Fara í efni

Vinna og verkir

Til baka
Tafla 1 Yfirlit yfir ýmsa þætti sem geta tengst vinnutengdum stoðkerfisverkjum.
Tafla 1 Yfirlit yfir ýmsa þætti sem geta tengst vinnutengdum stoðkerfisverkjum.

Vinna og verkir

Þorvaldur Skúli Pálsson

Head of Research (Mphty, PhD) Department of Physiotherapy and Occupational Therapy, Aalborg University Hospital.

Steffan Wittrup McPhee Christensen

(Mpthy, PhD) Department of Health Science and Technology, Aalborg University. Department of Physiotherapy, University College of Northern Denmark, Aalborg.

Morten Høgh

(MSc, PhD) Musculoskeletal Health and Implementation. Department of Health Science and Technology, The Faculty of Medicine, Aalborg University.

Starfstengdir stoðkerfisverkir teljast til verkjaástands sem rekja má til, eða leiðir af sér, skerta starfsgetu til skemmri eða lengri tíma. Hversu mikið starfsgetan skerðist fer eftir ýmsu, meðal annars hversu slæmir verkirnir eru, eðli þeirra og öðrum tengdum einkennum. Fyrir utan það að þeir takmarka starfsgetu, er einnig mikilvægt að taka tillit til þeirrar skerðingar á lífsgæðum sem langvinnir stoðkerfisverkir valda1. Tölur frá Evrópu sýna að 40% vinnufærra einstaklinga upplifa verki a.m.k. einu sinni á ári og að 20% allra vinnufærra karla og kvenna þjást af viðvarandi verkjum2. Langalgengast er að fólk á vinnumarkaði upplifi og kvarti yfir þrálátum verkjum í og frá hálsi og baki3.

Starfstengdir stoðkerfisverkir eru flókið fyrirbæri þar sem fjölmargir samverkandi þættir liggja oft að baki (tafla 1). Þetta torveldar greiningu á hver undirliggjandi ástæða verkjanna er í raun, einkum og sér í lagi vegna þess að erfitt er að sýna fram á orsakasamhengi milli þessara þátta (eða annarra) og verkja. Sem dæmi má nefna síendurteknar lyftur í vinnu sem geta mögulega aukið bakverki.

En lyftivinna með litla eða létta hluti minnkar ekki endilega líkurnar á að fá verk í bakið. Þess vegna má segja, að þó að mikilvægt sé að reyna að finna alla þá þætti sem geta aukið líkur á vinnutengdum stoðkerfisverkjum, er ekki öruggt að sú leit geti fækkað eða stytt veikindaleyfi eða ótímabært brotthvarf af vinnumarkaði.

Það er hægt að hafa áhrif á marga af fyrrnefndum þáttum (t.d. líkamlega þætti, streituvalda og svefngæði) á meðan erfitt getur verið að fást við þætti eins og menntunarstig og tekjur. Engu að síður er mikilvægt að undirstrika, að það getur verið erfitt að koma auga á hvað það er sem veldur verkjum hjá tilteknum starfsmanni. Burtséð frá orsök verkja er mikilvægt að meðhöndlun slíkra einkenna taki mið af öllum þeim þáttum sem geta stuðlað að verkjum. Það er ekki nóg að heilbrigðisstarfsmenn geri sér grein fyrir þessu flækjustigi þar sem rannsóknir sýna að starfsmenn og vinnuveitendur þurfa einnig að gera sér grein fyrir því5.

Af ofangreindu má sjá, að margir samverkandi þættir geta hamlað starfsgetu, en sálfræðilegir þættir geta í sumum tilvikum verið meginástæður vandans. Kulnun í starfi er gott dæmi um þetta. Í þessari grein er athyglinni hinsvegar beint að fjarveru frá vinnu þar sem undirliggjandi ástæður eru stoðkerfisverkir. Í greininni fjöllum við um, hvernig mikilvægt er að vinna með slíka verki frá mismunandi sjónarhornum, þ.e. við munum ræða æskilegar áherslur heilbrigðisstarfsfólks, hvað einstaklingur með verki getur sjálfur gert til að flýta batanum og hvernig vinnustaðurinn getur nýst sem mikilvægur þáttur í bataferlinu.

