Atvinnuviðtalið frá A - Ö
Verkfærið hefur verið vistað undir Niðurstöðurnar mínar
Þegar þú undirbýrð þig vel fyrir atvinnuviðtalið og veist hvernig þú vilt koma fyrir eykur það öryggi þitt í viðtalinu og styrkir stöðu þína.
Undirbúningur
- Við undirbúning fyrir atvinnuviðtal er gott að fara yfir hvaða upplýsingar þú varst búin að gefa um þig í ferilskránni og kynningabréfinu. Einnig er gott að fara yfir atvinnuauglýsinguna sjálfa til að rifja upp lýsinguna á starfinu, óskir og kröfur atvinnurekandans.
- Hafðu á hreinu við hvern þú ert að fara að tala og hvar þið ætlið að hittast. Gott er að mæta tímanlega en þó innan skynsamlegra marka og vera búin að kynna þér hvert þú átt að mæta áður en þú leggur af stað í viðtalið svo þú tefjist ekki á leiðinni.
- Mikilvægt er að fatnaður og almenn ímynd þín sé heillandi og við hæfi. Hreint og snyrtilegt útlit er afar mikilvægt og gott að hafa í huga að útlitið sé í samræmi við hvernig þú munir koma fyrir á vinnustaðnum.
- Í atvinnuviðtalinu gefst þér færi á að kynna þig en jafnframt að afla þér upplýsinga um starfið og starfsemi fyrirtækisins. Atvinnuviðtalið er í raun samtal aðila sem eru að kanna hvort þeir hafi áhuga á hvor öðrum og þegar vel tekst til þá hafa þeir myndað sér þá skoðun að þá langi að vinna saman.
- Það gefur þér styrk og aukið vægi í viðtalinu að hafa nokkra þekkingu á fyrirtækinu. Þú gætir kynnt þér fyrirtækið með því að skoða vefsíðu þess og jafnvel tala við einhverja sem þekkja til.
- Þú ættir alltaf að undirbúa svör við algengum spurningum til dæmis um styrkleika og veikleika.
- Auk þessa er gott að undirbúa spurningar sem þig langar að bera fram í viðtalinu. Það gefur þér aukið öryggi að ákveða fyrirfram hvað þig langar að segja um fyrirtækið til að sýna áhuga á því. Þú gætir talað um hvað það er sem þér finnst gera fyrirtækið eftirsóknarvert og hrósað því fyrir ákveðin verkefni eða viðurkenningar sem hafa vakið athygli.
- Þá er gagnlegt að reyna að átta sig á hvaða verðmiði sé á starfinu sem sótt er um og skoða launatöflur eða kanna á annan hátt hvað gætu talist eðlileg laun fyrir starfið.
- Gott getur verið að hafa gögn með í viðtalið svo sem ferilskrá og kynningabréf eða eftir atvikum meðmæli, verkefnamöppu eða annað sem þú telur að þú gætir haft stuðning af eða hjálpað þér við kynninguna. Þá getur verið gagnlegt að vera með niðurskrifaðar spurningarnar sem þig langar að bera upp ef þú hefur áhyggjur af að því að muna þær ekki.
- Hugaðu vel að svefni og gefðu þér góðan tíma áður en viðtalið hefst, taktu jafnvel létta göngu til að hreinsa hugann.
Í atvinnuviðtalinu
- Í atvinnuviðtalinu er mikilvægt að sýna áhuga og mynda traust.
- Í upphafi viðtals skaltu bera þig vel, heilsa með handabandi (ef það er orðið viðeigandi vegna covid), brosa og ná augnsambandi.
- Til að sýna örugga framkomu er gott að sitja eðlilega uppréttur með hendur í skauti og ná góðri fótstöðu (með báða fætur á gólfinu) og halla þér lítillega fram.
- Í viðtalinu skaltu hafa í huga að svara rólega (hægar en venjulega), hlusta og halda augnsambandi. Reyndu að forðast óþarfa handahreyfingar eða fikt.
- Segðu frá þér sem starfsmanni á jákvæðan hátt og talaðu um styrkleika þína og færni. Vertu ekki of hógvær og forðastu afsakanir.
- Almennt er talið betra að viðmælandinn hefji umræðu um laun en það er þó ekki óviðeigandi að þú spyrjir út í þau. Ef þér býðst að koma með launahugmyndir er gott að nefna launabil sem þú hefur í huga og gæta þess að það sé í takt við „verðmiða“ starfsins. Hafir þú í umsóknarferlinu sett fram hugmyndir að launum þarftu að geta vísað í þær í viðtalinu.
- Ef fleiri en einn eru að taka viðtalið er mikilvægt að horfa á þann sem spyr spurninganna hverju sinni og svara til hans. Hlustaðu vel eftir því um hvað er spurt og taktu þér tíma til að svara. Það er í góðu lagi að fá spurningar endurteknar eða umorðaðar.
- Sé um fjarveru frá vinnumarkaði að ræða vegna veikinda er mikilvægt að fara ekki að tala um þau heldur leggja áherslu á stöðu þína í dag og hvernig þú munir ráða við starfið. Æskilegast er að ræða ekki um eigin veikindi en ef um er spurt að segja þá stutt og hnitmiðað frá þeim á jákvæðan hátt og draga fram styrkleika þína.
- Athugaðu að í viðtalinu er mjög mikilvægt að sýna þig sem jákvæðan einstakling og því ættir þú alls ekki að tala illa um fyrri vinnustaði eða yfirmenn.
Eftir viðtalið
- Í einstaka tilvikum getur verið að þér bjóðist annað viðtal ef atvinnurekandinn vill skoða betur valda einstaklinga sem koma sterklega til greina. Þá er gott að fara vel yfir fyrra viðtal og velta fyrir þér hverju þú getur bætt við eða hvað þú getir gert betur til að eiga möguleika á ráðningu. Það borgar sig ævinlega að fara yfir allt sem skiptir máli og undirbúa sig vel. Þú ættir eins og áður að huga vel að svefni og gefa þér góðan tíma fyrir viðtalið, taka jafnvel létta göngu og hreinsa hugann.
- Ef þig er farið að lengja eftir svörum er í góðu lagi að senda tölvupóst, hringja eða eiga í öðrum samskiptum við fyrirtækið til að kanna stöðuna. Allt of algengt er að fyrirtæki láti umsækjendur ekki vita af niðurstöðu ráðninga og mikilvægt að taka því ekki persónulega.
- Ef þú færð ekki starfið er hægt að biðja um upplýsingar og endurgjöf ef þér finnst þú þurfa, en það er ekki alltaf vinsælt. Hjá hinu opinbera og sveitarfélögunum er hægt að óska eftir rökstuðningi samkvæmt lögum.
- Það getur verið gagnlegt fyrir næstu umsóknir að draga lærdóm af viðtalinu og taka með þér það sem gekk vel, en horfa líka gagnrýnum og uppbyggilegum augum á það sem betur hefði mátt fara.
- Ef þú færð ekki starfið sem þú sóttir um er mikilvægt að þú látir það ekki hafa áhrif á þig heldur haldir áfram að sækja um störf og læra af reynslunni sem þetta tiltekna ráðningarferli gaf þér.