Inntökuferli VIRK og þverfaglegur stuðningur - Skyggnst á bak við tjöldin
Inntökuferli VIRK og þverfaglegur stuðningur - Skyggnst á bak við tjöldin
Íris Judith Svavarsdóttir teymisstjóri hjá VIRK
Þórey Edda Heiðarsdóttir sviðsstjóri mats og rýni hjá VIRK
Frá stofnun VIRK Starfsendurhæfingarsjóðs hefur verið byggt upp öflugt kerfi þverfaglegs stuðnings og faglegs gæðaeftirlits. Tilgangur kerfisins er að tryggja einstaklingum í starfsendurhæfingu bestu mögulegu þjónustu og að þverfaglegt teymi sérfræðinga með mismunandi fagþekkingu komi að málum þjónustuþega ásamt að ráðgjöfum.
Hjá VIRK starfa sérfræðingar sem hafa ýmis hlutverk í starfseminni. Meðal sérfræðinganna eru félagsráðgjafi, hjúkrunarfræðingur, iðjuþjálfar, sálfræðingar og sjúkraþjálfarar auk heilbrigðisgagnafræðinga. Þessi hópur sérfræðinga hefur víðtæka þekkingu og reynslu af ýmsum störfum sem varða kortlagningu heilsubrests, meðferð og endurhæfingu bæði innan heilbrigðiskerfisins og utan þess.
Sérfræðingar VIRK hafa áralanga starfsreynslu meðal annars frá Reykjalundi, Geðsviði Landspítala, vefrænum deildum Landspítala og öðrum endurhæfingarstofnunum. Þekking þeirra og fjölbreytt reynsla nýtist á margvíslegan hátt í starfsemi VIRK þar sem þeir starfa í þverfaglegum teymum.
Sérfræðingar VIRK bera ásamt ráðgjöfum ábyrgð á öllu ferli starfsendurhæfingarinnar og sérfræðingar koma að málum einstaklinga á öllum stigum ferilsins. Verkefni sérfræðinganna snúa m.a. að inntökuferlinu, kortlagningu heilsufarsvanda ásamt því að móta og setja fram tillögur að markmiðum og áætlunum í starfsendurhæfingu. Sérfræðingar veita einnig ráðgjöfum VIRK þverfaglegan stuðning við vinnslu mála og meta framgang í starfsendurhæfingarferli einstaklinga. Að auki framkvæma sérfræðingar möt á stöðu einstaklinga þegar þörf er á. Þá koma þeir að skipulagi og þróun á verklagi og eru í miklu samstarfi við Úrræðasvið VIRK.
Inntökuferli VIRK
Í inntökuferlinu meta sérfræðingar þau gögn sem eru til staðar þ.e. bæði beiðni læknis og svör einstaklinga við spurningalista VIRK. Beiðnir sem berast til VIRK eru flokkaðar í teymi eftir því hvort líkamlegur eða andlegur vandi er frekar hindrandi til atvinnuþátttöku. Oft er um samsettan vanda að ræða og vitað er að andleg heilsa getur haft áhrif á líkamlega heilsu og öfugt.
Í inntökuferlinu þarf að meta þann heilsufarsvanda sem veldur óvinnufærni, færni og færniskerðingar einstaklingsins og áætla tíma sem einstaklingur þarf í þjónustu. Áhersla er ekki síður lögð á að meta styrkleika einstaklingsins og hvar tækifæri hans geta legið með tilliti til atvinnuþátttöku. Skoðað er hvort og þá hvernig heilsubrestur einstaklingsins hindrar endurkomu í fyrra starf, áhugahvöt til vinnu og hvort huga þurfi að nýjum starfsvetttvangi.
Sérstök verkefni hafa verið sett á laggirnar um málefni einstaklinga með tiltekinn vanda. Sem dæmi má nefna einstaklinga með starfstengda kulnun, einstaklinga með fíknivanda og ungt fólk sem er ekki í námi, vinnu eða þjálfun. Sérfræðingar með sérþekkingu á þessum málaflokkum afgreiða þessar beiðnir þar sem mismunandi heilsubrestur og hindranir til atvinnuþátttöku kallar á mismunandi áherslur í starfsendurhæfingu.
Þegar mál einstaklinga eru samþykkt í þjónustu er þeim einnig raðað í flokka út frá alvarleika hindrana til atvinnuþátttöku og hversu mikinn þverfaglegan stuðning sérfræðinga talið er að tiltekið mál þurfi í starfsendurhæfingu.