Vinna og verkir – sjónarhorn heilbrigðisstarfsmannsins

Það getur verið freistandi að halda því fram að mikil og krefjandi erfiðisvinna, sérstaklega þar sem um er að ræða síendurteknar lyftur í óæskilegri líkamsstöðu, geti með tímanum haft skaðleg áhrif. Ef skoðuð eru lífaflfræðileg áhrif slíkrar vinnu, þá virðist það að nokkru leyti rétt. Til dæmis vitum við að það að beygja sig fram, sitja með krosslagða fætur eða sitja með bogið bak í hangandi stöðu, eykur töluvert álag á hryggjarliði og hryggþófa, álagið er langt umfram það sem mælist þegar setið er eða lyft með beinu baki6. Þetta þýðir þó ekki endilega að áverki hljótist af, heldur einfaldlega að álagið sé mismunandi eftir því hvaða líkamsstöðu maður er í.

Hinsvegar er mikilvægt að hafa í huga að þó að ákveðið orsakasamhengi virðist vera til staðar milli hreyfingar, álags og slits, þá upplifa ekki allir verki þrátt fyrir að þessir þættir séu til staðar. Reyndar er það svo, að hjá sumum virðist skortur á hreyfingu og breytileika í hreyfimynstri vera hluti af vandamálinu. Þetta sést til dæmis hjá einstaklingum með bakverki, sem hafa tilhneigingu til að hreyfa sig, að miklu leyti, alltaf eins og eiga erfiðara með að slaka á bolvöðvunum (kvið og bakvöðvar) samanborið við einkennalausa einstaklinga7-9.

Með öðrum orðum þá hreyfa þessir einstaklingar sig oft á þann hátt að álagið á bakið eykst frekar en hitt. Álag er ekki einungis bundið við það að lyfta þungum hlutum síendurtekið, heldur getur það líka byggst upp yfir lengri tíma. Gott dæmi um þetta eru langvarandi setur, sem oft eru settar í samhengi við eymsli/verki í baki, hálsi og herðum, sérstaklega ef bakið er ekki beint/setið er með beint bak. Ef litið er til rannsókna sést þó að sáralítil fylgni virðist vera milli setstöðu og verkja10. Engu að síður er það almennur skilningur meðal heilbrigðisstarfsmanna11,12 og almennings13 að það að vera beinn í baki (sitjandi og standandi) sé betra og „réttara” heldur en að sitja, standa og lyfta t.d. með bogið bak.

Í þessu tilliti er mikilvægt að hafa í huga að það er ekki endilega líkamsstaðan sem er rétt eða röng, heldur frekar hversu lengi eða oft við höldum sömu líkamsstöðu. Það er nefnilega svo, að flestir þeirra sem eru einkennalausir eða einkennalitlir, skipta reglulega um líkamsstöðu og þar gildir einu hvort um er að ræða setstöðu, standandi eða liggjandi stöðu. Þeir skipta gjarnan reglulega um stöðu án þess að hugsa sig um. Með þetta í huga, gæti það orkað tvímælis að segja að ef/þegar maður finnur fyrir verkjum, eigi maður allt í einu að byrja framkvæma hreyfingar á ákveðinn hátt. Í fljótu bragði getur það hljómað eins og tvær hliðar á sama peningi, en getur hinsvegar haft þýðingu í sambandi við meðhöndlun.

Lykilatriðið hér er því oft að sýna starfsmanninum (og í mörgum tilvikum vinnuveitandanum einnig) hvernig hægt sé að framkvæma athafnir daglegs lífs og vinnu á mismunandi hátt.

