Fara í efni

Litið um öxl - VIRK í 10 ár

Til baka

Litið um öxl - VIRK í 10 ár

Vigdís Jónsdóttir, framkvæmdastjóri VIRK

Í ár eru 10 ár frá stofnun VIRK. Í kjarasamningum í febrúar árið 2008 sömdu ASÍ og SA um stofnun endurhæfingarsjóðs í framhaldi af umræðum um nokkurra ára skeið um nýtt fyrirkomulag starfsendurhæfingar.

Í þessum kjarasamningum var m.a. eftirfarandi ákvæði um stofnun sjóðsins: „Alþýðusamband Íslands og Samtök atvinnulífsins hafa á undanförnum misserum rætt saman um nýtt fyrirkomulag endurhæfingar. Samkomulag er um að hefja þróun þeirra á árinu 2008 með því að skipuleggja þjónustu og veita úrræði fyrir þá starfsmenn sem veikjast til lengri tíma og slasast þannig að vinnugeta skerðist. Markmið aðila er að koma að málum eins snemma og kostur er til að stuðla að því að hver einstaklingur verði svo virkur á vinnumarkaði sem vinnugeta hans leyfir. Sérstakur sjóður, Endurhæfingarsjóður, verður stofnaður í því skyni að skipuleggja og hafa umsjón með störfum þjónustufulltrúa sem verða aðallega á vegum sjúkrasjóða stéttarfélaganna og greiða kostnaðinn af störfum þeirra og kostnaðinn af ráðgjöf fagaðila. Ennfremur mun Endurhæfingarsjóður hafa fjármuni til þess að greiða fyrir kostnað við úrræði og endurhæfingu til viðbótar því sem veitt er af hinni almennu heilbrigðisþjónustu.“.

Skipulagsskráin var síðan staðfest á stofnfundi Endurhæfingarsjóðs þann 19. maí 2008. Í fyrstu skipulagsskránni kom m.a. fram að markmið sjóðsins sé „að draga markvisst úr líkum á því að launafólk hverfi af vinnumarkaði vegna varanlegrar örorku með aukinni virkni, eflingu endurhæfingar og öðrum úrræðum.“. Undirrituð kom til starfa sem fyrsti fastráðni starfsmaður sjóðsins 15. ágúst 2008. Þá var búið að skipa í stjórn, skipulagsskrá lá fyrir og Soffía Vernharðsdóttir hafði tekið að sér að sjá um praktísk mál er varða bókhald og fjármuni fyrstu vikurnar. Í byrjun árs 2009 komu síðan opinberir atvinnurekendur og stéttarfélög opinberra starfsmanna að VIRK sem stofnaðilar og varð VIRK þá fyrsta stofnunin sem allir helstu aðilar íslensks vinnumarkaðar stóðu saman að. Samstarf allra þessara ólíku aðila innan VIRK hefur alltaf verið með miklum ágætum og innan stjórnar VIRK hefur aldrei þurft að koma til atkvæðagreiðslu til að skera úr um mismunandi sjónarmið heldur hafa menn ætíð náð sátt um þær ákvarðanir sem teknar hafa verið.

Fjármögnun og aðild

Fyrstu árin var VIRK eingöngu fjármagnað með framlagi frá atvinnulífi þar sem atvinnurekendur greiddu 0,13% af heildarlaunum til VIRK. Þó gert hafi verið ráð fyrir aðkomu bæði lífeyrissjóða og ríkis að fjármögnun VIRK í upphafi gekk það ekki eftir fyrstu árin. Það var ekki fyrr en með gildistöku laga nr. 60/2012 um atvinnutengda starfsendurhæfingu og starfsemi starfsendurhæfingarsjóða að lífeyrissjóðir hófu að greiða framlag til VIRK og fyrsta greiðsla ríkisins til VIRK kom ekki fyrr en á árinu 2015 og á árunum 2016, 2017 og 2018 greiðir ríkið helmingi lægri fjárhæð til VIRK en lífeyrissjóðir og atvinnulíf. Framlag atvinnulífs og lífeyrissjóða var síðan lækkað tímabundið úr 0,13% í 0,10% af heildarlaunum frá og með árinu 2016. Þegar ríkið hóf að greiða til VIRK þá tók VIRK við samningum sem ráðuneytið hafði gert við starfsendurhæfingarstöðvar um allt land og í lögunum er skýrt kveðið á um það að allir einstaklingar sem uppfylla ákveðin fagleg skilyrði eigi rétt á þjónustu á vegum VIRK burtséð frá fyrri vinnumarkaðsþátttöku eða stéttarfélagsaðild.

