Fara í efni

Bókarýni: The Handbook of Salutogenesis

Til baka

Bókarýni: The Handbook of Salutogenesis

Þóra Friðriksdóttir atvinnulífstengill hjá VIRK

Hér verður fjallað um bókina The Handbook of Salutogenesis. Bókinni er ritstýrt af Maurice B. Mittelmark, Shifra Sagy, Monica Eriksson, Georg F. Bauer, Jürgen M. Pelikan, Bengt Lindström og Geir Arild Espnes og er gefin út af Springer bókaforlaginu í New York árið 2017. Formála skrifar Ilona Kickbusch.

Bókin er alls 461 blaðsíða, hún skiptist í sjö hluta og 49 kafla. Í lok hvers kafla er heimildaskrá og aftast í bókinni er atriðaorðaskrá. Bókina er hægt að fá á rafrænu formi endurgjaldslaust. Alls koma 87 fræðimenn að kaflaskrifum, meðal annars frá Ísrael, Noregi, Svíþjóð, Sviss, Austurríki, Hollandi, Belgíu, Bretlandi, Bandaríkjunum, Kanada og Kína.

Eins og bókartitillinn gefur til kynna er hér um að ræða handbók um bætta heilsu þar sem áhersla er á þá þætti sem stuðla að heilbrigði og velferð í stað þess að einblína á orsakir og sjúkdóma. Salutogenesis er myndað af orðunum salus, sem merkir heilsa eða heilbrigði og genesis, sem merkir sköpun eða myndun. Hugmyndafræðin er stundum nefnd uppspretta heilbrigðis eða heilbrigðisefling (Salutogenis model of Health) og beinist að því hvernig hægt er að stuðla að bættri heilsu og fá sem flesta til að stunda heilsueflandi lífsstíl á öllum sviðum, líkamlega, andlega og félagslega.

Fyrsti hluti bókarinnar (Overview and Origins of Salutogenesis) er kynning á bókinni og tilurð hennar. Lærifaðirinn Aaron Anotonovsky, prófessor í læknisfræðilegri félagsfræði er kynntur til sögunnar og farið yfir kenningu hans um nálgun og skilning á áhrifum streitu á heilsu manna. Hann beinir sjónum að innri styrk manneskjunnar og skilningi á því hvernig hún bregst við til að ráða við álag og halda heilsu. Mismunandi heilbrigði skýrist á mismunandi hæfi hennar til að stjórna streitu (Salutogenis model of Health). Varnarúrræðin gegn streitu, eins og peningar, persónustyrkur, félagslegur stuðningur og menningarlegur stöðugleiki, auðvelda mönnum að standast ítrekað álag. Til þess að takast á við streitu er horft til bjargráða manneskjunnar frekar en til þeirra þátta sem valda streitu. Í þessum hluta er farið yfir þróun hugmyndafræði hans á árunum 1979-1994.

Annar hluti bókarinnar (Salutogenesis: New Directions) fjallar um það hvernig hugmyndafræði og kenningar Anotonovsky hafa þróast áfram eftir hans dag. Dæmi eru tekin um það hvernig „módelið“ hans (Salutogenis model of Health) hefur fléttast inn í aðrar fræðigreinar sem leitast við að skilja hvað það er sem hefur áhrif á líðan manna (til dæmis the Margins of Resources Model, the Self -Tuning Model of Self-Care).

Í þriðja hluta bókarinnar (The Salutogenic Construct of the Sense of Coherence) er farið yfir fræðilega þætti hugmyndafræðinnar með sérstakri áherslu á lykilhugtök í kenningum Anotonovsky. Uppspretta heilbrigðis er skilgreind en hún byggir á skilningi eða yfirsýn manneskjunnar á samhenginu á milli heilbrigðis og velferðar og er lýst sem ferli til bættrar heilsu. Anotonovsky setti fram þrjár megin stoðir heilsueflingar og lífsgæða. Í fyrsta lagi þekking og skilningur einstaklings á því sem hefur áhrif á heilsu og líðan. Í öðru lagi hæfni og trú hans á eigin getu. Í þriðja lagi hugmyndir hans um tilgang, merkingu og gildi þess sem um ræðir.

Í fjórða hluta bókarinnar (The Application of Salutogenesis in Everyday Settings) er fjallað um þætti sem stuðla að heilbrigði og velferð í okkar daglega umhverfi. Þar er átt við félagslegar aðstæður þar sem einstaklingar koma saman frá litlum einingum eins og heimili/fjölskyldu til stærri fyrirtækja, menntastofnana og stórborga. Hugmyndafræði Anotonovsky er víða lögð til grundvallar uppeldisstefnum og vinnuverndarstarfi þar sem lögð er áhersla á að styrkja einstaklinga í að ná yfirsýn, auka skilning, viðráðanleika og sjá merkingu verkefna.

Fimmti hluti bókarinnar (The Application of Salutogenesis in Healthcare Settings) fjallar um innleiðingu hugmyndafræðinnar innan heilbrigðiskerfisins og þær krefjandi áskoranir sem því fylgir. Hugmyndafræði Anotonovsky beinist að því að skoða hvers vegna einstaklingar eru heilbrigðir, þrátt fyrir sjúkdóma eða áföll, áherslan er á bjargráð og að styrkja það sem heilbrigt er. Í þessum hluta er meðal annars verið að velta fyrir sér hvort hugmyndafræðin eigi erindi í heilbrigðisþjónustu og í starfsendurhæfingu.

Í sjötta hluta bókarinnar (A Portal to the Non-English Literatures on Salutogenesis) er farið yfir það efni sem skrifað hefur verið um hugmyndafræði Anotonovsky á öðrum tungumálum en ensku. Í sjöunda og síðasta hlutanum (Questions for the Future: Dialogue on Salutogenesis) ræða ritstjórar bókarinnar um þær áskoranir og tækifæri sem framundan eru á sviði lýðheilsu.

Hér er um yfirgripsmikla handbók að ræða um rannsóknir og hugmyndafræði heilsueflingar (Salutogenesis) og hvernig beita megi henni til að stuðla að heilbrigði og velferð í daglegu lífi. Handbókin á erindi til þeirra sem hafa áhuga á lýðheilsu almennt, fagfólki á sviði umhverfismála, stjórnunar (þjónandi forysta), mennta- og heilbrigðismála og starfsendurhæfingar svo eitthvað sé nefnt. Sjálfur sagði Antonovsky (1979) að skrif hans um heilbrigði og velferð væru ætluð öllum þeim sem sannarlega vildu auka aðlögunarhæfni sína og bæta skilning sinn á mannlegu eðli (The Handbook of Salutogenesis, 2017).

Starfsendurhæfing samanstendur af læknisfræðilegri, sálfræðilegri, félagslegri og starfstengdri virkni sem miðar að því að endurhæfa einstaklinga aftur inn á vinnumarkað eftir veikindi eða slys. Einstaklingar í starfsendurhæfingu standa frammi fyrir mörgum áskorunum í því ferli og þurfa á styrk og bjargráðum að halda til þess að ná heilsu og geta snúið aftur til vinnu. Það má því segja að hugmyndafræðin um uppsprettu heilbrigðis eigi erindi í starfsendurhæfingu þar sem áhersla er á þekkingu og skilning á því sem hefur áhrif á heilsu og líðan, trú á eigin getu og hugmyndir einstaklingsins um tilgang, merkingu og gildi starfsendurhæfingar.

Greinin birtist í ársriti VIRK 2017 - sjá fleiri áhugaverðar greinar úr ársritinu hér.


Fréttir

30.05.2024
28.05.2024

Hafa samband