Fólk ber ábyrgð á eigin heilsu
Fólk ber ábyrgð á eigin heilsu
Guðleif Birna Leifsdóttir & Kristbjörg Leifsdóttir, starfsendurhæfingarráðgjafar
Starf ráðgjafa hjá VIRK gegnir lykilhlutverki fyrir þá sem sækja þangað samstarf til endurhæfingar. Að Borgartúni 6, fjórðu hæð hittum við fyrir þær Kristbjörgu og Guðleifi Birnu Leifsdætur sem báðar eru félagsráðgjafar og starfa sem ráðgjafar VIRK fyrir Bandalag Háskólamanna, BHM. Þær systur hafa margt fróðlegt að segja um starf sitt hjá VIRK og sýn sína á samfélagið, sem þær hafa öðlast í ráðgjafastarfinu.
„Starf ráðgjafa hjá VIRK er ekki síst mjög skemmtilegt og eftir því fjölbreytt. Það felst í að styðja einstaklinga aftur inn á vinnumarkaðinn eftir heilsubrest. Slíkt krefst góðra samskipta og samvinnu. Nauðsynlegt er að átta sig í upphafi á hvar viðkomandi einstaklingur er staddur í sínum heilsufarsmálum og hvað helst má gera honum til stuðnings,“ segir Kristbjörg.
Er hætta á því að ráðgjafar fari að „lifa lífinu“ fyrir þá sem unnið er með á þennan hátt?
„Félagsráðgjafamenntun er þess eðlis að við sem hana höfum erum meðvituð um að blanda okkar eigin lífi ekki inn í starf okkar. Ábyrgðin er alltaf hjá einstaklingnum sem kemur til samstarfs við VIRK, hún er aldrei af honum tekin. Það er ljóst frá fyrsta viðtali, einstaklingurinn ræður ferðinni. Við ráðgjafarnir erum stuðningsaðilar og höldum utan um þá aðstoð sem veitt er,“ segir Guðleif Birna.
„Ef hvati og löngun er til staðar hjá einstaklingum til að ná bata þá gengur þetta yfirleitt vel. Stundum er þó löngunin meiri en getan. Þá þarf að vinna með það. Ef einstaklingur sér hins vegar ekkert nema hindranir á vegi sínum þá er ekki auðvelt að byrja,“ bætir hún við.
„Læknir sendir tilvísun til VIRK þar sem fram kemur ástæða til beiðni um samstarf fyrir einstakling. Sérstakt teymi vinnur með þessar beiðnir. Eftir að veitt hefur verið leyfi til samstarfsins hefst það með viðtali við ráðgjafa viðkomandi stéttarfélags. Skrifað er undir þátttökusamning sem inniheldur meðal annars áttatíu prósent mætingarskyldu í úrræði. Skoðað er hvar styrkleikar við- komandi liggja og hvernig hægt sé að vinna með þá áfram. Einnig er skoðað hvaða hindranir eru til staðar. Þetta er grunnurinn að allri okkar vinnu með þeim sem til okkar leita,“ segir Kristbjörg.
Traust og trúnaður mikilvæg
Hver hefur stjórnina í endurhæfingunni?
„Hver og einn einstaklingur setur sér markmið í endurhæfingu sinni. Einstaklingurinn stýrir hvernig á að vinna og við, ráðgjafarnir upplýsum hvað er í boði. Fyrst þarf fólk að finna út hvað það þarf að vinna með í málum sínum og síðan er skoðað hvaða úrræði koma honum að gagni í því verki. Mikilvægt er að traust og trúnaður ríki í samstarfi ráðgjafa og þjónustuþegans, það er grundvallaratriði. Ráðgjöf, stuðningur og utanumhald gefur góða raun í þessu samstarfi. Við, ráðgjafarnir, erum þeir aðilar sem halda utan um stuðningsnetið sem þjónustuþegar VIRK nýta sér. Þverfaglegt teymi sérfræðinga tekur ákvörðun um hvort einstaklingur hefur gagn af samstarfi við VIRK. Við ráðgjafarnir erum ekki með í þeim ákvörðunum.“ segir Guðleif Birna.