Sérfræðingar VIRK gera tillögur að áherslum og markmiðum í starfsendurhæfingu þegar beiðni er samþykkt og verða þær vísir að áætlun um endurkomu til vinnu. Mikilvægt er að þær áherslur séu í rökréttu framhaldi af fyrri grunnendurhæfingu eða meðferð og að samfella sé í endurhæfingunni.
Til þess að einstaklingar fái viðeigandi úrræði í starfsendurhæfingu er stundum þörf á að afla frekari gagna úr fyrri endurhæfingu svo sem frá Landspítala, Reykjalundi eða Þraut. Sérfræðingar eru í miklum samskiptum við aðrar stofnanir í heilbrigðisog félagsþjónustu og nýtist sú samvinna vel og er mikilvæg þegar sérfræðingar í þverfaglegum teymum kortleggja vanda einstaklinga, meta hindranir og styrkleika til atvinnuþátttöku og koma með tillögur að áherslum í starfsendurhæfingu.
Árið 2023 voru 3.433 beiðnir um þjónustu afgreiddar í inntökuferli. Alls bárust 3.683 beiðnir á síðasta ári en sjálfvirkt var hætt við 220 beiðnir þar sem einstaklingar svöruðu ekki spurningalista í upplýsingakerfi VIRK eða höfðu afþakkað þjónustu. Rúmlega 71% afgreiddra beiðna voru samþykktar en tæplega 29% var vísað frá.
Árið 2023 voru 3.433 beiðnir um þjónustu afgreiddar í inntökuferli. Alls bárust 3.683 beiðnir á síðasta ári en sjálfvirkt var hætt við 220 beiðnir þar sem einstaklingar svöruðu ekki spurningalista í upplýsingakerfi VIRK eða höfðu afþakkað þjónustu. Rúmlega 71% afgreiddra beiðna voru samþykktar en tæplega 29% var vísað frá.
Þegar beiðnum er vísað frá er það mat inntökuteymis að önnur meðferð eða endurhæfing sé frekar viðeigandi og líklegri til árangurs á þeim tímapunkti. Starfs endurhæfing er þá metin ekki tímabær en verður það mögulega að lokinni annarri endurhæfingu. Sem dæmi má nefna meðferð í heilbrigðiskerfi, aðstoð félagsþjónustu eða Vinnumálastofnunar.
Skilyrði fyrir þjónustu VIRK eru meðal annars þau að viðkomandi geti ekki sinnt starfi sínu að hluta eða öllu leyti vegna hindrana af völdum heilsubrests en að markmið hans sé að verða aftur virkur þátttakandi á vinnumarkaði svo fljótt sem verða má. Nauðsynlegt er að einstaklingur fái viðeigandi þjónustu á réttum tíma í sínu endurhæfingarferli og því er litið til þess hvort þörf sé á frekari meðferð eða endurhæfingu í heilbrigðiskerfi áður en starfsendurhæfing hefst.
Þverfaglegur stuðningur
Þegar inntökuferli er lokið og beiðni um starfsendurhæfingu hefur verið samþykkt útfærir ráðgjafi VIRK tillögur inntökuteymis með þjónustuþeganum og aðstoðar hann við að setja sér markmið um endurkomu til vinnu. Ráðgjafar VIRK geta nýtt sér stuðning og samráð við sérfræðinga og bókað sig á rýnifund hvenær sem þeir telja þörf á eða þegar ákveðinni tímalengd í þjónustu er náð.
Á rýnifundi sitja auk ráðgjafa tveir sérfræðingar með mismunandi fagþekkingu og geta til dæmis verið iðjuþjálfi og sálfræðingur eða sjúkraþjálfari og sálfræðingur. Á fundinum er fjallað um mál einstaklingsins heildstætt og út frá ólíkum sjónarhornum mismunandi fagstétta. Á rýnifundi er fjallað um styrkleika og hindranir, framgang starfsendurhæfingar og þann árangur sem náðst hefur. Einnig er rætt um hvaða úrræði geti gagnast best til að styðja við endurkomu til vinnu og hvernig styrkleikar einstaklingsins geti nýst á vinnumarkaði. Stundum er talin þörf á að breyta áherslum í ferlinu svo markmið náist.
Árið 2023 voru haldnir 2.639 rýnifundir með ráðgjafa og sérfræðingum VIRK. Auk rýnifunda er mögulegt að kalla eftir sérfræðiáliti frá ákveðnum faghópi sérfræðinga sem skoðar mál einstaklings út frá sinni sérþekkingu. Árið 2023 voru 1.272 sérfræðiálit afgreidd af sérfræðingum sviðsins.
