Fara í efni

Bókarýni - Völundarhús tækifæranna

Til baka

Bókarýni - Völundarhús tækifæranna

Anna Lóa Ólafsdóttir sérfræðingur hjá VIRK

 

Bókin Völundarhús tækifæranna kom út árið 2021 og höfundar eru þær Árelía Eydís Guðmundsdóttir, dósent við HÍ og sérfræðingur í vinnumarkaðsmálum, og Herdís Pála Pálsdóttir, sérfræðingur í mannauðsmálum og rekstri.

Bókin kemur út á tímum mikilla tæknilegra umbreytinga og nokkuð ljóst að covid flýtti því ferli. En umbreytingarnar halda áfram og líklegt er að þær koma til með að hafa áhrif á hið dæmigerða vinnumarkaðsmódel; vinnuveitendur, launþegar og stéttarfélög. Við munum búa við fjölbreyttari ráðningarform þar sem styrkleikar og sérfræðiþekking einstaklinga fær notið sín.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í bókinni en hún skiptist í fjóra hluta en í þeim fyrsta er fjallað um stóru myndina og hvað hefur áhrif á hvernig vinnumarkaðurinn er að þróast. Í öðrum hlutanum er fjallað um þá færni og hæfni einstaklinga sem munu nýtast til að ferðast um völundarhús tækifæranna og í þeim þriðja er fjallað um tækifærin sem felast í breytingunum og hvernig vinnumarkaður og stjórnendur þurfa að bregðast við. Í lokahlutanum er fjallað um mikilvægi þess að vera leiðtogi í eigin lífi, marka sér stefnu og móta eigin starfsferil.

Giggarar, vísar til einstaklinga sem vinna sjálfstætt, taka að sér tímabundin skilgreind verkefni sem hafa upphaf og endi. Fá oftast greitt fyrir ákveðna virðissköpun frekar en magn þeirra tíma sem er sett í verkefnið. Þeir leggja áherslu á sjálfstæði, velja verkefni, samþætta vinnu og einkalíf og stýra sjálfir tekjuflæðinu. Vinnumarkaður framtíðar verði því frekar einskonar markaðstorg þekkingar þar sem vinnuveitendur geta boðið í þá þekkingu sem sérfræðingar hafa á boðstólum. Þannig skapast sveigjanleiki í mönnun þegar vinnuveitendur geta nýtt sér þjónustu giggara og vinnustaðir framtíðar verði því sambland af fastráðnum starfsmönnum og giggurum.

Í bókinni er talað um af hverju fólk vill frekar vinna sjálfstætt og er ekki alltaf öruggara að vera launþegi? Það er nokkuð ljóst að vinnumarkaðurinn hagnast ekkert síður á því að giggurum fjölgi og því er mikilvægt að endurskoða og skilgreina þarfir allra á vinnumarkaði, ekki bara þeirra sem eru fastráðnir í ákveðin störf. Í Bretlandi er mestur vöxtur meðal giggara hjá fólki 60 ára og eldra og í yngsta hópnum á vinnumarkaði. Við lifum lengur í dag og því er spurning hvort ekki þurfi að endurskoða lífeyris- og eftirlaunakerfið því varla dekka þeir sjóðir 3-4 áratugi í greiðslur hjá einstaklingum. Þar fyrir utan hefur fæðingartíðni á hverja konu farið lækkandi svo árið 2030 verða þeir sem eru komnir yfir 60 ára aldur 350 milljónum fleiri en þeir sem eru af aldamótakynslóðinni. Því hlýtur það að vera ljóst að við þurfum fleiri virka á vinnumarkaði í komandi framtíð.

En það hentar ekki öllum að vinna sjálfstætt og margir eru með aðrar áherslur. Samt sem áður er ákall á breytingar og nauðsynlegt að aðilar á vinnumarkaði séu tilbúnir að aðlaga sig að breyttu landslagi. Í framtíðinni má gera ráð fyrir breyttum ráðningarsamböndum, verkefnadrifnu hagkerfi, fjarvinnu, sveigjanlegum vinnutíma og velsæld í vinnuumhverfi. Hér á Íslandi getum við líka velt því fyrir okkur hvort ákveðinn sveigjanleiki geti ekki haft áhrif á búsetuþróun sem kæmi sér vel fyrir landsbyggðina. Byggðastofnun er með byggðaáætlun fyrir árin 2018-2024 undir heitinu Störf án staðsetningar þar sem markmiðið er að 10% allra auglýstra starfa í ráðuneytum og stofnunum þeirra verði án staðsetningar árið 2024.

Bókin var allt í senn hvetjandi, fræðandi, upplýsandi og hagnýt og á erindi til margra. Það er mikilvægt að huga að vinnumarkaði framtíðar en ekkert síður að skoða hvar maður staðsetur sjálfan sig í því samhengi.

