Allskonar kvíði
Allskonar kvíði
Guðrún Ágústa Eyjólfsdóttir, sálfræðingur og sérfræðingur hjá VIRK
Kvíði er sammannleg tilfinning sem allir kannast við og ekki síst þeir sem glíma við heilsubrest sem hindrar fulla þátttöku á vinnumarkaði. Kvíðaröskun getur einnig verið heilsubresturinn sem hefur leitt til þess að einstaklingurinn er í starfsendurhæfingu.
En hvenær er þetta eðlilegur kvíði og hvenær er hann alvarleg kvíðaröskun? Munurinn felst ekki eingöngu í því hve sterk einkennin eru, það geta komið upp aðstæður þar sem það er fullkomlega eðlilegt að finna fyrir dúndrandi hjartslætti og að það sé eins og maður hafi verið kýldur í magann. Þetta snýst um samhengi, innihald og afleiðingar.
Líkamleg einkenni kvíða
Líkamleg einkenni kvíða geta verið allt frá því að vera vægur seyðingur, smá ónot í maga og aðeins aukin svitamyndun yfir í að vera mjög þungur eða hraður hjartsláttur, köfnunartilfinning, verkur yfir brjósti og skjálfti sem hellist yfir á augabragði og fólk óttast jafnvel að það sé að syngja sitt síðasta. Öll þessi einkenni koma frá sama varnarviðbragðinu sem gjarnan er kallað ótta-flótta viðbragðið (e. Fight-or-flight response).
Þetta viðbragð hefur þróast hjá manninum í gegnum árþúsundin til að hjálpa honum að lifa af. Þegar maðurinn stendur frammi fyrir aðstæðum þar sem líf hans er í hættu hefur alla jafna verið gagnlegt að annað hvort berjast eða flýja og því hraðar og öflugar, því betra. Þá fer orkan í að koma súrefnisríku blóði í stóru vöðvana og því fara hjartað og lungun að hamast. Vöðvarnir eru spenntir og í viðbragðsstöðu. Æðar dragast saman í fingrum, andliti og öðrum líkamshlutum sem ekki gagnast í bardaga eða á flótta. Meltingunni er slegið á frest og því dregur einnig úr blóðflæði til meltingarfæra og dregur úr framleiðslu meltingarvökva. Það er lítið gagn í að splæsa orku í að melta seinustu máltíð ef að rándýrið nær þér og þú verður máltíðin.
Þægindi eða vellíðan eru neðst í forgangsröðun varnarviðbragðsins og það er mjög óþægilegt þegar viðbragðið fer í gang, sérstaklega þegar viðbragðið fer af stað þegar ógnin er óljós. Það getur þurft misjafnlega mikið til að kveikja á viðbragðinu. Þegar á undan hefur gengið tímabil þar sem ógn hefur legið í loftinu eða verið langvarandi álag þá þarf minna til að ræsa kerfið að fullu. Þegar kerfið fer af stað í eðlilegu samhengi, t.d. þegar bíll kemur æðandi að manni, þá hefur fólk yfirleitt ekki áhyggjur af einkennunum. En þegar varnarviðbragðið fer á fullt án nærtækrar skýringar þá vekja líkamlegu einkennin oft mikinn ótta. Fólk heldur að það sé jafnvel að fá hjartaáfall, kafna, ganga af göflunum eða eitthvað álíka slæmt. Það að fá slíkt kvíðakast getur leitt til ofsakvíðaröskunar (e. Panic disorder) sem einkennist af endurteknum slíkum köstum og/eða forðun frá aðstæðum sem fólk óttast að fá ofsakvíðaköst.
Hugsun og hegðun
Það breytist líka hvernig hugurinn virkar þegar hætta steðjar að. Framheilinn er fær um afar flókna starfsemi þar sem við getum vegið og metið aðstæður, velt fyrir okkur möguleikum og einbeitt okkur nokkurn veginn að því sem við óskum. En framheilinn er hægvirkur, í það minnsta samanborið við gamla ósjálfráða taugakerfið. Í varnarviðbragðinu dregur úr virkni framheilans og því getur verið erfitt að einbeita sér eða muna hluti þegar óttinn er mikill.
Það sem einum þykir ógnvænlegar aðstæður, þykir öðrum ekkert tiltökumál. Hugurinn er í sífellu að leggja mat á aðstæður út frá fyrri reynslu og viðhorfum. Því fer það eftir mati fólks á aðstæðum hvort að þær veki ótta eða ekki, og þá hve mikinn ótta. Í því samhengi skiptir líka máli hvað fólki finnst um það að finna til ótta eða vera kvíðið. Að óttast kvíðaeinkenni magnar upp kvíða og getur orðið til þess að hann verði meira hamlandi og fólk verður líklegra til að forðast aðstæður sem valda kvíða.
