Fara í efni

Þróun örorku að teknu tilliti til lýðfræðilegra þátta

Til baka

Þróun örorku að teknu tilliti til lýðfræðilegra þátta

Svandís Nína Jónsdóttir sérfræðingur hjá VIRK

 

Undanfarin ár hefur talsverð umræða átt sér stað um fjölgun einstaklinga með 75% örokru á Íslandi. Er þá vísað til þess að fjöldi einstaklinga með 75% örorkumatsréttindi hefur tvöfaldast frá árinu 2000, úr rúmlega 10 þúsund - um 6% af mannfjölda 16-66 ára - í ríflega 19 þúsund árið 2018 - um 8% af mannfjölda (sjá mynd 1). Sama gildir um nýgengi örorku þó þróunin sé sveiflukenndari (sjá mynd 2). Árin 2000-2004 var meðalfjöldi nýgengistilfella 1.340 en 1.520 árin 2014-2018.

Það er þó varhugavert að skoða þróun á heilbrigði og/eða lýðheilsu þjóðar yfir tíma án þess að taka mið af mögulegum breytingum á samsetningu mannfjöldans og því verða í þessari grein settar fram upplýsingar um þróun á örorku hjá Tryggingastofnun ríkisins að teknu tilliti til þróunar á lýðfræðilegum þáttum eins og aldri og kyni.

Áhrif lýðfræðilegra breytinga á heilbrigðistölfræði

Heilbrigðistölfræðingar telja varhugavert að bera saman algengi sjúkdóma og sjúkdómsgreininga yfir tíma eða milli þjóða út frá óleiðréttri hrá tíðni heldur verður að taka tillit til lýðfræðilegra breytinga(1). Frá árinu 2000 hefur íbúum fjölgað mikið og þ.a.l. hefur einstaklingum á örorkulífeyri fjölgað, að gefinni óbreyttri örorkutíðni. Þá hefur aldurssamsetning þjóðarinnar breyst og hlutfall eldra fólks aukist. Líkur á örorku aukast jafnt og þétt með hækkandi aldri og þarf greining á algengi og umfangi örorku að taka mið af því. Loks hefur kynjasamsetning þjóðarinnar breyst, körlum í vil. Konur eru líklegri en karlar til að fá örorkumat og því getur breytt kynjasamsetning þjóðarinnar haft talsverð áhrif á heildaralgengi og nýgengi örorku.

Myndir 3 og 4 sýna breytingar á samsetningu íslensku þjóðarinnar síðustu 20 árin. Þar munar mestu um vægi yngsta aldurshópsins (15 ára og yngri) og þeirra sem eru 60 ára og eldri. Börn 15 ára og yngri voru 25% þjóðarinnar árið 2000 en 21% árið 2018. Til samanburðar fór hlutfall 60 ára og eldri úr 15% í 20% á sama tíma (mynd 3).

Körlum hefur jafnframt fjölgað umfram konur. Líkt og Hagstofa Íslands greinir frá í mannfjöldaspánni 2018-2067 er breytt kynjahlutfall samspil margra þátta. Meðal annars fæðast fleiri drengir en stúlkur á hverju ári og er hegðun kynjanna ólík varðandi búferlaflutninga. Fleiri erlendir karlar en konur flytja til landsins í atvinnuleit og gerir spá Hagstofunnar ráð fyrir því að sú þróun muni halda áfram, a.m.k. fram til ársins 2067(2).

Á Íslandi voru að jafnaði 1.021 karl á hverjar 1.000 konur árið 2000 en árið 2018 voru karlarnir orðnir 1.066 á hverjar 1.000 konur. Þó hlutdeild karla hafi vissulega sveiflast nokkuð á tímabilinu, Af framansögðu má ráða að talsverðar breytingar hafa orðið á lýðfræðilegri samsetningu íslensku þjóðarinnar. Taka þarf að mið af þessum breytingum til að fá raunsanna mynd af þróun örorku á Íslandi.