Fyrstu skrefin

Í upphafi var starfið eðlilega lítt mótað. Til staðar voru ofangreind ákvæði í kjarasamningum aðila á vinnumarkaði og upphafleg skipulagsskrá VIRK sem tilgreindi í tveimur greinum helstu markmið og hlutverk. Ég fékk lánaða eina skrifstofu hjá ASÍ, keypti fartölvu fyrsta daginn í starfi og hóf að skipuleggja starfið. Ég var þá þegar farin að tala við fagfólk í leit að fyrstu starfsmönnunum auk þess að lesa mér til um starfsendurhæfingu og framkvæmd hennar í löndunum í kringum okkur.

Starfið var hins vegar alveg ómótað sem og öll praktísk mál er varða uppbyggingu á nýrri stofnun með mikið og stórt hlutverk. Fyrstu starfsmennirnir komu til starfa haustið 2008 og í upphafi árs 2009 fórum við af stað með lítil tilraunaverkefni í samstarfi við nokkur stéttarfélög þar sem fyrstu ráðgjafarnir fóru að taka á móti einstaklingum í þjónustu. Á árinu 2009 bættust síðan í hópinn fleiri ráðgjafar og þá var farið í það að semja formlega við stéttarfélög eða samtök stéttarfélaga um allt land um þjónustu sérhæfðra ráðgjafa í starfsendurhæfingu.

Í upphafi var farin sú leið að hefja starfsemi fljótt jafnvel þó ýmsir innviðir væru ekki fullbúnir eða verkferlar fullmótaðir. Ástæðan var margþætt. Það er ómögulegt að sjá alla hluti fyrir í upphafi og mikilvægt er að fá tækifæri til að prófa sig áfram og læra af reynslu. Einnig skipti það máli að ég var að stíga fyrstu skrefin með VIRK á sama tíma og efnahagshrunið varð á árinu 2008. Aðstæður kölluðu því á hraða uppbyggingu því ljóst var að þær þrengingar sem samfélagið gekk í gegnum á þessum tíma myndu kalla á aukna þjónustu á sviði starfsendurhæfingar og sú varð líka raunin.

Fljótlega varð ljóst að mikil þörf var fyrir þessa þjónustu og við höfum þessi fyrstu 10 ár oftast verið í stöðugu kapphlaupi við að ná að anna eftirspurn eftir þjónustunni á sama tíma og við erum að móta starfið og skilgreina hlutverk VIRK innan velferðarkerfisins. Sem dæmi um þetta má nefna að heildarfjöldi einstaklinga í þjónustu jókst um 70% milli áranna 2010 og 2013 og á árinu 2013 þá komu um 33% fleiri nýir einstaklingar í þjónustu en árið á undan. Þetta má m.a. sjá á tímalínunni sem lýsir tilteknum þáttum í þróun VIRK og fylgir með þessari grein. Undanfarin ár hefur áfram verið mikill vöxtur í þjónustu VIRK og fjölgaði þjónustuþegum talsvert milli áranna 2016 og 2017 og í dag er ekkert lát á eftirspurn eftir þjónustu VIRK og ennþá er unnið að því að þróa starfsemina þannig að unnt sé að ráða betur við eftirspurnina.

Fyrirkomulag starfsendurhæfingar

Óhætt er að segja að það hafi staðið nokkur pólitískur styr um tilvist VIRK fyrstu árin þar sem ýmsir pólitískir fulltrúar og embættismenn töldu að starfsemi eins og VIRK ætti frekar að tilheyra hinu opinbera en að vera á ábyrgð aðila vinnumarkaðarins. Bentu menn þá á fyrirkomulag starfsendurhæfingar á Norðurlöndunum en þar er hún fjármögnuð að mestu fyrir opinbert fjármagn. Það er hins vegar mikilvægt að hafa það í huga að fyrirkomulag starfsendurhæfingar í löndunum í kringum okkur og innan OECD ríkja almennt helst yfirleitt í hendur við ábyrgð á framfærslu einstaklinga með skerta starfsgetu því reynt er að tengja saman starfsendurhæfingarþjónustu og ábyrgð á framfærslugreiðslum.

Á Norðurlöndunum eru launagreiðslur í veikindum að mestu fjármagnaðar af opinberum aðilum og því bera opinberir aðilar að mestu ábyrgð á fjármögnun starfsendurhæfingar. Í Þýskalandi og Bandaríkjunum bera tryggingafélög ábyrgð á að fjármagna starfsendurhæfingarþjónustu því þar tryggja atvinnurekendur sig fyrir launagreiðslum í veikindum. Hér á landi liggur réttur til launa og annarra greiðslna í veikindum að mestu leyti hjá aðilum vinnumarkaðarins. Atvinnurekendur og sjúkrasjóðir stéttarfélaga bera þessa ábyrgð fyrstu mánuðina og árin auk þess sem lífeyrissjóðir gegna sífellt stærra hlutverki í örorkulífeyrisgreiðslum. Framfærsluskylda hins opinbera vegna veikra einstaklinga kemur oft ekki til fyrr en mjög seint í ferlinu. Það er því eðlilegt að aðilar vinnumarkaðarins hér á landi beri ábyrgð á starfsendurhæfingarþjónustu og í raun er það forsenda fyrir því að tryggja snemmbært inngrip í starfsendurhæfingu hér á landi.

