Fara í efni

Mannauðsmál – Jafnrétti er ákvörðun

Til baka

Mannauðsmál – Jafnrétti er ákvörðun

Auður Þórhallsdóttir sviðsstjóri mannauðsmála

 

Vorið 2018 hlaut VIRK fyrstu jafnlaunavottun ÍST 85:2012 og voru þar með brautryðjendur í að öðlast þá vottun hjá fyritæki af okkare stærðargráðu. Nú höfum við farið í gegnum fjórar vottanir frá þeim tíma og þann 15. febrúar sl. fór fram viðhaldsúttekt sem skilaði okkur afar góðri niður stöðu. Þar segir m.a.:

  • Niðurstaða BSI er sú að VIRK er með mjög góða yfirsýn og til fyrirmyndar í markmiðasetningu og árangri í aðgerðum til að ná markmiðum
  • Fram kom vilji stjórnenda og starfsmanna til að bæta verklag og vinna samkvæmt ÍST 85:2012 – Jafnlaunakerfi
  • Sýnt hefur verið fram á að jafnlaunakerfið er hannað til að ná markmiðum og stefnu VIRK í jafnlaunamálum. Þetta var sannreynt í úttekt á jafnlaunakerfinu. Ferlar og stýringar jafnlaunakerfisins sem skoðaðar voru styðja við það
  • Styrkleikar jafnlaunakerfis eru vilji stjórnenda til að vinna að stöðugum umbótum

Engin frábrigði fundust

Að viðhalda vottuninni hefur verið okkur mikið lærdómsferli sem við erum afar stolt af og viljum ekki vera án. Eitt af mikilvægum verkfærum þessa ferlis er að hafa jafnréttisáætlun þar sem skýrt er kveðið á um að ríkja eigi jafnrétti á vinnustaðnum og að hegðun á borð við kynbundið ofbeldi og/eða kynbundna og kynferðislega áreitni er ekki liðin. En ekki er nóg að hafa góða ferla heldur þurfa þeir líka að vera samofnir fyrirtækjamenningunni og er fjölbreytileiki, stöðugt umbótastarf og vel upplýst starfsfólk forsenda þess að jafnréttisstarf sé virkt á vinnumarkaði.

Í starfsemi VIRK er stöðugt verið að huga að umbótum í þessum málaflokki og í úttektum eru markmið og aðgerðir sem þar eru settar fram metnar. Mikilvægt er að samþykki Jafnréttisstofu liggi fyrir og var okkar jafnréttisáætlun endurmetin í upphafi árs og uppfyllir hún kröfur laga nr. 150/2020.

Jafnréttisáætlun VIRK

Markmið Jafnréttisáætlunar VIRK er að tryggja jafnrétti kynjanna og að allir hafi jöfn tækifæri til að nýta hæfileika sína og krafta í starfi óháð kyni. Mikilvægt er að stjórnendur og starfsfólk sé meðvitað um mikilvægi jafnréttis í daglegum störfum, í stefnumótun og í allri ákvarðanatöku.

Jafnréttisáætlunin byggir á lögum nr. 150/2020 um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna. Jafnréttisáætlun VIRK gildir fyrir allt starfsfólk og miðar að því að VIRK sé eftirsóknarverður vinnustaður þar sem jafnrétti og jafnræði ríkir. Jafnréttisáætlun VIRK er kynnt almenningi á vefsíðunni virk.is.

Launajafnrétti

Við ákvörðun launa og annarra kjara skal þess gætt að kynjum sé ekki mismunað og skulu laun og önnur kjör ákveðin á sama hátt fyrir öll kyn. Öll kyn skulu hafa jöfn laun og njóta sömu kjara fyrir jafnverðmæt eða sambærileg störf.

