Fara í efni

Bókarýni - Mindset Matters

Til baka

Bókarýni - Mindset Matters

Soffía Eiríksdóttir teymisstjóri hjá VIRK

 

Bókin Mindset Matters - Developing Mental Agility and Resilience to Thrive in Uncertainty, kom út árið 2022 og er skrifuð af Dr. Gemmu Leigh Roberts. Roberts er sálfræðingur á sviði vinnusálfræði og hefur aðstoðað einstaklinga, teymi og mörg af stærstu fyrirtækjum heims við að byggja upp seiglu og vinna með hugafar til aukins árangurs og vaxtar.

Roberts hefur einnig átt miklum vinsældum að fagna á Linkedin, þar hafa milljónir manna sótt námskeið hennar um vellíðan í vinnu og yfir 600 þúsund manns eru áskrifendur að reglulegum pistlum hennar um hugarfar (e.mindset) og mikilvægi seiglu í síbreytilegu vinnuumhverfi nútímans.

Pistlarnir eru einmitt tilurð þessarar bókar, vinsældir þeirra og þær fjölmörgu spurningar og ábendingar sem Roberts fékk frá lesendum vöktu hana til umhugsunar um þau gífurlegu áhrif sem hraðar breytingar á vinnumarkaði síðustu ár hafa haft á þær kröfur sem gerðar eru til okkar í vinnu. Flestir voru að leita að svörum við því hvernig væri hægt að efla vellíðan og vöxt i óvissu og breytingum.

Bókin er fyrst og fremst hugsuð sem handbók um það hvernig vinna megi með þá lykilþætti hugarfars sem skipti sköpum til að ná árangri og grósku á vinnumarkaði framtíðarinnar. Efni bókarinnar byggir á vísindalegum grunni rannsókna og gagnreyndra aðferða sem höfundur fléttar saman við raundæmi vítt og breytt úr atvinnulífinu. Að auki inniheldur bókin fjölmargar æfingar og aðferðir sem einstaklingar, teymi og fyrirtæki geta notað til að efla og þjálfa þessa þætti.

Í fyrri hluta bókarinnar fjallar Roberts um þær miklu umbreytingar sem orðið hafa á vinnumarkaði síðustu ár og þau áhrif sem Covid 19 hafði til að hraða þeim breytingum. Nýjar tækniframfarir sem rétt voru að líta dagsins ljós voru knúnar fram hratt af nauðsyn og fjarvinna sem var að ryðja sér til rúms á vinnumarkaði varð sjálfsagður hluti hjá stórum hluta vinnandi fólks. Aðstæður hafi kallað á sveigjanleika og skjót viðbrögð við óvissu og aðlögunarhæfni í erfiðum aðstæðum sem voru okkur framandi. Þó að vissulega hafi áskoranir síðustu ára ekki verið okkur ákjósanlegar hafi þær kennt okkur að vera sveigjanleg og lausnamiðuð í síbreytilegu umhverfi og það sé reynsla sem vinnumarkaður framtíðar kalli á.

Þó að ekki liggi ljóst fyrir hvernig vinnumarkaður muni þróast munu breytingar og óvissa verða einkennandi. Framþróun nýrrar tækni eins og gervigreindar, sjálfvirknivæðingar og vélmenna geri kröfur um nýja hæfni til að takast á við það óþekkta, læra og aðlagast hratt. Breikkandi kynslóðabil á vinnumarkaði krefjist aukins umburðarlyndis og aukin notkun upplýsingatækni reyni æ meira á samskiptahæfni. Á sama tíma sé æ meiri áhersla á að vinnan hafi tilgang fyrir einstaklinginn. Fólk velur sér vinnu og vinnustaði sem samlagast gildum þeirra og hefur upp á að bjóða umhverfi þar sem hægt er að þróast og vaxa.

Stóra áskorunin fyrir atvinnulífið, er eins og Roberts bendir á, hvernig þetta fari saman. Hvernig tekst okkur að vaxa og dafna í stöðugum breytingum? Hvernig getum við fundið það jafnvægi sem við viljum hafa í vinnu og einkalífi undir stöðugri óvissu?

Einstaklingar og fyrirtæki verði að horfa til þeirra þátta hugarfars sem samræmist og styðji við breytingar. Með réttu hugarfari getum við notað snerpu og seiglu til takast á við óvænta atburði og nýtt hæfileika okkar þannig að við vöxum, færumst fram á við og sköpum verðmæti.

Bókin er einkar handhæg, auðvelt er að tengjast efninu og yfirfæra á þau verkefni og áskoranir í vinnu sem einstaklingar eru að fást við hverju sinni.

Í síðari hluta bókarinnar fer Roberts yfir fimm lykilþætti hugarfars sem hægt er að tileinka sér og þjálfa þannig að hægt sé að grípa til þeirra þegar á þarf eða vera meðvituð um. Í raun séu þetta mikilvægustu verkfæri sem við komum til með að nota til framtíðar þar sem vinnan sé alltaf að reyna meira á hugræna þætti, viðhorf okkar og hegðun.

Hver efnisþáttur fær tvo kafla. Í fyrsta kaflanum er viðfangsefninu gerð ýtarleg skil út frá skilgreiningum, rannsóknum og raundæmum og í síðari kaflanum er farið yfir aðferðir og æfingar sem nota má til stuðnings og þjálfunar. Lesandi getur þannig valið ákveðna kafla sem hann vill kynna sér og eða grípa til öðru hvoru til að bæta við hæfni sína.

