Fara í efni

Starfsgetumat

Til baka

Starfsgetumat

Vigdís Jónsdóttir framkvæmdastjóri VIRK

Hvað er starfsgetumat?

Starfsgetumat felur í sér að reynt er að meta getu einstaklings fremur en að meta einvörðungu læknisfræðilega skerðingu eins og gert er í örorkumati. Í starfsgetumati eru metnir bæði styrkleikar og skerðingar einstaklings með tilliti til þátttöku á vinnumarkaði. Starfsgetumat getur líka falið í sér að leita að þáttum sem unnt er að bæta með endurhæfingu eða þáttum sem hægt er að koma til móts við með aðlögun og stuðningi þannig að viðkomandi geti betur tekið þátt bæði á vinnumarkaði og í lífinu almennt.

Starfsgetumat er í eðli sínu flóknara mat en örorkumat þar sem taka þarf tillit til mun fleiri þátta. M.a. þarf að skoða möguleika og störf á vinnumarkaði og eins er óraunhæft að meta starfsgetu án þess að einstaklingar fái aðstoð og tækifæri til að efla styrkleika sína og takast á við þær hindranir sem eru til staðar vegna afleiðinga sjúkdóma og/eða slysa. Mat á starfsgetu snýst því ekki eingöngu um einstaklinginn sjálfan heldur einnig um möguleika og tækifæri í síbreytilegu umhverfi einstaklings.

Hlutverk VIRK

Á árinu 2005 var skipuð nefnd um endurskoðun örorkumats og eflingu starfsendurhæfingar. Þessi nefnd var skipuð fulltrúum stjórnvalda, aðila vinnumarkaðarins, Landssamtaka lífeyrissjóða og Öryrkjabandalags Íslands. Nefndin skilaði skýrslu á árinu 2007 þar sem m.a. var lagt til að tekið yrði upp „mat á getu einstaklings til að afla tekna í kjölfar sjúkdóms eða slyss" eða starfsgetumat. Margar fleiri tillögur voru einnig settar fram svo sem að starfsendurhæfing væri efld m.a. í samstarfi við sjúkrasjóði stéttarfélaga, lögð yrði áhersla á snemmtæka íhlutun, þverfaglega nálgun og forvarnir.

Ári síðar eða árið 2008 sömdu aðilar vinnumarkaðarins síðan um stofnun VIRK. Í þessum kjarasamningum var m.a. eftirfarandi ákvæði um stofnun sjóðsins: „Alþýðusamband Íslands og Samtök atvinnulífsins hafa á undanförnum misserum rætt saman um nýtt fyrirkomulag endurhæfingar. Samkomulag er um að hefja þróun þeirra á árinu 2008 með því að skipuleggja þjónustu og veita úrræði fyrir þá starfsmenn sem veikjast til lengri tíma og slasast þannig að vinnugeta skerðist. Markmið aðila er að koma að málum eins snemma og kostur er til að stuðla að því að hver einstaklingur verði svo virkur á vinnumarkaði sem vinnugeta hans leyfir". Það hefur því alltaf verið skýrt að hlutverk VIRK er að veita þjónustu sem miðar að því að efla starfsgetu einstaklinga og auka þátttöku á vinnumarkaði og til að geta gert það er nauðsynlegt að meta reglulega stöðu einstaklinga með tilliti til starfsgetu í öllu starfsendurhæfingarferlinu.

Í dag er VIRK fjármagnað af atvinnurekendum, lífeyrissjóðum og ríki. Þetta eru sömu aðilarnir og bera ábyrgð á framfærslugreiðslum til einstaklinga með skerta starfsgetu vegna veikinda og/eða slysa. Aðkoma þessara aðila að fjármögnun VIRK byggir á þeirri staðreynd að þessir sömu aðilar hafa ásamt þeim einstaklingum sem um ræðir, hag af því að einstaklingar fái sem besta starfsendurhæfingarþjónustu og geti orðið virkir þátttakendur á vinnumarkaði í kjölfar hennar.

Starfsgetumat hjá VIRK

Hjá VIRK hefur verið þróað matsferli með það að markmiði að einstaklingar í þjónustu VIRK fái bæði starfsendurhæfingu við hæfi og í lok starfsendurhæfingar getur starfsgetumat aðstoðað einstakling við að meta starfsgetu sína og mögulega þátttöku á vinnumarkaði.

