Formlegt samstarf VIRK við stofnanir velferðarkerfisins
Formlegt samstarf VIRK við stofnanir velferðarkerfisins
Auk samstarfs ráðgjafa og atvinnulífstengla VIRK við fagaðila, stofnanir og fyrirtæki í starfsendurhæfingarferli einstaklinga þá hefur VIRK byggt upp formlegt samstarf við aðila velferðarkerfisins sem miðar að því að bæta enn frekar flæði og vinnuferla með hagsmuni einstaklinga í huga.
Gott samstarf og upplýsingaflæði milli stofnana er mikilvægt til að unnt sé að veita einstaklingum þjónustu við hæfi. Í samstarfi við fagaðila og stofnanir er ávallt gætt þess að farið sé að lögum og reglum um persónuvernd.
Heilsugæslustöðvar
Ráðgjafar VIRK eru í góðu samstarfi við heimilislækna um starfsendurhæfingu einstaklinga. Auk þess er öllum heilsugæslustöðvum boðið upp á reglulega fundi með fagaðilum hjá VIRK þar sem hægt er m.a. að fara yfir mál einstaklinga. Nokkrar heilsugæslustöðvar á höfuðborgarsvæðinu hafa þegið slíkt formlegt samstarf og almennt þá er gott samstarf milli ráðgjafa VIRK á landsbyggðinni og heilsugæslustöðvanna þar. VIRK býður einnig upp á skipulagða kynningarfundi um starfsemi VIRK á heilsugæslustöðvum og sendir fréttabréf til þeirra ársfjórðungslega.
Félagsþjónusta
Ráðgjafar VIRK eru í góðu samstarfi við ráðgjafa hjá félagsþjónustu sveitarfélaga um allt land vegna þjónustu við einstaklinga þar sem markmiðið er að auka vinnugetu og lífsgæði viðkomandi. Auk þessa hefur félagsþjónustunni verið boðið upp á formlegt samstarf þar sem fulltrúar VIRK og viðkomandi félagsþjónustu hittast og fara yfir einstök máli og samstarfið í heild sinni. Slíkt samstarf hefur m.a. átt sér stað við félagsþjónustuna í Reykjavík, á Akureyri, í Árborg og í Reykjanesbæ, t.d. eru nú til staðar tengiliðir við VIRK á flestum þjónustumiðstöðvum í Reykjavík.
Tryggingastofnun ríkisins
Mikið samstarf er milli ráðgjafa VIRK og sérfræðinga TR vegna endurhæfingaráætlana og endurhæfingarlífeyris einstaklinga í þjónustu VIRK. Auk þess þá eiga fulltrúar VIRK og TR öðru hvoru samráðsfundi þar sem farið er yfir ýmis mál í samstarfinu með það í huga að bæta það og tryggja gott vinnuferli og upplýsingaflæði.
Vinnumálastofnun
Mikið samstarf er milli ráðgjafa VIRK og Vinnumálastofnunar vegna þjónustuþega VIRK. Auk þess funda fulltrúar VIRK og VMST til að ræða almennt um samstarfið.
Tveir ráðgjafar hjá VIRK eru sérstakir tengiliðir við Vinnumálastofnun. Það hlutverk felur m.a. í sér að nálgast gagnlegar upplýsingar hjá VMST og miðla til ráðgjafa og starfsmanna VIRK. Ráðgjafar á landsbyggðinni eru einnig oftast í mjög góðu samstarfi við fulltrúa Vinnumálastofnunar á svæðinu.
Sérfræðingar hjá VIRK hafa síðan tekið þátt í ýmsum samstarfs- og þróunarverkefnum hjá Vinnumálastofnun m.a. Evrópuverkefninu „Youth in transition“ þar sem unnið var m.a. að því að finna betri leiðir til þjónustu fyrir ungt fólk í vanda.
Geðheilsuteymi
Verið er að byggja upp samstarf við geðheilsuteymin víða um land. Fundað var með geðheilsuteymi austur, vestur og suður í upphafi árs 2021 og ákveðnir fagaðilar hjá VIRK hafa tekið að sér að funda reglulega með geðheilsuteymum á höfuðborgarsvæðinu.
