Fara í efni

Auðveldum endurkomu til vinnu!

Til baka

Auðveldum endurkomu til vinnu!

VIRK Starfsendurhæfingarsjóður fagnar 15 ára afmæli á árinu og í tilefni af því mun VIRK m.a. standa fyrir ráðstefnu í Silfurbergi, Hörpu, miðvikudaginn 31. maí þar sem fókusinn verður settur á endurkomu einstaklinga inn á vinnumarkað eftir veikindi eða slys og hvað fyrirtæki og stofnanir geti gert til þess að auðvelda það ferli.

VIRK er sjálfseignarstofnun stofnuð árið 2008 af helstu samtökum stéttarfélaga og atvinnurekenda á vinnumarkaði. VIRK hefur það hlutverk að efla starfsgetu einstaklinga með heilsubrest sem stefna að aukinni þátttöku á vinnumarkaði.

Boðið verður upp á fjölbreyttan hóp íslenskra og erlendra fyrirlesara á ráðstefnunni, aðalfyrirlesarar verða hinn kanadíski Dr. Emile Tompa og hin hollenska Dr. Sandra Brouwer.

Dr. Tompa er framkvæmdarstjóri rannsóknarmiðstöðvar um stefnumótun í atvinnumálum einstaklinga með skerta starfsgetu (Centre for Research on Work Disability Policy (CRWDP)) sem er þverfaglegt framtak um framtíðarstefnumótun í atvinnumálum í Kanada. Hann er einnig prófessor við hagfræðideild McMaster háskólans í Kanada. Innlegg hans verður um þróun á atvinnutækifærum fyrir einstaklinga með skerta starfsgetu með því að byggja upp getu eftirspurnarhliðar/vinnuveitanda.

Dr. Brouwer er prófessor í vinnulæknisfræði við heilbrigðisvísindadeild Groningen háskólans í Hollandi. Innlegg hennar verður um hlutverk vinnuveitenda í Hollandi í endurkomu til vinnu ferlinu hjá einstaklingum sem hafa verið fjarverandi vegna veikinda.

Ráðstefnan verður sem fyrr segir haldin í Silfurbergi í Hörpu miðvikudaginn 31. maí og mun standa frá kl. 9.00-15.00.

Takið daginn frá – nánari upplýsingar þegar nær dregur.


Fréttir

18.10.2024
05.11.2024

Hafa samband