Fara í efni

Horfur ungs fólks sem er hvorki í námi né vinnu

Til baka

Horfur ungs fólks sem er hvorki í námi né vinnu

Björk Vilhelmsdóttir félagsráðgjafi og sérfræðingur hjá VIRK

Veturinn 2017-2018 var atvinnuleysi á Íslandi rúmlega 2% sem telst lítið samanborði við önnur lönd og aðra tíma. Þó eru í hverjum mánuði 1.000-1.400 manns á atvinnuleysisskrá Vinnumálastofnunar á aldrinum 16-29 ára þar af 600-800 sem einungis eru með grunnskólamenntun eða tæp 60% hópsins.(1)

Lítil menntun ungs atvinnulauss fólks helst í hendur við þekkt brotthvarf íslenskra ungmenna úr framhaldsnámi, sem er mest meðal vestrænna ríkja innan OECD2 . Þessi hópur sem hvorki er í vinnu, námi né í annarri skipulagðri þjálfun á hættu á að verða félagslega einangraður, vera með tekjur undir fátækramörkum og skorta tækifæri til að bæta fjárhagsstöðu sína.(3 ) Slæm félagsleg staða hefur neikvæð áhrif á heilsufar, sérstaklega með tilliti til geðrænna sjúkdóma.(4) 

Þá sýna ótal rannsóknir fram á tengsl óvirkni og verri heilsu og/eða aukinnar notkunar vímuefna. Eins virðist sem ýmsar raskanir og sjúkdómar sem oft eru viðráðanlegir með viðeigandi meðferð og félagslegum stuðningi versni við óvirkni og félagslega einangrun.(5,6,7) Við sem samfélag erum ekki að mæta þörfum þessa hóps og ef fram heldur sem horfir bíður margra langvarandi fátækt með tilheyrandi heilsuleysi og síðar örorku, nema til komi markviss starfsendurhæfing.(8)

NEET hópurinn

Ungt fólk sem hvorki er í vinnu né í námi er á fagmáli nefndur NEET hópurinn. NEET stendur fyrir Not in Employment, Education or Training. Í vestrænum heimi jókst hlutfall þessa hóps á árunum eftir 2008, en með markvissum aðgerðum hefur hlutfallið aðeins lækkað. Þó er meðaltal allra OECD landanna árið 2016 tæp 12%. Lægst er hlutfallið á Íslandi en árið 2015 voru 6,2% fólks á aldrinum 16-29 ára hvorki skráð í nám eða í starf.

Þó hlutfallið sé lágt er fjöldinn talsverður eða 4.100 einstaklingar það ár.(9) Af þessum hópi fengu 42% atvinnuleysisbætur, 20% örorku- eða endurhæfingarlífeyri, 19% fjárhagsaðstoð frá sveitarfélagi og 19% voru ekki með skráða framfærslu og því líkast til á eigin framfæri eða fjölskyldu sinnar. Þó einstaklingar hafi hvorki verið skráðir í nám né vinnu þurfa ekki allir í hópnum að vera í vanda.(8) Rannsókn Félagsvísindastofnunar árið 2016 meðal yngra fólks sem nýlega (árin 2012-2015) hafði fengið örorku- eða endurhæfingarlífeyri vegna geðsjúkdóma og stoðkerfissjúkdóma sýnir að 38% fólks yngra en 30 ára sem nýtur örorku- eða endurhæfingarlífeyris eru í einhverju námi og 24% eru í einhverri vinnu sem teljast verður jákvætt.(10)

Þá eru sumir þeirra sem eru á eigin framfæri eða fjölskyldu sinnar einfaldlega á ferðalögum að skoða heiminn. Eftir stendur að stór hluti, jafnvel tvö til þrjú þúsund manns á hverjum tíma, er ungt fólk utan náms og vinnu sem er í hættu á að vera félagslega útskúfað í samfélaginu til frambúðar með tilheyrandi heilsubresti verði ekkert að gert.

Íslenska leiðin – brotthvarf og örorka

Við Íslendingar erum oft sér á báti, enda finnum við stundum upp lausnir á þekktum vanda sem aðrar þjóðir hafa þróað árangursríkar leiðir til að mæta. Tvær séríslenskar leiðir tengjast ungu fólki sem hvorki er í vinnu né í námi; önnur er brotthvarf úr framhaldsskóla og hin er há tíðni örorku meðal ungs fólks.

