Úrræði – Markviss endurkoma til vinnu
Úrræði – Markviss endurkoma til vinnu
Ásta Sölvadóttir sviðsstjóri hjá VIRK
Þróun, samvinna og nýsköpun úrræða í takt við þarfir þjónustuþega
Á undanförnum árum hefur öflugt þróunarstarf og samstarf við fagaðila á sviði starfsendurhæfingar skilað sér í sífellt markvissari starfsendurhæfingu hjá VIRK. Þá setja þarfir þjónustuþega mark sitt á starfsemi VIRK hverju sinni.
Hlutverk úrræðasviðs VIRK er að hafa umsjón með þeirri þjónustu sem VIRK kaupir, sinna eftirliti með þjónustukaupum og tryggja upplýsingastreymi varðandi úrræði til þjónustuaðila, ráðgjafa, atvinnulífstengla og sérfræðinga VIRK. Þá er þróunar- og umbótastarf fyrirferðarmikið á sviðinu.
Framboð og þróun úrræða
VIRK kaupir einungis þjónustu sem flokkast getur sem hluti af formlegri starfsendurhæfingu og veitt er af fagaðilum með tilskilin réttindi enda er um viðkvæma þjónustu að ræða. Starfsfólk úrræðasviðs VIRK fer reglulega yfir þau úrræði sem eru í boði og metur hvort þörf sé á nýjum úrræðum. Árangursrík starfsendurhæfing er samvinnuverkefni margra aðila. Þróun úrræða fer fram í nánu samstarfi við sérfræðinga á starfsendurhæfingarsviði, ráðgjafa og þjónustuaðila. Þróunin tekur ávallt mið af þörfum einstaklinga í þjónustu VIRK.
Þeir aðilar sem óska eftir að gerast þjónustuaðilar hjá VIRK senda inn umsókn ásamt fylgiskjölum í gegnum upplýsingakerfi VIRK. Starfsfólk úrræðasviðs fer yfir umsóknir reglulega og jafnóðum og þær berast ef þörf er á því. Allar upplýsingar um samstarf, viðmið þjónustuaðila og leiðbeiningar um upplýsingakerfi VIRK má finna á ytri vef VIRK ásamt fleiri gagnlegum upplýsingum fyrir þjónustuaðila. Samstarf er á milli úrræðasviðs og sérfræðinga VIRK ef þörf er á að meta sérfræðiþekkingu þjónustuaðila sérstaklega.
Lagt er upp með að tryggja einstaklingum markvissa þjónustu á réttum tíma sem tekur mið af færni og hindrunum hvers og eins hverju sinni.
Sé úrræði samþykkt þarf að vera nákvæm lýsing á því hver þjónustan er, hver gildistími hennar sé, hvaða daga hún er veitt, klukkan hvað, hvar úrræðið fer fram og verð. Þjónustuaðilar geta sent inn breytingar á upplýsingum úrræðis og verði en við það sendist breytingarumsókn til úrræðasviðs sem ber ábyrgð á því að yfirfara og samþykkja eða hafna breytingum. Þessar upplýsingar eru vistaðar jafnóðum í upplýsingakerfi VIRK.
Ef gera þarf breytingar á fyrirliggjandi úrræðum setjast þjónustuaðilar og starfsfólk VIRK gjarnan niður og fara yfir árangur núverandi úrræða og koma með tillögur um endurbætur á núverandi úrræðum eða ný úrræði eru þróuð eftir slík samtöl.
Stundum bætist við ný þekking eða aðferðir sem sýnt hefur verið fram á að skili góðum árangri og þá er úrræðum breytt eða þeim bætt í úrræðaflóruna. Þegar sýnt er fram á góðan árangur í tilteknum úrræðum eykst gjarnan eftirspurn eftir úrræðinu og þá þarf stundum að kalla eftir því að fleiri þjónustuaðilar bjóði upp á sambærileg úrræði eða að þjónustan verði einnig í boði sem fjarúrræði. Það sem ræður mestu um hvort úrræði verði eftirsótt eða vinsælt, er hvort þörf sé til staðar fyrir úrræðið, orðspor þjónustuaðilans og hvort úrræðið uppfylli væntingar og þarfir einstaklinga.
Góð samskipti og eftirfylgni
Margir framúrskarandi fagaðilar á sviði starfsendurhæfingar eru í samstarfi við VIRK. Starfsemi VIRK snýst um einstaklinga í þjónustu og því er stöðugt leitað leiða til að þjónustan sé í takt við þarfir þjónustuþega. Það sem einkennir árangursríka starfsendurhæfingu er góð samvinna ráðgjafa, einstaklings og fagaðila.