Í þessari grein eru gerðar tilraunir til að áætla heildar algengi og nýgengi 75% örorkumats frá árinu 2000 með tilliti til breyttrar aldursog kynjasamsetningar þjóðarinnar. Notast er við fjöldatölur frá Tryggingastofnun í janúar ár hvert sem gefa góða mynd af þróun yfir tíma. Við úrvinnsluna var stuðst við heilbrigðisrannsóknir á vegum Krabbameinsskrár Íslands á algengi og nýgengi krabbameins og rannsókn Sigurðar Thorlacius o.fl. á algengi örorku árin 1976-1996(3). Í báðum rannsóknum er algengi og nýgengi staðlað eftir aldri og kyni samkvæmt viðurkenndum aðferðum faraldsfræðinnar.

Hvað er aldursstöðlun?

Eins og áður segir er aldursstöðlun algeng aðferð til að draga úr raskandi áhrifum aldurs við mat á heildaralgengi sjúkdóma. Aðferðin er sérstaklega heppileg þegar bornir eru saman hópar með ólíka aldursdreifingu, t.d. í samanburði milli landa eða yfir tíma. Í þessari umfjöllun er tekið tillit til breytinga sem orðið hafa á aldursdreifingu karla og kvenna á aldrinum 16-66 ára á Íslandi frá árinu 2000. Aldursdreifingin árið 2000 var notuð sem staðalþýði og þjóðinni skipt í 11 aldurslög (16-19, 20-24, 25-29, 30-34, 35- 39, 40-44, 45-49, 50-54, 55-59, 60-64 og 65-66) fyrir hvort kyn. Stuðull fyrir hvern flokk var reiknaður með því að margfalda algengi örorkunnar innan hvers aldurslags með lagshlutfallinu og leggja síðan útkomu allra laga saman til að fá heildaralgengi og nýgengi.

Staðlað áhættuhlutfall (e. standardized risk ratio) á nýgengi örorku var síðan reiknað með því að deila stuðlinum 2000 upp í stuðulinn fyrir árið 2018. Ef staðlaða áhættuhlutfallið er jafnt og 1 er nýgengi örorku það sama árið 2018 og árið 2000, að teknu tilliti til lýðfræðilegra breytinga. Ef staðlaða áhættuhlutfallið er stærra en 1 var nýgengi örorku tíðara árið 2000 en árið 2018 en fátíðara ef áhættuhlutfallið er minna en 1.

Staðlað algengi 75% örorkumats eftir aldri og kyni

Á mynd 5 hér að ofan er samanburður á hráalgengi 75% örorkumats í samanburði við staðlað algengi eftir kyni og aldri. Árið 2000 (sem er viðmiðunarpunktur matsins) er hlutfall einstaklinga með 75% örorkumat um 6% af mannfjölda 16-66 ára en um 8% árið 2018 ef miðað er við hráalgengi. Þegar búið er að taka tillit til aldurs og kyns lækkar hlutfallslegt algengi 75% örorku af mannfjölda árið 2018 úr 8% í 7%.

Hvað þýðir þetta? Í hnotskurn má segja að þó hráalgengi örorku hafi hækkað sem hlutfall af mannfjölda frá árinu 2000 sé hluta skýringarinnar að finna í breyttri aldurs- og kynjasamsetningu þjóðarinnar, þ.e.a.s. ef samsetning þjóðarinnar væri eins nú og árið 2000 væri heildaralgengi örorku lægra í dag en ella.

Aldursstaðlað algengi örorku fyrir karla og konur

Það er áhugavert að sjá þróunina á algengi 75% örorkumats eftir kyni fyrir valin ár á tímabilinu 2000-2018 (mynd 6 hér að ofan). Ekki einungis eru konur talsvert líklegri en karlar til að fá 75% örorkumat öll árin heldur fer hlutfall þeirra hækkandi á meðan hlutfall karla stendur í stað. Í ljósi þess að karlar eru ólíklegri en konur til að fá örorkumat, þó þeir séu fleiri, er næsta líklegt að þeir dragi úr vægi heildaralgengis örorku.

Nýgengi 75% örorkumats hefur, eðli málsins samkvæmt, annars konar dreifingu en algengi. Algengi er uppsafnaður fjöldi, þ.e. allir lifandi einstaklingar sem eru með 75% örorkumat, en nýgengi eru ný örorkumöt á hverju ári fyrir sig.

