Vinnan hefur góð áhrif á mig
Vinnan hefur góð áhrif á mig
Ása Hrönn Ásbjörnsdóttir
Það hafði lengi blundað í mér að komast út á vinnumarkaðinn til að hitta fólk, segir Ása sem fór aftur að vinna eftir 16 ára hlé en hún fór á sínum tíma á örorku vegna veikinda. Í dag vinnur hún hlutastarf hjá N1 á Gagnvegi. Ég fór í endurhæfingu hjá Virk í þrjá mánuði og var útskrifuð þaðan í mars 2016 með 25% starfsgetu. Mér líður vel og ég finn að vinnan hefur góð áhrif á mig andlega.
Ég er núna í hálfu starfshlutfalli en ég byrjaði sem aukamanneskja og flakkaði aðeins á milli stöðva og var þá í meira hlutfalli. Það er bara þrjóskan í mér að vilja vinna meira. Ég var í fullri vinnu frá miðjum nóvember til áramóta og vann bókstaflega af mér lappirnar og endaði á því að þurfa að fara í aðgerð og taka sex vikur í veikindaleyfi. Hún segist hafa fundið það þá hvað vinnan gerir henni gott. Ég datt dálítið niður á þessum tíma og var að spá í að hætta að vinna en börnin mín tóku það ekki í mál og drifu mig áfram. Þau finna mikinn mun á mér og það geri ég líka. Ég er mun jákvæðari í dag. Það að vinna hefur hjálpað mér mikið og það er mitt haldreipi í dag.
Starfsfólkið er líka yndislegt og hefur haldið utan um mig og reynt að passa að ég fari ekki of geyst en mér hættir til þess og missa svo móðinn. Ég er þakklát yfirmanni mínum en hann hefur verið mjög skilningsríkur. Maður finnur samt fljótt út hvað maður kemst langt með sjálfan sig, ég prófaði fulla vinnu en þurfti að minnka við mig. Í stað þess að gefast upp þarf maður bara að bakka aðeins.
Ráðgjafinn yndislegur
Ég byrjaði á að fara til læknisins míns og spurði hvort hann gæti sent tilvísun á VIRK þar sem mig langaði aftur út á vinnumarkaðinn. Það hreif svona rosalega vel og og ég fer í fyrsta viðtalið þar í desember 2015.
Berglind VIRK ráðgjafi minn hjá Eflingu var yndisleg. Fólk nær misvel saman en Berglind virkaði þannig á mig að ég gat talað við hana. Hún hjálpaði mér rosalega, hún var svo jákvæð og drífandi. Ef ég mætti þung/niðurlút til hennar í viðtal reif hún mig upp og maður fór jákvæður frá henni, það er mikils virði.
Á meðal þess sem Ása Hrönn gerði í endurhæfingunni til að byggja sig upp var að fara í sjúkraþjálfun og til sálfræðings. Það hjálpaði mér mjög mikið, ég tók innra sjálfið mitt í gegn og leið mun betur eftir að hafa farið yfir hlutina með sálfræðingnum. Ég fékk líka að fara í vinnuprófun í átta vikur í Prjónabúðinni í Hafnarfirði en ég er mikið að prjóna sjálf. Þar fékk ég að koma inn á mínum eigin forsendum og taka þetta á mínum hraða.
Alltaf blundað í sér að byrja að vinna
Ása segir að oft á tíðum hafi blundað í henni að fara að vinna. Ég fór aftur að vinna á tímabili og fór aftur í nám. Mér gekk ljómandi vel í náminu en það er dálítið erfitt að vera í skóla með ungum krökkum. Ég hef líka áhuga á að læra meira um prjónaskap og síðasta haust hugsaði ég um að fara í hússtjórnarskólann. Það má segja að það hafi margt blundað innra með mér en ég hef ekki framkvæmt allt, en ég stökk á vinnuna þegar tækifærið gafst og það hefur gert mér mjög gott.
Að hrökkva eða stökkva
Ása segir að hún hafi verið búin að sækja um á nokkrum stöðum en alltaf hætt við þegar á hólminn var komið. Þetta var hræðsla, ég bakkaði alltaf en svo þegar kallið kom stökk ég út í djúpu laugina, ég fékk ekki tíma til að bakka út úr því. Vinkona hennar vann á N1 og var búin að tala við Ásu um að það vantaði á stubbavaktir um haustið. Hún hringdi í mig með dags fyrirvara og spurði hvort ég gæti hjálpað þeim í einn dag. Ég stökk út í djúpu laugina sem ég sé ekki eftir.
Ég var eins og hrædd lítil mús, segir Ása um líðanina þegar hún mætti fyrst í vinnuna. Ég var bara á kassanum til að byrja með en ég var furðu fljót að læra inn á hann. Mér var gefinn þann tími sem ég þurfti. Ég hitti ekki yfirmanninn fyrr en eftir þessa helgi og gerði ráðningarsamning í framhaldi af því.
Ekki eins erfitt og hún hafði ímyndað sér
Mér fannst þetta svo gaman, ég lifnaði öll við einhvern veginn, segir hún um þau jákvæðu áhrif sem vinnan hefur haft á hana. Þetta var ekki þetta stóra fjall sem ég hafði ímyndað mér heldur bara smá þröskuldur sem ég þurfti að hoppa yfir. Maður ímyndar sér oft að eitthvað sé miklu erfiðara en það er, það var í raun bara erfitt að taka þetta skref að fara yfir þröskuldinn. Hún segir að það hafi allir verið jákvæðir í kringum hana varðandi það að fara aftur á vinnumarkaðinn og hvatt hana áfram. Mér fannst bara svo erfitt að fara sjálf að leita að vinnu, ég hafði áhyggjur af því hvort starfið hentaði mér, hvernig atvinnuviðtalið færi fram og svo framvegis. Í þessu tilfelli kom vinnan til mín en ég ekki til hennar og það hjálpaði mér mjög mikið. Ég hugsaði með mér að það sakar ekki að prófa.
Að nýta tækifærin sem eru til staðar
Þetta var fjarlægur draumur að komast út á vinnumarkaðinn og hafði blundað í mér í öll þessi ár. Það tók mig 2–3 ár að komast af stað og nú er ég búin að ná takmarki mínu. Það gerir mér svo gott að vinna, að hitta fólk og þurfa að mæta á staðinn, segir Ása.
Mér finnst mikilvægt að fólk nýti sér þau tækifæri og úrræði sem eru til staðar eins og VIRK. Það hjálpar mikið að nota þau áhöld sem að manni eru rétt og taka svo skrefið. Fyrst um sinn er það erfitt en það kemur á endanum, segir Ása að lokum.
Viðtal: Herdís Steinarsdóttir
Viðtalið birtist í Eflingarblaðinu 4. tbl. júní 2017
Lestu fleiri reynslusögur einstaklinga hér.