Með lögum nr. 60/2012 um atvinnutengda starfsendurhæfingu og starfsemi starfsendurhæfingarsjóða náðist hins vegar ákveðin sátt og skilningur á hlutverki VIRK og á árinu 2015 var undirritað samkomulag milli VIRK og ríkisins um framlög á árunum 2015, 2016 og 2017. Þetta samkomulag hefur síðan verið framlengt út árið 2018.

Hlutverk og samstarf innan velferðarkerfisins

VIRK kom sem ný stofnun inn í velferðarkerfi með langa sögu þar sem rótgrónar stofnanir gegna mismunandi hlutverkum sem mótast hafa í áranna rás. VIRK er auk þess ekki opinber stofnun heldur sjálfseignarstofnun sem stofnuð er af aðilum vinnumarkaðarins og fjármögnuð að stærstum hluta af atvinnulífi og lífeyrissjóðum. Hlutverk VIRK og umfang þjónustunnar er hins vegar mjög mikið og það hefur tekið sinn tíma að skilgreina þjónustu VIRK í samhengi við þjónustu annarra stofnana innan velferðarkerfisins og ennþá eru menn að slípa til samstarf og verkferla til hagsbóta fyrir einstaklinga sem þurfa á þjónustu að halda. Mikilvægt er að halda þessu samstarfi og þessari uppbyggingu áfram. Í því liggja mikil tækifæri til markvissari og árangursríkari velferðarþjónustu fyrir einstaklinga um allt land.

Á þeim 10 árum sem liðin eru frá stofnun VIRK hafa menn reglulega rætt um og endurskoðað hlutverk VIRK í ljósi þróunar, þekkingar og reynslu. Grunnurinn var lagður með upphaflegri skipulagsskrá þar sem lögð var áhersla á að veita fjölbreytt úrræði, koma snemma að málum og að þjónustan kæmi til viðbótar þeirri þjónustu sem þegar var veitt innan heilbrigðiskerfisins. Það er hins vegar ekki til nein ein rétt eða algild skilgreining á starfsendurhæfingu. Starfsendurhæfing er ein tegund endurhæfingar og margir aðilar samfélagsins gegna mikilvægu hlutverki í endurhæfingu. Það er t.d. enginn vafi á því að innan heilbrigðiskerfisins á sér stað gríðarlega mikilvæg endurhæfing sem stuðlar bæði að betri lífsgæðum og hefur áhrif á getu til atvinnuþátttöku. Leiðarljósið hjá VIRK hefur hins vegar verið það að þjónustan komi til viðbótar við það sem er til staðar enda um atvinnutengda starfsendurhæfingu að ræða en ekki frumendurhæfingu innan heilbrigðiskerfisins. Það er ekki hlutverk VIRK að veita þá þjónustu sem öðrum stofnunum ber að veita lögum samkvæmt heldur koma þar til viðbótar með fjölbreytt starfsendurhæfingar-úrræði samkvæmt einstaklingsbundnum áætlunum um aukna þátttöku ávinnumarkaði.

Það er þó ljóst að víða eru grá svæði milli þjónustu mismunandi stofnana velferðarkerfisins og það er ekki alltaf skýrt hver ber ábyrgð á hverju. Þegar um er að ræða flókna og margþætta þjónustu við einstaklinga þá verða alltaf til grá svæði, það er óumflýjanlegt. Það er hins vegar mikilvægt að allar stofnanir velferðarkerfisins séu tilbúnar til að teygja sig inn á þessi svæði og byggja þannig upp öryggisnet sem tryggir einstaklingum samfellda og faglega þjónustu. Hér þurfa því allir að axla ábyrgð og vinna saman.

Hlutverk og faglegar áherslur

Mikil umræða hefur ávallt átt sér stað um áherslur í faglegu starfi VIRK og hvert hlutverk VIRK á að vera í samhengi við hlutverk annarra aðila innan velferðarkerfisins. Mismunandi sjónarmið hafa verið uppi og svo mun áfram verða því starfsendurhæfing er í raun og veru tiltölulega ný faggrein þar sem menn eru bæði hérlendis og erlendis að feta sig áfram og finna bestu leiðir á hverjum tíma. Við þetta bætist að taka þarf tillit til ábyrgðar og hlutverka annarra stofnana og fagaðila innan velferðarkerfisins og tryggja góða samhæfingu og samfellu í þjónustu. Á þessum 10 árum sem liðin eru hefur innan VIRK átt sér stað mikil umræða um hlutverk VIRK varðandi mat á starfsgetu og hvernig þjónusta VIRK skarast við þjónustu ýmissa annarra stofnana velferðarkerfisins. Hér á eftir er fjallað nánar um þessi atriði.

