Mjög gefandi að sjá þau blómstra í lífinu
Mjög gefandi að sjá þau blómstra í lífinu
Daði Lárusson og Stefán Ólafur Stefánsson atvinnulífstenglar hjá VIRK
VIRK hefur síðan 2019 tekið þátt í samstarfsverkefni um bætt lífskjör og lífsgæði ungs fólks með skerta starfsgetu með félagsmálaráðuneytiinu, heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, Tryggingastofnun, velferðarsviði Reykjavíkurborgar og Vinnumálastofnun.
Markmið verkefnisins er að hækka virknihlutfall (auka atvinnuþátttöku) ungs fólks á aldrinum 18 til 29 ára með aukinni samvinnu þjónustukerfa á höfuðborgarsvæðinu. Hjá VIRK gengur hópurinn undir nafninu UNG19. VIRK skilgreinir hópinn UNG19 - ungmenni á aldrinum 18-29 ára, út frá eftirfarandi viðmiðum:
- Grunnskólapróf eða minna (ekki lokið stúdentsprófi eða sambærilegu).
- Lítil vinnusaga og/eða langur tími frá vinnumarkaði (a.m.k. 6 mánuðir).
- Íþyngjandi félagslegar aðstæður, t.d. erfið uppvaxtarsaga, lítill félagslegur stuðningur, óörugg búseta, fjárhagsvandi og þess háttar.
Margir UNG19 þjónustuþegarnir hjá VIRK njóta þjónustu sérstakra atvinnulífstengla sem hafa reynslu af því að vinna með þessum hópi. Um einstaklingsmiðaðan stuðning við starfsleit er að ræða, grundvallaðan á IPS hugmyndafræðinni en þessi gagnreynda aðferðafræði hefur skilað góðum árangri þegar kemur að því að aðstoða einstaklinga inn á vinnumarkaðinn.
IPS (e. Individual placement and support) - einstaklingsmiðaður stuðningur til starfa eða náms - leggur megináherslu á að koma atvinnu- eða námstengingu af stað snemma í starfsendurhæfingunni. Vinnan sé í raun úrræði í endurhæfingunni þar sem verið er að þjálfa færni í raunaðstæðum, úti á vinnumarkaðnum eða í námi. Þannig er ekki endilega verið að bíða eftir því að búið sé að endurhæfa einstaklinginn þar til hann er tilbúinn til að fara að vinna. Hér er áhugahvöt til vinnu og náms lykilþáttur. Lögð er áhersla á að mæta einstaklingnum þar sem hann er staddur og hvetja hann áfram með því að einblína á styrkleika. Samhliða þessari vinnu er unnið með hindranir til vinnu með stuðningi þverfaglegs teymis.
Ársrit VIRK tók tali atvinnulífstenglana Daða Lárusson og Stefán Ólaf Stefánsson sem vinna með UNG19 hópnum.
Aðspurðir um muninn á atvinnutengingu UNG19 hópsins og annarra þjónustuþega VIRK þá segja Daði og Stefán Ólafur helsta muninn vera sá að þjónustuþegarnir komi fyrr í atvinnutengingu í gegnum UNG19 en almennir þjónustuþegar VIRK. VIRK sé með sérstaka ráðgjafa sem sinna UNG19 hópnum. Ráðgjafinn rýnir mál þjónustuþegans og leggur til að hann fari í atvinnutengingu oft snemma í ferlinu og vinnur svo áfram með þjónustuþeganum og atvinnulífstenglinum.
Þessi hópur þarf oft öðruvísi nálgun. Við aðstoðum hvern einstakling eins og hann þarf, mætum honum þar sem hann er. Vinnum með styrkleika þeirra og finnum út hvar þau vilja láta mæta sér.
Þessi hópur þarf oft öðruvísi nálgun. Við aðstoðum hvern einstakling eins og hann þarf, mætum honum þar sem hann er. Vinnum með styrkleika þeirra og finnum út hvar þau vilja láta mæta sér, segja þeir Daði og Stefán Ólafur.
Náin og góð samvinna við ráðgjafa
Hvað skiptir mestu máli í vinnunni með UNG19 hópnum?
„Náið samstarf ráðgjafa og atvinnulífstengla. Við njótum þess að ráðgjafinn og þjónustuþeginn eru m.a. búnir að leggja miklu vinnu í að kortleggja áhugasvið og gildi viðkomandi sem nýtist vel í atvinnutengingunni. Við vinnum mikið með áhugahvötina og þjónustuþeganum er hjálpað að sjá hve mikið hann hefur til brunns að bera – því það getur stundum verið erfitt að sjá það sjálfur. Setja það svo saman í gott kynningarbréf og ferilskrá, þótt stundum sé lítil vinnusaga hjá viðkomandi þá hefur hann engu að síður þróað með sér ákveðin gildi, eiginleika, og býr að lífsreynslu en allt þetta nýtist á vinnumarkaðinum,” segir Stefán Ólafur.
„Undirstaðan er traust og mikilvægt er að ná góðri tengingu í byrjun. Eins og fyrr segir þá kynnum við okkur áhugasvið og styrkleika hvers einstaklings og byrjum ferilskrárgerð - hún er oft miðuð að þeim störfum sem farið verður í að skoða. Við erum oft búin að vinna í ákveðnum fyrirtækjum og stofnunum sem við erum í góðu samstarfi við - við sjáum viðkomandi fúnkera á þeim stað og stefnum þangað,” segir Daði.