Það er þrenns konar hegðun sem viðheldur kvíðavanda: forðun, flótti og öryggishegðun. Forðun er þegar við sneiðum hjá kvíðavaldandi aðstæðum, flótti er þegar við förum út úr aðstæðum af því að þær vekja kvíða og öryggishegðun er ýmis hegðun sem er ætlað að auka öryggi þess sem er kvíðinn en verður í raun til þess að viðkomandi heldur áfram að trúa því að aðstæður séu hættulegri en þær eru.
Besta leiðin til að komast að því hvort að ótti sé á rökum reistur er að fara inn í aðstæðurnar. Það er þó ekki alltaf eins einfalt og það hljómar. Þegar um er að ræða þennan eðlilega kvíða þá er þetta ekki svo mikið mál. Fyrsti skóladagurinn er mörgum börnum kvíðvænlegur eins og gengur og gerist þegar fólk fer inn í nýjar aðstæður. Það fylgir nýjum aðstæðum óvissa og það er hægt að fylla upp í óvissu með ýmsu, góðu og slæmu. Bestu tækifærin eru að fá að komast að því að við getum ráðið við aðstæður þrátt fyrir að vera kvíðin og enn betra þegar fólk nær að njóta og gleyma sér í aðstæðum sem það óttaðist áður.
Kvíðaraskanir – hver er óttinn?
Kvíðaröskun er þegar kvíðinn er óhóflegur miðað við aðstæður og hann er farinn að valda mikilli vanlíðan og truflun í lífi fólks. Fólk fæðist ekki með kvíðaröskun en það er samt að upplagi misjafnlega næmt fyrir kvíða. Það þekkja margir foreldrar, sem eiga tvö eða fleiri börn, að það getur verið mjög ólíkt hvernig þau bregðast við nýjum aðstæðum eða hversu óhrædd þau eru að kanna umhverfi sitt. Þau sem þurfa meiri hvatningu og stuðning til að kanna heiminn og hræðast auðveldlega eru í aukinni hættu á að fá kvíðaröskun. En þau sem hafa ekki aukið kvíðanæmi frá æsku geta líka fengið kvíðaröskun.
Þegar kvíði er orðinn röskun hefur myndast vítahringur hugsunar og hegðunar. Hlutur hugsunar er oftast á þá leið að aðstæður eru taldar hættulegri en þær eru eða vantrú á að geta ráðið við aðstæður. Það getur verið gott að taka dæmi af sértækri fælni eins og hundafælni. Þá eru til staðar viðhorf um að hundar séu hættulegir. Viðhorfin geta myndast út frá slæmri reynslu af hundum, en það þarf ekki að vera. Þá er gott að endurmeta hugsanirnar sem spretta af þessum viðhorfum en það eitt er sjaldnast nóg til að hafa áhrif á óttann. Þegar um er að ræða kvíðaröskun þarf undantekningarlaust að breyta hegðun. Sama þó að sá fælni haldi langa og vel rökstudda ræðu um ágæti hunda þá hefur það lítið að segja ef að sá hinn sami leggur á flótta í hvert sinn sem hann verður var við hund eða sneiðir hjá að fara í gönguferðir eða heimsóknir þar sem gætu verið hundar.
Eins og fyrr segir er það gamla varnarkerfið sem er við stjórnvölinn þegar óttinn tekur völdin. Því er erfitt að rökræða við sjálfan sig í því ástandi. Gamla kerfið skilur ekki auðveldlega rök, það hlustar á hegðun. Eins og þegar barn mætir hundi á göngu með móður sinni. Það tekur lítið mark á því sem hún segir um að þeir séu ekki hættulegir ef að móðirin á sama tíma hraðar sér eins og hún getur með þau sem lengst frá hundinum. Börnin taka meira mark á hegðun heldur en orðum.
En hvað er að verki þegar að sá kvíðni þarf að fara endurtekið í kvíðvænlegar aðstæður en það verður ekki til þess að það dragi úr kvíðanum. Þetta er oft raunin með félagskvíðaröskun, það er ekki hægt að sneiða alveg hjá því að umgangast fólk eða flýja úr öllum félagslegum aðstæðum. Þeir sem eru með félagskvíða beita oft á tíðum ýmissi öryggishegðun til að koma í veg fyrir að ótti þeirra rætist.
