Núvitund á óvissutímum
Núvitund á óvissutímum
Gunnhildur Kristjánsdóttir, sérfræðingur hjá VIRK
Núvitund hefur verið talsvert í umræðunni síðustu árin og mikið hefur verið fjallað um gagnsemi hennar. Sjaldan hefur verið eins mikil þörf á að stunda núvitund og einmitt núna þegar sífellt dynja á okkur fréttir um fjölgun COVID-19 smita og alls konar ný boð og bönn.
Margir kannast eflaust við að sitja fyrir framan tölvuna og „refresha" nýjustu fréttir um fjölda smitaðra og eyða kaffitímunum í heimavinnunni í að hlusta á Víði, Ölmu og Þórólf. Þessar aðstæður skapa streitu og áhyggjur hjá okkur flestum en það er margsannað að streita veikir ofnæmiskerfið. Núvitund er mjög öflug leið til að draga úr streitu og þannig erum við betur í stakk búin að takast á við kórónuveiruna.
Hvað er núvitund?
Segja má að núvitund sé þjálfun hugans. Við getum ímyndað okkur að hugurinn sé eins vöðvi og þjálfunin felst þá í því að gera núvitundaræfingar. Sama lögmál gildir um þjálfun hugans og á við um aðra vöðva líkamans, þeim mun meira sem við þjálfum hann þeim mun betri verðum við í því að ná hugarró og einbeita okkur.
Núvitund þróaðist út frá búddískri hugleiðslu og byggir hún á aldagamalli austurlenskri hefð. Það var á áttunda áratugnum sem við í Vestrinu fórum fyrir alvöru að uppgötva gagnsemi þessarar hugleiðslu. Vestrænir vísindamenn fóru svo á fullt í að rannsaka þessa aðferð. Nú liggur fyrir fjöldi rannsókna á núvitund sem sýnir fram á gagnsemi hennar við að takast til dæmis á við þunglyndi, kvíða, verki, streitu og einbeitingarörðugleika.
Hugurinn er afar virkur og við hugsum mjög margt á hverri mínútu. Með því að stunda núvitund þá getum við lært að leyfa hugsunum að koma og fara án þess að dæma þær eða flokka í óæskilegar eða æskilegar hugsanir. Markmiðið er ekki að tæma hugann - heldur vera meðvituð um hvar hugurinn er á hverju augnabliki.
Að stunda núvitund í miðjum kórónuveiru-faraldri
Það getur verið töluverð áskorun að stunda núvitund þegar við erum með hugann við ástandið í heiminum á sama tíma og við aðlögumst nýrri rútínu og lífsvenjum. Það góða við núvitund er að það er hægt að stunda hana hvar sem er og hún þarf ekki að taka langan tíma. Það er bæði hægt að gera formlegar æfingar þar sem við sitjum/liggjum kyrr og svo óformlegri æfingar sem verða þá hluti af daglegu lífi. Við getum vaskað upp eða farið í bað í núvitund. Þá erum við meðvituð um hvar hugurinn er. Þegar að hann reikar burt og kóróna-áhyggjurnar taka yfir þá tökum við eftir því án þessa að dæma og færum athyglina aftur að því sem við erum að gera. Það er líka gagnlegt og gott að fara í núvitundargöngu - en þá beinum við athyglinni að því sem er í umhverfinu, t.d. náttúrunni, húsum eða böngsum í gluggum.
Með því að stunda núvitund verðum við meðvituð um hugsanir okkar sem eru oft dómharðar og sjálfsgagnrýnar. Við lærum að sýna hugsunum okkar gæsku og umburðarlyndi. Þetta eru bara hugsanir en ekki sannleikur. Með æfingunni förum við að sjá hugsanir streyma. Hugsanir, tilfinningar og minningar verða sýnilegar. Við lærum að greina á milli hvað er minning eða túlkun og hvað er að gerast einmitt núna.
Ein gagnleg æfing á tímum kórnuveirunnar er „Þriggja þrepa andrými". Þetta er stutt æfing sem gott er að nýta hana í pásum núna þegar margir vinna heim eða þegar COVID-19 áhyggjurnar taka yfir. Sjá hlekk hér.
Oft var þörf en nú er nauðsyn
Það er einmitt á svona óvissutímum sem núvitund getur nýst sérstaklega vel við að halda hugarró og einbeitingu. Þó að það geti verið erfitt að hafa eirð í sér til að stunda núvitund þá skulum við gefa henni tækifæri og prófa, gerum lengri eða styttri núvitundaræfingar eða förum í núvitundargöngu. Með því þjálfa athygli náum við stjórn að nýju.
Hlúum að okkur sjálfum með núvitundaræfingum - drögum úr streitu og styrkjum ónæmiskerfið, samhliða því að hlýða Víði.