Í þessu tilviki geta heilbrigðisstarfsmenn gegnt lykilhlutverki í því að kortleggja hvernig einstaklingurinn hreyfir sig venjulega, með það fyrir augum að geta aðstoðað hann við að aðlaga sig að þeim athöfnum sem þarf að framkvæma, í stað þess að hætta þeim alfarið. Þetta getur t.d falist í að breyta setstöðu eða lyftitækni, án þess að það þurfi að þýða að það sé til einhver rétt og/eða röng leið til að beita sér við vinnuna. Lykilatriðið hér er því oft að sýna starfsmanninum (og í mörgum tilvikum vinnuveitandanum einnig) hvernig hægt sé að framkvæma athafnir daglegs lífs og vinnu á mismunandi hátt.

Vinna og verkir – sjónarhorn starfsmannsins

Það getur vissulega verið streituvaldandi að upplifa skerta starfsgetu og slíkt ástand hefur áhrif bæði heimafyrir og að sjálfsögðu á vinnustaðnum. Þetta getur þýtt að einstaklingurinn upplifi (líkamlega) minnkaða getu til að framkvæma þau verkefni sem vinnan krefst og einnig valdið áhyggjum varðandi framtíðina, atvinnuöryggi, tekjumissi og þar fram eftir götunum. Í þeim tilvikum sem starfsmaður hefur síendurtekið verið í veikindaleyfi vegna verkja, getur það haft neikvæðar afleiðingar fyrir viðkomandi á vinnustaðnum, þar sem oft er litið niður á einstaklinga í slíkri stöðu15.

Öfugt við það sem margir halda, þá getur það að halda áfram að vinna þrátt fyrir verki, verið mikilvægur þáttur í bataferlinu. Ef haft er í huga að verkir/verkur eru yfirleitt margþætt fyrirbrigði (tafla 1), gefur augaleið, að vinnustaðurinn getur oft verið góður vettvangur fyrir endurhæfinguna. Sem dæmi um þetta má nefna að margir upplifa sterk félagsleg tengsl á vinnustaðnum en þau geta rofnað við langvarandi veikindaleyfi. Að sama skapi hefur það sýnt sig að vinnustaðurinn getur haft jákvæð áhrif bæði á heilsu og lífsgæði16. Þegar haft er í huga að uppbyggileg félagsleg tengsl geta dregið úr streitu17 og verkjum18, styður það einnig við það að það geti haft sína kosti að sinna áfram starfi sínu, þrátt fyrir verki.

Engu að síður er mikilvægt að hafa hugfast að það að mæta til vinnu þrátt fyrir verki og reyna að berjast í gegnum vinnudaginn, á ekki að vera á ábyrgð einstakra starfsmanna. Frekar á að líta á þetta sem hluta af endurhæfingunni, þar sem starfsmaður, vinnuveitandi og heilbrigðisstarfsmenn vinna saman að því að endurheimta starfsgetu. Vinnan eða starfið verður þannig vettvangur endurhæfingarinnar.

Virk nálgun við meðhöndlun verkja á vinnustað

Af ofangreindu má sjá að verkir (vinnutengdir eða almennt) eru yfirleitt ekki fyrirbæri sem hægt er að fjarlægja á einfaldan hátt. Í áraraðir hafa rannsóknir að miklu leyti beinst að því að skoða hvort og hvernig hreyfing og líkamsþjálfun, innan og utan vinnustaðarins, geti haft jákvæð áhrif á verki og veikindaleyfi. Niðurstöður rannsókna virðast vera nokkuð einsleitar, þar sem kostir slíkrar nálgunar eru ótvíræðir19-21 og sýna, að markviss, létt líkamsþjálfun og það að auka hreyfingu utan vinnu, getur dregið umtalsvert úr starfstengdum verkjum, auk þess að fækka veikindadögum.

