Brugðist við ábendingum um álag og streitu meðal starfsfólks Háskóla Íslands
Brugðist við ábendingum um álag og streitu meðal starfsfólks Háskóla Íslands
Jónína Helga Ólafsdóttir verkefnisstjóri og Ásta Möller sviðsstjóri á starfsmannasviði Háskóla Íslands
Það er stefna Háskóla Íslands að hlúa vel að starfsfólki sínu og bjóða þeim starfsumhverfi sem stuðlar að velferð, jafnrétti og heilbrigði. Innlendar og erlendar rannsóknir á starfsumhverfi háskóla sýna að starfsfólk þeirra, ekki síst háskólakennarar og aðrir akademískir starfsmenn, upplifir mikla streitu í starfi sínu. Þetta hefur verið staðfest í starfsumhverfiskönnunum sem starfsmannasvið Háskóla Íslands hefur staðið fyrir meðal starfsmanna sinna annað hvert ár frá árinu 2012, nú síðast haustið 2016. Þær sýna að um 75% akademískra starfsmanna telja sig vera undir miklu vinnuálagi. Hið sama á einnig við um ákveðna hópa og svið stjórnsýslu skólans (sjá mynd 1).
Nánari skoðun á vinnuálagi og streitu meðal starfsfólks Háskóla Íslands
Í kjölfar þessara niðurstaðna hafa verið gerðar ýmsar ráðstafanir til að taka á þessum málum, einkum á vettvangi einstakra starfseininga háskólans. Vorið 2016 var hrint úr vör verkefni þar sem skoða skyldi nánar álag og streituvalda hjá starfsmönnum skólans og í framhaldi af því leggja til úrbætur á starfsumhverfi skólans til að draga úr vinnutengdri streitu. Jafnframt yrðu lagðar fram tillögur sem skyldu ná til alls háskólans um fyrirbyggjandi aðgerðir og stuðning við starfsmenn sem upplifa álag og streitu. Verkefninu var stýrt af starfsmannasviði skólans en starfshópur skipaður akademískum starfsmönnum hans var kallaður til á ýmsum stigum í ferlinu. Hann lagði til góðar ábendingar og tillögur við vinnslu verkefnisins.
Hvað veldur álagi og streitu?
Á fyrsta stigi verkefnisins var Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands fengin til að gera rýnihóparannsókn meðal starfsfólks háskólans. Tilgangurinn var að skoða álag og streitu í starfi og vinna nánari greiningu á streituvöldum hjá fastráðnu starfsfólki við skólann. Tekin voru sjö rýnihópaviðtöl, þar af sex meðal akademísks starfsfólks og eitt við starfsfólk í stjórnsýslu. Þátttakendur voru valdir í rýnihópa í þeim deildum og starfseiningum þar sem álag og streita hafði mælst hvað mest í reglubundnum starfsumhverfiskönnunum starfsmannasviðs skólans. Margar góðar upplýsingar og ábendingar komu fram í skýrslu Félagsvísindastofnunar um niðurstöður rýnihóparannsóknarinnar. Hér verður greint frá nokkrum þeirra með sérstakri áherslu á niðurstöður er varða akademíska starfsmenn háskólans.
Áhrif sveigjanleika á starf háskólakennara
Starfi háskólakennara er iðulega skipt í þrjá hluta: kennslu og rannsóknir sem hvort um sig er skilgreint sem tæplega helmingur af starfinu og stjórnunarverkefni t.d. á sviði deilda eða fræðasviða sem telst verða um 10 prósent af starfi þeirra. Í rýnihóparannsókninni kom fram, að þó að starf háskólakennara einkennist af miklum sveigjanleika, fylgi því jafnframt mikið álag og streita. Starfið væri alltaf í forgrunni; það hefði engan skilgreindan endapunkt og væri þess eðlis að alltaf væri hægt að gera meira. Háskólakennarar voru þó almennt sammála um að þetta væri starf sem þeir vildu vera í og sem þeir hefðu margir hverjir mikla ánægju af, þótt það væri afar erilsamt og vinnudagurinn alla jafna langur. Starfið væri eins konar „lífsstíll“ og það fæli í sér ákveðinn sveigjanleika og frelsi sem þeir meta mikils.