Hvenær er VIRK farið að sinna heilbrigðisþjónustu og farið að veita þjónustu sem með réttu ætti að eiga sér stað innan heilbrigðiskerfisins?

Mörg þeirra úrræða sem VIRK vísar einstaklingum í og greiðir fyrir eru veitt af fagfólki með heilbrigðismenntun. Þetta á t.d. við um þjónustu sálfræðinga og sjúkra- þjálfara. Því hefur verið bent á að VIRK veiti í raun þjónustu sem ætti frekar að veitast innan heilbrigðiskerfisins. Það má færa rök fyrir þessu en hins vegar er staðreyndin sú að sálfræðiþjónusta hefur ekki verið veitt nema í mjög takmörkuðu mæli innan heilbrigðiskerfisins og einstaklingar hafa á löngu tímabili þurft að greiða sjálfir fyrir stærstan hluta kostnaðar við sjúkraþjálfun. Til að ná árangri í starfsendurhæfingu er hins vegar nauðsynlegt að einstaklingar fái viðeigandi þjónustu hjá bæði sálfræðingum og sjúkraþjálfurum þar sem unnið er á markvissan hátt með þær hindranir sem eru til staðar fyrir vinnumarkaðsþátttöku.

Ef slík þjónusta er ekki í boði eða ef hún kostar einstaklinga of mikið þá næst ekki árangur í starfsendurhæfingu hjá talsverðum hópi einstaklinga í þjónustu VIRK. Það er hins vegar ekkert sem segir að VIRK þurfi til framtíðar að fjármagna þessa þjónustu þar sem það er yfirlýst stefna stjórnvalda að efla sálfræðiþjónustu og sjúkraþjálfun er núna meira niðurgreidd af hinu opinbera sem kallar á breyttar reglur varðandi kostnaðarþátttöku VIRK. Aukin sálfræðiþjónusta á vegum hins opinbera getur þar að auki komið í veg fyrir að hópur fólks þurfi á starfsendurhæfingarþjónustu að halda og getur þannig til framtíðar dregið úr eftirspurn eftir þjónustu VIRK.

Í þessu samhengi er einnig rétt að benda á að þegar VIRK kaupir þjónustu af fagstéttum eins og sálfræðingum og sjúkraþjálfurum þá er ætíð miðað við að þjónustan hafi það að markmiði að vinna sérstaklega með þær hindranir sem eru til staðar gegn aukinni atvinnuþátttöku en ekki sé endilega unnið með öll þau vandamál sem hrjá viðkomandi einstakling.

Annar þáttur sem hefur verið mikið í umræðunni bæði innan VIRK og utan er hversu margir einstaklingar leita til VIRK sem glíma við mjög þungan geðrænan vanda og hafa ekki fengið viðeigandi úrlausnir innan heilbrigðiskerfisins. VIRK þarf því miður að vísa mörgum einstaklingum aftur inn í heilbrigðiskerfið þar sem vandi þeirra er of mikill og hefur ekki verið meðhöndlaður tilhlýðilega þar. Þessir einstaklingar hafa ekki gagn af starfsendurhæfingu á þeim tíma sem sótt er um þjónustuna og starfsendurhæfing getur í sumum tilfellum gert stöðuna verri þar sem einstaklingur ræður ekki við þjónustuna og upplifir vanmátt og vanlíðan. Hér eru líka vissulega grá svæði og flókið getur verið að meta aðstæður og getu einstaklinga til þátttöku í starfsendurhæfingu. Oft fá einstaklingar að njóta vafans og spreyta sig í þjónustunni, jafnvel þó vafi leiki á gagnsemi hennar. Niðurstaða þess getur verið bæði jákvæð og neikvæð.

Mikilvægt er að efla og auka geðheilbrigðisþjónustu innan heilbrigðiskerfisins og efla heilsugæslustöðvar um allt land og sálfræðiþjónustu innan heilsugæslunnar. Á þann hátt er hægt að tryggja það að einstaklingar fái viðeigandi þjónustu á réttum tíma, spara fjármuni og tíma og efla heilsu og lífsgæði einstaklinga. Slíkar áherslur gætu líka bæði komið í veg fyrir að einstaklingar þurfi á starfsendurhæfingarþjónustu að halda og aukið mjög líkur á árangri í starfsendurhæfingu til framtíðar.

Hvenær er þjónusta VIRK viðeigandi og hver á að vísa einstaklingum til VIRK?

