Fara í efni

Álít styrkleikamerki að leita til VIRK

Til baka

Álít styrkleikamerki að leita til VIRK

Karen Björnsdóttir ráðgjafi VIRK hjá BSRB

 

Viðmótið sem mætir manni á skrifstofu Karenar Björnsdóttur, ráðgjafa VIRK hjá BSRB, ber vott um að þar fari manneskja sem er vön að tala við fólk. Við tyllum okkur niður með Karen og ræðum stundarkorn við hana um starf ráðgjafa frá ýmsum hliðum og þær áskoranir í vinnulagi sem kórónuveirufaraldurinn hefur krafist.

„Ég er einn af þessum „gömlu ráðgjöfum“ eins og við segjum. – Byrjaði að starfa sem ráðgjafi hjá VIRK fyrir ellefu árum,“ segir Karen og brosir. „Ég er kennari að mennt, lauk námi frá Kennaraháskóla Íslands 1992. Eftir það kenndi ég í fjögur ár. En mig langaði að læra eitthvað meira og fyrir valinu varð náms- og starfsráðgjöf í Háskóla Íslands sem ég lauk meistaraprófi í. Í lok námsins réð ég mig sem náms- og starfsráðgjafa við Háskólann í Reykjavík, þar vann ég í sjö ár,“ bætir hún við.

Reyndist það góður undirbúningur undir starf ráðgjafa hjá VIRK?
„Vissulega. Ég vann við einstaklingsráðgjöf þessi sjö ár. Í námsog starfsráðgjafanámi er kennsla í viðtalstækni mjög góð. Þessi reynsla var mér mikilvæg þegar ég tók að ræða við þjónustuþega VIRK. Á þeim vettvangi er oft verið að fjalla um viðkvæm mál.“

„Þetta hefur gengið ótrúlega vel þótt hvorki fjarfundir né símaviðtöl komi í staðinn fyrir að hitta aðra manneskju. Við höfum leitt fólk í gegnum þetta, hjálpað því að nota búnaðinn. Sumir hafa verið mjög hikandi, kunnað lítið á tölvur. En í heild hefur þetta sem sagt gengið vel.“

Veistu eitthvað um þá sem leita til þín áður en þeir koma?
„Já, þá er ég búin að fá upplýsingar í beiðni frá tilvísandi lækni. Einnig í svörum einstaklingsins við spurningum sem hann hefur svarað í kerfi VIRK í upphafi. Ég segi því þeim sem til mín koma að ég hafi þessar upplýsingar og fer yfir þær með viðkomandi og þá bætast venjulega við nánari frásagnir. Ég segi fólkinu að ég sé bundin trúnaði og yfirleitt finn ég að það treystir mér.

Ég legg áherslu á að mæta mínum þjónustuþegum þar sem þeir eru staddir, ef svo má orða það. Þegar manneskjan er komin inn til mín þá á hún tímann minn; þetta segi ég við nema sem eru stundum hjá mér í náms- og starfsráðgjöf. Ég legg mig fram um að hlusta vel og láta viðkomandi finna að ég sé að einbeita mér að því sem hann hefur að segja og að hann skipti máli.“

Hvaðan koma þínir þjónustuþegar?
„Ég starfa sem ráðgjafi hjá Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja og til mín koma starfsmenn úr hinum ýmsu starfsgreinum og með mismunandi menntun – allt upp í háskólamenntun. En þeir eiga það allir sameiginlegt að vera í stéttarfélagi BSRB.“

Hvernig er kynjahlutfallið hjá þeim sem leita til þín á vegum VIRK?
„Meirihlutinn er konur en auðvitað koma karlar líka í þjónustu hér. Í upphafi er fólkið sem kemur fremur illa statt, ella myndi það varla leita til VIRK. Það er hrjáð af andlegri þreytu, streitu, kulnun, afleiðingum slysa og veikinda og fleira mætti nefna. Sumar starfsgreinar reyna mikið á líkamlega þannig að með tímanum fer stoðkerfið að láta undan síga. Oft líður fólki í slíkri stöðu illa, því líkar starf sitt vel en getur ekki lengur sinnt því.“

