Fara í efni

Geðheilsa og vinnustaður

Til baka

Geðheilsa og vinnustaður

Jónína Waagfjörð, sviðsstjóri þróunar atvinnutengingar hjá VIRK

Góð heilsa er öllum mikilvæg, góð geðheilsa ekki síður en góð líkamleg heilsa. Þegar við erum í góðu andlegu og tilfinningalegu jafnvægi eigum við auðveldara með að takast á við álag daglegs lífs. Við erum afkastameiri í vinnunni, eigum í góðum samskiptum við samstarfsmenn og getum lagt okkar af mörkum á áhrifaríkan hátt.

Ef ekki er fylgst vel með geðheilsu starfsmanna og brugðist við í tíma þá getur það valdið aukinni fjarveru frá vinnu en rannsóknir sýna að löng fjarvera frá vinnumarkaði ógnar heilsu og lífsgæðum einstaklinga meira en margir lífshættulegir sjúkdómar. Þá eru þeir sem mæta í vinnu þrátt fyrir að þeim líði illa afkastaminni og þurfa oft á aðstoð að halda til að skila eðlilegum afköstum.

Talið er að einn af hverjum fjórum glími við geðræn vandamál á lífsleiðinni og geðraskanir eru algengasta orsök örorku á Íslandi. Tölfræði VIRK sýnir að geðræn vandamál eru önnur algengasta ástæða, ásamt stoðkerfisvandamálum, langtíma fjarveru af vinnumarkaði. Sýnt hefur verið fram á orsakasamband milli þunglyndis- og kvíðaraskana og ýmissa streituþátta í vinnuumhverfinu, s.s. vinnuálags, starfsóöryggis og vinnustreitu.

Þátttaka á vinnumarkaði hefur samt almennt jákvæð áhrif á bæði líkamlega og andlega heilsu einstaklinga – einnig þeirra sem glíma við varanlegan heilsubrest af einhverjum toga. Ef ekki er unnið með geðræn vandamál inni á vinnustaðnum á markvissan hátt þá ýtir það undir áframhaldandi fordóma gagnvart slíkum aðstæðum. Rannsóknir hafa sýnt að fordómar og neikvæð viðhorf virðast skerða lífsgæði og batahorfur einstaklinga sem þjást af geðrænum vandamálum.

Góðir og öflugir stjórnendur mikilvægir

Okkur getur fundist óþægilegt að tala um geðheilsu okkar og/eða annarra í vinnunni. Oft eru veikindi auðskiljanlegri ef við sjáum þau með berum augum og geðræn veikindi geta verið minna áberandi en líkamleg. Því er mikilvægt að brugðist sé við á svipaðan hátt, hvort sem um er að ræða kvíða og/eða þunglyndi eða stoðkerfisvandamál.

Auðvitað er mjög mikilvægur munur á þessum vandamálum þegar kemur að sjúkdómsgreiningu, hvernig upplifun einstaklingsins er og hvers konar meðferðum er beitt. Það er hins vegar margt sem er sameiginlegt með þeim, sérstaklega þegar við skoðum hvernig fólk almennt tekst á við veikindi í vinnunni.

Í báðum tilfellum þarf að gefa tækifæri á sveigjanleika í vinnunni og breytingum á verkefnum en einnig þarf að vera möguleiki á aðlögun á vinnuumhverfi og vinnuálagi. Það er góður upphafspunktur þegar við viljum veita starfsmönnum stuðning vegna geðrænna vandamála að taka á líkamlegum og andlegum vandamálum á sama hátt.

Hér hafa góðir og öflugir stjórnendur mikil áhrif. Þeir eru meðvitaðir um vandamál starfsmanna sinna og sýna þeim hluttekni. Mikilvægt er fyrir stjórnendur að einbeita sér að því að reyna að hafa áhrif á þá þætti í vinnunni sem þeir geta haft áhrif á eins og t.d. vinnuálag, samskiptamenningu, miðlun upplýsinga auk annarra atriða sem þeir geta reynt að hafa áhrif á eins og t.d. vinnusambönd eða val á lífstíl en ekki einblína á þá þætti sem eru algerlega fyrir utan þeirra áhrifasvið eins og t.d. reynsla frá barnæsku, fjölskyldusambönd eða fíknivandamál.

Öll fræðsla til stjórnenda um vellíðan, geðheilsu og geðheilsuvanda er af hinu góða og gerir þeim frekar kleift að ráða við aðstæður og átta sig á því hvenær benda skal starfsmanninum á að leita sér hjálpar hjá fagfólki utan vinnustaðarins.

Hvernig geta stjórnendur stuðlað að jákvæðri geðheilsu?

Nokkur ákveðin atriði geta stjórnendur haft í huga. Fyrst og fremst er mikilvægt að þekkja „merkin“ en algeng einkenni sem geta gefið til kynna að eitthvað sé að eru t.d. aukin óútskýrð fjarvera eða veikindafjarvera og slök tímastjórnun, ákvarðanataka og afköst. Auknir samskiptaörðugleikar við samstarfsfólk eða miklar tilfinningasveiflur gefa einnig tilefni til nánari athugunar.
Gott samband við starfsmenn er mikilvægt. Á stundum getur verið að eitthvað utan vinnunnar sé að hafa áhrif og þá þarfnast viðkomandi helst skilnings og þolinmæði. Í þeim tilfellum er mikilvægt að fylgjast með hvernig starfsmanninum gengur í vinnunni og vera vakandi fyrir breytingum í hegðun og á frammistöðu. Mikilvægt er að benda starfsmönnum á að leita sér sérfræðiaðstoðar ef vandinn virðist vera alvarlegur.

Þegar starfsmaður er fjarverandi vegna veikinda þá er góð vinnuregla að halda reglulegu sambandi og fylgja þeim vel eftir þegar þeir snúa aftur til vinnu. Aldrei skal upplýsa samstarfsmenn og aðra um veikindi einstaklings án hans leyfis. Þá eru fræðslufundir fyrir starfsfólk um málefni er varða geðheilsu góðir til upplýsa og að draga úr misskilningi fólks á geðrænum vandamálum.
Allra mikilvægast er að halda samskiptaleiðum opnum, efla vitund innan vinnustaðarins um geðheilsu og skapa menningu þar sem starfsmönnum finnst þeir geta talað við sína yfirmenn um það sem á þeim hvílir hverju sinni.

Frekari upplýsingar má nálgast í bæklingnum „Geðheilsan og vinnustaðurinn - upplýsingar fyrir stjórnendur“ sem VIRK vann í samvinnu við Landlækni. Nálgast má bæklinginn á skrifstofu VIRK og finna má hann hér á virk.is.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 11. október 2017

 


Fréttir

30.05.2024
28.05.2024

Hafa samband