3800 einstaklingar útskrifast frá VIRK
3800 einstaklingar útskrifast frá VIRK
Í lok árs 2014 voru um 2.400 einstaklingar í þjónustu á vegum VIRK Starfsendurhæfingarsjóðs en alls hafa um 7700 einstaklingar leitað til VIRK frá því að byrjað var að veita þjónustu í lok árs 2009. Tæplega 3800 einstaklingar hafa lokið þjónustu, útskrifast, frá VIRK frá upphafi og um 74% þeirra eru virkir á vinnumarkaði við útskrift.
1.783 einstaklingar komu nýir inn í þjónustu hjá VIRK á árinu 2014 og fjölgaði þeim um tæp 9% frá fyrra ári en þá leituðu 1639 einstaklingar til VIRK. 1.066 einstaklingar luku þjónustu 2014, um 18.5% fleiri en 2013 en þá útskrifuðust 899 einstaklingar.
Vísbendingar eru um að aðsókn að VIRK gæti verið að ná jafnvægi eftir mikinn vöxt undanfarin ár sem kallað hefur á mikið uppbyggingar- og þróunarstarf innan VIRK sem skilað hefur sér í m.a. auknu samstarfi við lífeyrissjóði, heilbrigðisstofnanir, félagsþjónustu sveitarfélaga og fleiri aðila sem eflt hefur og bætt þjónustu VIRK. Áfram er unnið að því að efla enn frekar samstarf við lífeyrissjóði og ýmsar stofnanir velferðarkerfisins.
Eins og áður segir þá eru um 74% þeirra einstaklinga sem hafa lokið þjónustu hjá VIRK með vinnugetu og fara annað hvort beint í launað starf, virka atvinnuleit eða lánshæft nám. Þá sýna þjónustukannanir VIRK að þátttakendur eru undantekningalítið mjög ánægðir með þjónustuna og telja hana auka verulega bæði lífsgæði sín og vinnugetu, t.d. telja um 77% einstaklinga sem svara þjónustukönnun í lok þjónustu að hvatning ráðgjafa VIRK hafa styrkt fyrirætlun þeirra að snúa aftur til vinnu.