Ræðir fyrst um starf VIRK

Hvernig byrjar þú að ræða við þá sem koma til þín?
„Áður heilsaði ég nýjum þjónustuþega með handabandi en nú heilsumst við úr fjarlægð. Áður bauð ég upp á kaffi og vatn en þegar grímurnar komu til sögunnar var það ekki hægt. Svo býð ég viðkomandi sæti og ræði við hann um VIRK og starfið þar. Síðan kemur að einstaklingsbundnum upplýsingum. Eftir það skrái ég þær upplýsingar um einstaklinginn sem máli skipta inn í kerfi VIRK í samráði við hann.“

Hvað er það sem máli skiptir?
„Fyrst það sem hindrar fólk frá atvinnuþátttöku og svo hvaða markmið það setur sér í endurhæfingunni. Einstaklingurinn stjórnar alltaf ferðinni en ég er til aðstoðar. Framfarir eru einnig skráðar og þau úrræði sem gripið er til hverju sinni í starfsendurhæfingunni. Í fyrstu hitti ég fólk einu sinni í viku, síðan mánaðarlega ef allt er með eðlilegum hætti. Þá er farið yfir hvernig málin ganga. Rætt um hvert markmið fyrir sig og um framvindu sem ég skrái svo oftast meðan einstaklingurinn er hjá mér og fylgist með.

Ekki er samt allt skráð í hina svokölluðu framvindu. Ýmislegt gerist í lífinu sem hefur áhrif en á ekki heima í þessum upplýsingum. En þetta „ýmislegt“ getur verið mikilvægt og þá er það skráð inn í okkar sérstaka vinnusvæði með samþykki viðkomandi einstaklings. Þess má geta að við ráðgjafar leggjum mikla áherslu á að draga fram styrkleika einstaklingsins.“

Streita meira áberandi en áður

Hefur orðið breyting í hópnum sem leitar til þín á þessum ellefu árum sem þú hefur unnið hjá VIRK?
„Það hefur auðvitað fjölgað mjög í hópnum. Ef ég ætti að nefna eitthvað eitt þá finnst mér streita meira áberandi en áður – án þess auðvitað að hafa gert neina vísindalega rannsókn á þessu – þetta er meira mín tilfinning. Kannski stafar þetta af því að fólk verður fyrir meira áreiti nú en áður – til dæmis vegna samfélagsmiðla. Svo hefur hraðinn í þjóðfélaginu aukist. Í stórum dráttum er þetta þó svipað.

Fólk leitar eftir þjónustu hjá VIRK vegna andlegra erfiðleika, kvíða og þunglyndis og svo eru það stoðkerfisvandamálin. Lengi vel þolir fólk álag og streitu en svo gerist kannski eitthvað sem fyllir mælinn og því finnst það ekki geta meira. Ekki bætir úr skák að stundum er fólk ekki með há laun, til dæmis þeir sem eru einir að reka heimili og sjá um börn. Fjárhagsáhyggjur valda oft mjög miklum erfiðleikum.“

Hvernig er hægt að bregðast við slíkum vanda?
„Fólk sem er í starfsendurhæfingu verður að vera með trygga framfærslu. Sem betur fer á fólk sem leitar til VIRK oft inni veikindaleyfi. Nú kemur það gjarnan fyrr í þjónustuna sem breytir miklu. Hér áður kom fólk kannski ekki fyrr en eftir að það var búið að nýta sinn veikindarétt. Starfsemi VIRK er orðin þekkt í samfélaginu sem leiðir til að fólk snýr sér fyrr til okkar. Læknar benda þeim sem til þeirra leita líka á þennan möguleika í ríkari mæli.

