VIRK Atvinnutenging – Þátttaka stuðlar að heilbrigðu samfélagi
VIRK Atvinnutenging – Þátttaka stuðlar að heilbrigðu samfélagi
VIRK Starfsendurhæfingarsjóður var stofnaður árið 2008 til að styðja við einstaklinga og atvinnurekendur og auðvelda endurkomu til vinnu. Enn í dag er þetta mikilvægt hlutverk VIRK - að styðja og efla starfsgetu einstaklinga sem hafa vilja og getu til þess að komast aftur á vinnumarkað í kjölfar veikinda eða slysa. VIRK leggur áherslu á að skapa fjölbreytt tækifæri fyrir einstaklinga í þjónustu og styðja þá til endurkomu inná vinnumarkaðinn. Á hverju ári útskrifast fjöldi einstaklinga frá VIRK eftir þátttöku í starfsendurhæfingu og stór hluti þeirra er virkur á vinnumarkaðinum við útskrift; fer í vinnu, nám eða virka atvinnuleit.
Árið 2019 útskrifuðust 1429 einstaklingar úr starfsendurhæfingu hjá VIRK og 74% af þeim voru virkir á vinnumarkaði við útskrift úr þjónustu. Umtalsverður hluti þeirra sem útskrifast úr starfsendurhæfingu fara aftur til sinna fyrri starfa eða í ný störf með aðstoð ráðgjafa VIRK í starfsendurhæfingu. Þó er ávallt ákveðinn hluti einstaklinga í þjónustu VIRK sem eru með skerta starfsgetu við útskrift og þarf jafnframt aukna aðstoð við að komast inn á vinnumarkaðinn á farsælan hátt. Þessir einstaklingar eiga möguleika á að þiggja þjónustu frá sérstökum atvinnulífstenglum VIRK.
„Einstaklingar í þjónustu fá meðal annars aðstoð við gerð ferilskrár og kynningarbréfs, undirbúning fyrir atvinnuviðtöl og aðstoð við atvinnuleitina sjálfa. Meginmarkmið þjónustunnar er að undirbúa þessa einstaklinga sem best fyrir atvinnuleit og fylgja þeim síðan eftir jafnvel eftir að í starf er komið eða eins og þörf er á.“
Atvinnulífstenglar VIRK
Þegar ráðgjafar VIRK meta einstaklinga í starfsendurhæfingu tilbúna til að reyna endurkomu á vinnumarkaðinn, vísa þeir þeim til sérstakra atvinnulífstengla hjá VIRK. Einstaklingar í þjónustu fá meðal annars aðstoð við gerð ferilskrár og kynningarbréfs, undirbúning fyrir atvinnuviðtöl og aðstoð við atvinnuleitina sjálfa. Meginmarkmið þjónustunnar er að undirbúa þessa einstaklinga sem best fyrir atvinnuleit og fylgja þeim síðan eftir jafnvel eftir að í starf er komið eða eins og þörf er á.
Lögð er áhersla á að þeir einstaklingar sem þess þurfa, fái tækifæri til að koma inn á vinnumarkaðinn með stigvaxandi hætti og í þeim tilfellum er unnin sérstök virkniáætlun í samvinnu við einstaklingana sjálfa og yfirmenn þeirra. Í slíkum áætlunum er tekið mið af verkefnum, vinnuferlum, aðstæðum og vinnutíma á viðkomandi vinnustað. Lögð er áhersla á að styðja bæði einstaklinginn og ekki síður vinnustaðinn. Á meðan á eftirfylgni stendur, aðstoða atvinnulífstenglar við úrlausn vandamála sem upp geta komið í endurkomuferlinu í samráði við starfsmanninn og vinnustaðinn.
Lengst framan af ári 2019 var óbreyttur fjöldi atvinnulífstengla starfandi hjá VIRK, eða tíu talsins (í 9,3 stöðugildum), en um haustið fjölgaði þeim og í lok árs var heildarfjöldi þeirra orðinn þrettán (í 11,8 stöðugildum). Átta atvinnulífstenglar (í 7 stöðugildum) taka við beiðnum frá ráðgjöfum VIRK (41 talsins) á höfuðborgarsvæðinu, Reykjanesi og Suðurlandi og aðstoða einstaklinga með skerta starfsgetu aftur inn á vinnumarkaðinn við lok starfsendurhæfingar.
Þrír atvinnulífstenglar (í 2,3 stöðugildum) störfuðu við verkefnið „IPS-atvinnutenging" (Individual Placement and Support) en í því verkefni fá einstaklingar með alvarleg geðræn vandamál aðstoð við að komast inn á vinnumarkaðinn. Þessum einstaklingum var vísað í þjónustu VIRK í gegnum samstarf við geðdeild Landspítalans – Laugarási og geðheilsuteymi Heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu, bæði austur- og vesturteymunum.
