Fara í efni

Var alltaf að sanna mig

Til baka

Var alltaf að sanna mig

Lára Janusdóttir verkefnastjóri hjá Janusi heilsueflingu

„Ég fór í þjónustu til VIRK eftir að hafa brotnað niður andlega, unnið yfir mig. Í framhaldi af því leitaði ég til heimilislæknis sem sótti um fyrir mig hjá VIRK.

Ég er nýlega útskrifuð þaðan og farin að vinna. Kulnun er erfitt ferli sem leiddi mig til mikilvægrar sjálfskoðunar,“ segir Lára Janusdóttir þegar hún ræddi veikindi sín, úrræði hjá VIRK og bata sinn er ég hitti hana að máli á dögunum á heimili hennar í Hafnarfirði.

„Ég var í stjórnendastöðu og næg verkefni biðu mín. Þetta var í febrúar árið 2017. Ég var búin að vera heima í þrjá daga og gat ekki fengið mig til að fara í vinnuna. Sat bara og grét. Ég forðaðist að svara símtölum og opna tölvupósta. Ég var svo ráðalaus að ég ákvað að fara út að keyra og fá mér svo göngutúr og ferskt loft. Ég ók upp á Garðaholt, sat þar bílnum og virti fyrir mér útsýnið. Þá hringir yfirmaður minn en ég gat ekki svarað. Ég fór aftur að hágráta – ég fann að ég gat ekki svarað í símann, ekki farið í göngutúrinn og ekki mætt í vinnuna daginn eftir. Hvað átti ég að gera? Ég hringdi í svilkonu mína og hún ráðlagði mér að fara niður á bráðamóttöku geðdeildar Landspítala. „Talaðu við þau, þetta er ekki eðlilegt ástand á þér,“ sagði hún við mig.“

Lára Janusdóttir lét sér þetta að kenningu verða. Hún hafði tveimur árum áður leitað til bráðadeildar vegna kvíða.

„Þessi fyrstu merki kulnunar fann ég í desember 2015. Þegar ég leitaði á bráðadeildina í síðara skiptið, tæpum tveimur árum síðar, var ég hins vegar með bein einkenni um kulnun án þess þó að gera mér fulla grein fyrir því. Mér fannst ég sýna merki um greindarskerðingu vegna minnis og einbeitingarskorts.“

Missti sjálfstraustið

Lára er fædd árið 1974, tók BS-gráðu í viðskiptafræði frá HÍ 2002 og MBA-meistaragráðu frá HR 2016. Hún hefur gegnt ýmsum störfum og var komin í draumastarfið þegar kulnunin tók völdin.

Hvernig voru fyrstu kulnunareinkennin?
„Ég byrjaði að detta út úr vinnu og vera heima með kvíða og ýmis önnur einkenni, svo sem að ég myndi ekki ráða við hlutina, væri að missa sjálfstraustið og stríddi við mikinn einbeitingarskort. Veikindadögunum fjölgaði. Ég hugðist þá reyna að vinna heima til að fá einbeitingu en það gekk ekki. Ég var svo ótrúlega þreytt. Í kjölfarið fylgdi kvíði vegna þess að ég var komin með hala af verkefnum sem ég hafði ekki getað lokið við. Þetta ástand leiddi til mikils tilfinningaróts og ég endaði á bráðadeild geðdeildar sem fyrr sagði,“ segir Lára.

„Mér þótti á sínum tíma nánast súrrealískt að vera komin í þessa stöðu, sitja grátandi hér heima dögum saman og vita ekki hvert ég ætti að snúa mér. Hjá geðdeildinni fékk ég góða þjónustu og var sagt að ég þyrfti að fara í veikindaleyfi. Ég hélt að ég myndi vera svona tvær vikur að ná mér. Áttaði mig engan veginn á hve alvarlegt þetta var.“

Hver vísaði þér á VIRK?
„Ég á góða vinkonu sem ég hitti á kaffihúsi er ég var komin í veikindaleyfi og hafði skráð mig á núvitundarnámskeið. Vinkona mín sagði: „Af hverju sækir þú ekki um hjá VIRK?“ Ég hafði aðeins heyrt um VIRK og hvað fólk væri að gera þar en vissi ekki mikið. Kaffihúsaferðin var í lok janúar 2017. Í framhaldi af henni fór ég til heimilislæknisins sem sótti um fyrir mig hjá VIRK. En margt hafði gengið á áður en þetta gerðist.

