Fara í efni

Fyrirtæki áhugasöm um vinnuafl frá VIRK

Til baka

Fyrirtæki áhugasöm um vinnuafl frá VIRK

Telma Dögg Guðlaugsdóttir atvinnulífstengill hjá VIRK

 

Á miðvikudögum er Telma Dögg Guðlaugsdóttir atvinnulífstengill yfirleitt að störfum í húsakynnum VIRK í Borgartúni og þar hittum við hana fyrir. Hennar vinnustaður er þó í Reykjanesbæ þar sem hún aðstoðar þjónustuþega VIRK á Suðurnesjum í atvinnuleit.

„Ég byrjaði að vinna sem atvinnulífstengill hjá VIRK í miðjum kóvídfaraldrinum. Fyrsta árið var óneitanlega ansi dauflegt á Suðurnesjum – ýmis starfsemi þar var þá meira og minna lömuð. Keflavíkurflugvöllur er mjög stór vinnustaður á þessu svæði en líka þar var fátt að frétta hvað atvinnu snerti,“ segir Telma Dögg.

„Ég nýtti því þennan erfiða tíma til að hringja eða heimsækja fyrirtækin á svæðinu og mynda tengsl. Ég lagði mig fram um að kynna starf atvinnulífstengils VIRK og athuga jafnframt hjá fyrirtækjum hvort samstarf væri mögulegt, einnig skráði ég þau inn í gagnagrunn VIRK.

Það kom sér vel að ég er fædd og uppalin í Keflavík og þekki því svæðið vel. Ég bjó um tíma í Bandaríkjunum og tók þar BS-próf í viðskiptafræði og síðar MBA-próf. Áður en ég hóf störf hjá VIRK var ég í átta ár mannauðsstjóri á Keflavíkurflugvelli hjá Airport Associates, sem þjónustar flest flugfélög önnur en Icelandair. Síðar starfaði ég sem útibússtjóri hjá Securitas. Ég hef því ágætar tengingar á þessu svæði og þekkti marga.“

Atvinnumál hafa breyst mikið á Suðurnesjum síðustu áratugi

Hefur mikið breyst í atvinnulegu tilliti frá því þú varst að alast upp í Keflavík?
„Ég er fædd 1980 og sannarlega hefur mikið breyst á Suðurnesjum á mínum líftíma. Ekki síst urðu stórfelldar breytingar þar eftir að herinn fór árið 2006. Ég man að þá var mjög mikið atvinnuleysi á svæðinu. Svo kom bankahrunið 2008. Í millitíðinni hafði ferðaþjónustan verið að byggjast upp og mikið að gera á Keflavíkurflugvelli. Þegar kóvíd-19 faraldurinn, sá stóri skellur, brast á lamast meira og minna allt á svæðinu.“

Aðstoðaðir þú marga þjónustuþega VIRK í atvinnuleit á því tímabili?
„Fyrst á kóvíd-tímanum var ég með þetta tólf til þrettán manns í atvinnuleit hverju sinni. Ég var þá í fimmtíu prósent starfi enda hafði ég þá nýlega lokið starfsendurhæfingu sjálf hjá VIRK. Sú reynsla hefur verið mér dýrmæt í starfi. Hlutastarfið reyndist mér fjölskylduvænt og ég gat sem fyrr sagði nýtt mér vel tengsl og reynslu úr fyrri störfum. Fljótlega var ég komin í sjötíu prósent vinnu og svo fór ég í fullt starf.

Reyndar var ég ótrúlega heppin á kóvídtímanum af því ég var ein á skrifstofu og gat ég tekið á móti fólki þótt samkomutakmaknir væru með því að fylgja settum reglum hverju sinni, svo sem grímuskyldu og fjarlægðartakmörkum. Hingað í Borgartún kem ég vikulega til þess að sækja fundi og laga mig að því sem er að gerast innan starfsemi VIRK hverju sinni en skrifstofan mín er í húsnæði VR í Reykjanesbæ.

Langflestir sem til mín hafa leitað vilja komast sem fyrst út á vinnumarkaðinn. Almennt veit fólk vel að það hefur það betra úti á vinnumarkaðinum, fjárhagslega, félagslega og andlega. Langflestir sem hafa komið til mín eru því vinnumiðaðir.

