Fara í efni

Fjarúrræði virka mjög vel

Til baka

Fjarúrræði virka mjög vel

Sigríður Hulda Guðbjörnsdóttir ráðgjafi VIRK á Vestfjörðum

 

Vestfirðir – nafnið eitt vekur tilfinningu um stórfengleika náttúru og sögu um langan aldur. Sigríður Hulda Guðbjörnsdóttir er ráðgjafi VIRK á Vestfjörðum. Hún býr í Bolungarvík en svæðið sem hún þjónustar er allur Vestfjarðakjálkinn og gott betur.

„Ég hóf störf sem ráðgjafi fyrir VIRK á Vestfjörðum fyrir um þremur árum. Auk þjónustu hér fyrir vestan er ég líka ráðgjafi fyrir nokkra þjónustuþega VIRK sem búa á Suðurlandi,“ segir Sigríður Hulda þegar rætt er við hana um starf hennar fyrir VIRK. En hvaða undirbúning hafði hún fyrir þetta umfangsmikla starf?

„Ég er með BA-gráðu í sálfræði frá Háskólanum á Akureyri og svo er ég námskeiðs- og fyrirlestrarfíkill, ef svo má segja. Ég hef viðað að mér mikill þekkingu á þann hátt, gjarnan gegnum netið, ekki síst á tímum Covid19. Ég fylgist vel með öllu sem í boði er á sviði andlegrar heilsu. Ég hef meðal annars farið á námskeið á vegum Endurmenntunar HÍ um sjálfsvíg og sjálfsskaða unglinga. Því miður eru slíkum tilvikum að fjölga“, svarar Sigríður Hulda.

Hvað hefur þú þjónustað marga fyrir VIRK á þessum þremur árum?
„Eitthvað á annað hundrað get ég sagt. Við erum þakklát fyrir tæknina hér á þessu stóra svæði sem oft er erfitt yfirferðar. Vegna tækninnar hef ég líka verið þess umkomin að aðstoða með að stytta biðlista á öðrum svæðum. Þess þarf oft, um einn þriðji af mínum þjónustuþegum fyrir VIRK eru staðsettir á Suðurlandi,“ segir Sigríður Hulda.

Hvað er það helst sem amar að því fólki sem til VIRK leitar og þú þjónustar?
„Það er eins fjölbreytt og fólkið er margt. Algengir eru stoðkerfisverkir svo og einkenni áfalla, einnig langvarandi streituog álagseinkenni – jafnvel allt þetta. En mér finnst ég sjá núna töluvert af einkennum kulnunar – örmögnunar.“

Algengir eru stoðkerfisverkir svo og einkenni áfalla, einnig langvarandi streituog álagseinkenni – jafnvel allt þetta. En mér finnst ég sjá núna töluvert af einkennum kulnunar – örmögnunar.“

Námskeið og netþjónusta

Hvað er til ráða í slíkum tilvikum á þínu svæði?
„Enn á ný kemur tæknin okkur til bjargar hér. Til dæmis er sálfræðimeðferð veitt hér í gegnum netið, hópameðferðir og fræðsla. Staðbundin hér eru námskeið af ýmsu tagi, vatnsleikfimi, jóga og fleira.“

Hvað með læknismeðferð?
„Á Ísafirði er fjórðungssjúkrahús og þangað getur fólk leitað og svo er starfandi heilsugæslustöð í Bolungarvík. Á Patreksfirði er starfandi sjúkrahús og þangað má beina fólki með heilsuvanda og svo er heilsugæsla á Hólmavík. Nauðsynlegt er að hafa aðgang að læknisþjónustu til þess að komast í þjónustu hjá VIRK. Það er alltaf læknir sem sækir um þjónustu fyrir hvern og einn. Hér erum við almennt ekki með heimilislækni því mikið er um að hér starfi afleysingalæknar til lengri eða skemmri tíma.“

Hvar hefur þú höfuðstöðvar?
„Á skrifstofu Verkalýðsfélags Vestfirðinga (VerkVest) við Hafnargötu á Ísafirði. Þar tek ég á móti fólki í viðtöl. Þegar umsókn um þjónustu hefur verið samþykkt af sérfræðingum hjá VIRK í Reykjavík þá fæ ég hana senda til mín. Eftir það hringi ég í viðkomandi einstakling og boða hann í viðtal til mín eða í fjarviðtal, eftir því hvar viðkomandi er búsettur. Í viðtalinu kortleggjum við heilsubrestinn og finnum í sameiningu úrræði sem henta.“

Við höfum samband við sálfræðinga sem starfa hér og þar á Íslandi en líka sálfræðinga sem starfa erlendis, svo sem í Ameríku, Kanada og jafnvel í Pakistan. Þetta gengur mjög vel.

