Fara í efni

Skilgreining á kulnun samkvæmt Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni (WHO)

Til baka

Skilgreining á kulnun samkvæmt Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni (WHO)

Berglind Stefánsdóttir sérfræðingur hjá VIRK

 

Kulnun er og hefur verið mikið í umræðunni síðastliðin ár. Fólk stígur fram og segir sína upplifun af kulnun, aðilar er koma að inngripum við kulnun segja sínar hliðar og einnig hafa fagaðilar rannsakað kulnun töluvert. Ef leitað er eftir enska orði kulnunar „burnout“ á leitarvélinni Google Scholar þá koma yfir milljón (1,020,000) niðurstöður.

Það hefur verið mismunandi milli fræðimanna og jafnvel landa hvernig viðfangsefnið hefur verið nálgast. Í þessari grein er fjallað um kulnun líkt og Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO) skilgreinir hana.

WHO gefur út flokkunarkerfi sem nefnist ICD sem stendur fyrir „International Classification of Diseases and Related Conditions“ eða Alþjóðlegt flokkunarkerfi sjúkdóma og skyldra heilbrigðisvandamála1,2 og er því ætlað að gera grein fyrir heilsu, sjúkdómum, röskunum, áverkum og öðrum tengdum heilsukvillum á alþjóðavísu. Kerfið er hugsað sem alþjóðlegt viðmið flokkunar/greininga hvort sem um er að ræða við klíníska notkun eða í rannsóknar tilgangi 1,2.

Á Íslandi er það Embætti landlæknis sem gefur út fyrirmæli um hvaða flokkunarkerfi skulu notuð hérlendis. Í dag er tíunda útgáfa flokkunarkerfisins, ICD-10, það kerfi sem notast er við hér á landi 3. Síðastliðið sumar gaf WHO út uppfærða útgáfu af kerfinu, sem nefnist ICD-11. Uppfærða útgáfan er ekki komin í fulla notkun en nú er unnið að innleiðingu hennar í ríkjum heims.

Eðli málsins samkvæmt hefur margt verið uppfært í ICD-11 miðað við nýjustu rannsóknir. Kulnun (e. burnout) hefur ekki verið skilgreind sem röskun eða sjúkdómur, hvorki í fyrri útgáfu né uppfærðri útgáfu. Í ICD-10 og ICD-11 er kulnun flokkuð og skilgreind sem þáttur sem hefur áhrif á heilbrigðisástand og samskipti við heilbrigðisþjónustu. Þessi flokkun er ekki hugsuð sem greining á sjúkdómi eða skýrum heilsubresti né til notkunar í alþjóðlegum samanburði 1,2. Hér er verið að skýra aðrar ástæður fyrir samskiptum fólks við heilbrigðisþjónustu. Þetta er í raun það eina sem skilgreiningarnar og flokkunin á kulnun eiga sameiginlegt milli ICD-10 og 11.

Breyting hvar kulnun er flokkuð

Mikil breyting er á því hvar og með hvers kyns vanda kulnun er flokkuð í dag. Á mynd 1 og 2 má sjá samanburð á flokkuninni í ICD-10 annars vegar og ICD-11 hins vegar. Á mynd 1 má sjá undir hverju kulnun var flokkuð samkvæmt ICD-10. Þar er það flokkað sem vandamál tengd erfiðleikum við að stjórna lífi sínu. Á mynd 2 má svo sjá undir hverju kulnun er flokkuð samkvæmt ICD-11. Þar er það flokkað sem vandamál tengt atvinnu eða atvinnuleysi.

Í ICD-10 er enn frekari flokkun nánast að öllu leyti tengd við einstaklinginn sjálfan og þar með vísað til þess að vandinn sé einkamál hans. Talað er um kulnun sem vandamál tengd erfiðleikum við að stjórna lífi sínu og er eina frekari skýringin á fyrirbærinu þessi: „Kulnun: Lífsþreytuástand”. Því er um að ræða mjög svo opna skilgreiningu.

Í flokkunarkerfum er gjarnan tekið fram ef ákveðnar greiningar, sjúkdómar, raskanir eða jafnvel aðrar flokkanir ættu ekki að geta átt við sama einstaklinginn á sama tíma (e. exclusion). Í ICD-10 er tekið fram að undanskilið frá kulnunar flokkuninni séu vandamál tengd félagslegri stöðu eða sálfélagslegum aðstæðum. Svo ef slíkar skýringar ættu betur við einstaklinginn þá eigi kulnunar flokkunin ekki við. Dæmi um slíka þætti eru vandamál tengd menntun eða læsi, vandamál tengd atvinnu eða atvinnuleysi eða vandamál tengd félagslegri stöðu.

