Ferilskrá - Innihald
Persónuupplýsingar
Nafn, heimilisfang, símanúmer og netfang. Kennitala má fylgja með.
Ekki er þörf á að upplýsa um fjölskylduhagi í ferilskránni og upplýsingar um heimilisfang þurfa ekki nauðsynlega að fylgja með og ættu ekki að vera of nákvæmar til dæmis ætti ekki að gefa upp íbúðarnúmer eða bjöllu íbúðar. Oft nægir að setja póstnúmer eða sveitarfélag. Þá er mikilvægt að netfangið sem þú notar sé viðeigandi fyrir þig sem umsækjanda.
Mynd
Veldu vandaða mynd í ferilskrána þína því hún segir svo margt um þig. Þegar þú leggur metnað í að vera með góða mynd tekur atvinnurekandinn eftir því. Lýsingin þarf að vera góð og bakgrunnur hlutlaus. Sjálfsmyndir eigi ekki erindi í ferilskrá. Hafðu í huga að myndin endurspegli hvernig þú raunverulega lítur út. Tilgangur hennar er að gefa góða mynd af þér sem jákvæðum og traustum einstaklingi.
Menntun
Undir svæðinu um menntun gefur þú upplýsingar um nám sem þú hefur stundað, styttra sem lengra, klárað og óklárað. Raða ætti menntun í tímaröð og byrja á því nýjasta.
Þegar um framhaldsmenntun er að ræða og langt er liðið síðan grunnskólapróf/framhaldsskólapróf var klárað getur verið betra að sleppa þeim upplýsingum enda nýrri menntun til staðar sem mikilvægt er að leggja áherslu á.
Eðlilegt er að taka fram nám þó því sé ólokið, sérstaklega ef það er síðasta nám eða hefur þýðingu fyrir það starf sem sótt er um. Þá er hægt að skrifa fyrir aftan í sviga (ólokið). Á sama hátt er hægt að taka fram ef einstaklingur er enn í námi (í námi).
Einnig er getur verið ágætt að nefna lokaverkefni og ritgerðir sem gætu tengst starfinu sem sótt er um. Þá er í góðu lagi að taka fram viðurkenningar tengdar náminu þegar þær eru til staðar.
Athugaðu að sum störf krefjast ekki háskólamenntunar svo þegar einstaklingur sem er með háskólamenntun ætlar að sækja um slíkt starf getur menntunin komið í veg fyrir að hann fái starfið. Þá þarf að vega og meta hversu ítarlegar upplýsingar þú gefur um nám og menntun og velja það sem þú telur að geti hjálpað þér að fá starfið sem þú ert að sækja um.
Starfsreynsla
Störfin sem þú hefur sinnt listar þú upp í tímaröð og raðar þannig að starfið sem þú varst í síðast raðast efst. Þú ættir að skrá fremst starfstímann, síðan heiti fyrirtækis og svo starfsheiti.
Gott er að segja stuttlega frá helstu verkefnum í þeim störfum sem þú hefur sinnt og hvaða hæfni þau kröfðust. Ekki hika við að segja frá ábyrgð eða sértækum verkefnum sem þér voru falin.
Dæmi um framsetningu á starfi
2012- 2015 Hagkaup Skeifunni, afgreiðsla
Sinnti afgreiðslustörfum á kassa. Tilfallandi uppgjör og afleysingar sjóðsstjóra. Sinnti einnig þrifum og áfyllingum þegar þörf var á.
Ef þú hefur unnið í styttri tíma á mörgum stöðum getur verið gott að velja úr þau störf sem þú telur hafa mesta þýðingu fyrir starfið sem þú ert að sækja um.
Námskeið
Gagnlegt getur verið að gefa upplýsingar um námskeið sem þú hefur setið og geta styrkt umsóknina þína. Þetta geta verið upplýsingar um lengri og styttri námskeið á vegum vinnustaða eða sem þú sóttir þér sjálfur til að mynda skyndihjálparnámskeið eða tölvunámskeið. Ef námskeiði lauk með vottun getur verið gagnlegt að láta hana fylgja með, en þó einungis ef það styrkir verulega umsóknina. Með námskeiðsupplýsingum ætti að koma fram heiti námskeiðs og námskeiðshaldara. Heiti námskeiðs er ekki alltaf lýsandi og þá er gott að það komi fram um hvernig námskeið var að ræða og hve langt það var.