Sérfræðingar VIRK rýna mál einstaklinga eftir þörfum og þá skiptir endurgjöf frá þjónustuaðilum til ráðgjafa miklu máli svo hægt sé að taka afstöðu til næstu skrefa með tilliti til framgangs í starfsendurhæfingunni. Þegar kallað er eftir greinargerðum er mikilvægt að fagaðilar skili þeim af sér tímanlega. Þjónustuaðilar eru oft beðnir um að skila lokaskýrslu til VIRK í kjölfar námskeiða og hópmeðferða og eru upplýsingar um mætingar, niðurstöður matlista og tillögur að næstu skrefum í starfsendurhæfingu nýttar til að meta hvort færni til atvinnuþátttöku sé að aukast eða hvort grípa þurfi inn í og breyta áætlun einstaklings.
Úrræði sem taka mið af færni
Hvað þarf til þess að árangur náist í starfsendurhæfingu og hvers vegna skiptir máli að taka mið af færni og hindrunum til atvinnuþátttöku við val á úrræðum? Í upphafi starfsendurhæfingar gera ráðgjafi og þjónustuþegi áætlun um endurkomu til vinnu. Sérfræðingar VIRK eru ráðgjöfum og einstaklingum innan handar við mat á þörfum fyrir þjónustu og við kortlagningu á færni og hindrunum til atvinnuþátttöku í upphafi þjónustu.
Lagt er upp með að tryggja einstaklingum markvissa þjónustu á réttum tíma sem tekur mið af færni og hindrunum hvers og eins hverju sinni. Engir tveir eru eins og hver og einn hefur sína sérstöku hæfileika. Því gegnir fjölbreytt úrræðaflóra lykilhlutverki við að efla færni ólíkra einstaklinga til vinnu eða náms. Þá er einnig tekið mið af styrkleikum hvers og eins og áhugasviði.
Fjöldi þjónustuaðila helst stöðugur
VIRK átti í góðu samstarfi við tæplega 500 þjónustuaðila á árinu 2022 sem er álíka fjöldi og á undanförnum árum. Kostnaður vegna úrræða dróst lítillega saman milli ára og nam 1.572 milljónum króna. Mynd 1 sýnir þróun útgjalda vegna aðkeyptrar þjónustu á föstu verðlagi. Á árinu voru gerðar 21.508 pantanir á úrræðum í upplýsingakerfi VIRK í samanburði við 22.321 pantanir árið á undan. Pöntunum fækkar því um 4% milli ára sem skýrir lækkun á kostnaði vegna úrræða.
Mynd 2 sýnir hlutfallslega skiptingu útgjalda vegna aðkeyptrar þjónustu frá þjónustuaðilum á árinu 2022. Hæstri fjárhæð er varið til kaupa á sérhæfðum starfsendurhæfingarúrræðum hjá starfsendurhæfingarstöðvum um land allt, um 52%. Um 24% fjárhæðar er varið til kaupa á sálfræðiþjónustu. Úrræði tengd hreyfingu og sjúkraþjálfun nema samtals 11%. Kaup vegna sjálfseflingarúrræða hafa aukist lítillega milli ára og nema 6%.
Tegundir þjónustu og starfsendurhæfingarlíkan
VIRK Starfsendurhæfingarlíkan VIRK skiptist í átta þætti eins og sjá má á mynd 3. Þættirnir eru: Líkamleg heilsa, andleg heilsa, hreyfing, dagleg virkni, samskipti og félagsfærni, tileinka sér og nýta þekkingu, þátttaka og umhverfi. Tegundir og undirtegundir þjónustu raðast svo á mismunandi þætti líkansins eftir eðli úrræða. Ráðgjafi metur færni í hverjum þætti fyrir sig og ef hindrun er til staðar sem hindrar atvinnuþátttöku eru sett markmið í samvinnu við einstakling og viðeigandi úrræði pöntuð.
Líkanið byggir á ICF flokkunarkerfinu (The International Classification of Functioning, Disability and Health) frá Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni (WHO). Stuðst er við gagnreyndar aðferðir í meðferðum fagaðila og ráðgjöf og þjónusta sem veitt er einstaklingum tekur mið af hindrunum hvers og eins til vinnu.
Góð reynsla er komin á þrepaskiptingu úrræða í fjögur þrep hjá VIRK þar sem tekið er mið af alvarleika hindrana á færni til atvinnuþátttöku. Þrepaskiptingin hefur leitt til þess að starfsendurhæfingin hefur orðið enn markvissari en áður og ræður hindrun á færni hvers konar úrræða er þörf. Ef einstaklingur er t.d. með hindranir hvað varðar andlega heilsu eru sett markmið til að efla andlega færni og viðeigandi úrræði pöntuð fyrir einstaklinginn. Ef hindrun er í líkamlegri heilsu eru sett fram markmið til þess að efla líkamlega færni og viðeigandi úrræði pöntuð.
Skipting þjónustuaðila
Um 150 sálfræðingur veittu sálfræðiþjónustu hjá VIRK á árinu 2022. Sálfræðingar veita þjónustu vegna andlegrar heilsu. Þjónustan felur í sér einstaklingsviðtöl, námskeið og hópmeðferðir vegna geðræns og streitutengds vanda og byggir þjónusta sálfræðinga á gagnreyndum aðferðum. Þjónustunni er þrepaskipt eftir eðli vanda einstaklings og styðjast sálfræðingar við klínískar leiðbeiningar í meðferðarvinnu. Sálfræðingar auk fleiri fagaðila bjóða auk þess upp á fjölda úrræða á sviði náms- og vinnumiðaðrar sjálfseflingar sem miða að árangursríkri endurkomu til vinnu.