Umfang kennsluhlutverks er vanmetið
Að mati háskólakennara er kennsluhlutverkið fyrirferðarmesti hluti starfsins. Tíminn sem áætlaður er í kennslu, undirbúning, umsjón með námskeiðum, námsmat og samskipti við nemendur væri þó verulega vanmetinn. Hið sama á við um umfang þess að leiðbeina nemendum sem væru að vinna að lokaverkefnum eða doktorsverkefnum. Afleiðingin væri sú að rannsóknahluti starfsins ætti til að mæta afgangi hvað tíma varðar. Greina mátti togstreitu hjá viðmælendum milli þess að sinna rannsóknaþætti starfsins annars vegar og að standa sig vel í kennslu hins vegar. Það sé einnig sérstakur streituvaldur að árangur í starfi háskólakennara er fyrst og fremst metinn úr frá rannsóknavirkni en ekki að sama skapi út frá árangri í kennslu og þjónustu við nemendur. Að þeirra mati ættu kennarar ekki síður að fá umbun fyrir að leggja alúð í kennslu og þjónustu við nemendur m.a. með hliðsjón af því að það er stefna háskólans að nám og kennsla sé eins og best verði á kosið.
Samskipti við nemendur
Í rýnihóparannsókninni nefndu viðmælendur að töluverður tími færi í þjónustu og samskipti við nemendur. Í því sambandi bentu þeir á að nemendahópurinn hefði breyst umtalsvert síðustu ár. Þeir þyrftu í æ meira mæli að laga sig að aðstæðum nemenda sem væru með fjölskyldur og lítil börn eða í fullri vinnu með námi.
Stuðningur stjórnsýslu við kennara
Að lokum má nefna að margir af viðmælendunum gerðu að umtalsefni ýmiss konar upplýsingagjöf til stjórnsýslu fræðasviðs eða miðlægrar stjórnsýslu sem streituvald. Margir töldu að ýmiss konar stoðþjónusta við akademíska starfsmenn af hálfu starfsfólks í stjórnsýslu væri takmörkuð og að þeir upplifðu að úr henni hefði dregið þrátt fyrir að starfsfólki þar hefði fjölgað. Í þessari umræðu sögðu kennarar að starfsfólk stjórnsýslu fræðasviðs teldi sig fyrst og fremst eiga að sinna nemendum og því hallaði á ýmiss konar aðstoð við kennara.
Að bregðast við álagi og streitu við Háskóla Íslands
Unnið er að tillögum að úrbótum í starfsumhverfi háskólans til að draga úr streitu og hvernig megi auka stuðning við starfsfólk sem upplifir álag og streitu. Þessar tillögur verða sendar til umsagnar hjá ýmsum aðilum innan háskólans og að lokum lagðar fyrir háskólaráð til umfjöllunar.
Eins og fram kom hér að ofan er það mat þeirra sem tóku þátt í rýnihóparannsókninni að kennsluhlutverkið væri einn fyrirferðarmesti hluti starfs háskólakennara. Að þeirra mati tekur kennsla mun meiri tíma en formlega er gert ráð fyrir. Með það í huga eru hér nefndar nokkrar tillögur að úrbótum á kennsluþætti starfsins sem hafa komið til umræðu.
Breyting á starfsskyldum
Fyrst má nefna tímabundna breytta skiptingu á starfsskyldum háskólakennara, svo sem að gefa þeim kost á að einbeita sér að kennslu í tiltekinn tíma og fá afslátt af rannsóknar- og stjórnunarskyldu á meðan. Tilgangurinn væri að viðkomandi fengi tækifæri til að einbeita sér að því að þróa kennsluna og fá svigrúm og stuðning til að kynna sér nýjungar í kennsluháttum og prófa sig áfram með þær.
Þá hafa verið ræddar hugmyndir um að bjóða nýjum háskólakennurum afslátt af kennsluskyldu þegar þeir hefja akademískan feril sinn. Það er þekkt að fyrstu skref í akademísku starfi eru streituvaldandi. Það er stórt verkefni að taka að sér kennslu í háskóla í fyrsta sinn, skipuleggja, undirbúa og kenna nýtt námskeið, sjá um námsmat og veita nemendum stuðning. Á sama tíma eru hinir sömu að hefja rannsóknaferil sinn og setja sig inn í flókna stjórnun og reglur háskólans. Afsláttur af kennsluskyldu getur auðveldað nýjum háskólakennurum fyrstu skrefin í akademísku starfi. Þessi háttur hefur verið viðhafður á sumum fræðasviðum Háskóla Íslands með ágætum árangri.