Seigla

Seigla (e .resilience) hefur fengið mikla umfjöllun síðustu ár sérstaklega í tengslum við vinnu og er talin skipta sköpum til að ná árangri bæði fyrir einstaklinga og fyrirtæki. Seigla er í raun það mótvægi sem við þurfum til að takast á við áskoranir í vinnu og eflast i mótbyr. Einstaklingar sem búa yfir seiglu takast betur á við streitu, ná að vinna betur úr verkefnum og sjá lausnir í óvissu. Roberts líkir seiglu við vatnstanka sem eru stundum fullir eða hálftómir. Til að geta gripið til seiglu þegar á reynir þarf að huga reglulega að birgðum og passa að hafa næga innistæðu.

Í æfingakaflanum setur Roberts fram æfingar og aðgerðir til að hlúa að og efla seiglu. Sem dæmi má nefna þakklætisæfinguna (að fara daglega yfir þrjá hluti sem við erum þakklát fyrir) - þessi einfalda æfing efli jákvæðni sem er ein af meginstoðum seiglu. Til að eiga úthald í erfiðum aðstæðum sé gagnlegt að skrifa niður hverjir helstu stuðningsaðilar þínir eru, af hverju og í hvaða aðstæðum þú leitar til þeirra og grípa svo í listann þegar á þarf.

Hugrænn sveigjanleiki

Hugrænn sveigjanleiki (e. Cognitive flexability) skiptir lykilmáli í hröðu og flóknu umverfi þar sem lítill tími gefst til að velta fyrir sér hvernig við ætlum að bregðast við til að fá ásættanlega útkomu. Með því að gera sér grein fyrir hugsanaferli sínu og lesa í hegðun og viðbrögð annara, má aðlaga og sveigja hugarfar okkar þannig að við fáum þá útkomu sem við sækjumst eftir.

Í köflunum fer Roberts yfir ýmsar aðferðir úr viðjum sálfræðinnar sem nota má bæði þegar við viljum aðlaga hugsanaferli okkar og breyta skilningi okkar á aðstæðum eða þegar við viljum leyfa hugsunum að koma og fara, vera í aðstæðunum og halda okkar stefnu.

Gróskuhugarfar eða framfaramiðað hugarfar Einstaklingar sem búa yfir gróskuhugarfari eða framfaramiðuðu hugarfari (e. growht mindset) kunna að meta áskoranir og líta á þær sem tækifæri til að vera stöðugt að læra og bæta sig. Mistök eru þannig nauðsynlegur hluti af lærdómsferlinu. Með því að leyfa mistök og skilja að í þeim felist mikilvægur lærdómur, nái bæði einstaklingar og fyrirtæki markmiðum sínum og meira til.

Microsoft er gott dæmi um fyrirtæki sem hefur náð að snúa menningu sinni í þessa átt. Nýr forstjóri tók við 2014 og ákvað fljótt að innleiða framfaramiðað hugarfar þvert á alla starfsemi fyrirtækisins. Stjórnendur fengu sérstaka þjálfun og handleiðslu til að styðja við frumkvæði, stöðugan lærdóm og samvinnu - og teymi voru endurhugsuð út frá samvinnu og trausti. Við þessar aðstæður blómstrar nýsköpun, hagnaður Microsoft hefur stóraukist og starfsmenn upplifa mun meiri vellíðan í vinnu.

Til að tileinka sér framfaramiðað hugarfar bendir Roberts á fjölmargar leiðir sem einstaklingar og fyrirtæki geta tileinkað sér. Svo sem að byggja á mistökum til vaxtar (e. failure forward). Hér er átt við að skoða reglulega verkefni sem ekki gengu upp og spyrja hvað var það við ferlið sem fór úrskeiðis? Er verkefnið fullreynt eða er hægt að fara aðrar leiðir og ná árangri? Segja skuli frá mistökum í rauntíma, það dragi úr streitu og gefi rými fyrir aðrar mögulegar lausnir. Lítill hlutur eins og að breyta orðræðu úr „mér tókst ekki“ í „mér hefur ekki tekist þetta enn“ geti breytt viðhorfi okkar til árangurs og lærdóms.

Tilfinningagreind og tengsl

Síðustu kaflarnir fjalla um tilfinningagreind (e. emotional intelligence) og tengsl (e. connection) en til að finna tilgang í vinnu er mikilvægt að við finnum til tengsla bæði við starfsfélaga, innan teymis og við yfirmenn en líka við viðfangsefni vinnunar. Þannig getum við sótt hvert í annað og fundið tilgang í markmiðum okkar og stefnu.

Bókin er einkar handhæg, auðvelt er að tengjast efninu og yfirfæra á þau verkefni og áskoranir í vinnu sem einstaklingar eru að fást við hverju sinni. Bókin hefur einnig mikið notagildi í ráðgjöf til einstaklinga sem þurfa að efla sig í vinnu eða eru að snúa aftur á vinnumarkað eftir veikindi eða slys, sérstaklega kaflarnir um seiglu og framfaramiðað hugarfar.

Bókin er einnig kjörin fyrir stjórnendur, teymi eða fyrirtæki til að horfa til framtíðar og skapa eftirsóknavert umhverfi þar sem rými er til vellíðunar, árangurs og vaxtar.

Bókin vakti mig til umhugsunar um að í stað þess að berjast við að þola breytingar og bíða eftir að storminn lægi, ætti ég að skoða frekar hvernig ég vex í þeim. Með því að tileinka mér og vinna reglulega að þáttum hugarfars get ég náð áttum og stýrt vellíðan minni og árangri í vinnu. Þessi verkfæri eru mér jafnmikilvæg og hamar og sög smiðsins og því nauðsynlegt að yfirfara þau reglulega og nota eftir þörfum.

Greinin birtist fyrst í ársriti VIRK 2023.


Fréttir

30.05.2024
28.05.2024

Hafa samband