Þjónusta VIRK felur þannig í sér að til þess að unnt sé að veita faglega og góða þjónustu og meta mögulega vinnumarkaðsþátttöku fara flestir einstaklingar í eitt eða fleiri möt á endurhæfingarferlinu. Þessi möt eru gerð af ýmsum fagaðilum eins og læknum, sálfræðingum, sjúkraþjálfurum og félagsráðgjöfum, en einstaklingurinn sjálfur tekur virkan þátt. Sjónarmið einstaklings eru í forgrunni en fagaðilar koma einnig með sitt sérfræðimat. Í lok þjónustu hjá VIRK hafa flestir einstaklingar náð þeirri starfsgetu sem stefnt var að og fara þá aftur til starfa á vinnumarkaði en þeim einstaklingum sem ekki treysta sér í fulla þátttöku á vinnumarkaði er boðið að fara í starfsgetumat til að meta stöðu sína og framtíðarmöguleika.

Niðurstöður starfsgetumats hjá VIRK eru ekki settar fram sem tiltekið hlutfall starfsgetu eða ákveðin prósentutala heldur sem lýsing á stöðunni og leiðbeiningar um næstu skref fyrir bæði einstakling og fagaðila. Næstu skref geta þannig verið bæði þátttaka á vinnumarkaði að hluta eða öllu leyti, áframhaldandi starfsendurhæfing, önnur endurhæfing eða að endurhæfing sé fullreynd og ekki sé raunhæft að stefna að þátttöku á vinnumarkaði.

VIRK kemur ekki að ákvörðun um rétt einstaklinga til örorkulífeyris eða annars konar framfærslu. Þar koma aðrir aðilar að svo sem Tryggingastofnun, lífeyrissjóðir og sjúkrasjóðir stéttarfélaga. Þessir aðilar hafa sínar eigin reglur og viðmið sem farið er eftir við úrskurð á rétti til greiðslna og VIRK kemur ekki að þeim ákvörðunum. Þessir aðilar geta hins vegar farið fram á það að einstaklingur afhendi þeim gögn frá VIRK svo sem niðurstöður úr starfsgetumati VIRK og upplýsingar um ástundun í starfsendurhæfingu. Bæði ríki og lífeyrissjóðir starfa samkvæmt lögum og reglum þar sem m.a. er kveðið á um að einstaklingar þurfi að taka þátt í endurhæfingu til að eiga rétt til framfærslugreiðslna.

Í opinberri umræðu um starfsgetumat hefur verið haldið fram ýmsum staðhæfingum um starfsgetumat sem ekki eru í samræmi við framkvæmd starfsgetumats hjá VIRK og við þekkingu og reynslu fagaðila í starfsgetumati hér á landi. Starfsgetumat hjá VIRK er alltaf framkvæmt af lækni og auk þess getur læknirinn kallað til aðra sérfræðinga eftir þörfum, t.d. sjúkraþjálfara og sálfræðinga, ef mál einstaklings eru flókin. Farið er eftir ákveðnum viðmiðum og eyðublöðum og þess er alltaf gætt að sjónarmið einstaklings komi fram í matinu. Ef einstaklingur er ósáttur við niðurstöður matsins þá getur hann komið því á framfæri við VIRK og í sumum tilfellum er matið endurskoðað af öðrum aðila en þeim sem kom að því í upphafi.

Af hverju starfsgetumat í stað örorkumats?

Mörg ríki hafa stigið einhver skref í þá átt að breyta matsaðferðum og nálgun í þjónustu gagnvart einstaklingum með skerta starfsgetu þar sem meiri áhersla er lögð á getu en vangetu einstaklinga. Markmiðið með þessari breyttu nálgun er að auka þátttöku einstaklinga á vinnumarkaði. Ástæðan er fjölgun einstaklinga á örorku m.a. vegna hækkandi lífaldurs og fjölgun ungra einstaklinga á örorku. Ef þessi þróun heldur áfram getur hún orðið ógn við velferðarkerfi vestrænna ríkja þar sem færri einstaklingar á vinnumarkaði þurfa að skapa verðmæti til að sjá fyrir stækkandi hópi þeirra sem ekki eru virkir þátttakendur í atvinnulífinu. Það er mikilvægt að samfélagið geti til framtíðar séð vel fyrir þeim einstaklingum sem ekki geta tekið þátt á vinnumarkaði á hverjum tíma, ef sá hópur er orðinn mjög stór þá er hætta á því að ekki verði til staðar samfélagsleg geta eða sátt um það að tryggja þessum hópi einstaklinga sómasamleg lífskjör.