Ég hef þjónustað fólk á öllum aldri, allt frá sautján ára og framundir sjötugt. 

Ástæða er til að taka fram að það er allt öðruvísi að vera í atvinnutengingu hjá VIRK heldur en að hitta ráðgjafana í sjálfu endurhæfingarferlinu. Atvinnulífstengillinn hittir einstaklingana sem hann er að aðstoða örar, svona einu sinni í viku að jafnaði en ráðgjafa sína hittir fólk yfirleitt svona einu sinni í mánuði nema í upphafi ferlisins.

Ég hef þjónustað fólk á öllum aldri, allt frá sautján ára og framundir sjötugt. Um þessar mundir er ég að aðstoða sextíu og sjö ára einstakling, einstaklega heilsuhraustan og hressan sem er til í að vinna við hvað sem er. Okkur hefur ekki gengið vel að finna vinnu fyrir viðkomandi en ég er viss um að það mun ganga. Ég er þegar búin að tala við nokkra vinnuveitendur og eftir að hafa útskýrt málið fyrir þeim þá segja þeir jafnan: „Endilega segðu viðkomandi að sækja um, við erum ekki með aldursfordóma.“.

Aldursfordómar virðast vera að minnka

Eru aldursfordómar áberandi hjá fyrirtækjum, að þínu mati?
„Það er að breytast. Maður sér að fyrirtæki eru í auknum mæli að setja inn í auglýsingar merkingar þar sem starfið er sagt henta ágætlega eldra fólki og líka birtast auglýsingar þar sem fólk á öllum aldri er hvatt til að sækja um viðkomandi starf. Stærsti hópurinn sem ég hef þjónustað er þó líklega á aldrinum tuttugu og fimm til fimmtíu og fimm ára.“

Hvort er auðveldara að finna vinnu fyrir karla eða konur?
„Ég hef verið með fleiri konur í þjónustu einfaldlega af því að það koma fleiri konur en karlar í þjónustu hjá VIRK. Mín reynsla er að það sé ekkert auðveldara fyrir karla en konur að finna sér starf. Það fólk sem ég fæ til mín er ekki endilega ekki mikið menntað. Á höfuðborgarsvæðinu er algengara að ráðgjafar VIRK aðstoði fólk í atvinnuleit sem hefur hærra menntunarstig.“

Hvernig taka fyrirtæki því þegar þú hringir og ert að athuga með störf?
„Ég hlusta á hvað þeir sem ég þjónusta eru sjálfir að hugsa varðandi atvinnu og hef samband við fyrirtæki sem eru á svipaðri línu. En ef þjónustuþegi VIRK sér auglýsingu og vill sækja um þá aðstoða ég hann við það.

Í langflestum tilfellum eru undirtektir jákvæðar hjá fyrirtækum en ekki þó þannig að um skuldbindingar sé að ræða, fremur má segja að þeir sem ráða fólk séu tilbúnir til að skoða málið og taka viðkomandi þjónustuþega í viðtal. Að komast í viðtal er stórt og jákvætt skref fyrir fólk í atvinnuleit.

Fyrirtæki viljug að taka fólk frá VIRK í vinnuprófun

Einnig hef ég gjarnan samband við fyrirtæki til að koma fólki í svokallaða vinnuprófun. Það gengur vel að fá fyrirtæki til að taka fólk í vinnuprófun sem stendur yfirleitt í svona sex til átta vikur. Almennt er það svo að það er óvissa um vinnugetu þeirra sem fara í vinnuprófun. Þar kemur svo í ljós hvað fólk treystir sér til og getur. Áður en vinnuprófun hefst set ég upp plan með viðkomandi einstaklingi og vinnuveitanda. Þjónustuþegi fær ekki laun á þessu tímabili, enda flestir í þeirri stöðu að vera á endurhæfingarlífeyri. Fyrrnefnd þrenning setur svo upp plan fyrir hverja viku fyrir sig. Yfirleitt er byrjað með fimmtán til tuttugu prósenta starfshlutfalli fyrstu vikuna sem fer svo stigvaxandi þar til komið er upp í fimmtíu prósent síðustu vikuna.“

Og hvernig gengur fólki í svona vinnuprófun?
„Yfirleitt gengur þetta ágætlega og stundum leiðir vinnuprófun til ráðninga. Stöku sinnum gerist þó að einstaklingur þarf að hætta og þá yfirleitt vegna heilsubrests. Þá standa honum önnur úrræði til boða.“