Að sama skapi hefur verið sýnt fram á að skipulagðar, reglubundnar pásur/hlé innan vinnudags geti verið góður kostur fyrir þá starfsmenn sem vinna líkamlega krefjandi vinnu22. Það að temja sér reglubundna hreyfingu og almennt að tileinka sér heilbrigðan lífsstíl, er ein af bestu leiðunum til að fyrirbyggja stoðkerfisverki á vinnustað og utan hans23,24.

Við erum ekki öll steypt í sama mót. Þetta gildir einnig um hreyfingu og þjálfun innan og utan vinnu. Þar af leiðandi er mikilvægt að slík nálgun taki mið af einstaklingsbundnum þörfum og áhuga. Að öðrum kosti er hætt við að verkefnið verði ekki langlíft, heldur einungis átak sem lýkur þegar áhuginn þverr. Þess vegna er mikilvægt, til þess að tryggja langlífi slíkrar nálgunar, að þjálfunin sé skemmtileg, fjölbreytt og viðeigandi miðað við þær athafnir sem vinnan krefst.

Hvernig getur vinnan hjálpað við að ná bata?

Vinnan/starfið sem endurhæfing, hefur það að markmiði að snúa aftur til vinnu, þar sem athyglinni er beint að vinnunni en ekki verkjunum. Fyrir stóran hluta fólks með viðvarandi/þráláta verki, getur virst óhugsandi að snúa aftur til vinnu fyrr en hægt er að ná einhverri stjórn á verkjunum25. Lykilatriði í því að geta snúið til baka er, í þessu samhengi, samvinna milli samstarfsmanna/vinnufélaga, yfirmanna og starfsmannsins sjálfs, þar sem allir þessir aðilar taka virkan þátt í ferlinu15. Í þessu samhengi hefur það sýnt sig, að markviss samvinna skiptir miklu máli. Þar er verkefnum deilt niður í afmarkaða þætti, þar sem hægt væri að taka tillit til einstakra þarfa t.d. með sveigjanlegum vinnutíma, svigrúmi til að takast á við versnandi einkenni og stjórnun á vinnuálagi25.

Vinna sem hluti af endurhæfingu hefur það að markmiði að vinna með verkjavandamálið í því samhengi og umhverfi sem starfsmaðurinn er á leið tilbaka í, en þetta getur einmitt stutt við þau gildi og sjálfsmynd sem starfsmaðurinn hefur26. Slík nálgun á helst að fela í sér alla þá jákvæðu þætti sem það að vera í vinnu (í stað þess að vera í meðhöndlun á stofu eða endurhæfingarmiðstöð) felur í sér, t.d. samskipti við samstarfsfólk, upplifun af því að leggja eitthvað af mörkum og að sjá tilgang með þeim æfingum og verkefnum sem unnið er með.

Með því að nýta vinnuna og vinnustaðinn sem mikilvægan hluta af meðferðarferlinu, styrkist sambandið milli vinnuveitanda/ vinnustaðar og starfsmannsins, enda ekki um eiginlegt veikindaleyfi og fjarveru að ræða, heldur tímabil þar sem verkefnin eru aðlöguð að endurhæfingarferlinu. Þessi nálgun getur verið heillavænlegri kostur en að vera í veikindaleyfi og vera fjarverandi frá vinnustað, en sýnt hefur verið fram á að erfitt getur reynst að hefja störf að nýju eftir langvarandi fjarveru vegna veikinda. Þetta á bæði við um einstaka starfsmenn, sem geta átt erfitt með að komast í gang á ný27, og vinnustaðinn sjálfan, þar sem erfitt getur verið að breyta eða aðlaga verkferla að einstaklingi sem hefur verið lengi frá vinnu vegna verkja eða annarra veikinda25. Ef vinnan verður/er hluti af endurhæfingarferlinu, geta starfsmaður og vinnustaður unnið saman að því að aðlaga verkefni að starfsgetu, gjarnan í samstarfi við heilbrigðisstarfsfólk.

