfingaprógramm sem hentaði mér og minni getu.“

Markmiðið var ávallt að Sigurbjörg Eva kæmist aftur til vinnu, fjarlægur möguleiki að henni fannst, en hún náði markmiðinu á níu mánuðum með dyggum stuðningi ráðgjafa VIRK. „Áður en ég fór að að sækja um vinnu fór ég fyrir tilstilli ráðgjafa VIRK í einn tíma hjá Hugtaki. Þar var mér hjálpað að laga ferilskrána. Og fékk fullt af góðum ráðum og var bent á hvar atvinnuauglýsingar væri að finna. Ég kastaði mér af fullum krafti og jákvæðni út í að sækja um vinnu. Á einni viku sótti ég um allskonar störf. Í vikunni þar á eftir var ég boðuð í ýmis viðtöl en fór bara í eitt. Það var vegna vinnu sem ég vildi og fékk. Í framhaldinu hóf ég störf sem skólaliði í ágúst síðastliðnum. Ég vinn með börnunum, í mötuneytinu og við þrif. Þetta er fjölbreytt starf og skemmtilegt. Mér var vel tekið. Nú vinn ég fulla vinnu eins og ekkert sé. Og ég keyri í vinnuna. Áður hafði ég ekki getað keyrt bíl vegna kvíða.“

 „Ég fæ enn kvíðaköst en ég kann að takast á við þau og læt þau ekki hafa áhrif á líf mitt. Ég er enn á hjartalyfinu, mér finnst ég þurfa á því að halda.  Öðrum lyfjum er ég ekki á. Ég hitti geðlækninn minn ennþá. Ég er eðlileg manneskja eins og allir aðrir – ég er frjáls.“ segir Sigurbjörg Eva „Svo er ég ótrúlega þakklát fyrir það að maðurinn minn stóð við hliðina á mér í þessu öllu saman eins og klettur og hefur alltaf stutt mig, ég á honum margt að þakka. Líka mömmu og systur minni, þær hafa líka stutt mig afskaplega mikið.

Ég er líka verulega ánægð fyrir aðstoðina sem ég fékk hjá VIRK. Hún var frábær. Ég á VIRK ótrúlega margt að þakka. Ég veit ekki hvar ég væri hefði ég ekki farið í samstarf við VIRK. Mér líður eins og ég hafi fengið annað tækifæri í lífinu.“ segir Sigurbjörg Eva í niðurlagi viðtals sem sjá má í heild sinni hér.


Fréttir

18.10.2024
05.11.2024

Hafa samband