Allt frá upphafi hefur átt sér stað mikil umræða um hvenær þjónusta VIRK sé viðeigandi og árangursrík og hvenær ekki. Hversu snemma eiga einstaklingar sem glíma við skerta starfsgetu vegna heilsubrests að koma til VIRK og hver á að vísa einstaklingum inn í þjónustu VIRK? Í upphafi var farið nokkuð opið af stað, einstaklingar þurftu ekki tilvísun frá lækni og gátu komið inn í þjónustuna jafnvel þó þeir væru ennþá með fulla starfsgetu ef heilsubrestur var til staðar. Fljótlega var þó ljóst að slíkt fyrirkomulag gat ekki gengið. Talsverður hluti fólks á vinnumarkaði glímir við heilsubrest en hefur þrátt fyrir það fulla starfsgetu.

Það má í raun halda því fram að fæst okkar gangi í gegnum lífið án þess að glíma á einhverjum tímapunkti við heilsubrest af einhverju tagi og sá heilsubrestur kallar ekki endilega á mikla fjarveru frá vinnumarkaði. Fjarvera frá vinnumarkaði við slíkar aðstæður getur auk þess í sumum tilfellum gert illt verra. Ef VIRK tæki á móti öllum þeim einstaklingum á vinnumarkaði sem glíma við heilsubrest þá myndu mörg þúsund einstaklingar leita til VIRK á hverjum tíma og starfsemin myndi þá ekki ráða við að sinna þeim sem virkilega stæðu illa og þyrftu á starfsendurhæfingarþjónustu að halda. Hér er einnig nauðsynlegt að hafa í huga að samkvæmt erlendum rannsóknum þá snúa yfir 95% einstaklinga sem veikjast eða slasast aftur til vinnu innan fjögurra til sex vikna með tiltölulega einföldum ráðleggingum eða inngripi heilbrigðisþjónustunnar og ekki þarf starfsendurhæfingu til.

Starfsendurhæfing er yfirleitt ekki nauðsynleg eða viðeigandi nema vandinn sé marg- þættur og að til staðar séu hindranir sem koma í veg fyrir vinnumarkaðsþátttöku. Erlendar rannsóknir hafa einnig sýnt fram á það að ef einstaklingar fá of viðamikið inngrip of snemma, t.d. þjónustu þverfaglegra teyma þegar vandi einstaklings er ekki flókinn þá getur slíkt inngrip haft neikvæð áhrif og lengt þann tíma sem einstaklingur er frá vinnumarkaði vegna heilsubrests. Það skiptir því öllu máli hér að veita viðeigandi þjónustu á réttum tíma.

Það hefur einnig átt sér stað talsverð umræða um þörf á tilvísun frá lækni inn í þjónustu VIRK og þar hafa verið uppi mismunandi sjónarmið. Það er ljóst að krafa um tilvísun frá lækni getur lengt þann tíma sem það tekur einstakling að komast í þjónustu VIRK því það tekur í dag talsverðan tíma að komast að hjá lækni. Reynslan hefur hins vegar kennt okkur það að tilvísun læknis er nauðsynleg til að ráðgjafar og sérfræðingar hjá VIRK geti áttað sig á eðli heilsubrestsins og hvernig starfsendurhæfingarþjónusta er viðeigandi út frá stöðu hvers og eins. Starfsendurhæfing verður að vinnast í nánu samstarfi við lækni viðkomandi einstaklings til að öryggi þjónustunnar sé tryggt. Að öðrum kosti gætu menn beint einstaklingum í úrræði sem gætu ógnað heilsu og velferð viðkomandi einstaklings. Á þeim árum sem liðin eru þá hefur almennt byggst upp mjög gott samstarf milli VIRK og lækna um allt land og þeir eru almennt orðnir betur meðvitaðir um eðli þjónustu VIRK.

Hvert á hlutverk VIRK að vera í mati á starfsgetu einstaklinga?

Ljóst er að VIRK ber ekki ábyrgð á að meta rétt einstaklinga til framfærslu í veikindum en hvernig á að tengja saman upplýsingar úr endurhæfingarferli einstaklinga við mat á starfsgetu og rétti til framfærslu og hvaða hlutverk hefur VIRK í að meta starfsgetu einstaklinga? Frá upphafi hefur VIRK unnið að þróun starfsgetumats sem hefur bæði það hlutverk að meta stöðu einstaklinga í endurhæfingarferli og getu þeirra til launaðra starfa í lok endurhæfingarferils. Starfsgetumat hjá VIRK er því mun víð-tækara mat en þær matsaðferðir sem hafa verið notaðar hér á landi til að meta rétt einstaklinga til örorkulífeyris. Niðurstaða úr starfsgetumati hjá VIRK getur vel verið mikilvægur hluti af þeim upplýsingum sem framfærsluaðilar styðjast við þegar metinn er réttur til lífeyris en sá aðili sem ber ábyrgð á að greiða einstaklingi lífeyri eða aðrar bætur tekur alltaf sjálfstæða ákvörðun út frá þeim reglum sem eru í gildi á hverjum tíma.

