Fara í efni

Þjónustuaðilar - Yfirsýn þjónustu og þjónustuframboðs

Til baka

Þjónustuaðilar - Yfirsýn þjónustu og þjónustuframboðs

Ásta Sölvadóttir verkefnastjóri hjá VIRK

VIRK steig stórt skref inn í framtíðina í maí 2018 þegar tekið var í notkun nýtt upplýsingakerfi sem ætlað er að auka gæði og skilvirkni þjónustu í starfsendurhæfingu.

Mikill ávinningur felst í innleiðingu upplýsingakerfisins fyrir þjónustuaðila VIRK. Fyrst ber að nefna öruggari samskipti milli þjónustuaðila, einstaklinga í þjónustu, ráðgjafa og sérfræðinga VIRK. Einnig verða þjónustuaðilar hluti af teymi einstaklings og fá betri yfirsýn yfir eigið þjónustuframboð og pantanir í vinnslu.

Hver þjónustuaðili hefur sitt svæði eða „Mínar síður" í upplýsingakerfinu og sendir inn þjónustuumsóknir með rafrænum hætti til VIRK. Með markvissari innkaupum á þjónustu og faglegri endurgjöf þjónustuaðila til ráðgjafa og sérfræðinga VIRK standa vonir til þess að auka gæði og skilvirkni í starfsendurhæfingu á vegum VIRK. Innleiðing þrepaskiptingar á þjónustu hefur dregist en stefnt er að því að hún byrji af fullum krafti haustið 2019. Með henni er ætlunin að koma enn betur til móts við þarfir einstaklinga í þjónustu VIRK.

Þjónustuaðilar eru ábyrgðaraðilar fyrir vinnslu persónuupplýsinga í skilningi nýrra laga, nr. 90/2018, um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga sem tóku gildi á síðasta ári. Markmið laganna er að stuðla að því að með persónuupplýsingar sé farið í samræmi við grundvallarsjónarmið og reglur um persónuvernd og friðhelgi einkalífs og að tryggja áreiðanleika og gæði slíkra upplýsinga og frjálst flæði þeirra á innri markaði Evrópska efnahagssvæðisins.

Í upplýsingakerfinu er gerð krafa um rafræn skilríki hjá öllum notendum. Með því móti er tryggt að aðeins þeir sem nauðsynlega þurfa að hafa aðgang að upplýsingum um einstaklinga í þjónustu VIRK hafi slíkan aðgang. Örugg samskipti innan kerfisins auðvelda þjónustuaðilum, ráðgjöfum og sérfræðingum VIRK samvinnu sín á milli. Betri yfirsýn næst yfir mætingar, framgang og endurgjöf í hverri þjónustupöntun fyrir sig og koma samskipti innan kerfis alfarið í stað tölvupóstsamskipta. Loks ber að nefna að öll möt sérfræðinga og greinargerðir fagaðila eru unnar með rafrænum hætti í upplýsingakerfinu.

Fjölbreytt flóra fagaðila meðal þjónustuaðila

VIRK átti sem fyrr í góðu samstarfi við fjölda þjónustuaðila um land allt á árinu 2018. Kaup á þjónustu fagaðila jókst lítillega á árinu og námu þau rúmlega 1.304 milljónum króna eins og sjá má á mynd 1 hér að ofan. Lítil hækkun milli ára tengist að stærstum hluta innleiðingu á nýju upplýsingakerfi VIRK. Í árslok voru flestir þjónustuaðilar orðnir virkir á nýjan leik og því hægt að panta þjónustu á ný.

Á mynd 2 hér að neðan má sjá skiptingu útgjalda milli mismunandi tegunda þjónustu á árinu 2018. Kostnaður vegna sjúkraþjálfunar dróst saman um tvö prósentustig á árinu vegna fækkunar sjúkraþjálfara meðal þjónustuaðila. Lítilsháttar aukning er vegna atvinnutengdrar þjónustu og sálfræðiþjónustu á árinu en annars er skipting útgjalda með svipuðum hætti og árið áður.

