Ábendingar og athugasemdir
Ábendingar og athugasemdir við þjónustu
Ábendingar og athugasemdir varðandi gæði þjónustu VIRK, kvartanir eða hrós, eru vel þegnar og hjálpa okkur að gera enn betur.
Þú getur sent inn ábendingu í tölvupósti eða notað fyrirspurnarformið.
Þjónustuver kemur ábendingunni til viðeigandi ábyrgðaraðila hjá VIRK sem yfirfer hana efnislega og svarar henni.
Athugasemdir vegna frávísunar
Helstu skilyrði sem einstaklingar þurfa að uppfylla til að eiga rétt á starfsendurhæfingarþjónustu á vegum VIRK má sjá hér og farið er yfir helstu ástæður þess að einstaklingar eru ekki teknir inn í þjónustu VIRK heldur vísað annað, hér .
Allar beiðnir um starfsendurhæfingu eru rýndar af þverfaglegu teymi VIRK með tilliti til ofangreindra skilyrða og niðurstaðan rökstudd.
Ef þú vilt gera athugasemdir við niðurstöður teyma VIRK getur þú sent tölvupóst eða notað fyrirspurnarformið. Einnig er hægt að hafa samband símleiðis.
Þjónustuver kemur athugasemdinni til viðeigandi sérfræðings hjá VIRK sem yfirfer hana efnislega og svarar henni.
Athugasemdir við niðurstöðu mats
Niðurstöður sérfræðinga í sérhæfðu matsferli eru jafnan grundvöllur fyrir ákvörðun VIRK um veitingu þjónustu. Þegar einstaklingi hefur verið kynnt niðurstaða mats er honum boðið að koma á framfæri athugasemdum sínum við niðurstöðurnar áður en ákvörðun er tekin.
Telji einstaklingur að niðurstöður matsins byggi á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum, sé hann ósammála niðurstöðunum eða hefur athugasemdir við meðferð málsins að öðru leyti er rétt að gera grein fyrir athugasemdum þar að lútandi.
Ef þú vilt gera athugasemd við matsferilinn eða matið þá þarftu að fylla út þetta eyðublað og senda til VIRK.
Viðeigandi ábyrgðaraðili hjá VIRK yfirfer athugasemdina efnislega og svarar henni.
Málskot til stjórnar VIRK
Um skilyrði fyrir veitingu starfsendurhæfingarþjónustu hjá VIRK er fjallað í 11. gr. laga nr. 60/2012 um starfsendurhæfingu og starfsemi starfsendurhæfingarsjóða. Ákvörðun um hvort starfsendurhæfing skuli veitt byggir á mati VIRK á því hvort þau skilyrði séu uppfyllt.
Samkvæmt lögum 60/2012 er einstaklingum heimilt að vísa ákvörðun um höfnun þjónustu til stjórnar VIRK. Stjórnin sker úr ágreiningsmálum er lúta að ákvörðun um veitingu þjónustu sem teknar eru á grundvelli mats á því hvort að framangreind skilyrði séu uppfyllt.
Ef þú vilt skjóta máli til stjórnar VIRK þá þarftu að að fylla út þetta eyðublað, prenta út, undirrita og senda til VIRK.
Sérfræðingar VIRK fara yfir málið og leitast við að leysa úr því áður en það er lagt fyrir stjórn VIRK.
Forstjóri VIRK fylgir málskotinu eftir og tryggir að því sé svarað.
Vinsamlegast hafið í huga að ef um er að ræða athugasemd varðandi niðurstöður mats á vegum VIRK eða vegna frávísunar er mikilvægt að fylla út „Athugasemdir vegna frávísunar“ eða „Athugasemdir við niðurstöðu mats“ til að sérfræðingar VIRK geti kannað málið.