Norræna tölfræðistofnunin NOSOSCO staðfestir til að mynda að 5% fólks á aldrinum 16-39 ára er með örorkueða endurhæfingarlífeyri hér á landi, á meðan hlutfallið er 2% á öllum hinum Norðurlöndunum. Ástæðan er meðal annars sú að hér á landi er hægt að fá varanlega örorku- eða endurhæfingarlífeyri frá 18 ára aldri. Í Danmörku fer fólk ekki á varanlega örorku fyrr en eftir 40 ára aldur, fram að því er boðið upp á starfsendurhæfingu og hlutastörf í samræmi við starfshæfni sé nokkur möguleiki á virkni. Í Svíþjóð er örorkulífeyrir fyrst greiddur eftir 30 ára aldur en fram að því fær fólk hlutfallslegar greiðslur eftir starfshæfni. Í Noregi er gert ráð fyrir greiðslum fyrir virkni í það minnsta til 26 ára aldurs nema fólk sé alvarlega fatlað og í Finnlandi eru ekki greiddar fullar örorkubætur fyrir 31 árs aldur11. Almannatryggingakerfin eru þannig verulega frábrugðin á Norðurlöndunum, en alls staðar utan Íslands má segja að gert sé ráð fyrir því að nýta starfshæfni fólks í lengstu lög og koma í veg fyrir varanlega óvirkni utan vinnu og eða náms.

Í grein Guðrúnar Ragnheiðar Jónsdóttur í Ársriti VIRK 2017 má vel sjá hvernig Ísland sker sig einnig úr varðandi aukningu útgjalda vegna örorkulífeyris á meðan aðrar Norðurlandaþjóðir hafa dregið úr þeim útgjöldum um leið og áhersla á virkni jókst.(12) Margt bendir til þess að við köstum krónunni til að spara aurinn þar sem önnur velferðarútgjöld hér á landi eru talsvert undir sambærilegum útgjöldum á Norðurlöndunum.(11) Margvíslegar rannsóknir sýna fram á að skortur á stuðningi í upphafi erfiðleika og veikinda leiðir seinna til sjúkdóma sem verða illviðráðanlegir og leiða til varanlegrar örorku.

Nýleg rannsókn Félagsvísindastofnunar (10) skoðaði meðal annars aðstæður þeirra sem fengu örorku- eða endurhæfingarlífeyri vegna sjúkdóma sem ekki voru meðfæddir. Voru það sjúkdómar tengdir stoðkerfi í 28% tilfella og geðsjúkdómar í 72% tilfella. Vandi þessa fólks birtist á margvíslegan hátt snemma á lífsleiðinni. 75% hópsins fann fyrir kvíða og/eða þunglyndi strax í grunnskóla og 58% hafði litla trú á sér í grunnskóla. Svipaðar niðurstöður voru varðandi framhaldsskólann. Helmingur hópsins var mjög eða frekar sammála þeirri fullyrðingu að hann hefði fengið lítinn eða engan stuðning í grunnskóla og ríflega þriðjungur hafði þessa skoðun í framhaldsskóla. Lítil menntun einkennir hópinn en helmingur hópsins hafði eingöngu lokið grunnskólanámi og þriðjungur svarenda hafði byrjað í framhaldsskóla en hætt áður en náminu lauk, oftast vegna veikinda, vanlíðunar og námserfiðleika. Í rannsókn Félagsvísindastofnunar er bent á mikilvægi þess að auka aðgengi að náms- og starfsráðgjöfum, félagsráðgjöfum og sálfræðingum í grunn- og framhaldsskólum í því skyni að veita mikilvægan stuðning og styðja fólk til að halda áfram námi. Þá kemur fram skýr vilji svarenda sem hefðu viljað fá slíkan stuðning á meðan á námi stóð.