Á mynd 7 hér að ofan er hrá nýgengistala borin saman við staðlað nýgengi fyrir valin ár á tímabilinu 2000-2018. Þó nýgengið sveiflist nokkuð milli ára má sjá að staðlaða nýgengið 2018 er lægra en nýgengið árið 2000, eða 6 tilvik á hverja 1.000 íbúa. Staðlað áhættuhlutfall (þ.e. líkurnar á því að einstaklingur á aldrinum 16-66 hafi fengið örorkumat árið 2000 borið saman við 2018 var 1,07, sem þýðir að líkurnar á örorku hafi verið hærri árið 2000 en 2018. Fjölgun nýgengistilfella 2018 skýrist því nær einvörðungu af auknum fjölda þjóðarinnar (16-66 ára) sem og breyttri aldurs- og kynjasamsetningu.

Það er áhugavert að skoða nýgengi 75% örorkumats eftir kyni (mynd hér að ofan 8). Líkt og með algengið, eru konur líklegri en karlar til að fá örorkumat fyrir öll árin sem eru til skoðunar. Fjöldi staðlaðra nýgengistilvika meðal kvenna eru þó færri árið 2018 (8 á hverja 1.000 íbúa) en árið 2000 (9 á hverja 1.000 íbúa) á meðan þau standa nokkurn veginn í stað hjá körlum. Staðlað áhættuhlutfall er tæplega 1,1 meðal kvenna en rúmlega 1 hjá körlum.

Hvað þýða þessar niðurstöður?

Niðurstöður sýna óyggjandi fram á mikilvægi þess að notaðar séu viðurkenndar aðferðir faraldsfræðinnar í greiningu á algengi og nýgengi örorkumats. Þegar leiðrétt er fyrir áhrifum aldurs og kyns á heildaralgengi örorku árið 2018, lækkar það úr 8% í 7%. Svo virðist því sem breytt samsetning þjóðarinnar skýri að hluta þá aukningu sem orðið hefur á heildaralgengi örorku frá árinu 2000.

Einnig eru konur líklegri en karlar til að vera með örorkumat og virðist kynjamunurinn ágerast eftir því sem líður á tímabilið. Árið 2018 eru 1,5 kona á móti hverjum karli með 75% örorkumat borið saman við um 1,4 konu á hvern karl árið 2000. Nýgengi örorku fylgir eðlilega annarri dreifingu en uppsafnaðar algengistölur. Þá ber svo við að staðlað nýgengi verður lægra en nýgengi viðmiðunarársins (2000) eða um 6 tilvik af hverjum 1.000 16-66 ára íbúa árið 2018 borið saman við um 7 tilvik árið 2000. Líkt og með algengistölur er nýgengi örorku talsvert tíðara meðal kvenna en karla (1,6 konur á móti hverjum karli árið 2018). Staðlað nýgengi stendur í stað meðal karla árin 2000 og 2018 en lækkar meðal kvenna (8 tilvik af hverjum 1.000 íbúum á móti 9 tilvikum árið 2000).

Því upplýstari sem stjórnvöld eru um lýðfræðileg áhrif á heilbrigði þjóðarinnar því betri og markvissari verða aðgerðirnar. Það er nokkuð ljóst að aldur og kyn hafa veruleg áhrif á örorkulíkur fólks og því er hugsanlegt að einstaklingum með 75% örorkumat muni fjölga í framtíðinni í takt við hækkandi lífaldur þjóðarinnar. Af niðurstöðum má ráða að aðflutningur erlends vinnuafls (þá sérstaklega karla) til landsins hafið dregið úr vægi örorku í íslensku samfélagi. Sú þróun mun að öllum líkindum halda áfram næstu ár ef miðað er við mannfjöldaspá Hagstofunnar 2018-2067.

Greinin birtist fyrst í ársriti VIRK 2019.

Heimildir

1. Matthías Halldórsson (2001). Örorka og öryrkjar (ritstjórnargrein). Læknablaðið; 87: 201-202.
2. Hagstofa Íslands (e.d.). Mannfjöldaspá 2018-2067 (birt 19. október 2018).
3. Sigurður Thorlacius, Sigurjón Stefánsson, Stefán Ólafsson og Vilhjálmur Rafnsson (2001). Breytingar á algengi örorku á Íslandi 1976-1996. Læknablaðið; 87:205-9.
4. Tryggingastofnun ríkisins (e.d.). Fjöldi með 75% örorkumat (og/eða örorkulífeyri) í janúar ár hvert og nýgengi 75% örorkumats, árin 2000-2018.


Fréttir

30.05.2024
28.05.2024

Hafa samband