Að mér höfðu sótt hugsanir eins og að ég væri vitlaus, í vinnunni færi ábyggilega að komast upp að ég vissi ekki neitt. Samt hafði ég unnið í markaðsmálum í fimmtán ár þegar þetta var. Eftir að hafa lokið BSnámi hjá HR starfaði ég á auglýsingastofu. Árið 2014 tók ég svo MBA í HR meðfram vinnu. Ég hafði starfað sem markaðsstjóri en ákvað svo að segja upp þeirri vinnu til að stunda námið eingöngu. Þá var auglýst mjög spennandi staða hjá Skátamiðstöðinni í Hafnarfirði, starf rekstrarstjóra hjá Lava Hostel sem skátarnir reka. Sjálf er ég skáti, það voru líka foreldrar mínir og amma mín og afi – ég er því af „skátaættum“,“ segir Lára og hlær.

Yndislegt að koma til VIRK

Fékkstu umrætt starf?
„Já, ég var mjög ánægð með það. Þá gat ég unnið hér í Hafnarfirði og verið nálægt börnunum mínum tveimur, stelpu og strák,“ segir Lára. Við sitjum við eldhúsborðið í stórglæsilegu einbýlishúsi sem hún og maður hennar keyptu af stórhug þegar þau hófu búskap. Við borðið er smábarnastóll. Lára sér að ég gef stólnum auga.

„Þessi barnastóll er núna fyrir köttinn en ekki krakkana, þau eru orðin tíu og fjórtán ára. Kötturinn okkar er svo félagslyndur að hann situr í barnastólnum þegar fjölskyldan er að borða,“ segir hún brosandi.

„Ég tók svo við þessu stjórnunarstarfi og fannst mjög spennandi að vera í fleiru en markaðsmálum. Ég tók við rekstri, fjármálum og mannaforráðum hjá Lava Hostel. Þetta reyndi nokkuð á, ég hafði aldrei komið nálægt fjármálaumsýslu eða bókhaldi af þessari stærðargráðu. Ég hafði verið meira í markaðs- og hugmyndavinnu. Fyrstu merki kulnunar fann ég árið 2015. Það gerðist í desember, þá var ég búin að vera þarna við störf frá því um páska sama ár. Ég var gjörsamlega útkeyrð og brást við með því að ásaka mig fyrir að ráða ekki við starfið, maður var svolítið duglegur við að gagnrýna sjálfan sig og draga sig niður,“ segir Lára.

Hvernig var að koma til VIRK?
„Það var yndislegt. Stéttarfélag mitt er VR og hefur reynst mér vel. Ráðgjafi VIRK sem mér var beint til tók mér mjög vel. Við settum í sameiningu upp áætlun þar sem greint var eftir föngum hvað ég væri að kljást við og hvaða úrræði væru heppileg. Eitt af því sem olli mér vanda var afleiðing af árekstri sem ég lenti í á Þorláksmessu árið 2013. Þá fékk ég hnykk á hálsinn sem leiddi til mikilla verkja sem ekki vildu fara þrátt fyrir að ég væri í sjúkraþjálfun. Þegar maður er þjáður af verkjum alla daga frá öxl og niður í handlegg þá hefur það áhrif á vinnulag og einbeitingu.

Ráðgjafinn kom mér í sjúkraþjálfun sem VIRK stóð straum af. Einnig fór ég á námskeið hjá Heilsuborg. Þar var farið yfir allar æfingar og hvað hentaði stoðkerfi mínu. Ég hafði hugað að þessu áður og lært hvað ég mætti og hvað ekki. En á námskeiðinu var þetta markvissara og næsta skref í átt til þess að verða sjálfbjarga. Einnig fór ég í viðtalsmeðferð hjá sálfræðingi, það hjálpaði mér mikið. Þar gat ég unnið með sjálfa mig og sjálfstraustið. Ég tók að átta mig á að í kulnunarástandi missir maður stjórnina að vissu leyti.“