Er eitthvað sérstakt sem einkennir félagsmenn BHM sem sækja um samstarf við VIRK?
„Hópurinn okkar er háskólamenntað fólk á höfuðborgarsvæðinu. Sama hvaða stéttarfélagi það tilheyrir. Nema hvað þeir sem eru í Verslunarmannafélagi Reykjavíkur fá samstarf við ráðgjafa VIRK hjá VR. Lengi vel var stærsti hópurinn sem leitaði til okkar kennarar úr öllum skólastigum. Við höfum ekki gert rannsókn á ástæðum þessarar fjölgunar háskólamenntaðs fólks sem leitar til VIRK. Hins vegar höfum við séð að stærsti hópurinn glímir við andlega vanlíðan og sýnir einkenni streitu og andlegs álags, kvíða og þunglyndis,“ segir Kristbjörg.
Hvaða úrræði finnst ykkur hafa gagnast best hér hjá BHM?
„Sálfræðiþjónusta er afar mikilvæg, svo og hugræn atferlismeðferð, núvitund og streitustjórnun, slökun, jóga, sjálfsstyrking – raunar öll úrræði sem lúta að því að að vinda ofan af streitu og núllstilla streitukerfið. Sjúkraþjálfun er líka mikið notað úrræði. Það kemur kannski á óvart að vel menntað fólk leitar ekki nægilega eftir þeim stuðningi og forvörnum sem maður hefði búist við. Streitan virðist læðast aftan að fólki en það bregst ekki við henni með til dæmis að leita til sálfræðings eða hreyfa sig nægilega. Þarna spilar fjárhagurinn líklega inn í,“ segir Guðleif Birna.
Hve margir ráðgjafar VIRK sinna samstarfi við félagsmenn í BHM?
„Við hófum störf hjá VIRK árið 2011. Síðan hefur orðið gríðarleg aukning á beiðnum um samstarf og ráðgjöfum fjölgað. Hingað kom fjórði ráðgjafinn til starfa 2017 og sá fimmti er að hefja starf hér núna í ár,“ segir Kristbjörg.
Álagið er einfaldlega þungbært
Verðið þið vör við svokallaða kulnun í starfi hjá þeim sem til ykkar leita?
„Margt sem við sjáum, til dæmis í kennarahópnum, bendir til þess að andlegt álag sé orðið meira en áður. Viðvera hefur aukist og ýmsar skyldur sem fylgja kennslu hafa orðið fyrirferðameiri, svo sem vegna nýrrar námskrár og námsmats. Tæknivæðingu hefur fleygt fram og samstarf við foreldra er meira en var. Þetta gerir auknar kröfur án þess að dregið hafi úr þeim sem fyrir voru. Við sjáum líka talsvert af háskólamenntuðu fólki sem hefur þróað með sér vefjagigt og stoðkerfisverki í bland við andlegu vanlíðanina. Þeir sem sinna umönnun, svo sem hjúkrunarfræðingar, þroskaþjálfar og háskólamenntað fólk úr fleiri slíkum starfsgreinum hefur fjölgað komum sínum til VIRK,“ segir Guðleif Birna.
Eru þeir sem sinna fólki fjölmennari í ykkar samstarfshópi en til dæmis fræðimenn?
„Nei, ekki endilega. Það sem umönnunarhópurinn á sammerkt er að launin eru lág á sama tíma og álagið er orðið meira. Fleiri börn eru í bekkjum grunnskólans, hjúkrunarfræðingar hafa fleiri sjúklingum og öldruðum að sinna. Álagið er einfaldlega þungbært. Starfsfólki í þessum greinum er sagt að „hlaupa hraðar“, það kemur niður á heilsu þess og líðan. Þessi hópur hefur líka mörgu að sinna í sínu einkalífi, heimili, börnum, öldruðum foreldrum og þannig mætti telja. Aðstoð við veika og aldraða hefur heldur dregist saman undanfarin ár og þá leggst meiri vinna á aðstandendur. Þetta og hið aukna álag í starfi segir svo til sín á endanum. Það er því erfitt að segja til um orsök og afleiðingu,“ segir Kristbjörg.