Þegar einstaklingar eru komnir í þjónustu VIRK og í ljós kemur í ferlinu að þeir þurfa lengri tíma en metið var í upphafi eða að vandi einstaklings er þyngri eða flóknari en virtist í fyrstu getur verið þörf á mati.
Mat og kortlagning
Í starfsendurhæfingarferlinu er stundum þörf á faglegu mati eða kortlagningu. Í inntökuferli eru möt framkvæmd ef talin er þörf á að kortleggja nánar þann heilsufarsvanda sem veldur óvinnufærni og til að meta hvort raunhæft er að hefja starfsendurhæfingu á þeim tímapunkti. Þegar starfsendurhæfing hefst er miðað við að raunhæft sé að hefja undirbúning og stefnumótun varðandi atvinnuþátttöku samhliða þeim úrræðum sem talin eru nauðsynleg vegna heilsubrests. Iðjuþjálfar, sálfræðingar, sjúkraþjálfarar og læknar gera möt á vegum VIRK.
Sem dæmi kemur mat sjúkraþjálfara til greina þegar stoðkerfisvandi er mest hindrandi til atvinnuþátttöku og fyrri meðferð sem reynd hefur verið hefur ekki skilað þeim árangri sem vonast var til. Sjúkraþjálfarinn metur þá hvort þörf sé á breyttum áherslum í meðferð, hvort starfsendurhæfing sé tímabær eða hvort þörf sé á frekari meðferð eða endurhæfingu í heilbrigðiskerfi áður en til starfsendurhæfingar kemur. Lögð er áhersla á samráð fagaðila í matsferlinu þar sem oft er um samsettan vanda að ræða eins og fram hefur komið. Að loknu matsviðtali verða til niðurstöður varðandi áherslur í starfsendurhæfingu ásamt tillögum að markmiðum og aðgerðum.
Þegar einstaklingar eru komnir í þjónustu VIRK og í ljós kemur í ferlinu að þeir þurfa lengri tíma en metið var í upphafi eða að vandi einstaklings er þyngri eða flóknari en virtist í fyrstu getur verið þörf á mati. Markmið þeirra mata er þá að kortleggja nánar heilsufarsvandann, endurmeta hindranir til atvinnuþátttöku, meta hvort þjónusta VIRK sé enn viðeigandi og/eða hvort þörf sé á breyttum áherslum. Gerð voru rúmlega 1.200 möt hjá VIRK árið 2023.
Einnig eru sérfræðingar sífellt að meta árangur í starfsendurhæfingu og hvað það er sem gagnast best fyrir mismunandi vanda og mismunandi hindranir til atvinnuþátttöku.
Önnur verkefni
Sérfræðingar VIRK koma að fjölmörgum öðrum verkefnum sem snúa að þróun og skipulagi í starfsemi VIRK. Auk náinnar samvinnu við ráðgjafa og atvinnulífstengla þá á mikilvæg samvinna sér stað við Úrræðasvið VIRK. Þar ber að nefna margvísleg samskipti við þjónustuaðila vegna þjónustu við einstaklinga og þróun á nýjum úrræðum í starfsendurhæfingu. Fjölmörg úrræði hafa verið þróuð í góðri samvinnu sérfræðinga og þjónustuaðila út frá þörfum þjónustuþega VIRK og með endurkomu til vinnu að leiðarljósi. Til að mynda hafa sérfræðingar komið að þróun úrræða fyrir ungt fólk og fólk með starfstengda kulnun.
Einnig eru sérfræðingar sífellt að meta árangur í starfsendurhæfingu og hvað það er sem gagnast best fyrir mismunandi vanda og mismunandi hindranir til atvinnuþátttöku. Starfsendurhæfing hjá VIRK er einstaklingsmiðuð og einstaklingar fara ólíkar leiðir í starfsendurhæfingarferlinu enda eru hindranir til atvinnuþátttöku ekki alltaf þær sömu. Samhliða þessum verkefnum eru sérfræðingar í samstarfsverkefnum með öðrum stofnunum með það að markmiði að bæta þjónustu og byggja brýr á milli kerfa í þágu þjónustuþega okkar.
Starfsendurhæfing á Íslandi er ungt fag en mikill vilji og metnaður er til staðar hjá VIRK til þess að auka þekkingu á þessu sviði. Stöðug þróun og umbótastarf hefur verið samofið allri starfsemi VIRK frá upphafi og mikill vilji er til staðar að takast á við nýjar áskoranir. VIRK vill vaxa og dafna í takt við íslenskt samfélag og starfsfólk og ráðgjafar VIRK eru stöðugt að leita leiða og þróa verkefni sem geta bætt árangur VIRK og aukið gæði þjónustunnar.
Grein úr ársriti VIRK 2024.