Fara í efni

Hlustum og mælum – til að ná fram því besta

Til baka

Hlustum og mælum – til að ná fram því besta

Auður Þórhallsdóttir, sviðsstjóri mannauðsmála hjá VIRK

 

Frá árinu 2016 hefur VIRK verið að framkvæma mannauðsmælingar með það að markmiði að mæela hvernig við getum náð fram því besta úr starfsfólkinu. Við vildum fá tölur um mannauðsmálin eins og aðrar lykiltölur í rekstri, til að hjálpa stjórnendum að skapa framúrskarandi starfsumhverfi.

Með svona mælingu erum við einnig að hvetja alla starfsmenn til að huga að mikilvægustu þáttunum í umhverfi sínu, hafa skoðun á þeim og byggja þannig upp betri gæðavitund.

Metnaður okkar snýr einnig að því að hver og einn stjórnandi sé meðvitaður og virkur í sínu mannauðsstjórahlutverki til að tryggja faglega og góða stjórnun. Nú sem fyrr hefur aldrei verið mikilvægara að huga að okkar mikilvægustu auðlind, mannauðnum og til lengri tíma hefur hegðun stjórnenda oft meira að segja en stefnan.

Kerfið sem við notum sendir starfsfólki stuttar kannanir annan hvern mánuð. Það tekur starfsmanninn einungis tvær mínútur að svara. Spurningarnar eru í átta lykilþáttum og einnig er alltaf send út ein opin spurning. Með opinni spurningu hvetjum við til hugmynda og ábendinga frá starfsfólki og viljum þannig virkja þeirra sköpunarkraft. Þegar niðurstöður liggja fyrir funda stjórnendur og skoða hvað er að virka og hvað ekki og íhuga tækifæri til vaxtar og útbóta.

Fyrir utan að fá niðurstöður frá starfsfólki VIRK fáum við samanburð hvar við stöndum gagnvart öðrum fyrirtækjum, því notendur þessa kerfis eru um tíu þúsund.

Í samanburði við fjölda annarra notenda var VIRK í desember 2016 undir miðju í heildarárangri þ.e. í topp 55% - 75%, árið 2017 fórum við í topp 35% og á sama tíma árið 2018 í topp 5% og við héldum því sæti í lok árs 2019 þ.e. í topp 5%. Það er okkur dýrmætt að fá reglulega niðurstöðu í rauntíma hversu VIRK er heilbrigt og hafa þessar mælingar hjálpað okkur vel fram á veginn. Kvarðinn sem notaður er skiptist í þrjá flokka:

Styrkleikabil = 4,20 – 5,00
Starfshæft bil = 3,70 – 4,19
Aðgerðabil = 1,00 – 3,69

Sem dæmi þá var niðurstaðan úr flokknum „Starfsánægja“ fyrir síðasta ár að meðaltali á þessa leið:

VIRK náði að vera í 6. sæti í sínum stærðarflokki sem „Fyrirtæki ársins 2019“ hjá VR og erum við afar stolt af því.

Nokkur svör frá starfsfólki VIRK við opinni spurningu í mannauðsmælingu í janúar 2020. Spurningin hljómaði svona:

Hvaða þættir eru það sem snúa að ánægju þinni og vellíðan í starfi hjá VIRK sem þú ert ánægðastur með? Hvetjum þig til að tilgreina allt sem þér dettur í hug hvað varðar þína starfsánægju.

„Upplifi einlægan vilja til að halda vel utan um starfsmenn og hlúa að þeim. Það eru forréttindi að starfa með góðu fólki og að líða vel í vinnunni.“

„VIRK er mjög skipulagður vinnustaður sem hentar mér vel. Það er vinnuagi til staðar sem þarf að halda við. Svo er samstarfsfólk mitt algjörlega frábært í alla staði.“

„Fjölbreytni, vel hlúð að starfsmanninum.“

„Skemmtilegur vinnustaður og samstarfsmenn.“

„Mikið af fjölbreyttri þekkingu hjá starfsfólki.“

„Eftirfarandi þættir í vinnuumhverfinu mínu eru ánægjulegir: Sveigjanleiki í vinnutíma, hádegismaturinn, opin samskipti í mínu teymi og jafnlaunastefnan.“

„Einstakur yfirmaður, frábær starfsandi og mikilvæg starfsemi.“

„Ég er mjög ánægð með samstarfsfólk og yfirmann.“

„Hlakka alltaf til að fara í vinnuna og hitta samstarfsfólk og vinna að þeim fjölbreyttu verkefnum sem ég er með.“

„Það er vel hugsað um starfsfólk, það er sveigjanleiki í starfi.“

„Geggjaður matur.“

„Frábært samstarfsfólk, góður starfsandi, gott mötuneyti, sveigjanleiki í vinnutíma, fjölbreytt verkefni.“

„Vinnuaðstaðan og góð samskipti við yfirmann líka mikilvæg.“

„Fjölbreytni.“

„Mjög góð vinnuaðstaða, mjög góðir samstarfsmenn, maður er hvattur til að segja skoðun sína og það er hlustað á mann og svo má ekki gleyma mötuneytinu.“

„Hlustað á raddir allra.“

„Létt andrúmsloft.“

„Fjölbreytni, árangur, hlustað á mig varðandi nýjar leiðir í starfi, vilji til að leita lausna, launin, aðstaðan bæði hugguleg og góð en stundum erfitt að vera í opnu rými.“

„Sveigjanlegan vinnutíma. Fjölbreytt verkefni. Tækifæri til endurmenntunar.“

„Virðing.“

„Samstarfsfólkið fyrst og fremst. Skemmtilegur og kraftmikill hópur einbeittra fagmanna.“

„Tilgangur starfseminnar skiptir mig einnig miklu máli.“

„Skipulagður sveigjanleiki og stytting vinnuviku. Góður aðbúnaður og frábær matur.“

„Fjölbreytt verkefni. Nóg að gera. Hæft samstarfsfólk. Mikill metnaður í öllu starfi.

„Góður starfsandi. Samstaða starfsfólks. Umhyggja. Gleði og húmor, sbr. jólaleikinn okkar.“

„Skipulagði sveiganleikinn er frábær og nýtist vel.“

„Öflugur og skemmtilegur hópur sem vinnur samstíga í átt að sameiginlegu markmiði.

„Frábærir samstarfsfélagar. Góð vinnuaðstaða. Frábært mötuneyti. Tækifæri til þess að taka þátt og móta starfsemina.“

„Yndislegt starfsfólk og starfsandi. Virkilega góður félagsskapur og stuðningur í vinnunni.“

„Nýt þess að koma í vinnuna og verkefnin eru skemmtileg þegar maður leysir þau með skemmtilegu fólki.“

„Það er hlustað á það sem starfsfólkið hefur að segja og mikið um málefnalegar umræður um allt sem snýr að starfseminni. Hlúð að starfsfólkinu í vinnu, tilfinning um að maður skipti máli og að maður hafi eitthvað fram að færa. Frábær yfirmaður/ sviðsstjóri.“

„Það hefur verið ómetanlegt að upplifa hversu mikinn skilning og stuðning ég hef fengið þegar erfiðleikar komu upp í mínu persónulega lífi.“


Fréttir

30.05.2024
28.05.2024

Hafa samband