Tveir atvinnulífstenglar (í 2 stöðugildum) taka þátt í þróunarverkefnum hjá VIRK. Annar vinnur sem IPS-VIRK atvinnulífstengill og tekur þátt í þróunarverkefni sem nefnist UNG19 en í því verkefni er lögð áhersla á að aðstoða einstaklinga á aldrinum 29 ára og yngri sem eru í ákveðnum áhættuhópi (sjá nánari umfjöllun um þetta verkefni í sérstakri grein í ársritinu). Hinn atvinnulífstengillinn vinnur í verkefni sem nefnist Starfsendurhæfing samhliða vinnu en þar sækja einstaklingar starfsendurhæfingu hjá VIRK samhliða því að vinna vinnuna sína í skertu starfshlutfalli og þiggja veikindalaun á móti. Að lokum er einn atvinnulífstengill (í 0,5 stöðugildi) sem sér um að halda utanum skráningu fyrirtækja í upplýsingagrunni VIRK og fylgja eftir fyrirtækjum með samstarfssamning við VIRK Atvinnutengingu.
„Gott samstarf á milli VIRK og vinnumarkaðarins er mikilvægur grunnur að árangursríkri þátttöku einstaklinga með skerta starfsgetu á vinnumarkaðinum.“
Samstarfssamningur við 300 fyrirtæki
Í dag eru um 1200 fyrirtæki skráð inni í upplýsingakerfi VIRK og er stór hluti þeirra með skráða tengiliði, en það auðveldar öll samskipti við fyrirtækin þegar leitað er að störfum hjá þeim. Af þessum fyrirtækjum eru rúmlega 300 búin að undirrita sérstaka samstarfssamninga við VIRK. Söfnun samstarfsfyrirtækja í byrjun, þegar VIRK var að þróa þetta úrræði, reyndist vera mikilvægur grunnur og hefur þessu verið haldið áfram eftir að þróunarverkefninu lauk. Atvinnutenging í lok ferils er nú orðin hluti af heildarferli einstaklinga hjá VIRK, þ.e. þeirra sem þurfa á henni að halda.
Atvinnulífstenglar hjá VIRK leggja áherslu á að heimsækja ný fyrirtæki í hverri viku. Engar skuldbindingar af hálfu fyrirtækja fylgja því að skrifa undir samstarfssamning við VIRK Atvinnutengingu því einungis er hér um að ræða viljayfirlýsingu um samvinnu þegar það á við. Í þessum heimsóknum fá öll þessi fyrirtæki sérstaka fræðslu frá atvinnulífstenglum VIRK um starfsemi VIRK, um mögulegan ávinning af því að ráða til starfa hæft starfsfólk sem er að ljúka starfsendurhæfingu og þann stuðning sem VIRK er tilbúið að veita bæði einstaklingnum og atvinnurekendum ef að ráðningu verður. Lögð hefur verið áhersla á fræðslu til fyrirtækja um hlutastörf og skerta starfsgetu með það að markmiði að auka tækifæri einstaklinga til þátttöku á vinnumarkaði eftir starfsendurhæfingu.
Gott samstarf á milli VIRK og vinnumarkaðarins er mikilvægur grunnur að árangursríkri þátttöku einstaklinga með skerta starfsgetu á vinnumarkaðinum. Af þeim sökum er lögð sérstök áhersla á að vel sé haldið utanum þennan fyrirtækjagrunn til að halda á lofti vitneskju um VIRK og þann möguleika að ráða einstaklinga með mikilvæga reynslu og þekkingu til starfa við lok starfsendurhæfingar.
179 störf árið 2019
Árið 2019 bárust tilvísanir um aðstoð við atvinnuleit fyrir um 330 einstaklinga frá ráðgjöfum og öðrum sem vísað geta í úrræðið. Við lok ársins voru rúmlega 50 af þeim enn í virkri þjónustu hjá atvinnulífstenglum, annað hvort í atvinnuleit eða með eftirfylgni í starfi. Í lok árs 2019 hafði 171 einstaklingur verið tengdur við starf eða komist í nám; þar af voru 139 úr almennri atvinnutengingu og 32 einstaklingar frá IPS-atvinnutengingu.
Nær allir sem fara út á vinnumarkaðinn með aðstoð atvinnulífstengils eru tengdir við einungis eitt starf, en í nokkrum tilfellum var sami einstaklingurinn tengdur við 2 eða 3 störf á árinu. Heildarfjöldi starfa á árinu voru því 179 auk þess sem 7 einstaklingar fóru í nám en flestir þeirra sem fóru í nám voru úr IPS-atvinnutengingunni, eða fimm af sjö.