Sú nálgun sem lýst er hér felur hinsvegar í sér að heilbrigðisstarfsfólk ætti í miklu meiri mæli að vinna að því að endurhæfingin fari fram í þeim aðstæðum sem skjólstæðingar þess eru í. Í þessu tilviki á vinnustaðnum.

Nálgun eins og lýst er hér að ofan er ekki ný af nálinni. Það sem er hinsvegar nýtt í þessu samhengi er, hvernig litið er á verki og að hvaða marki þeir eigi að stjórna atvinnuþátttöku. Oft er því haldið fram að forsenda þess að snúa aftur til vinnu sé að verkirnir minnki eða hverfi alveg. Boðskapurinn hér er allt annar, þ.e.a.s. að forsenda þess að verkirnir hverfi sé að starfsmaður snúi aftur til fyrra starfs eða sé í vinnu allt endurhæfingarferlið ef mögulegt er. Þetta krefst þess þó, eins og lýst er að ofan, samvinnu milli vinnustaðarins og starfsmannsins, gjarnan með aðkomu heilbrigðisstarfsfólks. Hlutverk heilbrigðisstarfsfólks hefur í áraraðir verið talið að fjarlægja og lækna einkenni. Sú nálgun sem lýst er hér felur hinsvegar í sér að heilbrigðisstarfsfólk ætti í miklu meiri mæli að vinna að því að endurhæfingin fari fram í þeim aðstæðum sem skjólstæðingar þess eru í. Í þessu tilviki á vinnustaðnum.

Greinin birtist fyrst í ársriti VIRK 2023.