Fjöldi sjúkraþjálfara sem starfaði fyrir VIRK var um 120 og fækkaði lítillega í hópnum milli ára. Í mars 2023 voru gerðar breytingar á samstarfi VIRK og sjúkraþjálfara þar sem samstarfið var einfaldað og er það von VIRK að fleiri sjúkraþjálfarar bætist í hóp þjónustuaðila í kjölfarið. Sjúkraþjálfarar veita fjölbreytta einstaklings- og hópþjónustu fyrir einstaklinga með stoðkerfisvanda og styðjast þeir einnig við klínískar leiðbeiningar í meðferðarvinnu. Þeir styðja einstaklinga sem þurfa aðstoð við að efla líkamlega heilsu og gera hreyfingu að lífsstíl. Um 130 aðrir þjónustuaðilar bjóða upp á ýmsa heilsueflandi þjónustu eins og líkamsrækt með stuðningi íþróttafræðings eða þjálfara, vatnsleikfimi og jóga.
Rúmlega 50 fagaðilar veittu ýmsa ráðgjöf og þjónustu sem efla daglega virkni og ráðgjöf vegna umhverfistengdra þátta. Með umhverfistengdum þáttum er átt við þætti sem snúa að því að efla félagslega kjölfestu einstaklinga, til dæmis félagsráðgjöf og fjölskylduráðgjöf.
Fjölbreyttur hópur þjónustuaðila veitir þjónustu sem stuðlar að aukinni þátttöku einstaklinga. Um 40 fræðslu- og símenntunaraðilar veittu ráðgjöf og fræðslu sem eykur möguleika einstaklinga á vinnumarkaði. Um er að ræða mjög fjölbreytta þjónustu sem getur falið í sér áhugasviðsgreiningar, hæfnigreiningar, raunfærnimat, nám á vottuðum námsleiðum auk fjölmargra styttri námskeiða sem auka möguleika á vinnumarkaði. Námsúrræði í starfsendurhæfingu þurfa að hafa það að markmiði að auka vinnugetu einstaklinga og gera þá hæfari í að takast á við launað starf á vinnumarkaði.Talsverður fjöldi þjónustuaðila veitir atvinnutengda þjónustu og náms- og vinnumiðaða sjálfseflingu sem miðar að því að undirbúa einstaklinga sem best undir atvinnuleit, s.s. gerð ferilskrár, vinnuprófanir, úttekt á vinnuumhverfi, ráðgjöf og stuðningur á vinnustað við endurkomu til vinnu o.fl.
VIRK er í samstarfi við níu starfsendurhæfingarstöðvar sem eru staðsettar um land allt en þrjár þeirra eru staðsettar á höfuðborgarsvæðinu. Eftir að geðheilsuteymi heilsugæslunnar tóku til starfa um land allt á síðustu árum má sjá breytingu á samsetningu hópsins í þjónustu VIRK. Að undanförnu virðist þörfin fyrir þverfagleg starfsendurhæfingarúrræði hafa minnkað sem kallar á nýsköpun og þróun á þjónustu starfsendurhæfingarstöðva. Einstaklingum með meðfæddar taugaþroskaraskanir hefur fjölgað í þjónustu VIRK á undanförnum árum sem og einstaklingum sem hafa átt við fíknivanda að stríða. Þessar breytingar á hópnum kalla á gott samstarf milli kerfa og mikilvægt er að allir aðilar vinnumarkaðarins sýni aukinn sveigjanleika og taki tillit til ólíkra þarfa einstaklinga sem hafa áhuga á því að vera virkir þátttakendur á vinnumarkaði.
Þá fær hópur útlendinga ýmsan sértækan stuðning eins og íslenskunámskeið og túlkaþjónustu. Úrræðum fyrir útlendinga hefur fjölgað á undanförnum árum og í febrúar 2023 var farið af stað með þverfaglegt tilraunaverkefni fyrir útlendinga í samvinnu við starfsendurhæfingarstöðina Hringsjá. Áhugi er á frekari þróun úrræða af þessum toga.
Að lokum
Öll höfum við hæfileika, allir eru einstakir og enginn er fullkominn. Sveigjanleiki, mennska og tillitsemi getur flutt fjöll og skapað ótal tækifæri á vinnumarkaði sem tekur sífelldum breytingum. Þarfir morgundagsins felast í margbreytileika mannlífsins. Samfélag inngildingar, jafnréttis og sveigjanleika þar sem allir skipta máli og mega taka pláss er verðugt verkefni fyrir íslenskan vinnumarkað. Allir sem vilja vinna ættu að fá tækifæri til þess að láta ljós sitt skína – hver með sínum hætti!
Greinin birtist fyrst í ársriti VIRK 2023.