Það er einnig mikilvægt að hafa í huga í allri umræðu um starfsgetumat að ekki er raunhæft að ræða um breytingu á matsaðferðum án þess að það sé sett í samhengi við virkni þess stuðnings- og velferðarkerfis sem er til staðar. Þannig kalla breyttar matsaðferðir með áherslu á starfsgetumat á aukna þjónustu bæði í starfsendurhæfingu og vinnumiðlun fyrir einstaklinga með skerta starfsgetu. Innleiðing starfsgetumats krefst þess einnig að unnið sé að viðhorfsbreytingu í samfélaginu í þá átt að öllum sé tryggð þátttaka og stuðningur og að nægt rými sé fyrir einstaklinga með misjafna getu. Allt þetta þarf að ræða og skoða í samhengi og í raun þá þarf hér að koma til sameiginlegs átaks bæði velferðarkerfis og vinnumarkaðar til að kerfisbreytingar sem þessar geti skilað árangri til framtíðar.

Hversu langt á að ganga í að fylgja einstaklingum aftur út á vinnumarkaðinn og finna viðeigandi störf?

Það er ljóst að einstaklingar með skerta starfsgetu þurfa mikla aðstoð við að komast aftur í vinnu en hvert er hlutverk VIRK hvað þetta varðar og hvert er hlutverk Vinnumálastofnunar og eftir atvikum annarra aðila?

Í upphafi var lögð megináhersla á það hjá VIRK að þróa verkferla í kringum faglega aðstoð sem beindist aðallega að því að auka getu einstaklinga á vinnumarkaði. Í lok starfsendurhæfingarferils hjá VIRK eiga ráðgjafar VIRK síðan samstarf við ráðgjafa Vinnumálastofnunar þar sem hlutverk Vinnumálastofnunar er að að- stoða einstaklinga við að finna störf við hæfi. Þessi verkaskipting gengur vel upp fyrir þá einstaklinga sem ná í gegnum starfsendurhæfingarferilinn hjá VIRK fullri getu til þátttöku á vinnumarkaði. Hins vegar er talsverður hópur einstaklinga sem lýkur þjónustu hjá VIRK í þannig stöðu að hann glímir við afleiðingar heilsubrests ævina á enda og þarf þess vegna bæði mjög sérhæfða þjónustu við atvinnuleit og það þarf að vera tryggt að starfsendurhæfingarþjónustan og vinnumiðlunin myndi eina samfellda heild.

Það var því ákveðið á árinu 2016 að fara af stað með tilraunaverkefni um aukna atvinnutengingu hjá VIRK þar sem sérhæfðir atvinnulífstenglar sjá um að finna störf við hæfi fyrir þá einstaklinga hjá VIRK sem þurfa á mjög sérhæfðri þjónustu við atvinnumiðlun að halda. Mikil vinna á sér þar að auki stað við að gera samninga við fyrirtæki sem lýsa yfir vilja til þátttöku í þessu verkefni. Þetta verkefni hefur tekist afskaplega vel og þessi þjónusta er hætt að vera í formi tilraunaverkefnis og er núna mikilvægur þáttur í starfsendurhæfingarferli margra einstaklinga.

VIRK hóf einnig markvisst samstarf við geðdeild LSH á Laugarási á árinu 2013 byggt á hugmyndafræði IPS (Individual Placement and Support) þar sem ungum einstaklingum með alvarlegan geðrænan vanda er tryggð aðstoð sérhæfðs atvinnulífstengils sem sér um að finna störf og aðstoða einstaklingana til þátttöku í atvinnulífinu. Skemmst er frá því að segja að þetta verkefni hefur gengið afskaplega vel og nú hafa um 90 einstaklingar nýtt sér þessa þjónustu og 75% þeirra hafa farið í vinnu. Áður en þetta verkefni hófst var atvinna mjög fjarlægur draumur margra þessara ungu einstaklinga og því má segja að verkefnið hafi haft mjög jákvæð áhrif á líf þeirra og möguleika til framtíðar. Nú er verið að að útvíkka þetta verkefni bæði til fleiri deilda innan LSH og í samstarfi við geðteymi innan Heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu. Nánari upplýsingar um ofangreind verkefni má finna hér í ársritum VIRK.

Hvert á hlutverk VIRK að vera í forvörnum á vinnustöðum?

Það er ljóst að öruggt og heilbrigt vinnuumhverfi getur komið í veg fyrir að einstaklingar hrekjast af vinnumarkaði vegna heilsubrests. Öflugar forvarnir og heilsuefling á vinnustöðum geta því komið í veg fyrir að einstaklingar þurfi á starfsendurhæfingu að halda. VIRK hefur ekki lögbundið hlutverk í forvörnum heldur liggur það hjá Vinnueftirliti ríkisins. Í skipulagsskrá VIRK er hins vegar opnað á þann möguleika að VIRK geti tekið þátt í verkefnum sem snúa að eflingu forvarna og velferðar á vinnustöðum. Slík verkefni hafa verið í gangi hjá VIRK og hafa skilað bæði þekkingu og reynslu sem og ýmsum afurðum sem stjórnendur og starfsmenn á vinnustöðum hafa getað nýtt sér. Dæmi um þetta er verkefnið „Virkur vinnustaður“ en nánari upplýsingar um það er að finna á vefsíðu VIRK.

