Þjónustuaðilar
Þjónustuaðilar
Ásta Sölvadóttir verkefnisstjóri hjá VIRK
VIRK átti sem fyrr í árangursríku samstarfi við fagfólk um land allt á árinu 2017. Rúmlega 500 þjónustuaðilar störfuðu sem samstarfsaðilar VIRK á landsvísu á árinu og tekur fagfólk á hverju landsvæði virkan þátt í þróun faglegrar þjónustu í starfsendurhæfingu í samvinnu við ráðgjafa og sérfræðinga VIRK.
Á árunum 2017-18 er unnið að því að þrepaskipta faglegri þjónustu í starfsendurhæfingu á vegum VIRK. Með því að þrepaskipta þjónustu er hægt að mæta þörfum einstaklinga á sem bestan hátt með því að bjóða upp á þjónustu sem er sniðin að heilsubresti/hindrunum hvers og eins. Má þar nefna allt frá almennri þjónustu sem hentar flestum, til sérhæfðs þverfaglegs inngrips ef um alvarlegan vanda er að ræða(1). Þrepaskiptingin er liður í innleiðingu nýs upplýsingakerfis hjá VIRK sem tekið verður í notkun á vormánuðum 2018 og er ætlað að auka skilvirkni og gæði þjónustunnar.
Við þróun á þrepaskiptingu þjónustu í starfsendurhæfingu hjá VIRK voru eftirfarandi leiðbeiningar hafðar til hliðsjónar: Klínískar leiðbeiningar í sálfræðimeðferð og sjúkraþjálfun frá National Institute for Health and Care Excellence (NICE)(2) , ICF flokkunarkerfið (Alþjóðlega flokkunarkerfið um færni, fötlun og heilsu)(3) , Hæfnirammi um íslenska menntun(4) og gæðahandbók VIRK.
Klínískar leiðbeiningar (clinical guidelines) eru leiðbeiningar um verklag, unnar á kerfisbundinn hátt, til stuðnings starfsfólki í heilbrigðisþjónustu og almenningi við ákvarðanatöku við tilteknar aðstæður. Þær taka mið af bestu þekkingu á hverjum tíma og eru lagðar fram í því skyni að veita sem besta meðferð með sem minnstri áhættu án óhóflegs kostnaðar(5). ICF flokkunarkerfið er gefið út af Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni WHO til að samræma skráningu á heilsutengdri færni og færniskerðingu og lýsir færni frá ólíkum sjónarhornum(6).
Í starfsendurhæfingu er unnið með styrkleika einstaklingsins samhliða því að lögð er áhersla á að draga úr áhrifum hindrana sem skert geta starfshæfni hans. Hæfnirammi um íslenska menntun endurspeglar stigvaxandi hæfnikröfur í formlegu og óformlegu námi á Íslandi en upplýsingar um hæfni má meðal annars nýta í ferilskrár, við starfsþróun og í umsóknir um nám.
Starfsendurhæfingarferlið hjá VIRK
Áður en beiðni um starfsendurhæfingu er samþykkt, þarf einstaklingur að svara spurningum sem notaðar eru til að mynda persónusnið (prófíl) varðandi hæfni til vinnu. Persónusniðið byggir á fyrrgreindu ICF flokkunarkerfi og beiðni læknis. Með því að tengja saman atvinnu, nám, félagslega þætti, heilsuhegðun, líkamlega þætti, andlega þætti og umhverfi einstaklingsins skapast ákveðin sýn á samspil heilsufars, færni og aðstæðna hvers og eins.
Eftir að beiðni er samþykkt, hittir einstaklingurinn ráðgjafa og í sameiningu eru styrkleikar og hindranir kortlögð og markmið í starfsendurhæfingunni sett fram sem miða að endurkomu hans til vinnu eða í nám. Í sumum tilfellum er þörf á aðkomu sérfræðinga við frekari kortlagningu og markmiðasetningu og hittir einstaklingurinn þá sálfræðing, sjúkraþjálfara eða lækni.
Til að gera það mögulegt að ná markmiðum eru ákvörðuð sérstök inngrip fyrir einstaklinginn. Hvert inngrip í starfsendurhæfingunni byggir á þörf einstaklingsins fyrir þjónustu og þeim heilsubresti/hindrunum til vinnu eða náms sem vinna á með hverju sinni. Inngripum er því næst raðað í þjónustuþrep. Þegar ákveðið er hvaða þjónustuþrep hentar hverjum einstaklingi er alltaf tekið mið af alvarleika einkenna við skimun, rýni og mat sérfræðinga og ráðgjafa VIRK.
Fjölbreyttur hópur þjónustuaðila í samstarfi við VIRK
Ríflega 100 sálfræðingar störfuðu með VIRK á árinu og veita þeir einstaklingum með geðrænan vanda einstaklingsviðtöl og hópmeðferð sem byggja á gagnreyndum aðferðum. Með því að þrepaskipta þjónustu þar sem stuðst er við klínískar leiðbeiningar í meðferð er ætlunin að tryggja enn betur að einstaklingar í þjónustu VIRK fái sálfræðiþjónustu við hæfi.