Þjónustuaðilar VIRK

Ríflega 100 sálfræðingar störfuðu með VIRK á árinu 2018 og veita þeir einstaklingum með geðrænan og streitutengdan vanda einstaklingsviðtöl og hópmeðferðir sem byggja á gagnreyndum aðferðum. Búið er að þrepaskipta þjónustu sálfræðinga eftir eðli vanda einstaklinga og stuðst er við klínískar leiðbeiningar í meðferð.

Með VIRK starfa rúmlega 100 sjúkraþjálfarar sem veita fjölbreytta einstaklingsog hópþjónustu fyrir einstaklinga með stoðkerfisraskanir. Þeir styðja auk þess einstaklinga sem vinna að því að gera hreyfingu sem hluta af lífsstíl sínum. Umtalsverð fækkun varð á meðal sjúkraþjálfara frá árinu 2017 þegar um 200 sjúkraþjálfarar störfuðu fyrir VIRK.

Miklar annir eru um þessar mundir hjá sjúkraþjálfurum almennt og langir biðlistar hafa myndast hjá stéttinni. Vonir standa til að sjúkraþjálfurum fjölgi á nýjan leik meðal þjónustuaðila á næsta ári, þar sem umsýsla vegna þjónustupantana er mun skilvirkari í nýja upplýsingakerfinu og þörf einstaklinga í þjónustu VIRK hefur ekki dregist saman.

Um 100 þjónustuaðilar um land allt bjóða upp á ýmsa heilsueflandi þjónustu og má þar nefna líkamsrækt með stuðningi íþróttafræðings eða þjálfara, vatnsleikfimi og jóga.

Fjölmargir fræðsluaðilar og símenntunarmiðstöðvar um allt land veita ráðgjöf og fræðslu sem auka möguleika einstaklinga á vinnumarkaði. Þjónustan felur meðal annars í sér áhugasviðsgreiningar, hæfnigreiningar, raunfærnimat, nám á vottuðum námsleiðum auk fjölmargra styttri námsleiða og námskeiða sem auka möguleika á vinnumarkaði. Fjöldi þjónustuaðila veitir atvinnutengda þjónustu og má þar helst nefna vinnuprófanir, úttekt og ráðgjöf og stuðning á vinnustað við endurkomu til vinnu sem og úrræði sem miða að því að búa einstaklinga undir atvinnuleit. Að lokum veita fjölmargir fagaðilar ýmsa ráðgjöf og meðferð. Hópur útlendinga leitar einnig til VIRK og er veittur ýmiss sértækur stuðningur fyrir þennan hóp t.d. túlkaþjónusta og íslenskunámskeið.

VIRK hefur átt í farsælu samstarfi við 9 starfsendurhæfingarstöðvar um allt land á undanförnum árum. Samstarfssamningar við starfsendurhæfingarstöðvar er liður í því að tryggja að til staðar sé fagleg þekking og reynsla á sviði starfsendurhæfingar um allt land. Samstarf VIRK og starfsendurhæfingarstöðva byggist m.a. á reglulegum þverfaglegum rýnifundum þar sem farið er markvisst yfir mál einstaklinga sem eru í þjónustu starfsendurhæfingarstöðva á vegum VIRK.

Þjónustuteymi VIRK

Í október 2018 fjölgaði um tvo í þjónustuteymi VIRK en hlutverk teymisins er að hafa umsjón með þjónustu sem VIRK kaupir, sinna eftirliti með þjónustukaupum og tryggja upplýsingastreymi til þjónustuaðila, ráðgjafa og sérfræðinga VIRK. Í teyminu eru Ásta Sölvadóttir verkefnastjóri, Óskar Jón Helgason sérfræðingur og Anna Magnea Bergmann ritari. Óskar Jón gekk til liðs við VIRK á haustmánuðum en hann hefur víðtæka reynslu sem þjónustuaðili og starfaði áður hjá Heilsuborg.

Greinin birtist fyrst í ársriti VIRK 2019


Fréttir

30.05.2024
28.05.2024

Hafa samband