Sálfræðiþjónusta frá Pakistan

Hvaða úrræði eru algengust?
„Sálfræðimeðferð og sjúkraþjálfun. Sálfræðimeðferð er eins og fyrr sagði oft veitt í gegnum netið. Það hefur gefist mjög vel. Fólk getur tekið á móti slíkri meðferð í tölvunni heima hjá sér. Við höfum samband við sálfræðinga sem starfa hér og þar á Íslandi en líka sálfræðinga sem starfa erlendis, svo sem í Ameríku, Kanada og jafnvel í Pakistan. Þetta gengur mjög vel.

Í gegnum Rauða krossinn fékk ég upplýsingar og tengingu við sálfræðing sem hafði unnið fyrir Rauða hálfmánann í Pakistan. Mér tókst að finna leið til þess að fá þjónustu hjá þessum sálfræðingi fyrir einstakling á mínu þjónustusvæði. Ég ræddi þetta úrræði við Úrræðateymið hjá VIRK fyrir sunnan og fékk það samþykkt. Sú reynsla sem fékkst hefur verið mjög góð þannig að hugsanlegt er að þetta úrræði gagnist fleirum í framtíðinni. Þetta ferli tók auðvitað tíma en mér fannst þetta mjög skemmtileg lausn. Ég var mjög ánægð með að hafa náð þessu því þetta eykur þjónustugildi VIRK. Það er einmitt svo frábært við VIRK hve þjónustan sem boðið er upp á er einstaklingsmiðuð. Ég veit ekki betur þetta sé í fyrsta skipti sem sálfræðiþjónusta frá Pakistan stendur til boða. Þetta sýnir að það er margt hægt að gera með tækni og því að vera lausnamiðaður.“

Náttúruefndurhæfing reynist vel

En hvað með úrræði sem eru staðbundin?
„Við erum með Starfsendurhæfingarstöð Vestfjarða. Hún er staðsett á Ísafirði. Þar er boðið upp á ýmis úrræði. Nefna má úrræði sem kallað náttúruendurhæfing – það er úrræði sem á sér stað úti í náttúrunni, svo sem göngur og ræktun á ýmiskonar plöntum. Í raun kallar þetta úrræði á viðveru úti í náttúrunni, þess vegna í fjöru, inni í skógi, upp á fjalli og jafnvel bara úti í garði.“

Er þetta vinsælt og gerir gagn?
„Já. Harpa Kristjánsdóttir forstöðumaður starfsendurhæfingarstöðvarinnar sýndi fram á í meistararitgerð sinni um náttúrutengda endurhæfingu að þetta úrræði skilar árangri í starfsendurhæfingu.“

Er fólk orðið fjarlægt náttúrunni?
„Ég held að svo sé – að við séum almennt búin að missa jarðtenginguna, ef svo má að orði komast. Í dag er hraðinn, álagið, áreitið og streitan svo mikil að við erum hætt að snerta jörðina í óeiginlegum skilningi. Það er róandi fyrir fólk að komast í tengsl við náttúruna svo sem á kyrrðarstundum, í hugsleiðslu, núvitund eða jóga. Við hér úti á landi erum þakklát fyrir að hafa náttúruna „í bakgarðinum“, eins og við köllum það. Einnig býður Fræðslumiðstöð Vestfjarða upp á margs konar námskeið sem við getum nýtt fyrir okkar fólk í starfsendurhæfingu.“

Satt að segja er oftast um að ræða mikið álag á mörgum vígstöðvum sem veldur heilsubresti hjá fólki. Þeir sem koma til mín eru á öllum aldri, frá tvítugu og fram á eftirlaunaaldur.

Fólk leitar til VIRK úr öllum stéttum

Hvað með atvinnumöguleika á þessu svæði sem þú sinnir?
„Ég er líka atvinnulífstengill fyrir mitt þjónustusvæði hjá VIRK en fólk hér er almennt nokkuð úrræðagott að finna sér sjálft starf ef það hefur dottið út af vinnumarkaðinum.“

Úr hvaða starfsstéttum er það fólk sem leitar helst til VIRK og þín?
„Það er bara öll flóran, engin sérstök starfstétt kemur þar við sögu fremur en önnur. Nú er faraldurinn vonandi á undanhaldi en ég býst frekar við að til VIRK leiti á næstunni fólk sem mikið hefur mætt á undanfarin ár vegna þessara miklu veikinda. Ég finn fyrir því að mikið álag hefur verið á kennurum, sjúkraliðum og fleira fólki sem tengt er umönnun.“

Hvað með andlegt ástand fólks á þínu þjónustusvæði vegna erfiðleika sem Covid19 faraldurinn hefur valdið?
„Fólk kemur inn til mín í kulnunarástandi sem ekki tengist endilega þessum faraldri. Satt að segja er oftast um að ræða mikið álag á mörgum vígstöðvum sem veldur heilsubresti hjá fólki. Þeir sem koma til mín eru á öllum aldri, frá tvítugu og fram á eftirlaunaaldur.“ Snemmtæk þjónusta og fjölbreytt mikilvæg Er misjafnt eftir aldri hvaða úrræði gagnast? „Ég get upplýst að ég hef áhyggjur af andlegri líðan ungs fólks á mínu svæði. Þá er ég að ræða um fólk frá unglingsaldri og fram undir þrítugt. Ég hef mestar áhyggjur af andlegri líðan fólks á þessum aldri. Ég á sæti í bæjarstjórn Bolungarvíkur og hef þar viðrað þessar áhyggjur mínar og þau úrræði sem ég tel að gangist. Ég vil í þessu sambandi nefna Farsældarlögin sem nýlega voru sett og eru ætluð til þess að auka snemmtæka þjónustu við fólk á þessum aldri. Mikilvægt er að gripið sé inn í nógu fljótt og nýtt séu svokölluð samþætt úrræði til að koma í veg fyrir að illa fari.

