Fara í efni

Fyrirtæki og bændur til fyrirmyndar

Til baka
Hlynur Jónasson
Hlynur Jónasson

Fyrirtæki og bændur til fyrirmyndar

Hlynur Jónasson hjá Virk – Starfsendurhæfingarsjóði segir að ótrúlega vel hafi gengið að fá fyrirtæki og bændur í samstarf við að virkja atvinnulaust fólk með geðraskanir til þátttöku í atvinnulífinu. Það tengist einnig verkefni Hlutverkaseturs sem greint var frá í Bændablaðinu í september 2013 og gengið hefur út á starfsendurhæfingu, en þar var Hlynur einmitt verkefnisstjóri. Stór þáttur í þessu er einnig samstarf við Geðsvið Landspítala – háskólasjúkrahúss þar sem unnið er samkvæmt norrænu IPS (Individual Placement and Support) verkefni fyrir geðfötluð ungmenni. Öll Norðurlandaríkin starfa eftir því kerfi.

Fyrirtæki og bændur til mikillar fyrirmyndar
„Það hefur komið mér skemmtilega á óvart hversu fyrirtækin hafa tekið vel undir okkar erindi og hvað þau framkvæma þetta síðan af miklum myndarskap,“ segir Hlynur. Þó tölur á hinum Norðurlöndunum sýni að þar sé starfsþátttaka ungmenna með geðraskanir talsvert meiri en hér á landi, þá segir hann þetta samt allt miða í rétta átt. Þá hafi garðyrkjubændur og aðrir bændur víða um land tekið vel í þetta verkefni með mjög góðum árangri.

„Hér á landi hafa skapast mörg störf í tengslum við verkefni Virk og mér finnst starfsmannastefna margra fyrirtækja á Íslandi í dag vera til mjög mikillar fyrirmyndar. Fyrirtækin eru líka lykillinn að því að verkefnið gangi vel. Þau hafa tekið ótrúlega vel á móti okkur. Ég gæti nefnt mörg dæmi um fyrirtæki sem hafa gert þetta af svo miklum myndarskap að vert væri að geta þess sérstaklega. Þar eru stjórnendur og starfsfólk að sýna málinu mikinn skilning og taka einstaklega vel á móti skjólstæðingum okkar. Það er síðan lykillinn að því að þessu fólki fer að líða betur, verður virkari þátttakendur í lífinu og nær betri tengslum við fjölskyldur sínar.“

Hlynur vildi þó ekki nafngreina einstök fyrirtæki, en sagði að hjá þeim fyrirtækjum sem hann hafi átt samskipti við störfuð algjörar perlur. Þar hafi menn verið að sýna ótrúlega nærgætni og velvild gagnvart ungu fólki sem sjaldan hafi fengið tækifæri í lífinu vegna sinna veikinda og hafi jafnvel alist upp við afar slæmar aðstæður. Þarna hafi fyrirtækin og þeirra starfsmenn tekið þessu fólki opnum örmum sem sé ómetanlegt fyrir allt samfélagið. „Þetta snýst allt um vilja og að sýna þessu veika unga fólki skilning.“

Hlynur segir að aðkoma sín að fyrirtækjum vegna verkefna á vegum Virk sé í raun tvískipt. Annarsvegar snúist þetta um starfsendurhæfingu almennt og hinsvegar um ungt fólk með þyngri geðraskanir sem er það svið sem hann aðstoðar við áðurnefnt IPS. Um sex þúsund manns hafa sótt um starf í gegnum Virk starfsendurmenntun síðan 2009, en þar eru forsendur svolítið aðrar en hvað varðar starfsendurhæfingu þeirra sem eiga við geðraskanir að stríða. Þessar tölur sýna hins vegar ljóslega að þörfin er mikil.

Aðalatriðið að einstaklingurinn fái hlutverk
„Mín skoðun er sú að þetta unga fólk verði að fá hlutverk í fyrirtækjunum, alveg sama í hvaða prósentuhlutfalli það er. Það má vera 10%, 40% eða 60% starf. Öll tengsl við atvinnulífið skipta miklu máli fyrir þetta fólk, jafnvel þó starfsgetan sé ekki mikil. Aðalatriðið er að einstaklingarnir fái hlutverk og eitthvað til að stefna að á morgun. Þannig skapast möguleikar á að þeir eignist virkt líf og verði partur af samfélaginu.“

Farið eftir áhugasviði hvers og eins
„Þó að fyrirtæki greiði 0,13% gjald af hverjum starfsmanni í Virk – starfsendurhæfingarsjóð eru þau alls ekki skyldug að taka þátt í þessu verkefni með okkur að öðru leyti. Við reynum að sækja til þeirra fyrirtækja eða í þær greinar sem ungmennin sjálf hafa lýst áhuga sínum á að starfa við. Þá nefna ungmennin sérstaklega þau fyrirtæki sem þau gætu hugsað sér að starfa hjá. Fyrirtækin sem við höfum leitað til hafa undantekningalaust gott starfsfólk og auðvitað sína sögu af að hafa glímt við veikindi starfsfólks,“ segir Hlynur.