Varstu ólík sjálfri þér í þessu ástandi?
„Já, ég breyttist. Áður tók ég mikinn þátt í félagsstörfum, var gjarnan formaður starfsmannafélags þess fyrirtækis sem ég vann hjá hverju sinni, átti sæti í nemendafélögum, tók að mér veislustjórn í brúðkaupum og þannig mætti lengi telja. Ég hef alltaf átt auðvelt með að tala fyrir framan fólk og verið opin í samskiptum. Í MBAnáminu breyttist ég hins vegar úr þessari félagsveru í manneskju sem lét lítið fyrir sér fara, gekk næstum með veggjum. Ég átti beinlínis erfitt með samræður, hvað ég ætti að tala um. Ég tók að forðast að hitta fólk. Ég áttaði mig á þessari breytingu og fannst hún einkennileg.“ 

Veikindin höfðu áhrif á fjölskylduna

Hvað með umhverfið, tók maðurinn þinn eftir breytingu á þér?
„Hann gerði það en það tók dálítinn tíma. Ég breyttist minna í umgengni við mína nánustu heldur en við utanaðkomandi fólk. Þetta voru fyrstu einkennin um það sem í vændum var. Sem dæmi um hvernig ég breyttist var að ég var endalaust þreytt. Við hjónin vorum að gera upp hús á landsbyggðinni, gamlan sveitabæ. Eftir að ég fékk þessi einkenni þá tók ég ekki þátt í neinu starfi, bara svaf. Maðurinn minn er mjög duglegur og það olli mér samviskubiti að gera ekki neitt í uppbyggingarstarfinu. Eftir nokkurn tíma spurði hann hvort mér leiddist að taka þátt í þessu. Þannig áttaði hann sig á því hvað væri að gerast. Hann stóð mjög þétt við bakið á mér í gegnum mitt bataferli. Þessi veikindi mín höfðu auðvitað áhrif á börnin og fjölskyldulífið meðan þau voru að ganga yfir en það er liðin tíð sem betur fer.

Ég var sem sagt árið 2015 komin með fyrstu einkenni um kulnun, þreytu, félagsfælni, kvíða og minnkandi sjálfstraust. Þetta varð þess valdandi að ég leitaði á bráðdeild geðdeildar það ár. Þá var ekki gripið nógu vel inn í þessa óheillavænlegu þróun. Sennilega hefði mátt afstýra kulnunarástandinu ef það hefði verið gert. Ég fékk að vísu kvíðalyf hjá geðlækni og sagði upp í vinnunni hjá Lava Hostel – en það dugði ekki.

Ég hef átt erfitt með að segja nei. Ég bauð stjórn hostelsins að vera áfram þangað til búið væri að ráða nýja manneskju þótt ég væri í reynd óvinnufær af örmögnun. Ég vildi á þessum tíma hætta vinnu til að geta lokið mastersnáminu í HR – enda taldi ég þá að örmögnunin væri fyrst og fremst þunglyndi og kvíði.

Svo gerist það um þetta leyti að rosalega spennandi starf er auglýst í blöðunum. Þótt ég vissi að ég væri þreytt og þyrfti að ná mér upp ákvað ég að sækja um starf markaðsstjóra hjá TM Software, dótturfyrirtæki Origo. Ótrúlega flott starf í markaðsmálum hjá fyrirtæki sem sér um vef-, ferða- og heilbrigðislausnir. Ég hafði litið til þessa fyrirtækis þá fyrir nokkru. Áður en ég sótti um ráðfærði ég mig við lækni, hvort ég væri tilbúin til að sækja um. Hann gaf „grænt ljós“ á það.

Ég sótti um og fékk starfið en sagði að ég væri ljúka verkefninu hjá Lava Hostel og einnig að ljúka MBA námi við HR og gæti því ekki verið í fullu starfi fyrr en um vorið. Þarna var ég sem sagt komin með auk reksturs heimilisins, tvö störf og í námi. Ég var líka þvílíkt að reyna að standa mig í nýja starfinu í umhverfi þar sem fyrir voru æðislegur yfirmaður og skemmtilegt samstarfsfólk.