Er starfsfólki fjölgað í samræmi við auknar kröfur?
„Í umfjöllun fjölmiðla um þessi málefni virðist sem svo sé ekki. Ég hef þá tilfinningu að núna sé starfsfólk í BHM að súpa seyðið af bankahruninu. Margir háskólamenntaðir starfsmenn fóru illa út úr hruninu, bæði hvað snertir vinnu og fjárhag. Fólk missti húsnæði og skuldar líka mikið í námslánum. Það hefur þraukað í áratug en þar sem ástandið á starfsvettvangi hefur ekki batnað heldur oft á tíðum versnað þá sígur á ógæfuhlið. Ófaglært starfsfólk var í fyrstu fjölmennara í samstarfinu við VIRK, nú fer háskólamenntaða fólkinu mjög fjölgandi,“ segir Guðleif Birna.
Menntun ekki metin til launa
Er kerfið að svara þjónustuþörf fólks í góðærinu?
„Við sjáum yfirleitt ekki hjá þeim sem til okkar leita merki um svonefnt góðæri. Launakjör hafa ekki í breyst í raun hjá þessum stéttum undanfarin ár. Á sama tíma og álagið hefur aukist hefur dregið úr þjónustu í kerfinu. Þetta höfum við sannarlega orðið vör við hér. Þótt að hópurinn sem við sinnum sé háskólamenntað fólk, svokölluð millistétt, eru kjör þess svona. Menntun er ekki metin til launa. Við fáum hér háskólamenntað fólk úr öllum stéttum, bæði háa sem lága og frá öllum stofnunum,“ segir Kristbjörg.
„Stærsti hópurinn sem leitar til VIRK á okkar vettvangi er með ráðningarsamning og á því allt upp í eitt ár í veikindaleyfi. Eftir það tekur við réttur þeirra hjá sjúkrasjóði viðkomandi stéttarfélags sem getur verið frá sex og upp í níu mánuði. Þessi hópur þarf því sjaldnast að leita til Tryggingastofununar ríkisins eftir endurhæfingarlífeyri. Það léttir alla vinnu hjá okkur að hafa ekki áhyggjur af framfærslu viðkomandi þjónustuþega. Flestir þeirra fara til baka í fyrra starf að lokinni endurhæfingu. Sumir verða þó að breyta um starfsvettvang. Kosturinn við hina akademísku menntun er að fólk getur nýtt sér hana á ýmsum sviðum atvinnulífsins.“
Nú er mikið talað um áhrif kynferðislegs ofbeldis. Er það ein ástæða fyrir kulnun í starfi?
„Það kemur vissulega oft fyrir að einstaklingar opni á slíkt þegar þeir fara að vinna í sínum málum. Þeir hafa kannski bælt þessa reynslu niður – en hún leitar upp. Ekki síst núna á tímum „MeToo“-byltingarinnar,“ segir Guðleif Birna.
Endurhæfing á forsendum hvers einstaklings
„Ég efast ekki um að það er ein ástæða kulnunar í starfi. Einstaklingar opna jafnvel á umræðu um kynferðislegt ofbeldi sem þeir sættu fyrir áratugum. Við ráðleggjum þá samstarf við Stígamót. Stundum er vegna þessa „skipt um gír“ í samstarfinu við VIRK og viðkomandi fer í áfallavinnslu. Hvert tilvik er skoðað sérstaklega. Endurhæfing fer fram á forsendum hvers einstaklings.
Svo kemur að því að viðkomandi er tilbúinn til að fara til starfa. Þá sýnir sig oftar en ekki að ekkert hefur breyst á vinnustaðnum. Hinn endurhæfði fer þá í sömu aðstæður og hann kom úr – sama ástandið og sama álagið. Okkur finnst atvinnulífið oft ekki koma nægilega til móts við fólk, svo sem að draga úr álagi og bæta aðbúnað. Ég get nefnt sem dæmi fólk sem missir heilsuna vegna myglusvepps á vinnustað þegar það snýr oftar en ekki aftur úr endurhæfingu í sama húsnæðið,“ segir Kristbjörg.