Heimildir

  1. Chang YF, Yeh CM, Huang SL, et al. Work Ability and Quality of Life in Patients with Work-Related Musculoskeletal Disorders. Int J Environ Res Public Health. 2020;17(9).
  2. Parent-Thirion A, Biletta I, Cabrita J, et al. Sixth European working conditions survey– overview report. 2016.
  3. De Kok J, Vroonhof P, Snijders J, et al. Work-related musculoskeletal disorders: prevalence, costs and demographics in the EU. European agency for safety and health at work. 2019;1.
  4. Isusi I. Work-related musculoskeletal disorders–facts and figures. Luxembourg: European agency for safety and health at work, 2020. In.
  5. Rasmussen CDN, Oakman J, Karstad K, Rugulies R, Holtermann A, Stevens ML. Pain management in eldercare employees - the role of managers in addressing musculoskeletal pain and pain-related sickness absence. BMC Public Health. 2022;22(1):432.
  6. Huang M, Hajizadeh K, Gibson I, Lee T. Analysis of compressive load on intervertebral joint in standing and sitting postures. Technol Health Care. 2016;24(2):215-223.
  7. Falla D, Gizzi L, Tschapek M, Erlenwein J, Petzke F. Reduced task-induced variations in the distribution of activity across back muscle regions in individuals with low back pain. Pain. 2014;155(5):944-953.
  8. Wong KC, Lee RY, Yeung SS. The association between back pain and trunk posture of workers in a special school for the severe handicaps. BMC Musculoskelet Disord. 2009;10:43.
  9. Lima M, Ferreira AS, Reis FJJ, Paes V, Meziat-Filho N. Chronic low back pain and back muscle activity during functional tasks. Gait Posture. 2018;61:250-256.
  10. Slater D, Korakakis V, O'Sullivan P, Nolan D, O'Sullivan K. "Sit Up Straight": Time to Re-evaluate. J Orthop Sports Phys Ther. 2019;49(8):562-564.
  11. Korakakis V, O'Sullivan K, O'Sullivan PB, et al. Physiotherapist perceptions of optimal sitting and standing posture. Musculoskelet Sci Pract. 2019;39:24-31.
  12. Nolan D, O'Sullivan K, Stephenson J, O'Sullivan P, Lucock M. What do physiotherapists and manual handling advisors consider the safest lifting posture, and do back beliefs influence their choice? Musculoskelet Sci Pract. 2018;33:35-40.
  13. Korakakis V, O'Sullivan K, Whiteley R, et al. Notions of “optimal” posture are loaded with meaning. Perceptions of sitting posture among asymptomatic members of the community. Musculoskeletal Science & Practice. 2021;51.
  14. Andersen LL, Vinstrup J, Sundstrup E, Skovlund SV, Villadsen E, Thorsen SV. Combined ergonomic exposures and development of musculoskeletal pain in the general working population: A prospective cohort study. Scand J Work Environ Health. 2021;47(4):287-295.
  15. Bean DJ, Dryland A, Rashid U, Tuck NL. The Determinants and Effects of Chronic Pain Stigma: A Mixed Methods Study and the Development of a Model. J Pain. 2022;23(10):1749-1764.
  16. Waddel G, Burton A. Is work good for your health and well-being? London: TSO; 2006.
  17. Jay K, Andersen LL. Can high social capital at the workplace buffer against stress and musculoskeletal pain?: Crosssectional study. Medicine (Baltimore). 2018;97(12):e0124.
  18. Nicolardi V, Panasiti MS, D’Ippolito M, Pecimo GL, Aglioti SM. Pain perception during social interactions is modulated by self-related and moral contextual cues. Scientific Reports. 2020;10(1):41.
  19. Tersa-Miralles C, Bravo C, Bellon F, Pastells-Peiró R, Rubinat Arnaldo E, RubíCarnacea F. Effectiveness of workplace exercise interventions in the treatment of musculoskeletal disorders in office workers: a systematic review. BMJ Open. 2022;12(1):e054288.
  20. Kelly D, Shorthouse F, Roffi V, Tack C. Exercise therapy and work-related musculoskeletal disorders in sedentary workers. Occupational Medicine. 2018;68(4):262-272.
  21. Eisele A, Schoser D, Klein M, et al. Interventions for preventing back pain among office workers – a systematic review and network meta-analysis. Scandinavian Journal of Work, Environment & Health. 2022;49.
  22. Gupta N, Rasmussen CL, Hartvigsen J, et al. Physical Activity Advice for Prevention and Rehabilitation of Low Back Pain- Same or Different? A Study on Device-Measured Physical Activity and Register-Based Sickness Absence. J Occup Rehabil. 2022;32(2):284-294.
  23. Palmlöf L, Holm LW, Alfredsson L, Magnusson C, Vingård E, Skillgate E. The impact of work related physical activity and leisure physical activity on the risk and prognosis of neck pain – a population based cohort study on workers. BMC Musculoskeletal Disorders. 2016;17(1):219.
  24. Dzakpasu FQS, Carver A, Brakenridge CJ, et al. Musculoskeletal pain and sedentary behaviour in occupational and nonoccupational settings: a systematic review with meta-analysis. Int J Behav Nutr Phys Act. 2021;18(1):159.
  25. Grant M, Rees S, Underwood M, Froud R. Obstacles to returning to work with chronic pain: in-depth interviews with people who are off work due to chronic pain and employers. BMC Musculoskeletal Disorders. 2019;20(1):486.
  26. Haugli L, Maeland S, Magnussen LH. What facilitates return to work? Patients' experiences 3 years after occupational rehabilitation. J Occup Rehabil. 2011;21(4):573-581.
  27. Faour M, Anderson JT, Haas AR, et al. Prolonged Preoperative Opioid Therapy Associated With Poor Return to Work Rates After Single-Level Cervical Fusion for Radiculopathy for Patients Receiving Workers' Compensation Benefits. Spine (Phila Pa 1976). 2017;42(2):E104-e110.

Fréttir

30.05.2024
28.05.2024

Hafa samband