Auk þess þá hefur orðið í hinum vestræna heimi mikil vitundarvakning um skaðleg áhrif óvirkni og hliðsetningar. Fjölmargar rannsóknir hafa sýnt fram á það að vinna, þátttaka og virkni hefur jákvæð áhrif á heilsu og lífsgæði einstaklingsins og er um leið jákvæð fyrir samfélagið allt. Rannsóknir hafa m.a. sýnt fram á það að löng fjarvera frá vinnumarkaði ógnar heilsu og lífsgæðum einstaklinga meira en lífshættulegir sjúkdómar og þátttaka á vinnumarkaði hefur almennt jákvæð áhrif á bæði líkamlega og andlega heilsu einstaklinga – einnig þeirra einstaklinga sem glíma við varanlegan heilsubrest af ýmsum toga.

Hér má einnig benda á að hugmyndin um örorku varð til við aðrar aðstæður, á tímum þegar starfsgeta takmarkaðist öðru meira af líkamlegri getu og talið var að heilsuvandinn væri meira varanlegt ástand. Í dag er algengara að skert starfsgeta stafi af álagstengdum og geðrænum vanda sem ekki er alltaf varanlegur. Sjúkdómurinn sjálfur eða heilsufarsástandið gefur einnig oft takmarkaða mynd af getu einstaklings til virkni og starfa. Getan er í eðli sínu fjölþætt og ræðst af mörgum öðrum þáttum en heilsu einstaklingsins. Færni og geta einstaklinga er auk þess breytileg og getur þróast með tímanum. Endurhæfing, bætt heilsa og breyttar aðstæður geta þannig aukið færni einstaklinga og aðstæður á vinnumarkaði geta einnig bæði aukið og dregið úr möguleikum einstaklinga til að sinna ólíkum störfum.

Breytingar og flækjustig

Það er mjög flókið og vandasamt að breyta matskerfi og framfærslukerfum einstaklinga sem glíma við skerta starfsgetu. Ástæður þess eru m.a. eftirfarandi:

Vegna þessa flækjustigs eru breytingar í heildarkerfinu flóknar og oft erfiðar í framkvæmd og þurfa að vera vel ígrundaðar. Það kemur þó ekki í veg fyrir það að flest vestræn ríki leita nú leiða til að breyta þeim kerfum sem hafa verið við lýði m.a. úr því að líta eingöngu á skerðingar í að horfa meira á möguleika og athuga m.a. hvernig hægt er að vinna betur í umhverfi einstaklings til að auka möguleika á aukinni vinnumarkaðsþátttöku sem flestra. Ástæðan er sú að menn sjá að núverandi kerfi getur ekki gengið upp til framtíðar og því er mikilvægt að finna nýjar leiðir til að unnt verði að tryggja enn betur framfærslu og stuðning við einstaklinga með skerta starfsgetu.

Starfsgetumat og breytingar í nágrannalöndum okkar

Flest nágrannalönd okkar hafa stigið einhver skref í að breyta áherslum varðandi mat á örorku og framfærslugreiðslum í því samhengi. Þessar breytingar hafa verið mismunandi bæði að formi og umsvifum en í flestum löndum er reynt að breyta matsaðferðum í átt að starfsgetumati ásamt öðrum kerfisbreytingum sem styðja við það markmið. Í umræðum um starfsgetumat í fjölmiðlum undanfarna mánuði og ár hefur orðið starfsgetumat stundum verið sett í samhengi við breytingar á bótakerfum í nágrannalöndum okkar sem hafa heppnast illa og orðið til þess að stefna heilsu og lífi fjölmargra einstaklinga í voða. Í því samhengi er m.a. vísað í bresku kvikmyndina „I Daniel Blake“ þar sem einstaklingur með alvarlegan hjartasjúkdóm var neyddur til að leita sér að starfi sem hafði mjög alvarlegar afleiðingar. Í myndinni er lýsing á ákaflega vondu vel ferðarkerfi í Bretlandi þar sem lítil virðing er borin fyrir einstaklingum og þeir settir í óboðlegar og ómannúðlegar aðstæður. Einnig hefur verið bent á breytingar í öðrum löndum sem ekki eru taldar hafa heppnast vel.