Með VIRK starfa um 200 sjúkraþjálfarar sem veita fjölbreytta einstaklings- og hópþjónustu fyrir einstaklinga með stoðkerfisraskanir. Þeir styðja auk þess einstaklinga sem eru að vinna að því að gera hreyfingu sem hluta af lífsstíl sínum. Um 100 þjónustuaðilar um land allt bjóða upp á ýmsa heilsueflandi þjónustu og má þar nefna líkamsrækt með stuðningi íþróttafræðings, þjálfara, vatnsleikfimi, jóga eða líkamsrækt án stuðnings.
Um 100 símenntunaraðilar um allt land veita ráðgjöf og fræðslu sem auka möguleika einstaklinga á vinnumarkaði. Þjónustan felur meðal annars í sér áhugasviðsgreiningar (7), hæfnigreiningar, raunfærnimat, nám á vottuðum námsleiðum8 auk fjölmargra styttri námsleiða og námskeiða sem auka möguleika á vinnumarkaði.
Fjöldi þjónustuaðila veitir einnig atvinnutengda þjónustu og má þar helst nefna vinnuprófanir, úttekt og ráðgjöf og stuðning á vinnustað við endurkomu til vinnu sem og úrræði sem miða að því að búa einstaklinga undir atvinnuleit. Eins veita fjölmargir fagaðilar ýmsa ráðgjöf og meðferð. Hópur útlendinga leitar einnig til VIRK og er veittur ýmiss sértækur stuðningur fyrir þennan hóp t.d. túlkaþjónusta og íslenskunámskeið.
VIRK er með samning við átta starfsendurhæfingarstöðvar um allt land en það er liður í því að tryggja að til staðar sé fagleg þekking og reynsla á sviði starfsendurhæfingar um allt land. Á starfsendurhæfingarstöðvum er unnið með þær hindranir sem eru til staðar og samhliða því unnið með styrkleika einstaklings og þeir tengdir við möguleg störf á vinnumarkaði. Samstarf VIRK og starfsendurhæfingastöðva byggist á reglulegum þverfaglegum rýnifundum þar sem farið er markvisst yfir mál einstaklinga sem eru í þjónustu starfsendurhæfingarstöðva á vegum VIRK. Farið er yfir hvað hefur áunnist og lagðar línur varðandi framhaldið. Markmið samvinnunnar er að auka og bæta upplýsingaflæði á milli endurhæfingaraðila, auka skilvirkni og fagleg vinnubrögð með það fyrir augum að bæta þjónustu við einstaklinginn. Þetta aukna samstarf hefur gefið góða raun.
Kaup VIRK á þjónustu fagaðila hafa aukist mikið á undanförnum árum en árið 2017 námu þau rúmlega 1.259 milljónum króna og hækka frá árinu áður eins og sjá má á mynd 2. Hækkun milli ára skýrist að stærstum hluta vegna fjölgunar einstaklinga í þjónustu auk þess sem enn stærri hópur glímir við fjölþættan vanda. Kostnaður vegna sálfræðiþjónustu hefur til að mynda aukist og má rekja hækkunina meðal annars til þyngri hóps í þjónustu. Vorið 2017 var haldin hugmyndasamkeppni til að auka fjölbreytni í þjónustu fyrir ungt fólk. Í kjölfarið hefur orðið aukning á kaupum á slíkri þjónustu. Einnig hefur kostnaður vegna aðkeyptrar þjónustu hækkað í takt við almennar launahækkanir. Mynd 3 sýnir skiptingu útgjalda milli mismunandi tegunda af þjónustu á árinu 2017.
Greinin birtist í ársriti VIRK 2018 - sjá fleiri áhugaverðar greinar úr ársritinu hér.
Heimildir
1. Waddell, G. Burton, A.K. og Kendall, N.A.S. (2008, bls. 40). Vocational rehabilitation. What works, for whom, and When? https://www.gov.uk/ government/uploads/system/uploads/ attachment_data/file/209474/hwwbvocational-rehabilitation.pdf
2. Klínískar leiðbeiningar frá National Institute for Health and Care Excellence (NICE): https://www.nice. org.uk/guidance
3. Alþjóðlega flokkunarkerfið um færni, fötlun og heilsu (ICF-International Classification of Functioning, Disability and Health): https://www. landlaeknir.is/tolfraedi-og-rannsoknir/ flokkunarkerfi/icf/
4. Hæfnirammi um íslenska menntun (2016). https://www.stjornarradid.is/ media/menntamalaraduneyti-media/ media/frettatengt2016/Haefnirammium-islenska-menntun.pdf
5. Embætti landlæknis (sótt 13.2.2018) á: https://www.landlaeknir.is/ gaedi-og-eftirlit/heilbrigdisstarfsfolk/ klininskar-leidbeiningar/
6. ICF (sótt 13.2.2018) á: https://www. landlaeknir.is/tolfraedi-og-rannsoknir/ flokkunarkerfi/icf/
7. Áhugasviðsgreining: http://www. naestaskref.is/
8. Fræðslumiðstöð atvinnulífsins: http:// frae.is/