Í mörgum tilfellum voru vinnuprófanir nýttar í byrjun þjónustu hjá atvinnulífstenglum sem enduðu síðan með starfi hjá fyrirtækinu sem tók þátt í þeim. Þrjátíu slíkar vinnuprófanir fóru af stað á árinu og af þeim enduðu 30% þeirra með starfi fyrir einstaklinginn. Vinnuprófun sem verður að starfi gefur einstaklingnum möguleika á að fara inn í starfið á stigvaxandi máta og nýtist viðkomandi til uppbyggingar andlegrar og líkamlegrar getu til að stjórna verkefnum í starfi. Í vinnuprófun kemur oft í ljós raunveruleg starfsgeta einstaklingsins en niðurstaða hennar getur líka verið sú að einstaklingurinn er of veikur til að fara inn á vinnumarkaðinn á þeim tímapunkti. Hjá einstaklingum sem eru að skipta um starfsvettvang getur vinnuprófun oft nýst vel þegar þá skortir starfsreynslu á þeim starfsvettvangi sem þeir stefna á.
Mynd 1 sýnir menntun þeirra sem útskrifuðust í starf eftir þjónustu hjá atvinnulífstenglum og mynd 2 sýnir kyn og aldursdreifingu einstaklinganna (gróflega flokkað) sem fóru í starf eða nám.
Á mynd 3 má sjá hver starfshlutföllin voru fyrir þau störf sem fundust á árinu. Langflest störfin voru hlutastörf eða 70% þeirra, en eins og fram hefur komið hér á undan eru einstaklingarnir sem vísað er í þjónustu til atvinnulífstengla með skerta starfsgetu. Það er því athyglisvert að sjá að þó nokkuð stórt hlutfall þeirra, eða um 30%, eru í 91–100% starfshlutfalli.
Mynd 4 sýnir síðan hvernig þessi störf dreifast innan starfsgreina. Þar er stærsta starfsgreinin þjónustu-, umönnunar- og sölustörf (39%). Skrifstofustörf (18%) og ósérhæfð störf (18%) koma þar á eftir og síðan sérfræðistörf (12%).
Níutíu og eitt prósent (91%) þeirra sem útskrifuðust úr starfsendurhæfingu í vinnu eftir að hafa fengið aðstoð atvinnulífstengils, voru með enga þátttöku á vinnumarkaði vegna heilsubrests þegar þeir byrjuðu í þjónustu hjá VIRK (mynd 6). Það voru þannig nær allir sem vísað var í þjónustu til atvinnulífstengla fjarverandi af vinnumarkaði vegna veikinda eða slysa, í lengri eða skemmri tíma, við upphaf þjónustu. Því lengur sem einstaklingar eru fjarverandi frá vinnumarkaðinum, því erfiðara verður fyrir þá að komast aftur til baka og því má telja líklegt að umtalsverður hluti þeirra hefði átt erfitt með að finna sér vinnu á eigin spýtur. Á sömu mynd má sjá að á bakvið 13% stöðugilda voru einstaklingar með ráðningarsamband við sinn fyrri vinnustað þegar þeir byrjuðu í þjónustu hjá VIRK.
Mynd 5 sýnir svo hver framfærsla var við upphaf starfsendurhæfingar sem hlutfall stöðugilda en á bak við eitt stöðugildi geta verið fleiri en einn einstaklingur. Þar kemur fram að á bakvið 21% stöðugilda voru einstaklingar með laun á vinnumarkaði, en þeir höfðu verið búnir að missa þá tengingu við lok starfsendurhæfingar og nutu því aðstoðar frá atvinnulífstenglum VIRK.
Þróun á úrræðinu Atvinnutenging VIRK var sérstaklega gerð til að auka stuðning við einstaklinga sem eru við það að ljúka starfsendurhæfingu, eru ekki með fulla starfsgetu við lok hennar og þurfa aðstoð við að komast aftur til vinnu. Afleiðingar veikinda, slysa eða fötlunar þurfa ekki endilega að leiða til óvinnufærni; þetta verður ljóst þegar skoðaður er hinn stóri hópur fólks sem vinnur fulla vinnu, eða hluta úr vinnu, þrátt fyrir veikindi eða fötlun. Það er oft erfitt fyrir fólk að fara aftur í vinnu eftir langa fjarveru og því er mikilvægt að gefa einstaklingum með skerta starfsgetu hvatningu og stuðning til að auðvelda þeim þátttöku á vinnumarkaðnum. Það eru til sterkar vísbendingar sem sýna að vinnan er góð fyrir heilsuna, og jafnframt að það er hagur allra í þjóðfélaginu að atvinnuþátttaka þeirra sem vilja og geta farið aftur til vinnu sé hámörkuð.