VIRK Atvinnutenging
VIRK Atvinnutenging
Árið 2016 hóf VIRK undirbúning þróunarverkefnis sem stefndi að því, með markvissum stuðningi frá sérfræðingum í starfsendurhæfingu, að auka líkur einstaklinga sem eru í starfsendurhæfingu á endurkomu inn á vinnumarkaðinn þrátt fyrir fyrir skerta starfsgetu.
Lögð var áhersla á að tengja einstaklinga inn á vinnumarkaðinn áður en starfsendurhæfingunni lauk. Þróunarverkefnið grundvallast á þeirri staðreynd að því fyrr sem einstaklingar reyna endurkomu til vinnu eftir veikindi eða slys, því líklegra er að þeir komist aftur út á vinnumarkaðinn. Mikilvægt er því að einstaklingum með vinnugetu sé gefið tækifæri til að komast í vinnu við hæfi snemma á starfsendurhæfingarferlinum.
Til þess að auðvelda þetta ferli var ákveðið að ráða sérstaka atvinnulífstengla sem tóku við einstaklingunum þegar stutt var eftir af starfsendurhæfingunni og byrjuðu að vinna með þeim að áætlun um endurkomu inn á vinnumarkað. Þannig var aðlögun inn á vinnumarkaðinn tvinnuð markvisst inn í starfsendurhæfingu einstaklingsins og atvinnulífstenglarnir tengdu sig, og einstaklinginn í þjónustu, við stofnanir og fyrirtæki.
Haustið 2016 voru tveir atvinnulífstenglar ráðnir inn í verkefnið og þeim fjölgað í þrjá haustið 2017 en frá mars 2018 hafa sex atvinnulífstenglar í fullu starfi og einn í hlutastarfi unnið við það að aðstoða einstaklinga inn á vinnumarkaðinn. Það eru ráðgjafar VIRK á höfuðborgarsvæðinu sem geta vísað einstaklingum til atvinnulífstengils en einnig geta ráðgjafar VIRK á Suðurlandi, Reykjanesi og Akranesi nýtt sér þessa þjónustu ef einstaklingur með skerta starfsgetu sem er í þjónustu hjá þeim stefnir á vinnumarkað á höfuðborgarsvæðinu.
Tvíhliða nálgun
Um tvíhliða nálgun er að ræða þar sem VIRK aðstoðar einstaklinginn en ekki síður vinnustaðinn við aðlögun að endurkomu til vinnu. Grundvöllurinn er gott samstarf við þátttakendur og að tekið sé tillit til og sýndur skilningur á mismunandi þörfum og menningu hvers fyrirtækis/stofnunar og því er efling samstarfs VIRK við fyrirtæki og stofnanir um allt land mikilvægur þáttur þróunarverkefnisins.
Í þessu skyni hafa atvinnulífstenglar VIRK heimsótt fyrirtæki og stofnanir á höfuðborgarsvæðinu til að leita eftir samstarfi og hafa um 100 fyrirtæki og stofnanir skrifað undir samstarfssamning við VIRK. Í þessum heimsóknum á vinnustaði fór fram mikil fræðsla til fyrirtækjanna bæði um starfsemi VIRK og einnig um mikilvægi þess að ráða einstaklinga með skerta starfsgetu til starfa. Ef um ráðningu er að ræða þá fylgir atvinnulífstengill VIRK einstaklingnum eftir og styður hann og vinnustaðinn eftir þörfum og aðstoðar við úrlausn hindrana. VIRK hefur mætt mjög jákvæðu viðmóti hjá öllum fyrirtækjum og stofnunum fram til þessa og stefnt er að áframhaldandi heimsóknum til fyrirtækja með samstarf í huga.
Á vormánuðum 2018 höfðu um 190 einstaklingum verið vísað í þjónustu til atvinnulífstengla. Af þeim sem fengu aðstoð hjá þeim og útskrifuðust árið 2017 fengu 64% þeirra laun á vinnumarkaði og um 40% þeirra fengu tækifæri til að fara í starfið með stigvaxandi aukningu á starfshlutfalli yfir ákveðinn tíma. Á myndinni hér að ofan má sjá framfærslu við upphaf og lok þjónustu hjá VIRK fyrir þá einstaklinga sem útskrifuðust úr starfsendurhæfingu árið 2017 og höfðu fengið aðstoð atvinnulífstengils við að undirbúa endurkomu á vinnumarkað.
Ráðningar hafa gengið vel og bæði vinnuveitendur og nýju starfsmennirnir hafa lýst yfir ánægju með þróunarverkefnið. Vel hefur gengið að tengja saman einstaklinga við fyrirtæki eða stofnanir út frá óskum beggja aðila.
Fyrirtæki og stofnanir geta skráð sig á verumvirk.is og atvinnulífstenglar frá VIRK hafa samband.
Sjá nánari upplýsingar um VIRK Atvinnutenging hér.
Greinin birtist í ársriti VIRK 2018 - sjá fleiri áhugaverðar greinar úr ársritinu hér.