Er eitthvað um að fólk frá VIRK í atvinnuleit á Suðurnesjum fari í nám?
„Já, það er talsvert um það. Við erum vel stödd í skólamálum hér. Fjölbrautaskóli Suðurnesja er í Keflavík og svo höfum við Keili á Ásbrú. Til dæmis er einn þeirra sem ég er með í þjónustu núna í hlutanámi í Keili. Reyndar er það svo að þeir sem eru á endurhæfingarlífeyri mega ekki vera í fullu námi. Litið er svo á að ef fólk geti verið í fullu námi þá þurfi það ekki á neinni endurhæfingu að halda.“

Hvernig gengur að finna fólki atvinnu á flugvellinum, þessum stærsta vinnustað Suðurnesja?
„Það hefur gengið ágætlega en það eru samt ekki sérlega margir sem ég hef þjónustað sem hafa endað í starfi uppi í flugstöð.“

Stundum þarf að leiðbeina fólki

Hefur þú verið með marga útlendinga í þjónustu?
„Yfirleitt svona einn til tvo í einu. Samstarfið við erlenda þjónustuþega VIRK gengur almennt vel ef viðkomandi talar ensku en hægar ef fólk talar eitthvert annað tungumál. Þá hef ég fengið túlk til aðstoðar og einnig notast ég við tölvuþýðingar úr viðkomandi tungumáli yfir á ensku. Vel hefur reynst að fá túlk í upphafi þegar ég er að kynnast einstaklingum og þarf að fá upplýsingar sem varða persónulegt líf þeirra. Tölvuþýðingarnar koma svo að góðu gagni síðar.“

Er eitt af hlutverkum atvinnulífstengla að greina vandamál þjónustuþega?
„Aðallega einblínum við atvinnulífstenglar á atvinnuhlutann hvað þjónustuþega varðar. Ráðgjafar VIRK greina hvað að baki vandans liggur. Eigi að síður þarf maður stundum að leiðbeina fólki. Það henta ekki hverjum og einum öll störf.

VIRK hefur unnið sér álit í samfélaginu og ansi margir þekkja einhvern sem farið hefur í gegnum starfsendurhæfingu hjá VIRK.

Sem dæmi get ég nefnt einstakling sem hafði verið lengi frá vinnumarkaði vegna lasleika. Sá vildi fara strax í hundrað prósent starf. Ég nefndi þá að kannski væri sniðugra að byrja rólega og auka svo við sig. Hugsanlega að byrja í vinnuprófun. Viðkomandi brást nokkuð ókvæða við. Ég útskýrði þá hve mikil viðbrigði það geta verið fyrir einstakling sem hefur verið lengi frá vinnumarkaði að fara allt í einu í fullt starf.

Niðurstaðan var að viðkomandi fór í vinnupróf. Þar reyndist ganga hægt hjá honum að auka við sig starfshlutfall. Stundum þarf að leiðbeina fólki og fá það til að endurhugsa fyrirætlanir sínar en gæta þess jafnframt að draga ekki úr því kjark.“

Ef þjónustuþegi fær vinnu fyrir þitt tilstilli ertu þá í sambandi við hann eða fyrirtækið áfram?
„Ef fólk fer beint í vinnu þá útskrifast það mjög fljótt frá mér. Ég er því ekki í sambandi við þjónustuþega nema hann óski eftir eftirfylgni. Er fólk fer í hundrað prósent starf getum við fylgt því eftir í einn mánuð. Ef fólk er í hlutastarfi getum við fylgt því eftir í þrjá mánuði. Það hefur komið fyrir að ég sé í sambandi við fyrirtæki sem hafa ráðið einstaklinga frá VIRK í vinnu. Þá spyr ég svo sem stundum hvernig gangi og fæ yfirleitt gleðilegar fréttir.“

Eru þjónustuþegar VIRK jafngildir öðrum á vinnumarkaði?
„Já, þeir eru það vissulega. Þetta er fólk sem hefur dottið út af vinnumarkaði af einhverjum ástæðum en unnið vel í sínum málum og er stundum hreinlega betur sett en aðrir. Ég segi gjarnan við atvinnuveitendur: „Þú veist ekkert hvernig einstaklingar eru sem koma utan af götu en ég hef unnið með viðkomandi þjónustuþega og þekki hann ágætlega.“ Auðvitað gef ég ekki þjónustuþega meðmæli sem starfsmanni en ég get sagt hvernig hann hafi staðið sig í ferlinu, að hann hafi unnið vel öll verkefni og vilji starfa.