Valdefling þjónustuþega
Stefán Ólafur og Daði segja atvinnulífstenglana vinna mjög náið með ráðgjöfunum og hjálpi þjónustuþegunum að nýta verkfærin sem þeir hafa tileinkað sér í starfsendurhæfingunni. Þjónustuþeganum er hjálpað í starf eða starfsviðtal, stefnt er á að koma fólki nær vinnumarkaðinum og að þjónustuþeginn verði kominn á þann stað að hann geti sótt um starf sjálfur. Markmiðið er að valdefla þjónustuþegana svo þeir geti staðið á eigin fótum en þessi hópur þarf mikinn stuðning og eftirfylgni til þess.
„Ég var var t.d. með þjónustuþega sem ég er búinn að fara með í gegnum þrjár vinnur – og stöðugt í sambandi við vinnuveitendur allan tímann auk þess að vera í samtali við aðstandendur,” segir Daði.
„Við leitum að störfum á almenna vinnumarkaðinum fyrir okkar fólk og mátum þau við ýmis störf. Við erum í góðu sambandi við stjórnendur í fyrirtækjum og stofnunum sem hafa reynst okkur vel – og það fer fjölgandi í þeim hópi. Það er okkur mjög mikilvægt að viðhalda góðu samstarfi við atvinnulífið og við erum alltaf að leita að nýjum samstarfsaðilum,” segir Stefán Ólafur.
Atvinnulífstenglar skynji traust frá atvinnurekendum því að þeir sjá að þjónustuþegarnir sem koma til þeirra eru tilbúnir, hafa gengið í gegnum ýmislegt og unnið í sjálfum sér, eru vel undirbúnir fyrir vinnumarkaðinn.
Stefán Ólafur og Daði segja samstarfið mjög gott við fyrirtæki og stofnanir. Eftirfylgdin og stuðningur í vinnunni eftir að þjónustuþeginn er kominn í vinnu geti varað allt að 3-6 mánuð en sé misjafnt eftir einstaklingum. Atvinnulífstenglar skynji traust frá atvinnurekendum því að þeir sjá að þjónustuþegarnir sem koma til þeirra eru tilbúnir, hafa gengið í gegnum ýmislegt og unnið í sjálfum sér, eru vel undirbúnir fyrir vinnumarkaðinn.
Langflestir inn á vinnumarkað við útskrift
Stefán Ólafur og Daði voru sammála um að langflestir sem útskrifast úr starfsendurhæfingu í gegnum UNG19 fari í starf inn á vinnumarkaðinn eða í nám - og sum þeirra séu þegar byrjuð í námi fyrir útskrift.
Allir í UNG19 hópnum eigi það sameiginlegt að hafa öðlast mikla reynslu og að hafa tekið skref sem opni dyr. Allt á þeirra eigin forsendum og í langflestum tilfellum er unga fólkið mun nær vinnumarkaði, ef ekki þegar orðnir virkir þátttakendur á honum, við útskrift.
„Það eru allir búnir að þróa með sér eiginleika og gildi í gegnum lífið sama hvort þú hefur strögglað og lent í veikindum eða öðru þá búa allir að sinni reynslu og styrkleikum,” segir Stefán Ólafur.
„Nefni sem dæmi einstakling sem fór í starf í sumar og fann sig vel, komst vel af stað. Áttar sig síðan á því að hann þyrfti aukna menntun til þess að komast úr þessu starfi yfir í annað starf og skellti sér í nám,” segir Daði.
Hvað er mest gefandi í þessu öllu?
„Þegar einstaklingurinn finnur trúna á sjálfan sig og það gerist helst í gegnum vinnuþátttöku, það sér maður,” segir Stefán Ólafur.
Á þessu eina ári sem ég hef unnið með þjónustuþegum í UNG19 hópnum hefur maður upplifað margar sólskinssögur - séð mikla breytingu í fari einstaklinganna og þá er aukið sjálfstraust númer 1,2 og 3.
„Á þessu eina ári sem ég hef unnið með þjónustuþegum í UNG19 hópnum hefur maður upplifað margar sólskinssögur - séð mikla breytingu í fari einstaklinganna og þá er aukið sjálfstraust númer 1,2 og 3. Mjög gaman að sjá hvernig þau fara að hugsa betur um sjálfan sig andlega og líkamlega. Mjög gefandi að sjá þau blómstra í lífinu, stundum eftir að hafa lifað í skel í mörg ár.” segir Daði.
„Það var ein hjá mér núna fyrir stuttu sem ég var að fylgja inn í starf við lok þjónustu. Hún hafði orð á því hvað hún væri á allt öðrum stað en þegar hún kom og að sér hefði aldrei liðið betur í sínu lífi. Að fá að taka þátt í því með einstaklingnum að ná í styrkleikana sína og eiginleika aftur og máta þá svo með honum á vinnumarkaðinn er bara ótrúlega skemmtilegt. Sérstaklega hjá ungu fólki sem tekur það svo áfram með sér út í lífið. Þarna var hún komin með framtíðarsýn. Sá hvaða tröppur hún hafði klifrað, hvert hún var komin og hvert hana langaði næst!,” bætir Stefán Ólafur við að lokum.
Viðtalið birtist fyrst í ársriti VIRK 2022.
Texti: Eysteinn Eyjólfsson
Mynd: Lárus Karl Ingason