Ég fór í sumarfrí í júní 2016, nýbúin að ljúka MBA-náminu. Þá strax fékk ég bullandi samviskubit og leið þannig að mér fannst ég ekki gera nóg. Ég ákvað því að taka eitt verkefni með mér í sumarfríið – til þess að reyna að vinna mér inn einhverja punkta. Þetta voru afdrifarík mistök. Í sumarfríinu í Frakklandi fann ég svo aftur fyrir þessari örmögnun sem áður hafði hrjáð mig. Ég gat ekki byrjað á verkefninu, var óendanlega þreytt og fann fyrir minnisleysi. Ég stóð til dæmis við hraðbanka og ætlaði að taka út peninga en gat með engu móti munað pinnúmerið á kortinu sem ég nota daglega. Þetta var stórfurðulegt og ég fann til ótta.“

Vaxandi kulnunareinkenni

„Þegar ég kom úr sumarleyfinu fékk ég fastráðningu. Áður ákvað ég að vera hreinskilin við minn yfirmann, segja honum að ég hefði þurft að hætta í síðustu vinnu og ofkeyrt mig – orðið kulnun var varla komið í umræðuna þá. Ég sagðist vera að jafna mig og yfirmaðurinn sýndi þessu góðan skilning. Við tók svo tímabil þar sem kulnunareinkennin ágerðust í stækkandi skrefum, veikindadögum fjölgaði vegna þess að mig skorti einbeitingu. Ég sat í bílnum á bílastæði fyrirtækisins æ ofan í æ hágrátandi og fann að ég gat ekki farið þangað inn. Ég vissi ekki hvað ég átti að gera og endaði með því að keyra aftur heim. Ég höndlaði ekki aðstæðurnar.“

Hvað gerðir þú þá?
„Þá erum við eiginlega komin að upphafi þessa samtals. Hringurinn að lokast – ég sat í bílnum upp á Garðaholti, svilkona mín ráðlagði bráðadeild geðdeildar, ég fékk veikindaleyfi – svo sótti læknirinn minn um fyrir mig hjá VIRK. Ég þurfti að bíða svolítið eftir tíma hjá ráðgjafa. Á meðan las ég á vefsíðu VIRK viðtöl við fólk sem fengið hafði kulnun og áttaði mig á hve margt ég átti sameiginlegt með til dæmis Helgu Björk Jónsdóttur sem sagði þar sögu sína. Hún missti minnið um tíma, ég tengdi við það og ýmislegt fleira sem hún sagði frá. Strax þegar ég komst til ráðgjafans hjá VIRK hófst uppbyggingin fyrir alvöru. Ég var áður komin á núvitundarnámskeið og fór einnig á annað slíkt á vegum VIRK í Heilsuborg. Mér finnst það hafa verið stór þáttur í bata mínum og reyni að stunda það áfram. Fanga það að vera hér og nú og njóta hvers augnabliks með fjölskyldunni.

Í Heilsuborg stundaði ég líka heilsurækt og hitti sálfræðing sem fór með mér yfir aðstæðurnar. Ég fékk svo tíma hjá öðrum sálfræðingi og hitti hann aðra hverja viku fyrst, svo einu sinni í mánuði. Þessu fylgdi gríðarleg sjálfsskoðun. Ég reyndi að finna út hver var aðdragandinn að kulnunarástandinu, hvenær það hefði byrjað. Ég pantaði mér bækur á netinu um þetta efni og einnig komst ég í lokaðan hóp á Facebook þar sem fólk, sem hefur fengið kulnun, ræðir reynslu sína. Mér fannst mjög gott að heyra sögur frá öðrum. Þótt gott sé að tala við nákomið fólk um vanda sinn er allt öðruvísi að ræða við einstaklinga sem hafa gengið í gegnum það sama og maður sjálfur. Það gefur manni kraft.

Fékk hugmynd að stuðningshópi

Ég spurði ráðgjafann minn hvort til væri hér stuðningshópur við fólk sem fengið hefði kulnun. Nei, hann vissi ekki til þess. Þá setti ég fram hugmynd í þessum spjallhópi á Facebook, spurði hvort áhugi væri innan hópsins á að hittast í staðinn fyrir að spjalla á netinu. Fram komu mjög jákvæð viðbrögð. Ég lagði fram þessa hugmynd en önnur kona tók við keflinu. Ég var ekki komin það langt í bataferlinu að geta bókað stað til að hittast á og koma þessu móti í kring. Fólkið úr þessum spjallhópi hittist á kaffihúsi, mest konur á miðjum aldri og eldri.