„Slíkt getur leitt til þess að fólk gefist aftur upp og leiti jafnvel aftur til VIRK. Það er mat hverju sinni hvort viðkomandi komist aftur í endurhæfingu. Sorglegt er að sjá fólk sem hefur náð góðum árangri og orðið heilsubetra versna á ný vegna þess að engar breytingar hafa verið gerðar á hinum slæmu aðstæðum,“ bætir hún við.
Mikilvægt að nýta réttindi
Hvað gerist hafi fólk orðið fyrir einelti á vinnustað – snýr það til baka?
„Sjaldnar en aðrir. Komi einstaklingar inn sem eru með ráðningarsamning er grundvallarregla hjá VIRK að þeir rjúfi samninginn ekki á endurhæfingartímabili og missi þannig mikilvæg réttindi. Áherslan er á að fólk reyni að fara aftur til starfa. Reynist starfið því óbærilegt getur það svo skipt um vettvang. Við leggjum áherslu á að fólk rjúfi ekki ráðningu. Þegar fólk er beygt þá á það helst ekki að taka slíka ákvörðun heldur þegar það er búið að ná bata,“ segir Guðleif Birna.
Hvernig mæta fyrirtæki því fólki sem kemur til starfa eftir endurhæfingu?
„Yfirleitt eru fyrirtæki jákvæð gagnvart því að fólk hefji vinnu að nýju í skertu starfshlutfalli. Fái að byrja í skertu starfshlutfalli og lengi svo starfstíma smám saman á nokkrum mánuðum. Þegar ítrekuð veikindi koma upp á sama vinnustaðnum ætti viðkomandi stofnun eða fyrirtæki að skoða hvað veldur.“
Hvað finnst ykkur um tilraunir til að stytta vinnuvikuna?
„Hætta er á að álag aukist ef fólk á að skila sama vinnuframlagi á styttri tíma. Það þarf að minnka álag samhliða styttingu vinnuviku. Það gæti leyst vanda margra,“ segir Kristbjörg.
„Almennt má segja að kröfur séu miklar en mannskapnum er ekki fjölgað að sama skapi. Sem dæmi má nefna að skipulagi náms er stýrt ofan frá. Stundum án þess að huga nægilega að því aukna álagi sem slíkt veldur kennurum. Slíkt getur orðið ein ástæða þess að kennarar hætta og finna sér annars konar störf. Hið sama á við þegar stofnanir eða fyrirtæki eru sameinuð. Þá er stundum ekki gætt nægilega að því álagi sem breytingarnar valda starfsfólki sem kannski er þegar undir miklu álagi,“ bætir Kristbjörg við.
Á eldra fólk sama rétt á endurhæfingu og ungt fólk?
„Já, endurhæfing hjá VIRK er ekki aldurstengd. Við höfum fengið hingað einstaklinga sem eru komnir yfir sextugt en vilja vera á vinnumarkaði til sjötugs. Þeir eiga jafnan rétt og þeir sem yngri eru. Fólk sem búið er að fjárfesta í löngu og dýru námi er gjarnan ekki með sömu lífeyrisréttindi og þeir sem lengi hafa verið á vinnumarkaðinum. Þetta er ein ástæða þess að sumir reyna að vinna svo lengi sem unnt er,“ segir Guðleif Birna.
Sjáum gífurlegan árangur
Finnst ykkur að VIRK hafi gert mikið fyrir þá sem þangað sækja?
„Við sjáum hér gífurlega mikinn árangur og fólk er afar þakklátt VIRK fyrir aðstoðina. Fyrir kemur að til okkar koma einstaklingar sem ekki hafa verið í vinnu í tugi ára en eru svo útskrifaðir héðan út á vinnumarkaðinn. Slíkir sigrar eru frábærir. Í hvert sinn sem einstaklingur er útskrifaður í fullt starf eða hlutastarf er það sigur,“ segja þær Kristbjörg og Guðleif Birna nánast einum rómi.
