Fara í efni

Ánægja með Virkan vinnustað

Til baka
Marta Sigurðardóttir
Marta Sigurðardóttir

Ánægja með Virkan vinnustað

Þátttaka í Virkum vinnustað, þróunarverkefni VIRK, breytti miklu í starfi leikskólans Kirkjubóli í Garðabæ að sögn Mörtu Sigurðardóttur leikskólastjóra en verkefninu, sem staðið hefur yfir í þrjú ár, er að ljúka með mjög góðum árangri.

VIRK Starfsendurhæfingarsjóður fór af stað með átaksverkefnið Virkur vinnustaður í samvinnu við atvinnurekendur árið 2011. Markmiðið var að veita stjórnendum og starfsmönnum fræðslu og aðstoð við að móta og innleiða stefnu um velferð og fjarvistir. Áhersla var lögð á jákvæða og heilsusamlega nálgun, með þátttöku stjórnenda og starfsmanna við þarfagreiningu vinnustaðarins, og útfærslu á stefnu og leiðum eftir því sem best hentar hverri starfsemi.

 „Við eru ánægð með hvað starfsfólk hér er hraust og fullt af vinnugleði.“ segir Marta. „Eftir að samstarfsverkefnið hófst fórum við hér á Kirkjubóli í heilmikla sjálfsskoðun. Allt miðaði að því hvernig við gætum bætt okkur og látið okkur líða betur.  Á starfsmannafundi í upphafi var hópnum skipt í smærri hópa til að vinna með nokkra punkta úr þarfagreiningunni um vellíðan og streitu. Í framhaldi af því voru sett markmið fyrir árið 2012. Í lok ársins var svo gerð skoðanakönnum meðal starfsmanna um hvernig til hefði tekist. Fólk var sátt.“

„Eftir að hafa áttað okkur á hversu heilbrigður starfsmannahópurinn hér er í raun og veru, hefur viðhorf okkar breyst. Við tölum ekki um mikil veikindi þó auðvitað komi uppá, svo sem þegar ganga flensur og margir veikist á svipuðum tíma. Það er eðlilegt. Verkefnið hefur skilað okkur því að fólk hugsar um sig sem heilbrigt og innan leikskólans er unnið út frá heilbrigði, bæði hvað varðar starfsfólk og börnin sem hér dvelja.“

Virkur vinnustaður verkefnið er grundvallað á þeirri sýn VIRK Starfsendurhæfingarsjóðs að vinnustaðir á Íslandi leggi áherslu á forvarnir, fjarvistastjórnun og viðbrögðum við skammtíma- og langtímafjarvistum vegna veikinda og slysa, ástundi þar með virka starfsmannastefnu. Einnig að stefna, athafnir og viðhorf á vinnustöðum stuðli að eflingu starfsendurhæfingar og aukinni virkni einstaklinga með skerta starfsgetu. Loks er framtíðarsýn VIRK sú að viðhorf á vinnustöðum geri ráð fyrir að allir hafi hlutverk í atvinnulífinu, þrátt fyrir skerta starfsgetu af ólíkum ástæðum.

Sjá viðtalið við Mörtu Sigurðardóttur leikskólastjóra í heild sinni hér.

Nánari upplýsingar um Virkan vinnustað má finna hér.


Fréttir

18.10.2024
05.11.2024

Hafa samband