Í bókinni er gefin góð innsýn í vinnumarkað framtíðar og að hvaða leyti hann verði frábrugðinn því sem við erum að upplifa í dag. Störf munu tapast en önnur blómstra og þar er sérstaklega talað um skapandi störf. Sköpunarkrafturinn gerir okkur mannleg og greinir okkur frá vélunum. Í covid jókst fjarvinna mikið en að sama skapi minnkaði nýsköpun. Við þurfum á hvert öðru að halda og fjölbreyttu umhverfi til að ýta undir skapandi hugsun.

Í bókinni er farið yfir þá megin hindrun sem við stöndum frammi fyrir og það er ótti við breytingar. En við getum ekki barist á móti þeirri þróun sem hefur þegar hafist og því spurning um að skoða hvernig við getum undirbúið okkur. Stjórnendur sem vilja leiða þessar breytingar áfram þurfa að huga að starfsánægju, virkni, tryggð og hollustu og sjá til þess að starfsumhverfið styðji við slíkt. Þurfa að vera með opinn huga, jákvæðir fyrir breytingum og nýjungum og hlusta eftir því hvers konar umhverfi er kallað eftir. Því er spáð að vinnustaðir framtíðar verði sveigjanlegri varðandi hvar og hvenær við vinnum. Þá náist meiri jöfnuður þar sem það er hægt að ráða fólk óháð búsetu og meira tillit tekið til persónulegra aðstæðna.

Fram að þessu hefur árangur fyrirtækja verið mældur í fjárhagslegum ávinningi en í auknum mæli mun vera horft til fjölbreyttari mælikvarða. Við erum að meta lífið á annan hátt eftir covid og skoða hvaða þættir það eru sem veita okkur lífsfyllingu. Stærsta heilsufarsvandamál heimsins er andleg heilsa ungmenna og stjórnendur og vinnustaðir framtíðar verða að huga að þessu. Samkennd á vinnustöðum skiptir miklu máli, rannsóknir sýna að öryggi og vellíðan á vinnustöðum er meiri þar sem fólk upplifir samkennd. Þættir sem hafa áhrif á andlega heilsu skipta líka miklu máli; streita, áreiti, álag, samskipti, skýrleiki og samkvæmni í skilaboðum. Þar sem einmanaleiki er alheimsvandi þá skiptir máli að búa til rými fyrir tengsl og skoða hverskonar vinnuumhverfi styður við tengslamyndun á vinnustöðum.

Í lokahluta bókarinnar er farið yfir stefnumótun í eigin lífi og mikilvægi þess að maður átti sig á því hvert maður vill stefna. Að vera leiðtogi í eigin lífi og starfsferli – auka sjálfsþekkinguna og hafa meðvituð áhrif á eigin hugsanir, tilfinningar og gjörðir svo þær þjóni eigin markmiðum. Við þurfum að átta okkur á hvaða gildi skipta mann máli og hvernig vinnuumhverfi styður við þau. Á tímum breytinga þurfum við líka að skoða hvort við séum með vaxtarhugarfar eða fastmótað þar sem við teljum okkur ekki geta breytt aðstæðum okkar. Endurmenntun kemur til með að skipta enn meira máli og mikilvægt að auka tengsl milli atvinnulífs og menntakerfisins.

Bókin var allt í senn hvetjandi, fræðandi, upplýsandi og hagnýt og á erindi til margra. Það er mikilvægt að huga að vinnumarkaði framtíðar en ekkert síður að skoða hvar maður staðsetur sjálfan sig í því samhengi. Það sem ég tók með mér eftir lesturinn má kannski fyrst nefna að þetta var góð áminning um að vera ekki fangi gamalla viðhorfa vegna ótta við mistök, álit annarra eða hræðslu við að passa ekki inn í einhverja formúlu.

Við lesturinn hugsaði ég líka vinnumarkaðinn á annan hátt. Hver segir að vinnuvikan þurfi að vera fimm dagar frá klukkan 8-5 og ætla ég að láta kerfið ákveða hvenær ég hætti að vinna? Hvort sem við veljum að vera virk á vinnumarkaði sem almennir launþegar, giggarar eða kjósum blendingsmódel, bæði fjar- og staðvinnu þar sem sjónarmið starfsmanns eru líka höfð til hliðsjónar, er alveg ljóst að við erum komin af stað í þessu ferli og það er okkar að skoða hvort og hvernig það kemur til með að hafa áhrif á okkur. Ég tek undir þau orð höfunda að það sé mikilvægt að við horfum fram á veginn, undirbúum okkur fyrir það sem koma skal og séum leiðtogar í eigin lífi.

Greinin birtist fyrst í ársriti VIRK 2022


Fréttir

30.05.2024
28.05.2024

Hafa samband