Markmið:

  • Að enginn óskýrður kynbundinn launamunur sé hjá VIRK
  • Að hæfniviðmið starfa hjá VIRK og persónubundinn þáttur skýri a.m.k. 90% í dreifingu launa
  • Fá jafnlaunavottun og viðhalda henni árlega án frávika

Ráðningar, þjálfun, fræðsla

Störf sem laus eru til umsóknar skulu standa öllum kynjum til boða. Jafnréttissjónarmið eru metin til jafns við önnur mikilvæg sjónarmið sem ráða við ráðningar og stöðuveitingar. Með sama hætti skal tryggja að konur, karlar og fólk með hlutlausa skráningu kyns í þjóðskrá standi jafnt að vígi hvað varðar framgang í starfi, þjálfun, fræðslu og verkefnaúthlutun.

Markmið:

  • Að laus störf hjá VIRK standi opin öllum kynjum með það að markmiði að jafna kynjahlutfallið í starfsmannahópnum
  • Tryggja að öll kyn njóti sömu möguleika til þjálfunar og fræðslu og að fræðsludagskrá höfði til allra hópa

Samræming fjölskyldu og atvinnulífs

Leitast skal við að skapa starfsfólki aðstæður til að samræma kröfur starfsog fjölskylduábyrgðar með ákveðnum sveigjanleika í vinnutíma. Öllum kynjum skal gert auðvelt fyrir að koma til starfa eftir fæðingar- og foreldraorlof eða úr leyfi frá vinnu vegna óviðráðanlegra og brýnna fjölskylduaðstæðna. Að sama skapi skulu slíkar aðstæður ekki hafa neikvæð áhrif á ákvarðanir um framgang viðkomandi í starfi.

Markmið:

  • Skipulag vinnutíma skal vera fyrirsjáanlegt til að auðvelda samhæfingu starfs- og fjölskyldulífs
  • Öll kyn hvött til að nýta þann rétt sem þau eiga til fæðingar- og foreldraorlofs og leyfi vegna veikinda barna

Einelti, kynbundið ofbeldi, kynbundin og kynferðisleg áreitni

Sviðsstjórum hjá VIRK ber skylda til að skapa vinnuskilyrði sem líða ekki einelti, kynbundið ofbeldi, kynbundna eða kynferðislega áreitni á vinnustaðnum. Þeim ber skylda til að taka á málum og fylgja stefnu og verklagi VIRK. Ábendingar og kvartanir þess efnis ber að taka alvarlega og skoða til hlítar.

Allt starfsfólk á rétt á að það sé komið fram við það af virðingu. Einelti, kynbundið ofbeldi, kynbundin og kynferðisleg áreitni eru ekki liðin. Telji starfsmaður sig verða fyrir framangreindu skal hann samstundis snúa sér til yfirmanns síns, mannauðsstjóra eða framkvæmdastjóra og ber þeim skylda að vinna eftir útgefnu verklagi. Sama gildir ef starfsmaður hefur vitneskju eða grun um slíkt athæfi gagnvart samstarfsmanni sínum.

Markmið:

  • Einelti, kynbundið ofbeldi, kynbundin og kynferðisleg áreitni er ekki liðin hjá VIRK
  • Að skapa menningu jafnréttis hjá VIRK

Eftirfylgni og endurskoðun

Ábyrgð á framkvæmd og eftirfylgni við jafnréttisáætlun er í höndum stjórnenda. Árlega skal áætlunin yfirfarin og virkni hennar metin á rýnifundum stjórnenda. Leitast skal við að hafa hana lifandi plagg sem starfsfólk er upplýst um og árangur metinn svo hún skili árangri.

Markmið:

  • Jafnréttisáætlun skal vera í sífelldri þróun og hún endurskoðuð árlega á rýnifundi stjórnenda

Ný „Jafnréttisáætlun VIRK“ tók gildi í febrúar 2022 og skal endurskoða hana í síðasta lagi í febrúar 2025.

Greinin birtist fyrst í ársriti VIRK 2022


Fréttir

30.05.2024
28.05.2024

Hafa samband