Mentorakerfi
Fleiri hugmyndir er varða kennsluþátt starfsins snúa m.a. að því að fjölga kennurum og/eða setja þak á fjölda nemenda í námskeiði og endurskoða og efla mentorakerfi skólans. Undanfarin ár hefur nýju akademísku starfsfólki boðist að fá mentor sem veitir viðkomandi stuðning í starfi. Byggist sá stuðningur fyrst og fremst á þörfum hvers og eins nýliða m.a. við kennslu og rannsóknir. Hefur þetta fyrirkomulag reynst vel en efla mætti þennan þátt í starfi háskólans enn frekar.
Breyttir samskiptahættir
Þátttakendur í rýnihóparannsókninni nefndu samskipti við nemendur sem sérstakan streituvald. Þar skipta breyttir samskiptahættir miklu, sem gera kennarann aðgengilegan á öllum tímum, en ekki eingöngu í kennslustundum og viðtalstímum eins og tíðkaðist fyrir tíma rafrænna samskipta. Í flóknum heimi tækninnar getur verið snúið að finna út hvaða samskiptamáti er gagnlegastur fyrir alla aðila. Til að bregðast við því hafa verið ræddar hugmyndir um að koma á öflugu og skilvirku kerfi aðstoðarmanna kennara. Aðstoðarmenn kennara létta ekki aðeins undir með kennaranum við samskipti við nemendur og upplýsingagjöf til þeirra heldur einnig við kennslu.
Stuðningur stjórnsýslu skólans við starf háskólakennara
Þátttakendur í rýnihópum nefndu að stjórnsýsla fræðasviða og miðlægrar stjórnsýslu þyrfti að kynna kennurum betur en nú er gert þá þjónustu sem þeim stendur til boða og efla stuðning við þá, s.s. við að skipuleggja kennslu t.d. í klínískum námskeiðum og fjarkennslu.
Árangur akademísks starfsfólks er fyrst og fremst metin eftir rannsóknarvirkni þeirra. Afköstin hafa bæði áhrif á laun viðkomandi og á fjárveitingu til þess fræðasviðs og deildar sem hann starfar við. Stuðningur við rannsóknahluta akademískra starfsmanna hefur verið að eflast í takt við áherslur háskólans, en að mati háskólakennara þarf að efla hann enn frekar. Sérstaklega er kallað eftir aðstoð stjórnsýslu skólans til að sjá um fjármálahlið rannsóknastyrkja, svo fræðimenn geti frekar varið tímanum í að sinna rannsóknum sínum og skrifum.
Viðbrögð háskólans við streitu starfsfólks
Skólaárið 2016-2017 hefur verið unnið úr niðurstöðum rýnihóparannsóknarinnar og mótaðar tillögur að úrbótum í starfsumhverfi háskólans til að draga úr streitu. Jafnframt hefur verið unnið að gerð verklagsreglna fyrir skólann í heild til að bregðast við streituvöldum í vinnuumhverfi starfsmanna og setja ramma utan um stuðning við starfsfólk sem upplifa streitu í starfi sínu. Verklagsreglurnar taka m.a. til upplýsingaöflunar og mats á aðstæðum, forvarna, úrræða og eftirfylgni vegna álags og streitu í starfsumhverfinu. Þær eiga jafnt við um starfsumhverfi skólans í heild og stuðning við einstaka starfsmenn eða hópa starfsmanna. Áður en þessar tillögur verða lagðar fyrir háskólaráð til umfjöllunar verða þær sendar til umsagnar hjá þeim sem hafa sérþekkingu og/eða reynslu á þessum sviðum innan háskólans.