Ég hef einnig nýtt mér þær tengingar sem ég hef inn á Alþingi Íslendinga. Ég hef rætt við Höllu Signýju Kristjánsdóttur sem er þingmaður Framsóknarflokks á þessu svæði og sagt henni frá áhyggjum mínum af unga fólkinu okkar og skorti á úrræðum á Vestfjörðum. Þetta kann við fyrstu sýn að líta út fyrir að vera ótengt starfi mínu fyrir VIRK – en svo er þó ekki.

Foreldrar þessa unga fólks eru oft þjónustuþegar VIRK hér og þetta skiptir máli fyrir framgang í endurhæfingu. Það hafa komið upp mál varðandi mikla vanlíðan ungs fólks þessu svæði undanfarið sem kalla á aðgerðir. Ég hef einnig viðrað þetta málefni við barnamálaráðherra, Ásmund Einar Daðason.“

Hvað með líðan eldra fólks sem hefur dottið út af vinnumarkaði?
„Það gengur betur að finna úrræði fyrir það fólk. Oft hefur það farið nokkuð lengi áfram á hörkunni og svo fundið fyrir kulnunareinkennum. En þetta fólk er lífsreyndara og hefur þann grunn sem þarf til að fara fljótt af stað í úrræði og þá vinnu sem þeim fylgja.“

Það skiptir miklu máli fyrir fólk sem missir heilsuna að eiga möguleika á þjónustu sem VIRK veitir til komast aftur til heilsu og vinnu.“

Úrræðum hefur fjölgað að undanförnu

Hvaða reynslu á vinnumarkaði hefur þú umfram nám þitt í sálfræði?
„Ég hef unnið allsstaðar ef svo má segja. Ég byrjaði að vinna launavinnu tólf ára í hverfaverslun, skúraði meðfram námi, hef unnið í fiski, leikskóla, grunnskóla og þar fram eftir götunum. Í öllu sem ég hef unnið við hef ég tekið með mér reynslu sem nýtist mér í lífinu almennt og í starfi mínu fyrir VIRK.

Reynsla og fjölbreytt samskipti móta mann ekki síður en menntun. Vegna fjölþættrar reynslu á vinnumarkaði skil ég oft betur vandkvæði þeirra sem leita eftir þjónustu hjá VIRK. Samskipti eru mér hugleikin, flest allt sem byrjar á „sam“; samkennd, samvinna, sambönd, samfélag og svo framvegis.“

Hefur margt breyst í starfi VIRK á þessum þremur árum sem þú hefur unnið sem ráðgjafi?
„Já það hefur margt breyst. Einkum hvað varðar netþjónustu. Úrræðum hefur fjölgað gríðarlega vegna Covid19. Ég vona að úrræðum þar haldi áfram að fjölga. Við hér höfum reynslu af því að fjarúrræði virka mjög vel.

Síðustu rúm tvö ár hafa verið krefjandi fyrir alla og við höfum þurft að einangra okkur mikið og hitt færra fólk en áður gerðist. Þess vegna tel ég það vera mikilvægt núna, þegar þetta tímabil er að renna sitt skeið, að við gleðjumst eftir föngum. Förum út, hittum fólk, aukum gleðina, aukum hamingjuna, hlæjum hátt og hlæjum mikið. Hrósum okkur fyrir sigrana og deilum þeim með fólkinu okkar. Hrósum og samgleðjumst öðrum.“

Reynsla og fjölbreytt samskipti móta mann ekki síður en menntun. Vegna fjölþættrar reynslu á vinnumarkaði skil ég oft betur vandkvæði þeirra sem leita eftir þjónustu hjá VIRK. 

Hefur starfsemi VIRK þarna skilað miklu að þínu mati til samfélagsins?
„Já, klárlega. Mér finnst VIRK vera stórkostleg þjónusta og hún nýtist mjög vel. Margir eru þakklátir fyrir þjónustu VIRK og hún kom á réttum tíma, einmitt þegar margir áttu um sárt að binda eftir hrunið. Það skiptir miklu máli fyrir fólk sem missir heilsuna að eiga möguleika á þjónustu sem VIRK veitir til komast aftur til heilsu og vinnu.“

Viðtalið birtist fyrst í ársriti VIRK 2022

Texti: Guðrún Guðlaugsdóttir
Mynd: Ágúst G. Atlason


Fréttir

30.05.2024
28.05.2024

Hafa samband