Óttinn í félagsfælni er að verða fyrir niðurlægingu, gera sig að fífli eða með öðrum hætti neikvætt mat annarra. Sá félagsfælni óttast einnig að aðrir sjái á honum að hann sé kvíðinn og óttast því einkenni kvíða. Öryggishegðun sem er algeng í félagskvíða er að forðast athygli, forðast augnsamband og horfa því mikið niður, hugsa mikið um hvað hann ætlar að segja næst eða með einhverjum hætti að finna leiðir til að fela kvíðaeinkenni. En það að horfa í sífellu niður og reyna að undirbúa vel hvað maður ætlar að segja næst truflar flæði í samtölum og getur þess vegna staðfest það sem sá félagskvíðni óttaðist. Jafnvel þegar öryggishegðun virkar ágætlega í aðstæðunum getur hún viðhaldið óttanum, „það er eins gott að ég tók róandi annars hefðu allir séð hvað ég er kvíðinn“ eða „ef að vinkona mín hefði ekki komið með hefði ég staðið ein í veislunni allan tímann og fólki hefði fundist ég ömurleg“.
Ógnvekjandi aðstæður hafa áhrif á hverju fólk veitir athygli. Sá sem er kvíðinn skimar og tekur eftir því sem gæti verið hættulegt. Eins og sá hundafælni er sá fyrsti til að koma auga á hund í fjarlægð. En stundum kemur ógnin ekki að utan heldur að innan. Þegar fólk er haldið heilsukvíða fer það að fylgjast mjög vel með öllu sem það finnur fyrir í líkamanum og ef það verður vart einhverra breytinga þá leitar það allra leiða til að fá fullvissu um að það sé ekki haldið sjúkdómi. Það er tvennt í þessu sem er erfitt viðureignar. Í fyrsta lagi er alltaf eitthvað um að vera í líkamanum sem við veitum enga athygli. En þegar við byrjum að veita einhverjum líkamshluta eða líkamsstarfsemi aukna athygli byrjar maður að finna fyrir ýmsu. Það að fá tölvupóst frá skólanum um að lús hafi greinst í bekk barnsins fær mann ósjálfrátt til að veita hársverðinum athygli og áður en langt um líður byrjar maður að klóra sér í höfðinu. Annað dæmi er konan sem fer að velta fyrir sér hvort að hún sé ólétt, oft líður ekki á löngu þar til hún tekur eftir hinum ýmsu merkjum þungunar sem hverfa eins og dögg fyrir sólu þegar niðurstöður þungunarprófsins liggja fyrir.
Annað sem er erfitt viðureignar er fullvissan. Sama hversu mikið við reynum þá er nær ómögulegt að vera fullviss um nokkuð, hvað þá um að vera ekki haldin neinum sjúkdómi. Það er hægt að fara í læknisfræðilegar rannsóknir sem geta friðað óttann um stund en oftar en ekki fer að koma upp efi. Óvissa er hluti af tilverunni sem ekki er hægt að útrýma.
Almenn kvíðaröskun er þegar fólk hefur óhóflegar áhyggjur af einu og öllu. Það sem einna helst liggur að baki þessum óhóflegu áhyggjum er það að þola illa óvissu og þá eru áhyggjur leið til að reyna að draga úr henni. Með því að reyna að sjá fyrir og undirbúa hina ýmsu möguleika dregur fólk með almenna kvíðaröskun tímabundið úr óvissunni og þar með úr kvíðanum. En það er mikið hugrænt álag og streita sem fylgir sífelldum áhyggjum.
Kvíði og streita
Það veldur mikilli streitu að vera með kvíðaröskun og það að búa við langvarandi álag og streitu veldur kvíða. Streita og kvíði einkennast bæði af virkjun varnarviðbragðsins og hafa það hlutverk að búa okkur undir krefjandi aðstæður. Það er auðveldara að aðgreina streitu og kvíðaröskun heldur en að reyna að aðgreina streitu og eðlilegan kvíða.
Í kvíðaröskunum er oftast auðvelt að koma auga á hvað það er sem veldur kvíðanum og meta hvort að kvíðinn sé óhóflegur miðað við aðstæður. Það er einna helst í almennri kvíðaröskun sem þessi aðgreining verður erfiðari. Í almennri kvíðaröskun er það svo margt sem kvíðinn og áhyggjurnar beinast að og er oft síbreytilegt. Það er eins og það taki alltaf eitt við af öðru, þegar áhyggjur dvína vegna einhvers þá líður ekki á löngu þar til eitthvað annað er farið að valda áhyggjum. Vísbending um að um sé að ræða almenna kvíðaröskun er m.a. að áhyggjurnar eru óhóflegar og illviðráðanlegar.