Það er mikilvægt að líta til annarra landa og læra af því sem þar hefur verið gert og þá er mikilvægt að horfa bæði til þess sem hefur tekist vel og þess sem hefur tekist illa svo unnt sé að koma í veg fyrir slæm áhrif breytinga á líðan og heilsu einstaklinga. Það er líka mikilvægt að stíga varlega til jarðar í kerfisbreytingum sem þessum því þær geta haft áhrif á einstaklinga sem margir hverjir eru í ákaflega erfiðri stöðu. Það er hins vegar ekki rétt að setja orðið starfsgetumat eingöngu í samhengi við það sem illa hefur heppnast í kerfisbreytingum nágrannalanda okkar. Í því samhengi má t.d. benda á að það starfsgetumat sem notað er í Bretlandi er að grunni til það sama og örorkumatið sem hefur verið notað hér á landi frá árinu 1999. Innleiðing, þróun og framkvæmd matsins hefur hins vegar verið með allt öðrum hætti í Bretlandi en hér á landi og ef að myndin „I Daniel Blake" gefur raunsanna mynd af velferðarkerfi Bretlands þá er ljóst að þangað getum við ekki horft nema til þess að læra hvernig við eigum ekki að framkvæma kerfisbreytingar sem þessar.

Það er hins vegar ekki mögulegt hér á landi að stíga engin skref til breytinga, nota áfram sama örorkumatsstuðul og hefur verið í notkun frá árinu 1999 og horfa bara á skerðingar en ekki getu einstaklinga. Það er vel hægt að taka vel ígrunduð skref í innleiðingu á starfsgetumati þar sem haldið er vel utan um þá einstaklinga sem eru með skerta starfsgetu og þeim tryggð allt í senn framfærsla, starfsendurhæfing og sérhæfður stuðningur við atvinnuleit með það að markmiði að auka bæði þátttöku og lífsgæði. Það þurfa hins vegar margir að koma að kerfisbreytingum sem þessum og vinna þarf að viðhorfsbreytingu bæði á vinnumarkaði og í samfélaginu öllu til að tryggja skilning og umburðarlyndi gagnvart einstaklingum með mismunandi getu og í mismunandi aðstæðum. Í raun má segja að þær breytingar sem þurfa að verða kristallast ekki nema að litlum hluta til í matinu sjálfu því það er nauðsynlegt að á sama tíma og við leggjum áherslu á að meta getu einstaklinga til starfa þá sé til staðar fyrir þessa einstaklinga tækifæri og störf við hæfi á vinnumarkaði.

Hjá VIRK hefur verið byggt upp teymi atvinnulífstengla sem hefur sérhæft sig í að vinna með atvinnurekendum að því að fjölga störfum fyrir einstaklinga með skerta starfsgetu. Þetta hefur gefið mjög góða raun, nú eru á annað hundrað fyrirtækja í þessu samstarfi og fjölmörg störf hafa orðið til fyrir einstaklinga með skerta starfsgetu. Þetta verkefni og önnur sambærileg t.d. hjá Vinnumálastofnun er mikilvægt að efla og þróa áfram því starfsgeta einstaklinga ræðst ekki eingöngu af því hver þeirra skerðing er heldur einnig af því hverjir möguleikarnir eru á vinnumarkaði. Til viðbótar við þetta er mikilvægt að auka þekkingu okkar á ástæðum þess að svo margir einstaklingar glíma við skerta starfsgetu í dag auk þess að efla forvarnir og heilsueflingu í atvinnulífinu, í skólum og í samfélaginu almennt.

Við skulum líka hafa það í huga að gallar núverandi kerfis eru fjölmargir og það hefur leitt marga unga einstaklinga inn í fátækragildru sem erfitt er að komast úr. Kerfið er lítt sveigjanlegt, hvetur ekki til atvinnuþátttöku og einstaklingar í starfsendurhæfingu glíma í dag margir hverjir við stöðugan kvíða vegna ótryggrar framfærslu þar sem framfærslukerfið er brotakennt og úrskurður um rétt til endurhæfingarlífeyris er oft til skamms tíma í einu. Það er því til mikils að vinna fyrir alla að kerfinu sé breytt en á sama tíma þá þurfum við að geta átt uppbyggilega og faglega umræðu um mögulegar leiðir til framtíðar með hagsmuni einstaklinga og samfélags í huga.


Fréttir

30.05.2024
28.05.2024

Hafa samband