Brotthvarf úr íslenskum framhaldsskólum er það mesta sem þekkist í vestrænum heimi og er mest meðal þeirra sem standa verr hvað varðar líðan og námsgetu. Rannsóknir sýna að þeir sem hverfa frá námi geta staðið frammi fyrir skertum lífsgæðum, sálfélagslegum erfiðleikum og eiga á hættu að verða háðir þjónustu velferðarkerfisins.(13) Hátt hlutfall brotthvarfs og hátt hlutfall ungs fólks með örorku- eða endurhæfingarlífeyri hér á landi bendir eindregið til hins sama. Það þarf oft lítið til að breyta mjög miklu fyrir nemendur sem annars flosna upp úr námi. Því má ætla að stuðningur sem væri veittur af náms- og starfsráðgjöfum, sálfræðingum og skólafélagsráðgjöfum kosti mun minna fyrir samfélagið en sú þjónusta sem óvirkni fólks kallar á, í formi bótagreiðslna, félags- og heilbrigðisþjónustu og síðar starfsendurhæfingar.(8)

Lesblinda mikill áhrifavaldur

Þegar hugað er að ungu fólki sem hvorki er í vinnu né starfi þá er mikilvægt að greina stöðu hvers einstaklings og kortleggja tækifæri og hindranir. Lesblinda er dæmi um hindrun þegar kemur að námi og vinnu, þó svo hún geti einnig verið náðargáfa í sumum greinum þar sem þrívíddarskynjun lesblindra virðist nýtast t.d. í bifvélavirkjun og arkitektúr.(8) Slök lestrarfærni hefur hins vegar skýrt forspárgildi varðandi atvinnuleysi sem mældist tvöfalt hærra meðal þeirra sem eru í lægsta þrepi í lestrarfærni í rannsókn sem var gerð á ýmsum færniþáttum og tengslum þeirra við atvinnulífið meðal 26 OECD ríkja árið 2012.(14)

Í fyrrnefndri rannsókn Félagsvísindastofnunar meðal ungs fólks sem nýtur örorkueða endurhæfingarlífeyris kemur fram að 33% þeirra sem eru undir þrítugu hafa verið greindir með lesblindu þrátt fyrir að einungis um 4-5% landsmanna á sama aldri ætti að hafa slíka greiningu. Enn fleiri eða um 40% hafa greinst með athyglisbrest með eða án ofvirkni og allt að 80% greina frá kvíða eða þunglyndi. Þær raskanir sem hér eru nefndar eru oft meðfærilegar ef fólk fær tækifæri til að yfirvinna þær hindranir sem af þeim leiða, en versna ef fólk fær ekki tækifæri til þátttöku og verður óvirkt hvað varðar vinnu eða nám.

Há tíðni lesblindu meðal íslenskra öryrkja hvetur VIRK og aðra þjónustuaðila til að skima fyrir þessari röskun og bjóða tækifæri til að sporna gegn neikvæðum afleiðingum hennar. Símenntunarmiðstöðvar um land allt og Mímir símenntun á höfuðborgarsvæðinu bjóða sérhæfð námskeið sem Fræðslumiðstöð atvinnulífsins hefur þróað til að bæta stöðu lesblindra gagnvart námi og vinnu. Þetta eru námskeiðin Aftur í nám og Skref til sjálfshjálpar sem einnig eru greidd af Fræðslumiðstöðinni á grundvelli laga um framhaldsfræðslu nr. 27/2010. Aðrar náms- og starfsendurhæfingarstöðvar hafa einnig mætt eftirspurn vegna þessa vanda svo sem Námsflokkar Reykjavíkur, Janus endurhæfing og Hringsjá.

Vannýtt tækifæri

Íslenskt samfélag hefur í lögum og með stefnumótun tryggt nokkuð vel réttindi fólks sem stendur höllum fæti vegna námserfiðleika eða hefur stutta formlega skólagöngu, oft vegna brotthvarfs, sem hamlar starfshæfni og frekara námi. Á grunni laga um framhaldsfræðslu standa nemendum margvísleg úrræði til boða sem mæta þörfum þeirra meðal annars fyrir styttri námsbrautum, annarskonar námsefni og lengri námstíma. Hins vegar er það dapurleg staðreynd að mörg þessara úrræða eru vannýtt í dag.(8)