Þegar launum einstaklinga í veikindaleyfi lýkur leiðbeinum við ráðgjafar VIRK þeim hvert þeir geta leitað. Fyrst til síns stéttarfélags og samhliða því gjarnan til Sjúkratrygginga Íslands. Þegar þessir þættir eru fullnýttir getur fólk sótt um endurhæfingarlífeyri til Tryggingastofnunar. Hann getur fólk einnig fengið í tiltekinn tíma samhliða hlutavinnu þegar út á vinnumarkaðinn kemur.“

Áhrifa Covid-19 gætir enn ekki að ráði

Hvaða vandamál er algengast að fólki leiti til VIRK með núna á tímum Covid-19?
„Hvað varðar kórónuveirufaraldurinn þá tel ég að áhrifa hans sé ekki farið að gæta að ráði í þeim hópi sem nú er í þjónustu hjá VIRK. Ég hef allavega ekki enn sem komið er orðið mikið vör við það. En auðvitað hefur Covid-19 faraldurinn áhrif á þá sem komnir voru í þjónustu VIRK þegar hann hófst. Við höfum fundið það á fólki sem var byrjað hjá okkur þá að því hefur fundist ástandið erfitt.“

„Fjölbreytnin og árangurinn sem einkennir starfsemi VIRK gerir ráðgjafastarfið skemmtilegt. Ég álít styrkleikamerki hjá fólki að leita til VIRK. Losa sig við fordóma og finna úrræði sem það svo getur tekið með sér út í lífið.“

Hvernig veittir þú þínu fólki aðstoð meðan erfitt var að hittast?
„VIRK brást fljótt við þegar smitið var sem verst og ekki var hægt að hitta fólk. Skjótlega var farið að nota fjarfundabúnað. Notaður hefur verið búnaðurinn Kara Connect sem viðurkenndur er af landlæknisembættinu. Hann er talinn öruggur þegar tala þarf um viðkvæm málefni. Um þessar mundir er svo verið að taka í notkun nýjan fjarfundabúnað innan kerfis VIRK. Einstaka þjónustuþegi hefur frekar viljað fá símaviðtöl og fengið þau. Þetta hefur gengið ótrúlega vel þótt hvorki fjarfundir né símaviðtöl komi í staðinn fyrir að hitta aðra manneskju. Við höfum leitt fólk í gegnum þetta, hjálpað því að nota búnaðinn. Sumir hafa verið mjög hikandi, kunnað lítið á tölvur. En í heild hefur þetta sem sagt gengið vel. Flestir nýta sér fjarfundabúnaðinn þótt einstaka haldi sig áfram við símaviðtölin.“

Hafið þið getað útskrifað fólk á Kóvidtímanum?
„Já, einkum þá sem voru langt komnir í þjónustu VIRK. Hins vegar hefur mörgum seinkað í þjónustunni og endurhæfingin tekið lengri tíma en ella hefði verið. Þetta skiptir auðvitað máli fjárhagslega. VIRK hefur verið í samskiptum við Tryggingastofnun varðandi það að framlengja endurhæfingarlífeyri þegar ekki var hægt að útskrifa fólk vegna faraldursins.

Fyrr en varði var komið á laggirnar úrræðum sem mótuðust af þessu ástandi. Svo sem að hreyfa sig heima í svokallaðri fjarþjálfun þegar ekki var hægt að sækja líkamsrækt vegna lokunar slíkra stöðva og þar fram eftir götunum. Þjónustuaðilar okkar voru fljótir að bregðast við með nýjum hugmyndum og úrræðum í fjarnámskeiðum. Margir hafa til dæmis nýtt sér fjarviðtöl sálfræðinga.“

Ert þú sem ráðgjafi í sambandi við þjónustuaðila, til dæmis sálfræðinga?
„Þjónustuþegar skrifa undir samþykki sem veitir mér leyfi til þess en yfirleitt ræði ég slíkt við þann sem í hlut á. Þyki mér sérstök ástæða til hef ég samband við þjónustuaðila. Það er mikilvægt að allir sem að máli einstaklings koma stefni í sömu átt. Ráðgjafinn heldur utan um hin margvíslegu úrræði sem viðkomandi þjónustuþegi nýtir til endurhæfingar. Til að samhæfing náist þarf oft talsverð samskipti hinna ýmsu þjónustuaðila við ráðgjafa og auðvitað einstaklinginn sem um ræðir. Þjónustuaðilar eru líka duglegir að hafa samband við ráðgjafa ef ástæða þykir til, sem er mjög gott.“