Einnig getur fólk með almenna kvíðaröskun átt erfitt með að leysa vandamál, það óttast að taka rangar ákvarðanir sem getur orðið til þess að vandamálin stækka og verða fleiri. Einnig fer fólk með almenna kvíðaröskun að búa sig undir vandamál sem gætu orðið en mörg hver verða aldrei til nema í huga fólksins. Því er grundvallarspurningin sú „er þetta orðið vandamál sem þarf að leysa?“ Ef að svarið er já, þá er besta leiðin til að takast á við kvíðann að takast á við vandamálið. Ef að svarið er nei, þá er vænlegast að leyfa sér að finna fyrir óvissunni og gangast við henni.
Þeir sem búa við langvarandi streitu og álag fara að finna fyrir kvíða í auknum mæli. Þetta gerist þegar kröfur lífsins eru komnar umfram það sem við náum að takast á við með góðu móti. Þegar langvarandi streita fer að taka toll þá dregur það einnig úr getunni til að takast á við verkefni og vandamál sem aftur eykur á streitu og kvíða. Þá verður oft einnig vart við orkuleysi og depurð. Því er mikilvægt að leita aðstoðar fagfólks til að leita leiða til að rjúfa slíkan vítahring.
Greiningar hafa á sér misjafnan orðstír og eru oft á tíðum notaðar á óheppilegan hátt. Tilgangur þess að greina vanda fólks er að skilja vandann til að geta leyst hann á viðeigandi hátt og til þess að veita viðeigandi stuðning eða meðferð þegar þess þarf. Greining er ekki til þess fólgin að stimpla eða flokka fólk og alls ekki til þess að gefa fólki þau skilaboð að það sé ekkert sem það geti gert til að bæta líðan sína og stöðu.
Hugræn atferlismeðferð (HAM) er gagnreynd meðferð við kvíðaröskunum, þ.e. endurteknar rannsóknir á HAM meðferð við kvíðaröskunum hafa sýnt fram á að meðferðin virkar. Það hafa verið þróaðar sértækar meðferðir byggðar á HAM hugmyndafræðinni fyrir ólíkar kvíðaraskanir. Því er mikilvægt að leita til sérhæfðra fagaðila þegar um alvarlega kvíðaröskun er að ræða.
Kvíði og endurkoma til vinnu
Í kvíðameðferð þarf sá kvíðni að hafa tækifæri til að æfa það sem hann lærir í meðferð í raunverulegum aðstæðum. Því er það gagnlegt í starfsendurhæfingu að sá kvíðni geti hafið atvinnuþátttöku á meðan á kvíðameðferð stendur. Að ná bata við kvíðaröskun merkir ekki að vera ekki kvíðinn, heldur að kvíðinn er ekki hamlandi og það dregur úr honum með tímanum.
Það getur valdið töluverðum kvíða að hugsa um að fara í vinnu eftir að hafa verið óvinnufær um tíma, hvort sem fólk hefur verið að glíma við kvíðaröskun eða ekki. Stundum er það að stíga sín fyrstu skref inn á nýjan starfsvettvang en í öðrum tilfellum að snúa til baka inn á sinn fyrri vinnustað. Hvor staðan sem er býður upp á ýmsar áskoranir og óvissu. Því er gott ef að möguleiki er á stigvaxandi endurkomu til vinnu, þá gefst tækifæri til að aðlagast breytingunum á viðráðanlegum hraða með viðeigandi stuðningi. Það er líka mikilvægt að fólk haldi áfram að nýta það sem hefur reynst því vel í starfsendurhæfingunni.
Kvíðinn er ekki óvinurinn en þegar hann fer að stjórna lífi okkar og verður til þess að við fáum ekki notið hæfileika okkar þá þarf að staldra við og kynnast kvíðanum sínum betur. Kvíðinn er hluti af varnarviðbragði sem þróaðist til þess að halda okkur á lífi og er ekki hættulegt þó að það sé óþægilegt. En kvíðinn getur farið úr böndunum og breyst í ofverndandi harðstjóra. Þá er gott að hlusta á hann en það þarf ekki að hlýða honum. Stundum þarf að sýna honum að þetta er allt í lagi og hann verður rólegri næst.
Greinin birtist fyrst í ársriti VIRK 2020.