Á síðustu misserum hafa Mímir-símenntun, Námsflokkar Reykjavíkur og Hringsjá þurft að fella niður námskeið ætluð fólki með lesblindu og/eða litla grunnmenntun vegna ónógrar þátttöku. Fjölsmiðjan í Kópavogi sem starfað hefur við góðan orðstír er í sömu sporum.Síðastliðin misseri hafa þar verið fjöldi lausra plássa og búið að loka tímabundið einni af starfsþjálfunardeildunum. Þetta er á sama tíma og fjöldi fólks með lesblindu og skyldar raskanir er hvorki í vinnu né námi og nú í janúar 2018 voru 807 ungir einstaklingar á skrá Vinnumálastofnunar einungis með grunnskólamenntun og gætu nýtt sér þessi tilboð. Hvað hindrar að ungt fólk nýti þessi tækifæri er óvíst, en það er viðfangsefni nýrrar rannsóknar höfundar sem VIRK starfsendurhæfingarsjóður og Lýðheilsusjóður styrktu. Fljótlega má vænta niðurstaðna sem vonandi birtast í næsta Ársriti VIRK.

Starfsendurhæfing, nám og/eða vinna er svarið

Samfélagið þarf að láta sig varða unga fólkið sem okkar eigin skólakerfi hefur ekki náð að mæta. Samfélagið ber ábyrgð á brotthvarfi úr framhaldsskólum sem að stórum hluta er tilkomið vegna andlegra erfiðleika og námserfiðleika sem hægt er að mæta, sé vilji til þess. Norræna velferðarmiðstöðin (Nordic centre for welfare and social issues) setti á laggirnar rannsóknarverkefni undir heitinu: Young people in the Nordic Region – Mental health, Employment and Education árin 2014-2015. Á vegum þessa verkefnis voru gerðar þrjár viðamiklar viðtalsrannsóknir með ólíkar nálganir um ungt fólk sem hvorki er í námi né vinnu og glímir við geðrænan vanda. Hvort sem rannsóknirnar snéru að fólki með geðheilbrigðisþjónustu eða þeim sem fengu stuðning vegna atvinnuleysis voru niðurstöður nánast þær sömu. Ástæðurnar eru taldar þær að atvinnulausa fólkið átti við geðræna erfiðleika að stríða og unga fólkið með geðræna vandann var hvorki í skóla né vinnu. Þetta var því sami hópurinn.

Niðurstöður rannsóknanna var í meginatriðum að þörf er á stórbættu aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu í nærsamfélagi og aðgengilegri þverfaglegari þjónustu í tengslum við framhaldsskólana sem komi í veg fyrir að unga fólkið hverfi frá námi. Til að koma í veg fyrir að ungt fólk hætti námi vegna erfiðleika sinna þarf annars konar val um úrræði að vera í boði sem tekur við þegar og ef skóla sleppir og kemur í veg fyrir óvirkni. Unga fólkið bendir á mikilvægi þess að minnka skrifræði sem þau sjá ofsjónum yfir og að þeir sem þjónusta þau sjái og heyri hvað þau hafi fram að færa í stað þess að líta einungis á sjúkdómsgreiningar þeirra.(6)

Með öðrum orðum þá er það ekki lausn að greiða fólki framfærslu sem duga ekki til nauðþurfta og láta það afskiptalaust. Slíkt leiðir til fátæktar sem er til lengri tíma litið skaðleg heilsu einstaklinganna og samfélaginu öllu. Því þurfa ráðgjafar og aðrir sem vinna með ungu fólki að upplýsa það um hversu alvarlegar afleiðingar það hefur að hverfa frá námi og/eða hætta vinnu. Það á ekki að vera sjálfsagt val og samfélagið þarf fyrst að tryggja þann stuðning og endurhæfingu sem hver og einn á rétt á og virðist skila árangri samkvæmt erlendum rannsóknum.