Tölvukunnátta
Almenna tölvukunnátta er oftast mikilvæg. Vertu því viss um að koma því vel til skila hvaða forrit þú kannt á og tilgreina heiti þeirra. Tölvukunnátta getur falið í sér þekkingu á ritvinnsluforritum eins og Word, reikniforritum eins og Excel, samskiptaforrit eins og Facebook eða Instagram, vefsíðuforrit eins og Wordpress eða flóknari forritun eins og með HTML svo einhver dæmi séu nefnd.
Þegar farið er fram á ákveðna tölvukunnáttu þarftu að koma þekkingu þinni vel til skila í ferilskránni. Taktu fram þekkingu þína á þeim forritum sem farið er fram á í atvinnuauglýsingunni.
Tungumálakunnátta
Almennar upplýsingar um tungumálakunnáttu eiga heima í ferilskrá og ber að gera þeim sérstaklega hátt undir höfði ef störfin sem sótt er um krefjast tungumálakunnáttu. Gott getur verið að taka fram ef þú hefur búið í tilteknu landi í lengri eða skemmri tíma, hefur starfað í alþjóðlegu fyrirtæki, eða ert tvítyngdur. Eins er æskilegt að hafa í huga hvaða tilgangi upplýsingarnar þjóna og gera góðan greinarmun á færni milli tungumála.
Félagsstörf
Upplýsingar um þátttöku í félagsstörfum geta gefið atvinnurekendum víðari sýn á umsækjendur og vakið athygli og áhuga. Það getur virkað vel að segja frá þátttöku í sjálfboðaliðastörfum, fjáröflunum, nefndarsetu eða öðru sem telst ekki til hefðbundinnar vinnu.
Færni
Í ferilskrá er gott að tiltaka sérstaklega þá færni sem þú hefur tileinkað þér sem starfsmaður og getur nýst í þeim störfum sem þú ert að sækja um. Þú ættir að leggja áherslu á þá færni sem þú telur að nýtist best í því starfi sem þú ert að sækja um. Með því að lesa vandlega yfir starfsauglýsingu er hægt að gera sér grein fyrir hvaða færni er verið að óska eftir. Greiningarhæfni, verkefnastjórnun, stjórnun véla, tækja og tóla eru dæmi um færni.
Um mig
Í svæðinu „Um mig“ getur þú sagt í stuttu máli frá styrkleikum sem einkenna þig. Að eiga auðvelt með að vinna með öðrum, vera hugmyndarík og drífandi eru dæmi um styrkleika. Nýttu þér að að draga fram þá styrkleika þína sem gera þig að eftirsóknarverðum einstaklingi fyrir fyrirtækið sem þú ert að sækja um hjá.
Útgefið efni
Ef þú hefur gefið út efni eða birt, skrifað greinar eða komið þér á framfæri á annan hátt ættir þú að taka það fram í ferilskránni ef þú telur að það veki áhuga eða hafi tilgang fyrir starfið sem þú ert að sækja um. Þú gætir þá látið fylgja með hlekki eða viðhengi.
Annað
Að lokum getur þú talið fram atriði sem þér finnst mikilvægt að komi fram á ferilskránni þinni. Þetta gætu verið viðurkenningar sem þú hefur hlotið fyrir námsárangur, störf þín eða félagsstörf. Einnig upplýsingar um fyrirlestra og viðburði sem þú hefur haldið eða jafnvel sértæk áhugamál sem tengjast starfinu sem sótt er um. Einnig gætir þú tekið fram hér ýmis réttindi sem koma ekki fram annarsstaðar.
Meðmælendur
Mikilvægt er að vísa á tvo góða meðmælendur í ferilskránni. Endilega vandu valið á þeim því þú vilt að þeir gefi jákvæða umsögn um þig. Þú ættir alltaf að hafa samband við meðmælendurna áður en þú skráir þá í ferilskána þína til að ganga úr skugga um að þeir séu reiðubúnir til að gefa þér góða umsögn.
Í ferilskrána skrifar þú nafn meðmælendanna, starfsheiti og nafn fyrirtækisins, einnig annað hvort síma eða netfang (fáðu uppgefið hjá þeim hvernig best er að ná í þá). Ef meðmælendurnir eru hættir störfum eða hafa snúið til annarra starfa þá er hægt að skrifa „(fyrrum)“ aftan við starfsheitið.