„Þar þarf að nálgast fyrirtækin með svolítið öðrum hætti en hvað varðar almenna starfsendurhæfingu. Þetta er verkefni þar sem fyrirtækin eru sjálfviljug þátttakendur í við að taka til sín starfsmenn með  skerta starfsgetu og hlúa að þeim. Strax eftir að ungt fólk hefur greinst með geðhvörf eða geðrof eru það mest móttækilegt og á þeim tímapunkti er mjög mikilvægt að það fái stað til að starfa á og vera þannig þátttakandi í samfélaginu. Þannig getur þetta fólk fengið hlutverk og öðlast mannsæmandi líf. Mikilvægt er að hjálpa þessu fólki strax því það dregur úr þessum hæfileikum eftir því sem árin verða fleiri án þátttöku í semfélaginu. Þá verður líka hætta á að fólk einangri sig og lokist inni í eigin heimi.“

Stofnað 2009
VIRK Starfsendurhæfingarsjóður er sjálfseignarstofnun sem var upphaflega stofnuð af Alþýðusambandi Íslands og Samtökum atvinnulífsins í maí 2008. Í janúar 2009 var síðan undirrituð ný stofnskrá sjóðsins með aðkomu stéttarfélaga og atvinnurekenda á opinberum vinnumarkaði. Sjóðurinn byggir á samkomulagi um nýtt fyrirkomu lag starfsendurhæfingar í kjara samningum á vinnu markaði á árinu 2008. Stofnaðilar Starfsendurhæfingarsjóðs voru Alþýðusamband Ísland, Samtök atvinnu lífsins, Bandalag starfsmanna ríkis og bæja, Bandalag háskóla manna, kennarasamband Íslands, Fjármálaráðherra, Reykjavíkur borg og Launanefnd sveitarfélaga.

Miklir þjóðfélagslegir hagsmunir
„Það er gríðarlega mikils virði fyrir þjóðfélagið að þessu unga fólki séu gefin tækifæri. Það eru yfir 40 milljarðar sem fara í örorkubætur á hverju ári og þar af um 16 milljarðar í geðörorku. Ef við getum  virkjað eitthvað af þessu fólki til einhverrar þátttöku í samfélaginu, þá erum við að taka um milljarða króna þjóðfélagslegan ávinning. Auk þess er sá ávinningur sem næst með betri líðan þessa hóps. Þarna eru því miklir hagsmunir í húfi,“ segir Hlynur.

Til að bregðast við langvarandi atvinnuleysi
„Við höfum átt því láni að fagna lengst af hér á landi að Íslendingar þekkja ekki langtíma atvinnuleysi að því marki sem þekkist víða í nágrannalöndum okkar. Starfsendurhæfing hefur verið rekin í Bretlandi og á Norðurlöndunum í áratugi, en hér var byrjað með þetta 2009. Þar nýtum við okkur reynslu nágrannaþjóðanna. Við erum samt vonandi ekki að horfast í augu við mikið langtíma atvinnuleysi með jafnvel þrem kynslóðum fólks sem aldrei hafa unnið. Trúlega erum við samt að upplifa eitthvað hærri prósentutölur atvinnuleysis að jafnaði en við gerðum áður. Ég held að það sé okkur því afar mikilvægt að hafa komið á fót starfsendurhæfingu til að koma því fólki aftur út á vinnumarkaðinn.“

Ofurkröfur í starfsauglýsingum geta virkað letjandi
Hlynur bendir á einn neikvæðan þátt sem geti virkað sem hemill á að þeir sem eru á annað borð vilji leita eftir atvinnu leggi í að sækja um störf. Þar er um að ræða starfsauglýsingar sem æ algengara er að sjá í blöðum þar sem verið er að óska eftir einhvers konar ofurmanneskjum sem í raun eru ekki til. Þar sé jafnvel krafist meiri menntunar en starfið gefi tilefni til, að fólk sé alltaf í góðu skapi, búi yfir ofurdugnaði sem eigi sér helst engin takmörk og verði aldrei veikt eða misstígi sig á nokkurn hátt.

Telur hann líklegt að tilurð slíkra auglýsinga þar sem krafist er gríðarlegrar menntunar og persónulegra hæfileika á öllum sviðum sé runnin undan rifjum fagfólks í því augnamiði að vinsa úr mögulegum umsækjendahópi strax í upphafi. Kröfurnar á stjórnendur fyrirtækja verði líka stöðugt  meiri um að þeir skili betri árangri í rekstri. Þær kröfur skili sér síðan gjarnan inn í  tarfsauglýsingarnar. Ekkert samasemmerki sé þó við að allar þær ofurkröfur sem oft séu gerðar í slíkum auglýsingum skili endilega hæfileikaríkasta fólkinu eða bestu starfskröftunum. Þær geti hinsvegar komið í veg fyrir að þeir sem hafi ekki sérlega sterka sjálfsmynd leggi í að sækja um störfin þó þeir hafi þar fullt erindi. Þetta fólk geti síðan hæglega farið í baklás og dregið sig inn í skel sem erfitt geti verið að brjótast út úr.

„Ég held að það væri hollt fyrir stjórnendur fyrirtækja að endurskoða hvernig að starfsauglýsingum er staðið. Spurningin getur líka verið hvort það fólk sem ráðið er eftir slíkum auglýsingum standi undir öllum þessum kröfum þegar á reynir. Er þetta til þess falið að menn nái því besta út úr þeim einstaklingi sem verið er að ráða? – Ég er ekki svo viss.

Ef menn hafa orðið fyrir áfalli eða eru að standa upp úr veikindum af einhverjum toga þá sækir það fólk ekki um störf sem þannig eru auglýst, því það þarf oft aðstoð til að komast aftur út á  vinnumarkaðinn. Það stekkur heldur enginn fullmótaður inn í nýtt starf. Öll þurfum við að aðlagast nýrri vinnu, sama hversu sterk við erum andlega,“ segir Hlynur.

Ef fólk vill komast í samband við Hlyn og kynna sér þessi mál nánar, þá segir hann því vera velkomið að senda sér tölvupóst á netfangið hlynurjonasson@simnet.is

Úr Bændablaðinu 13. tbl. 2014.
Viðtal: Hörður Kristjánsson



Fréttir

18.10.2024
05.11.2024

Hafa samband