Við þurfum að skapa samfélag sem gefur öllu fólki tækifæri, ekki síst þeim sem búa við margvíslega erfiðleika. VIRK starfsendurhæfingarsjóður ber ábyrgð á því að bjóða þeim einstaklingum sem glíma við heilsubrest sem hindrar þátttöku á vinnumarkaði árangursríka starfsendurhæfingu og aðstoð við að komast út á vinnumarkaðinn. En hvert og eitt okkar ber líka ábyrgð meðal annars með því að sýna fólki umburðarlyndi og bjóða það velkomið á vinnustaði og í skóla á þeirra forsendum. Þessi hópur hefur kvartað undan óbilgirni á vinnumarkaði, skorti á sveigjanleika og tækifærum á hlutastörfum sem aðrar Norðurlandaþjóðir hafa lagt áherslu á í stað örorku- og endurhæfingarlífeyris. Almennur skilningur á mikilvægi virkrar þátttöku í samfélaginu mun ýta undir líkurnar á að ungt fólk grípi þau tækifæri sem samfélagið býður upp á og þá getur hugmyndafræði VIRK um virka framtíð þessa fólks orðið að veruleika.

Greinin birtist í ársriti VIRK 2018 - sjá fleiri áhugaverðar greinar úr ársritinu hér.

Heimildir

1. Vinnumálastofnun. (2018). Tölfræði og útgefið efni. Sótt af https://www. vinnumalastofnun.is/um-okkur/ tolfraedi-og-utgefid-efni/maelabord/ fjoldi-atvinnulausra-eftir-menntunkyni-og-aldursbili
2. Hagstofa Íslands. (2014). Meira brottfall af framhaldsskólastigi utan höfuðborgarsvæðisins. Sótt af https://hagstofa.is/utgafur/ frettasafn/menntun/meira-brottfallaf-framhaldsskolastigi-utanhofudborgarsvaedisins/
3. OECD. (2016) Youth not in employment, education or training (NEET). doi:10.1787/72d1033a-en
4. Olsen, T. og Tägtström, J. (2013). Introduction. Í T. Olsen og J. Tägström (ritstj.), For that which grows: Mental health, disability pensions and youth in the Nordic countries (bls. 81–102). Sótt af http://www.nordicwelfare.org/ PageFiles/13793/For_that_which_ grows.pdf
5. Albæk, K., Asplund, R., Barth, H., Lindahl, L., Simson, K, V. og Vanhala, P. (2015). Youth unemployment and inactivity. Kaupmannahöfn: TemaNord.
6. Norden. (2016). In focus: Mental health among young people. Stockholm: Nordic Centre for Welfare and Social Issues.
7. Halvorsen, B., Hansen, O. og Tägtström, J. (2013). Young people on the edge (summary): Labour market inclusion of vulnerable youths. Copenhagen: Nordisk Minister Rad.
8. Björk Vilhelmsdóttir. (2017). Ungt lesblint fólk utan skóla og vinnumarkaðar (óútgefin meistararitgerð). Sótt af http://hdl. handle.net/1946/26621
9. Hagstofa Íslands. (2016). Mannfjöldi eftir kyni og aldri. Sótt af http:// px.hagstofa.is/pxis/pxweb/is/Ibuar/ Ibuar__mannfjoldi__1_yfirlit__Yfirlit_ mannfjolda/MAN00101.px/
10. Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands. (2016). Staða ungs fólks með örorku- eða endurhæfingarlífeyri. Sótt af https://www.velferdarraduneyti. is/media/skyrslur2016/Stada_ungs_ folks_med_ororku_13.10.2016.pdf
11. NOSOSCO. (2017). Social protection in the Nordic coutries 2015/2016. Scope, Expenditure and Financing. Sótt af http://norden.diva-portal. org/smash/get/diva2:1148493/ FULLTEXT02.pdf
12. Guðrún Ragnheiður Jónsdóttir. (2017). Fjöldi einstaklinga á örorkuog endurhæfingarlífeyri og virkni ungs fólks. Ársrit um starfsendurhæfingu 2017, bls. 36-39
13. Sigrún Harðardóttir. (2015). Líðan framhaldsskólanemenda: Um námserfiðleika, áhrifaþætti og ábyrgð samfélags. Reykjavík: Rannsóknarstofnun í barna- og fjölskylduvernd við Háskóla Íslands.
14. OECD. (2013). OECD skills outlook 2013: First results from the survey of adult skills. doi. org/10.1787/9789264204256-en.


Fréttir

30.05.2024
28.05.2024

Hafa samband