Fordómar gagnvart VIRK hafa minnkað mikið. VIRK hefur unnið sér álit í samfélaginu og ansi margir þekkja einhvern sem farið hefur í gegnum starfsendurhæfingu hjá VIRK. Þetta viðhorf skynjar maður á viðbrögðum þeirra sem skipt er við.“

Starfsendurhæfing samhliða vinnu farsælt úrræði

Hvernig eru atvinnumöguleikar á Suðurnesjum núna?
„Þeir eru góðir. Það er óhætt að segja það. Nú eru sumarstörfin að detta inn. Margir byrja þannig og fá svo áframhaldandi ráðningu um haustið. Mér sýnist fullt af tækifærum og að flestir ættu að geta fengið vinnu sem vilja. Reyndar eru störf á flugvellinum vaktavinnutengd og ekki allir sem fella sig við slíkt fyrirkomulag, en það er margt annað í boði. Svo sem þrif og starf í skólum, til dæmis sem stuðningsfulltrúar og þannig mætti telja.“

Hefur þú afskipti af þeim þjónustuþegum sem þegar eru í vinnusambandi?
„Starfsendurhæfing samhliða vinnu er fremur nýtt úrræði en á ábyggilega eftir að aukast meira. Þá kemur viðkomandi í endurhæfingu hjá VIRK en fer í lægra starfshlutfall. Viðkomandi þjónustuþegi sinnir þá starfsendurhæfingu jafnhliða skerta starfshlutfallinu.

Mér þykir vænt um starf mitt hjá VIRK og tel það mikla gæfu fyrir samfélagið að hafa slíka starfsemi að leita til ef í harðbakkann slær.

Hlutverk atvinnulífstengils er þá að leggja plön með viðkomandi einstaklingi og vinnuveitenda hans hvernig þetta eigi að fara fram. Markmiðið er þá að viðkomandi komist aftur í sitt fyrra starfshlutfall að lokinni starfsendurhæfingu. Rannsóknir sýna að það er farsælt að fólk sé í sambandi við vinnustaðinn sinn samhliða endurhæfingarferli.

Aðstaða fólks sem hefur vinnutenginu er talsvert öðruvísi en þeirra sem eru í atvinnuleit eftir endurhæfingu. Atvinnulífstenglar hjá VIRK hitta bara brot af því fólki sem kemur í starfsendurhæfingu til VIRK. Þeir sem þurfa að fara í skert starfshlutfall eftir endurhæfingu eru í sambandi við atvinnulífstengla og ráðgjafa en hinir sem geta farið í fullt starf eiga betur heima hjá Vinnumálastofnun ef þeir eru ekki komnir með vinnu þegar þeir ljúka starfsendurhæfingunni.

Atvinnutengingin er hugsuð fyrir fólk með skerta starfsgetu. Lengi hefur verið mun erfiðara að fá hlutastarf en fulla vinnu. Þetta er þó smám saman að breytast. Sum fyrirtæki eru fúsari til að taka fólk í hlutastörf en önnur. Hlutastörf henta heldur ekki öllum fyrirtækjum en til dæmis á Keflavíkurflugvelli hafa hlutastörf viðgengist lengi.“

Er eitthvað eitt frekar en annað sem veldur því að fólk dettur út af vinnumarkaðinum á Suðurnesjum?
„Hér glímir fólk við andleg veikindi, stoðkerfisvanda, afleiðingar af slysum og kulnunareinkenni, rétt eins og annars staðar – ég held að þar sé enginn munur á. Mér þykir vænt um starf mitt hjá VIRK og tel það mikla gæfu fyrir samfélagið að hafa slíka starfsemi að leita til ef í harðbakkann slær.“

Viðtalið birtist fyrst í ársriti VIRK 2023.

Texti: Guðrún Guðlaugsdóttir
Mynd: Lárus Karl Ingason


Fréttir

30.05.2024
28.05.2024

Hafa samband