Fara í efni

Eðlileg viðbrögð við óeðlilegum aðstæðum

Til baka
Myndir: Pixabay
Myndir: Pixabay

Eðlileg viðbrögð við óeðlilegum aðstæðum

Berglind Stefánsdóttir, sérfræðingur hjá VIRK
Þorsteinn Gauti Gunnarsson, ráðgjafi hjá VIRK

 

Það er óhætt að segja að enginn bjóst við að vera að kljást við heimsfaraldur í upphafi árs 2020. Aðstæður okkar hafa breyst mjög hratt og við erum öll samstíga í því að upplifa sveiflur í andlegri líðan, eðlileg viðbrögð við óeðlilegum aðstæðum. Fræðsla getur hjálpað mikið og virkað sem áttaviti á erfiðum tímum. Það að vera meðvitaður um áhrifaþætti er mikilvægt fyrsta skref. En hvað erum við að upplifa og hvernig er árangursríkt að bregðast við?

Allar tilfinningar leyfilegar

Tilfinningar eru sammannlegar og eðlilegur hluti af lífinu og tilverunni. Tilfinningar geta haft áhrif á okkur og ýmislegt í lífi okkar líkt og heilsu, samskipti og hamingju. Aðstæður og atburðir geta haft mismunandi áhrif á okkur og leitt til margskonar tilfinninga. Þegar við sem samfélag erum að ganga í gegnum jafn fordæmalausar aðstæður og uppi eru í dag erum við þó mögulega ekki að upplifa þær á nákvæmlega sama háttinn. Sumir gætu upplifað kvíða, aðrir áhyggjur, leiða, einmanaleika eða pirring. Jafnvel upplifum við líka jákvæðar tilfinningar í bland. Það er engin rétt og röng tilfinning og leyfilegt að líða nákvæmlega eins og þér líður.

Það sem skiptir máli er hvernig við bregðumst við, hvað við gerum þegar við upplifum þessar tilfinningar. Tilfinningar eru ekki hættulegar og þurfa ekki að endurspegla stöðuna, t.d. að upplifa mikla skömm er ekki sama sem og að hafa gert eitthvað af sér. Það er túlkun okkar og ályktun af því sem er að gerast sem veldur því að við upplifum tilfinningar en ekki endilega það sem gerðist. Það er líka í lagi að vita ekki hvernig manni líður. Því tilfinningar geta verið margbreytilegar og þær líða hjá. Það getur verið hjálplegt að veita þeim eftirtekt, en um leið leyfa þær, dæma þær ekki og sýna sér samkennd fyrir þær. Það er eðlilegt að sveiflast í líðan og finna sterk tilfinningaleg viðbrögð í þeim óvissu aðstæðum sem eru í heiminum í dag.

Breyttar aðstæður kalla á nýjan takt

Það er margt sem þú getur gert til að öðlast meira jafnvægi í þeim aðstæðum sem uppi eru í dag. Fyrsta skrefið er að kortleggja hvað gæti hjálpað þér í stöðunni innan þess ramma sem hefur verið settur. Nú þegar hafa mörg gagnleg ráð birst frá sérfræðingum og yfirvöldum, lítil ráð geta gefið mikið. Nú hefur rútína flestra breyst mjög mikið, því er gott að finna sér nýjan takt og rútínu fyrir hvern dag, kortleggja nokkra fasta punkta og stimpla sig inn í daginn með góðum venjum og stilla fréttalestri í hóf.

Aðlögunarhæfni okkar er góð og getur komið okkur á óvart, nú er tími heimaæfinga og náttúrutengingar, fjölmargar gönguleiðir eru í boði á Ísland og nú er tækifæri að ganga nýjar slóðir. Þá er gott að huga að góðum svefnvenjum og næringu. Mikilvægt er að halda áfram að rækta nærandi samskipti við vini okkar og fjölskyldu með nýjum leiðum, eins og í gegnum snjalltæki og síma. Það að viðhalda virkni getur reynt á lausnamiðaða hugsun en tækifærin leynast víða, hvað getur þú gert nýtt og öðruvísi á þessum tímum? Nú er sóknarfæri til að rækta ný og gömul áhugamál, læra eitthvað nýtt og hlúa að sínum kjarna og sínum nánustu.

Að lokum er mikilvægt að plana eitthvað skemmtilegt fram í tímann, ánægjulegar athafnir eru mikilvægar fyrir andlega og líkamlega heilsu og hjálpa til við að gefa okkur góð boðefni líkt og hreyfing. Þetta talar allt saman og stuðlar að auknu jafnvægi.

Við klárum þetta saman, eitt skref í einu og allt í réttri röð

Heimurinn er í eðli sínu breytilegur, þetta er tímabil sem líður hjá. Aðlögunarhæfni okkar er sterk. Fylgjum tilmælum og tökum þátt í þessu stærsta samfélagslega verkefni okkar tíma. Við erum samstíga að finna fyrir sveiflum í andlegri líðan og það er allt í lagi, við erum mannleg. Það er mikilvægt að halda áfram að lifa og aðlaga okkur að aðstæðum. Hugsum með okkur „hvað get ég gert til þess að rækta mína andlegu og líkamlega heilsu". Gott er að skipuleggja eitthvað sem gefur byr undir báða vængi, halda í húmorinn og taka eitt skref í einu og allt í réttri röð.


Fréttir

30.05.2024
28.05.2024

Hafa samband