Tillögum hrint í framkvæmd
Lögð verður áhersla á að tillögur sem varða breytingar á starfsumhverfi skólans verði skoðaðar vel, þeim hrint í framkvæmd og vonast er til að þær hafi tilætluð áhrif, þ.e. að þær minnki álag og dragi úr streitu meðal starfsmanna háskólans þegar til lengri tíma er litið. Öllum er þó ljóst að starfsumhverfi háskóla er flókið og margþætt og aldrei verður hægt að koma í veg fyrir alla þá þætti sem valda álagi. Upplifun og viðbrögð einstaklinga við álagi er mismunandi og mikilvægt er að þeir læri að stjórna þeim þáttum starfsins sem þeir geta, læri að þekkja inn á eigin viðbrögð við streitu og þá áhættuþætti vinnuumhverfisins sem ýta undir streitu í starfi. Í því skyni hefur starfsfólki háskólans nú á vormisseri skólaársins 2016-2017 gefist kostur á að sækja námskeið á vegum starfsmannasviðs um streitustjórnun. Námskeiðið stuðlar að því að þátttakendur átti sig m.a. á eðli vinnustreitu og helstu birtingarmyndum hennar, áhættuþáttum vinnutengdrar streitu og fyrstu merkjum um kulnun í starfi. Jafnframt læra þeir að þekkja eigin viðbrögð við streitu, fá skilning á hlutverki hugsana og tilfinninga í streitu og læra leiðir til að minnka streituvalda.
Stuðningur við unga akademíska starfsmenn
Sérstakt námskeið, sem er sniðið fyrir konur sem eru að hefja akademískan starfsferil sinn, hefur verið mótað. Ákveðið var að setja slíkt námskeið á laggirnar í ljósi þess að niðurstöður úr starfsumhverfiskönnun háskólans sýna að streita er mest á meðal yngri kvenna í akademískum störfum. Þessar niðurstöður samræmast niðurstöðum úr rannsókn Guðbjargar Lindu Rafnsdóttur og Thamar M. Heijstra (2011) á því hvernig akademískt starfsfólk samræmir vinnu og einkalíf. Niðurstöður rannsóknarinnar bentu til að sveigjanleiki starfs akademískra starfsmanna hjálpi þeim að sameina fjölskyldulíf og starfsskyldur. Þær benda jafnframt til að konur í akademísku starfi nýti þennan sveigjanleika í meira mæli en karlkyns kollegar þeirra til að sinna þörfum fjölskyldu og heimilis. Það gæti m.a. skýrt að yngri konur í akademísku starfi upplifi starfstengda streitu í meira mæli en karlar í sams konar starfi.
Heilsuefling innan háskólans
Ein leið til að draga úr streitu er að stuðla að heilbrigðum lífsháttum. Í fjölmörg ár hefur háskólinn gert ótal margt til heilsueflingar meðal starfsmanna sinna. Þar er til að mynda rekið íþróttahús sem opið er nemendum og starfsfólki skólans gegn vægu gjaldi. Í boði eru bæði skipulagðir tímar í sal samkvæmt stundatöflu og aðstaða í tækjasal. Háskólaborgurum gefst einnig kostur á að skrá sig í Háfit – háskólaþjálfun en það er fjarþjálfun þar sem lögð er áhersla á að öll leiðsögn sé fagleg, vönduð og árangursrík. Í áratug hefur starfsmannasvið háskólans staðið fyrir heilsumánuði. Þar hafa m.a. nemendur í hjúkrunarfræði mælt blóðþrýsting og blóðsykur, nemendur í sjúkraþjálfun framkvæmt þolmælingar, ótalmargir fræðimenn skólans haldið hádegiserindi sem tengjast heilsueflingu og boðið hefur verið upp á matreiðslunámskeið, svo að fátt eitt sé nefnt. Heilsumánuðurinn nær síðan hámarki í háskólahlaupinu þar sem starfsfólki og nemendum gefst kostur á að hlaupa 7 km með tímatöku eða taka þátt í 3 km skemmtiskokki.
Síðastliðin fjögur ár hefur starfsmannasvið boðið upp á námskeið í núvitund sem margir starfsmenn hafa sótt. Þá má nefna að starfsfólki gefst reglulega kostur á að fá til sín sjúkraþjálfara sem veitir persónulega fræðslu um starfsaðstöðu, s.s. hvernig stilla á stóla, borð og tölvuskjái og hvaða líkamsbeiting er góð til að koma í veg fyrir óþægindi í vöðvum og liðum.
Skólinn tekur alvarlega það hlutverk sitt að hlúa vel að starfsfólki sínu og bjóða því starfsumhverfi sem stuðlar að velferð, jafnrétti og heilbrigði. Þess er vænst að vinnan sem lögð hefur verið í að skoða streitu og álag meðal starfsmanna háskólans skili sér í betra starfsumhverfi til lengri og skemmri tíma.
Þess má geta að verkefnið hefur hlotið styrk frá VIRK.
Greinin birtist í ársriti VIRK 2017 - sjá fleiri áhugaverðar greinar úr ársritinu hér.