„Við segjum þeim gjarnan sem útskrifast úr samstarfi við VIRK að þeir beri ábyrgð á eigin heilsu. Flest stéttarfélög niðurgreiða ýmis heilsuúrræði, það ætti fólk að nýta sér. Við heyrum oft í þeim sem hér hafa verið í endurhæfingu og spyrjum þá hvort þeir hafi hreyft sig og gætt að heilsu sinni – stundum er svarið nei. Hjá sumum vinnustöðum, þar sem álag er mikið, ætti að stuðla meira að heilsubætandi úrræðum. Ábyrgðin þarf líka að liggja hjá fyrirtækjum og stofnunum,“ segir Kristbjörg.
Er vímuefnavandi ein af ástæðum þess að fólk hættir að vinna?
„Fólk má ekki vera í virkri neyslu í endurhæfingu. Eigi það í vímuefnavanda þarf það að ljúka meðferð gegn þeim vanda áður en það kemur inn í þjónustu hjá VIRK. Á slíkt er í upphafi lagt mat hjá teymi sérfræðinganna. Fyrir kemur að fólki sé vísað frá þangað til það hefur gert eitthvað í slíkum málum. Þetta er þó ekki áberandi vandi hjá þeim sem hingað leita.“
Verðið þið varar við að einstæðir foreldrar fái fremur kulnun í starfi en aðrir?
„Allir sem hafa lítinn stuðning eru í meiri hættu – lítill stuðningur eykur líkur á kulnun í starfi,“ svarar Guðleif Birna.
Heildarsýnin hjá VIRK skiptir miklu máli
Hvað varð til þess að þið systur lærðuð báðar félagsráðgjöf?
„Ég er eldri en Guðleif. Við erum aldar upp á Keldudal í Skagafirði, í stórum systkinahópi á heimili þar sem einnig ólust upp fósturbörn og tekin voru sumardvalarbörn. Starfsstéttirnar sem við kynntumst helst í upphafi voru bændur og félagsráðgjafar. Valið stóð því um þessar starfsgreinar. Ég fékk snemma áhuga á félagsmálum.
Mín skoðun er að minna sé um streitu í sveitum en styðst ekki við neinar rannsóknir. Áhugavert væri að gera slíka könnun. Vegalengdir á höfuðborgarsvæðinu og meiri hraði á kannski sinn þátt í þessu. Ég vann lengi hjá Félagsþjónustunni. Ég var orðin þreytt á úrræðaleysi og peningaskorti sem mér fannst þar ríkja um of. Það var ein ástæðan fyrir því að ég sótti um starf hjá VIRK. Ég fylgdist af áhuga með VIRK frá stofnun þeirrar starfsemi,“ segir Kristbjörg.
„Ég þræddi sömu leið og Kristbjörg. Lauk prófi frá Fjölbrautaskólanum á Sauðárkróki og síðan félagsráðgjafanámi frá Háskóla Íslands. Fór fljótlega í fótspor hennar hér hjá VIRK. Það hefur verið ánægjulegt fyrir okkur að starfa hér saman. Samstarf okkar byggir þó auðvitað á faglegum forsendum. Stundum þurfum við að hringja hvor í aðra til þess að tala saman á systranótum,“ segir Guðleif Birna og hlær.
„Það sem gerir starfið hjá VIRK svo ánægjulegt er heildarsýnin og að hafa aðgang að góðum úrræðum og fjármagni til að geta fylgt einstaklingum eftir á árangursríkan hátt. Þetta er það sem okkur finnst svo heillandi við starfið hjá VIRK,“ segja þær Kristbjörg og Guðleif Birna.
Viðtal: Guðrún Guðlaugsdóttir
Viðtalið birtist fyrst í ársriti VIRK 2018 - sjá fleiri áhugaverðar greinar úr ársritinu hér.