Skilgreining og flokkun á kulnun í ICD-11 er mun nákvæmari og er sjónum beint að vinnu einstaklings og annað útilokað sem áður rúmaðist innan fyrri skilgreiningar. Nú er kulnun flokkað sem vandamál tengt atvinnu eða atvinnuleysi og skilgreiningin eftirfarandi;

„Kulnun er heilkenni sem er afleiðing langvarandi streitu á vinnustað sem ekki hefur tekist á árangursríkan hátt að ná stjórn á. Einkenni kulnunar eru á þrem víddum: 1) Orkuleysi eða örmögnun; 2) Andlega fjarverandi í vinnu, neikvæð viðhorf eða tortryggni tengd vinnustað; 3) Minni afköst í vinnu. Kulnun vísar til fyrirbæris í tengslum við vinnuumhverfið og ætti ekki að vera nýtt til að lýsa reynslum á öðrum sviðum lífsins 2” 

Einnig eru mun stærri og ólíkari skref stigin þegar kemur að því að telja hvaða annar vandi sé undanskilinn flokkuninni. Í ICD-11 eru það geðraskanir sem eru undanskildar, svo ef slíkar greiningar eiga betur við viðkomandi þá mögulega er flokkunin á kulnun ekki viðeigandi. Þessar geðraskanir eru; Aðlögunarröskun (e. adjustment disorder (6B43)), raskanir tengdar streitu (e. disorders specifically associated with stress (6B40-6B4Z)), kvíði eða ótta-tengdar raskanir (e. anxiety or fear-related disorders (6B00-6B0Z)) og lyndisraskanir (e. mood disorders (6A60-6A8Z)).

Ekki skilgreint sem sjúkdómur eða röskun

Þó búið sé að skerpa svo um munar á skilgreiningu kulnunar hefur staðan ekki breyst í þá átt að nú sé búið að skilgreina það sem sjúkdóm eða röskun. Talað er um heilkenni eða fyrirbæri nú. Einnig hefur þetta ekki verið einfaldað í þá átt að vera nú einungis vandi vinnustaðarins því afleiðingarnar eru mögulega einnig á einstaklingsgrundvelli. Núverandi skilgreining segir heilkennið kulnun einkennast af þrem víddum og eru þessar víddir einstaklingsins, það er hann sem upplifir örmögnun eða orkuleysið og hann verður andlega fjarverandi eða hefur neikvæð viðhorf tengd vinnu o.s.frv.

Þessar breytingar á skilgreiningu kulnunar eru mjög mikilvægar, sér í lagi þegar næstu skref eru tekin í að skoða hvað hægt er að gera við vandanum; fyrirbyggja hann, snúa neikvæðri þróun á vinnustöðum við og eins hvernig hægt er að aðstoða einstaklinga og fyrirtæki þegar vandinn er orðinn töluverður. Í dag er ekki óalgengt að vinnufærni þeirra sem upplifa alvarleg kulnunareinkenni verði minni og þeir þurfi aðstoð til að ná fullri vinnufærni á ný. Einstaklingurinn fær þá gjarnan hjálp með sinn vanda líkt og um persónulegan vanda sé að ræða. Með nýjum áherslum WHO er nú mikilvægt að nálgast vandann ekki sem einkamál einstaklinga heldur skoða hvernig hægt sé með betra móti að vinna með vinnustað og hafa áhrif á það álag sem hefur verið til staðar í lengri tíma og ekki tekist að ná stjórn á.

Því er ljóst að mikil þróun er að eiga sér stað og WHO skerpt verulega á sinni afstöðu til vandans. Áhersla er orðin á líðan og streitu á vinnustað og annað, sem einnig getur valdið töluverðri streitu og vanlíðan, orðið undanskilið skilgreiningunni kulnun.

Heimildir:

  1. World Health Organization. (1992). The ICD-10 classification of mental and behavioural disorders: Clinical descriptions and diagnostic guidelines. Geneva: World Health Organization.
  2. World Health Organization. (2019). International statistical classification of diseases and related health problems (11th ed.). Sjá á síðu: https://icd.who.int/
  3. Embætti Landlæknis. (2017, 12. maí). Flokkunarkerfi. Sótt 23. mars 2020 af https://www.landlaeknir.is/tolfraedi-ogrannsoknir/flokkunarkerfi/

Greinin birtist fyrst í ársriti VIRK 2020.


Fréttir

30.05.2024
28.05.2024

Hafa samband