Fulltrúi geðheilsuteymis Suðurlands kemur ætíð inná samráðsfundi VIRK og félagsþjónustu Árborgar. Ráðgjafar VIRK á Austurlandi funda einu sinni í mánuði með geðheilsuteymi Austurlands. Tekið hefur verið upp samstarf við Geðheilsuteymi fangelsanna og munu tilteknir sérfræðingar hjá VIRK sjá um að halda því samstarfi gangandi.
Reykjalundur og Kristnes
Ráðgjafar VIRK eru alltaf öðru hvoru í samstarfi við fagaðila á Reykjalundi vegna þjónustu við einstaklinga. Auk þess hefur verið til staðar formlegur samstarfsvettvangur milli VIRK og Reykjalundar þar sem sérfræðingar frá VIRK hafa fundað með fagaðilum á Reykjalundi um samstarfið.
Rætt hefur verið um formlegt samstarf milli VIRK og Reykjalundar um mat á þörf einstaklinga sem glíma við alvarleg einkenni eftir að hafa fengið Covid19 til að tryggja viðeigandi endurhæfingu hverju sinni. Búið er að skipa tengiliði frá báðum stofnunum inn í þetta samstarf.
Ráðgjafar VIRK á Norðurlandi eru í góðu samstarfi við fagfólk á Kristnesi vegna einstaklinga í þjónustu.
Geðsvið Landspítala
Öflugt samstarf og samráð er á milli ráðgjafa VIRK, sérfræðinga VIRK og fagaðila ýmissa starfseininga Geðsviðs Landspítala. Á Geðendurhæfingardeildum Klepps, Hvítabandinu, Teigi (meðferðareining fyrir einstaklinga með fíknivanda), Átröskunarteyminu, Áfallateyminu, ÞOK-teyminu og Bráðamóttöku geðsviðs eru reglulegir samráðsfundir og/eða beint samráð tengiliða frá VIRK og tengiliða einstaka starfseininga Geðsviðs.
Samráðið hefur það að markmiði að greiða götu einstaklinga á milli kerfa, tryggja að einstaklingar fái rétta þjónustu á réttum stað og bæta samfellu í meðferð/endurhæfingu og starfsendurhæfingu einstaklinga.
Grensás
Á samráðsfundum VIRK, Grensásdeildar og Reykjalundar er farið yfir mál einstaklinga í starfsendurhæfingu og metið út frá hverju máli hvaða þjónusta sé viðeigandi á þeim tímapunkti með áherslu á að skapa samfellu í endurhæfingarferlinu. Vegna Covid19 faraldurs hafa þessir fundir legið niðri og gerðar ákveðnar breytingar á samstarfinu. Sérfræðingur hjá VIRK hefur því verið tengiliður við yfirlækni Grensásdeildar.
Auk þess hefur verið verið óformlegt samstarf milli heilaskaðateymis göngudeildar Grensáss og tengiliðs hjá VIRK í tengslum við einstaklinga sem hafa farið í gegnum heilaskaðamat, endurhæfingu á Grensás og í kjölfarið verið sótt um starfsendurhæfingu hjá VIRK.
Þraut
Ráðgjafar VIRK hafa átt samskipti við Þraut vegna starfsendurhæfingar þjónustuþega. Ákveðnir tengiliðir hafa verið skipaðir hjá báðum stofnunum og VIRK fær nokkur pláss til greiningar hjá Þraut þegar teymi VIRK telja að einstaklingur ætti að byrja í Þraut áður en til starfsendurhæfingar kemur, út frá beiðni og mögulega mati.
Þeir sem eru að útskrifast frá Þraut fá forgang inn í VIRK ef talin er þörf á starfsendurhæfingu í framhaldinu, til að skapa samfellu í endurhæfingu. Þegar einstaklingur sækir um hjá VIRK og Þraut samtímis þá ræða tengiliðir saman og finna hagstæða niðurstöðu.