Fara í efni

Vellíðan í vinnu er verkefni okkar allra

Til baka

Vellíðan í vinnu er verkefni okkar allra

Guðrún Rakel Eiríksdóttir og Berglind Stefánsdóttir sálfræðingar og verkefnastjórar hjá VIRK


Síðastliðin ár hefur markvisst verið unnið að forvörnum hjá VIRK Starfsendurhæfingarsjóði. Hefur það verið gert með margvíslegum hætti en helst ber að nefna forvarnasíðuna velvirk.is en þar er að finna talsvert af fræðsluefni sem er opið öllum. Farið hefur verið í reglulegar vitundarvakningar er hafa til dæmis varðað jafnvægi vinnu og einkalífs, samskipti og kynferðislega áreitni á vinnustöðum.

VIRK hefur að auki verið aðili að samstarfsverkefninu Heilsueflandi vinnustað ásamt embætti landlæknis og Vinnueftirlitinu. Einnig var á árinu 2022-2023 framkvæmd forvarnarannsókn í samstarfi VIRK og sjúkrasjóða ellefu verkalýðs- og stéttarfélaga.

Á árinu 2023 hafa talsverðar breytingar og þróun átt sér stað hvað forvarnaverkefni VIRK varðar. Á seinni hluta ársins var farið í vinnu við stefnumótun forvarna í þeim tilgangi að skerpa á áherslum. Sú vinna fólst meðal annars í vinnustofu sem haldin var í nóvember 2023. Þar komu saman um 70 starfsmenn VIRK sem starfa á starfsendurhæfingarsviðum og koma að málum einstaklinga í þjónustu VIRK á mismunandi stigum ferilsins. Markmiðið með þeirri vinnu var að nýta og draga fram þá þekkingu og reynslu sem er til staðar. Hjá VIRK starfar fjölbreyttur hópur fagfólks sem hefur gríðarlega mikilvæga reynslu á starfsendurhæfingu. Afrakstur þessarar vinnustofu vóg þungt inn í stefnumótun forvarna.

Verkefnastjórar forvarna litu einnig til rannsókna, hérlendis og á alþjóðlegum vettvangi, við stefnumótunina. Var þá sérstaklega tekið mið af leiðbeiningum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) þegar kemur að forvörnum sem snúa að heilsu og líðan í vinnu1. Eins má þess geta að hluti af stefnumótunarvinnunni voru vinnufundir með stjórnendum VIRK, ráðgefandi hópi forvarna og verkefnið var einnig kynnt fyrir stjórn VIRK.

Í nýrri forvarnastefnu er aukin áhersla lögð á tengsl farsællar atvinnuþátttöku og heilsufars. Í því samhengi eru margir þættir sem huga þarf að. Hluti af því er að ýta undir og efla starfsumhverfi sem tekur mið af mismunandi þörfum fólks meðal annars vegna heilsufars. Þannig getum við stuðlað að frekari virkni og starfsánægju einstaklinga á vinnumarkaði. Heilsubrestur þarf svo sannarlega ekki að útiloka atvinnuþátttöku og í einhverjum tilvikum er það að stunda sitt starf og hafa hlutverk mikilvægt fyrir heilsu einstaklinga. Að því sögðu er ekki verið að útiloka að því geti verið öðruvísi háttað.

Til að styðja við aukna virkni fjölbreyttara vinnuafls er fræðsla og stuðningur mikilvægur. Aðgengi að viðeigandi fræðsluefni varðandi þátttöku einstaklinga með heilsufarsvanda á vinnumarkaði er hluti af því. Það felst meðal annars í að leggja til verkfæri og stuðla að faglegri fræðslu til stjórnenda. Yfirmarkmið forvarna hjá VIRK er að draga úr líkum á að einstaklingar þurfi á starfsendurhæfingu að halda. Því er mikilvægt að nýta þá þekkingu sem til er á þeim hópi sem þarf á starfsendurhæfingu að halda varðandi hindranir, verndandi þætti og aðstæður. Til að staðsetja forvarnarverkefnið þvert á starfsemi VIRK var stofnað fagráð en að því koma meðal annars sviðsstjórar VIRK.

Forvarnasíða VIRK – velvirk.is

Hafin er vinna við að yfirfara vefinn velvirk. is með það að markmiði að aðlaga efni vefsins að nýrri stefnu VIRK þegar kemur að forvörnum. Vefurinn verður áfram opinn og aðgengilegur öllum.

Áhersla verður á notendavænt viðmót og hagnýta notkun þess efnis sem þar er að finna. Verkfærum og tólum verður lyft upp og fært nær þeim sem á þurfa að halda.

Líta þarf til heildarinnar

Þegar kemur að forvörnum á vinnustað skiptir heildin máli; skipulagsheild (e. organization), starfsfólk, stjórnendur og einstaklingar. Öll getum við átt mikilvægan þátt í að auka vellíðan okkar og annarra á vinnustað. Það getur átt við næsta samstarfsmann, stjórnanda, teymið eða stefnu fyrirtækis.

Grein úr ársriti VIRK 2024.

Heimild

  1. WHO guidelines on mental health at work. Geneva: World Health Organization; 2022. Licence: CC BY-NC-SA 3.0 IGO.

Fréttir

27.04.2024
30.05.2024

Hafa samband