Stjórn VIRK hefur nú nýlega ákveðið að fara af stað með nýtt þróunarverkefni til þriggja ára þar sem markmiðið er að hafa áhrif á bæði viðhorf og breytni stjórnenda og einstaklinga í atvinnulífinu með það að markmiði að koma í veg fyrir að einstaklingar hrökklist af vinnumarkaði vegna afleiðinga heilsubrests. Einnig verður unnið að því að auka þekkingu, stuðning, fræðslu og rannsóknir á sviði forvarna á vinnustöðum. Leitað verður eftir samstarfi við fleiri aðila í þessu verkefni.

Mat á árangri VIRK

Það er flókið að meta árangur starfsendurhæfingar því erfitt er að segja til um hver hefðu orðið afdrif einstaklinganna ef þjónustunnar hefði ekki notið við. Besta leiðin væri því ef unnt væri að bera saman tvo alveg sambærilega hópa þar sem annar fengi þjónustu en hinn ekki. Þessa leið er ekki mögulegt að fara þegar árangur VIRK er metinn því VIRK ber lögum samkvæmt að veita þjónustu til allra um allt land út frá tilteknum faglegum skilyrðum.

VIRK hefur frá upphafi lagt áherslu á að safna saman gögnum sem geta orðið grunnur að ýmis konar mati á árangri starfseminnar. Dæmi um það er skrásetning á framfærslustöðu og stöðu á vinnumarkaði í upphafi og lok þjónustu, þjónustukannanir og ýmis konar mælingar á líðan einstaklinga í þjónustu. Einnig hefur á undanförnum árum verið skipulega hringt í einstaklinga sem hafa lokið þjónustu og þeir spurðir út í framfærslustöðu sína í allt að þrjú ár eftir lok þjónustu. VIRK hefur einnig fengið Talnakönnun sem utanaðkomandi aðila til að leggja mat á árangur VIRK með tryggingastærðfræðilegum aðferðum. Hér aftar í ársritinu er að finna upplýsingar um mat á árangri VIRK út frá ýmis konar gögnum og forsendum. Óhætt er að segja að niðurstaðan sé í heild sinni mjög jákvæð. Allar mælingar sem gerðar hafa verið á árangri VIRK sýna mjög jákvæða niðurstöðu hvort heldur sem litið er á líðan og lífsgæði einstaklinganna eða fjárhagslegan ávinning fyrir einstaklinga og samfélag.

Árangur VIRK og nýgengi örorku

Það er eðlilegt að menn skoði samhengi milli starfsemi VIRK og þróun á örorku á Íslandi þar sem eitt af markmiðum með stofnun VIRK var að draga úr líkum á því að einstaklingar færu af vinnumarkaði á örorku. Það er hins vegar ekki einfalt að meta árangur VIRK í þessu samhengi því við vitum aldrei hvernig sviðsmyndin hefði orðið ef VIRK væri ekki til staðar. Hefði þróun á örorku orðið sú sama eða væru jafnvel enn fleiri einstaklingar á örorku í dag ef þjónusta VIRK hefði ekki verið til staðar? Þetta eru spurningar sem við fáum ekki svör við þó unnt sé að mæla ýmsa þætti sem tengjast starfsemi VIRK eins og nánar verður gerð grein fyrir hér á eftir.

Það eru margir þættir sem hafa áhrif á nýgengi örorku og starfsemi og árangur VIRK er aðeins einn af mörgum. Til að meta árangur VIRK þá verður að meta þá þætti sem VIRK hefur stjórn á og ber ábyrgð á. Þegar kemur hins vegar að því markmiði að draga úr nýgengi örorku þá eru til staðar aðrir mjög sterkir áhrifaþættir sem VIRK hefur enga stjórn á. Þar má t.d. nefna uppbyggingu bótakerfisins, barnalífeyriskerfi, félagslega aðstoð, þjónustu heilbrigðiskerfisins og margt fleira. 