Úrræðum fjölgað og fleiri komin til sögunnar

Hafa úrræði breyst mikið á þínum starfstíma hjá VIRK?
„Þeim hefur fjölgað mikið, bæði komnir til fleiri aðilar og ný úrræði. Sálfræðiviðtöl eru mikið notuð, svo og sjálfstyrkingarnámskeið, stefnumótunarnámskeið og markþjálfun. Þá eru í boði verkjanámskeið og úrræði tengd hreyfingu, ýmist með sjúkraþjálfara eða íþróttafræðingi. Nefna ber allskonar námskeið til að bregðast við streitu, til dæmis núvitundarnámskeið. Einnig fara sumir á lengri námskeið eða byrja í námi. Sumir þjónustuþegar fara í starfsendurhæfingarstöðvar þar sem margt er í boði sem viðkomandi hefði ella þurft að sækja tíma í á hinum ýmsu stöðum. Svo getur fólk fengið sérstaka aðstoð við endurkomu til vinnu hjá atvinnulífstengli VIRK þegar það er tilbúið til að reyna fyrir sér á vinnumarkaðinum.“

Hefur þér þótt ráðgjafastarfið erfitt andlega?
„Nei, þótt ráðgjafastarfið feli í sér að vinna með fólki sem á í erfiðleikum þá hef ég ánægju af mínu starfi. Maður lærir í námi og af reynslu að hafa ákveðin mörk en samt þannig að maður sýni þjónustuþegum fulla samhyggð. Maður tekur einfaldlega vinnuna ekki með sér heim. Ella myndi maður ekki endast í svona vinnu. Við ráðgjafarnir getum líka talað saman í fullum trúnaði og einnig getum við fengið handleiðslu hjá fagfólki eða fengið aðstoð með mál einstaklinga hjá sérfræðingum VIRK.

Ég legg mig fram við að fá þá sem til mín leita til að finna sjálfir þá leið sem þeir vilja fara í sinni endurhæfingu. Þá er kúnstin að spyrja réttu spurninganna. En ekkert er þó algilt í þeim efnum, maður þarf alltaf að „lesa“ hvern og einn einstakling. Yfirleitt er ég nokkuð fljót að átta mig á hvernig viðkomandi persóna er. Það ræð ég af því trausti sem mér hefur verið sýnt. Stundum finnur maður að fólk er kvíðið og vill ekki ræða ýmsa lífsreynslu eða atvik sem þarf einmitt að ræða. Það er gert ef viðkomandi treystir sér til. Almennt þarf maður að vera varkár en samt að ræða þá hluti sem máli skipta.“

Allt hefur sinn tíma

Hvað með innkomu fólks á vinnumarkað á ný?
„VIRK miðar við að þeir sem hafa ráðningarsamband snúi til sinna starfa aftur. Það er fyrsta val og gefst oft vel. Ef hins vegar kemur í ljós að það er sjálf vinnan sem er kvíðavaldurinn þá er kannski ekki heppilegt að stunda hana áfram. Sé málið þannig vaxið að einstaklingur ráði ekki við starf sitt vegna til dæmis stoðkerfisvanda þá þarf að finna annan vettvang. Við slíkar aðstæður þarf fólk að fá rými til að syrgja heilsuna sína. Allt hefur sinn tíma. Upp til hópa er það fólk sem kemur í þjónustu til VIRK duglegt – stundum hefur það jafnvel verið of duglegt. Þá þarf einstaklingurinn að finna ráð til að sinna sjálfum sér og úrræði sem hann getur nýtt sér til að laga það sem aflaga hefur farið.

Vissulega hafa orðið miklar breytingar á þeim rúma áratug sem VIRK hefur starfað. Umfangið hefur vaxið. Fjölbreytnin og árangurinn sem einkennir starfsemi VIRK gerir ráðgjafastarfið skemmtilegt. Ég álít styrkleikamerki hjá fólki að leita til VIRK. Losa sig við fordóma og finna úrræði sem það svo getur tekið með sér út í lífið.“

Viðtalið birtist fyrst í ársriti VIRK 2021

Texti: Guðrún Guðlaugsdóttir
Mynd: Lárus Karl Ingason


Fréttir

30.05.2024
28.05.2024

Hafa samband