Allt þetta hafði þau áhrif að ég fór smám saman að tala opinskátt um þennan heilsubrest og í kjölfarið leitaði ótrúlega margt fólk til mín sem ég hafði ekki hugmynd um að ætti við kulnunareinkenni að stríða. Flestir setja upp mikla glansmynd af lífi sínu á samfélagsmiðlum. En jafnvel þeir sem virðast þar með allt á hreinu reyndust eiga við einkenni kulnunar að etja.“

Hvenær útskrifaðist þú úr þjónustunni hjá VIRK?
„Það er stutt síðan. Ég var alls eitt og hálft ár í endurhæfingu og er núna orðin ansi hress. Ég hef þó ekki náð mér að fullu. Líkamlega er ég orðin góð og kvíðinn er farinn en ég þurfti að læra að segja nei við beiðnum og verkefnum. Úthald til vinnu er ekki eins og það var né heldur minni eða einbeiting. Þar skortir mikið á að ég sé eins og áður fyrr. Reyndar kom nýlega í ljós að ég er með athyglisbrest, kannski spilar hann inn í að þessi einkenni skuli enn vera til staðar eftir eitt og hálft ár í endurhæfingu hjá VIRK. Meðan á þessu ferli stóð átti ég sem betur fer inni hjá sjúkrasjóði VR. Svo borguðu Sjúkratryggingar eitthvað á móti.

Ég mætti reyndar mótlæti í bataferlinu. Mér var sagt upp hjá fyrirtækinu þegar ég var að byrja í veikindaleyfi. Það var mikið högg – rosalega sárt. Þegar ég hugsa til baka er ekki góð staða í endurminningunni að standa uppi lasin og vinnulaus með fjárhagsáhyggjur. En það rættist ótrúlega vel úr þessu. Ráðgjafi VIRK leiðbeindi mér hvernig ég ætti að stilla öllu upp og það gekk mjög vel eftir. Fátt er svo með öllu illt. Núna finnst mér þetta hafa verið frábært tækifæri til að fara í alla þessa sjálfsskoðun og geta fundið út hvað hrjáði mig. Að horfa inn á við leiðir ýmislegt í ljós. Ég er metnaðargjörn en maður má ekki ganga á varaforða sinn. Ég var ekki dugleg við að setja mörk því ég hef alltaf verið að reyna að sanna mig.“

Hvers vegna?
„Hugsanlega vegna þess að ég er alin upp í nokkrum keppnisanda eins og algengt er í okkar samfélagi. Sjálfsskoðunin endaði á að ég fór að eigin frumkvæði í ADHD-greiningu og komst að því að ég er með athyglisbrest. Þá var endurhæfingunni hjá VIRK að ljúka en ráðgjafinn minn benti mér á leiðir, ég fór því á eigin vegum í þessa ADHD-greiningu. Nú er ég, 45 ára gömul, komin með þessa greiningu. Vafalaust hefur athyglisbresturinn háð mér bæði í námi og starfi og valdið mér kvíða. Ég fann nytsama bók um þetta efni. Hún heitir: You mean I‘m not Lazy, Stupid or Crazy?! eftir Kate Kelly og Peggy Ramundo.“ Athyglisbrestur er ekki sjúkdómur heldur röskun í taugakerfinu.“

Komin á gott skrið aftur

Hver er staðan hjá þér núna?
„Eftir áramót í fyrra byrjaði ég í hálfu starfi hjá föður mínum, Janusi Guðlaugssyni í fyrirtæki hans. Þegar ég hóf MBA-námið var draumurinn að við pabbi gætum stofnað fyrirtæki saman. Faðir minn, sem er fyrrum landsliðsmaður í fótbolta, er með doktorsgráðu í hreyfingu aldraðra. Mig langaði að fanga þekkingu hans og leggja við mína í sameiginlegu fyrirtæki. Doktorsverkefni hans sýndi merkilegar niðurstöður sem hvergi hafa komið fram áður um mikilvægi hreyfingar hjá öldruðum. Janus heilsuefling starfar með sveitarfélögum við forvarnarverkefni á sviði hreyfingar, mataræðis og fræðslu. Fyrirtækið er og í samstarfi við Embætti landlæknis vegna Evrópuverkefnis til að innleiða árangursríkt starf á sviði heilsueflingar, forvarna og meðferðar á langvinnum sjúkdómum. Verið er nú þegar að innleiða það á Spáni og í Litháen.

Janus heilsuefling gengur vel og ég er þar verkefnastjóri. Ég er komin á gott skrið aftur, þökk sé VIRK og úrræðum sem ég nýtti mér þar. Fyrir það er ég afskaplega þakklát.“

Texti: Guðrún Guðlaugsdóttir

Viðtalið birtist í ársriti VIRK 2019.
Lestu fleiri reynslusögur hér.


Hafa samband