Áhrifaþættir á nýgengi örorku eru þannig fjölmargir og flóknir og rannsóknir og reynsla sýna að árangur næst yfirleitt ekki nema tekið sé heildrænt á málum og reynt sé að hafa áhrif á alla þá þætti sem skipta máli. Frá upphafi var einnig litið svo á að stofnun VIRK væri aðeins einn þáttur í miklum kerfisbreytingum sem þyrftu að eiga sér stað til að auka þátttöku á vinnumarkaði og draga úr nýgengi örorku. Staðreyndin er hins vegar sú að frá því að VIRK tók til starfa fyrir 10 árum síðan hafa engar aðrar kerfisbreytingar átt sér stað til að styðja við það markmið að draga úr nýgengi örorku. Á meðan slík staða er uppi er ekki sanngjarnt eða raunhæft að meta árangur af starfsemi VIRK út frá stærðum sem eiga sér fjölmarga og sterka áhrifavalda aðra en þá sem snúa að starfsendurhæfingu og skipulagningu hennar. Til viðbótar við þetta má einnig benda á að um helmingur einstaklinga sem fer á örorku hjá TR hefur ekki verið í starfsendurhæfingu hjá VIRK.

Góð starfsendurhæfing er vissulega mikilvæg forsenda þess að unnt sé að draga úr nýgengi örorku en hún dugar ein og sér ekki til. Aðrir áhrifaþættir eru fjölmargir og oft mjög sterkir og ef starfsendurhæfingarþjónusta á að hafa áhrif í þá veru að draga úr nýgengi örorku þá þurfa bæði framfærslukerfin sem og annar stuðningur að vera þannig uppbyggð að þau hvetji til aukinnar vinnumarkaðsþátttöku einstaklinga.

Starfsendurhæfingarþjónusta er þannig nauðsynlegt skilyrði þess að unnt sé að draga úr nýgengi örorku og auka þátttöku á vinnumarkaði en hún er engan veginn nægjanlegt skilyrði ein og sér. Ef uppbygging framfærslukerfa og annar stuðningur innan velferðarkerfisins og vinnumarkaðarins styður ekki við aukna vinnumarkaðsþátttöku og jafnvel vinnur gegn henni eins og dæmin sanna hér á landi þá mun starfsendurhæfing ekki duga til að draga úr nýgengi örorku þrátt fyrir að hún skili árangri í að auka vinnugetu og bæta lífsgæði einstaklinga.

Breytilegar áskoranir og næstu skref

Það hefur margt áunnist á þeim 10 árum sem VIRK hefur starfað. Það sem mestu máli skiptir er að á sjötta þúsund einstaklingar hafa náð aukinni og oft fullri vinnugetu með aðstoð frá VIRK og flestir af þeim 7600 einstaklingum sem hafa lokið þjónustu VIRK hafa auk þess náð að bæta heilsu og lífsgæði sín verulega. Þetta skilar sér ekki bara til einstaklinganna sjálfra heldur einnig til fjölskyldu og náinna vinna þeirra og til samfélagsins t.d. í formi aukins vinnuafls og meiri framleiðni. Auk þess er líklegt að aukin vinnugeta og betri líðan dragi úr lyfjanotkun og þörf fyrir ýmsa aðra þjónustu innan velferðarkerfisins.

Starfsemi VIRK hefur ennfremur orðið til þess að bæði reynsla og rannsóknir á sviði starfsendurhæfingar hér á landi hafa eflst og fleiri og fleiri fagaðilar hafa getað þróað ýmis úrræði og þjónustu sem hafa aukið getu og lífsgæði einstaklinga um allt land. Hjá VIRK hafa auk þess orðið til mikilvæg gögn og þýðingarmikil þekking sem hægt er að nýta til að bæta þjónustu velferðarkerfisins í heild sinni um allt land.

Til framtíðar þá er mikilvægt að horfa til þess sem hefur áunnist en það er líka jafn mikilvægt að nálgast verkefnin með mikilli auðmýkt og hafa það ávallt í huga að ein rétt leið verður aldrei til. Starfsendurhæfing snýst um að hafa áhrif á einstaklinga í síbreytilegu umhverfi og í samfélagi sem verður aldrei eins frá degi til dags. Besta leiðin í dag er því ekki endilega sú besta á morgun auk þess sem viðfangsefnið er flókið og því getur verið erfitt að mæla árangur nema yfir langan tíma og með aðferðum sem munu alltaf byggja að hluta til á forsendum sem aldrei verða óumdeildar.

Starfsendurhæfing krefst stöðugrar þróunar og viðleitni til að skilja betur þarfir einstaklinga og samfélagsins í heild sinni. Því er mikilvægt að það viðhorf sé ávallt til staðar innan VIRK að við getum alltaf gert betur. Við þurfum ávallt að vera tilbúin til að snúa speglinum við og vera gagnrýnin á okkur sjálf en á uppbyggilegan máta. Við þurfum að hafa kjark og þor bæði til að fara nýjar leiðir og til að bakka út úr þeim leiðum sem ekki gáfust vel. Aðeins á þann hátt getum við lært og þróast til gagns fyrir samfélagið og okkur sjálf.

Greinin birtist í ársriti VIRK 2018 - sjá fleiri áhugaverðar greinar og viðtöl hér.


Fréttir

30.05.2024
28.05.2024

Hafa samband