Fara í efni

Ákvað að lifa í ljósinu

Til baka

Ákvað að lifa í ljósinu

Heiðar Már Guðnason sundlaugarvörður

„Það var keyrt aftan á mig þar sem ég beið á biðskyldu við Sæbraut í bílnum mínum þann 23. mars 2017. Stúlkan sem þetta gerðí tók ekki eftir bílnum mínum að því re virtist“ segir Heiðar Már Guðanson sem nýlega útskrifaðist úr þjónustu hjá VIRK. Við sitjum í vistlegri stofu á heimili Heiðars Más, viðstödd viðtalið er kona hans Randi Holm. Talið berst fyrst að slysinu og aðdraganda þess.

„Slysið var klukkan tíu um kvöld, ég var að sækja dóttur mína í vinnu. Bíllinn minn fór í klessu við ákeyrsluna og ég lenti upp á bráðadeild. Þar kom í ljós að ég var slasaður á öxl og óvinnufær. Það bætti heldur úr skák að bíllinn var sjálfskiptur og ég því með fótinn á bremsunni. Ég var heppinn að kastast ekki í bílnum út á Sæbrautina þar sem umferðin var hröð og mikil.“

Fékkstu höfuðhögg?
„Já, ég datt út, það slokknaði á mér. Ég fór víst samt út úr bílnum mínum til að athuga með bílstjórann á hinum bílnum þótt ég muni varla eftir því. Allt er mjög óljóst. Ég kom fyrst til fullrar meðvitundar á bráðadeildinni.

Ég var algjörlega óviðbúinn þegar slysið varð, alveg slakur og horfði aðeins til vinstri hliðar. Staða höfuðsins skiptir máli þegar ekið er aftan á fólk í bíl. Samkvæmt rannsóknum sleppur fólk að líkindum betur ef það situr beint og horfir fram fyrir sig. Af því að höfuðið á mér var í hliðarstöðu þá lenti höggið meira á hálsinum og öxlinni. Ég brákaðist á viðbeini og það færðist aðeins til. Það blæddi mikið inn á axlarliðinn, ég tognaði illa, meiddist talsvert á mjöðm og baki og fékk heilahristing.“

Varstu lagður inn?
„Nei, ég fékk að fara heim eftir rannsókn og aðhlynningu. Ég var allur mjög stífur þeim megin í líkamanum sem höggið lenti á. Ég var, þegar slysið varð, bílstjóri í Innkaupadeild hjá VHE í Hafnarfirði. Menn þar í fyrirtækinu vildu allt fyrir mig gera og halda mér áfram í starfi. Ég fór í sjúkraþjálfun og reyndi það sem ég gat til þess að verða vinnufær. En það var langur vegur frá að ég gæti keyrt eða borið vörur. Konan mín, hún Randi, ók mér í sjúkraþjálfun og annað sem ég þurfti að fara fyrstu þrjá mánuðina eftir slysið.“ Heiðar Már lítur til konu sinnar sem situr í sófa við glugga og kinkar kolli.

Giftu sig skömmu eftir slysið

„Reyndar vorum við fyrir nokkuð löngu búin að ákveða og undirbúa brúðkaup okkar þetta sumar eftir fjórtán ára sambúð,“ segir Heiðar Már. Randi brosir til hans.

Gekk það eftir?
„Já við létum það ganga upp. Randi er færeysk og fólkið hennar var búið að panta hér hótelherbergi. Við giftum okkur því á tilsettum tíma, þann 12. ágúst 2017. Ég var undir áhrifum sterkra verkjalyfja og dálítið ringlaður. Ég tók til dæmis blómvendi brúðarmeyjanna og setti þá alla upp á altarið í kirkjunni. Þegar þær komu voru engin blóm. Þær gengu því á eftir okkur inn kirkjugólfið án blómanna en sáu svo alla vendina uppi á altarinu. Svona var ég illa kominn og ruglaður,“ segir Heiðar Már og hlær. Randi stendur upp, sýnir mér brúðargjafir, myndir af börnum þeirra hjóna og gefur mér kaffibolla. Síðan sest hún og samtal okkar Heiðars heldur áfram.

Hvenær kom VIRK til sögunnar?
„Ekki fyrr en liðið var hátt í ár frá slysinu. Ég var þá búinn að vera hjá sjúkraþálfara en hafði lítið lagast. Var á hinn bóginn orðinn „sérfræðingur í Netflix“, sat löngum stundum heima við sjónvarpið. Ég reyndi að vísu að fara aftur til vinnu nokkrum mánuðum eftir slysið, starfinu hafði verið haldið opnu fyrir mig – en það gekk ekki. Ég versnaði bara. Ég var orðinn mjög vondaufur þegar ég fór til sérfræðings sem gerði aðgerð á öxlinni. Eftir það fór ég loks að finna svolítinn bata.
Þetta ástand var erfitt fyrir mig. Ég hafði fram að slysinu verið hress og virkur. Ég fór ungur að vinna fyrir mér og vildi drífa mig áfram. Sem dæmi get ég sat þér að þegar ég fermdist þá borðaði ég með gestunum í fermingarveislunni en lét mig svo hverfa, fór að snúa saltfiski í Kópavogi. Mamma var ekki ánægð með þetta,“ segir Heiðar og hlær.

Ískyggilega óviss framtíðarsýn

Hvernig var andleg líðan þín eftir slysið?
„Andlega hliðin fór mjög hratt niður á við. Ég hafði fram að þessu varla orðið veikur um dagana, orðinn fjörutíu og sjö ára. Ég átti því mjög erfitt með að sætta mig við að vera heilsulaus og kippt úr vinnu. Framtíðarsýn mín var líka ískyggilega óviss og fjármálin vitanlega einnig.

Fyrst hafði ég laun í fimm mánuði. Síðan tók tryggingafélagið við og borgaði í nokkurn tíma. Þegar því lauk sneri ég mér til Eflingar og fékk laun úr sjúkrasjóði þaðan. Mér leist ekki á hvernig aðstæður mínar voru að þróast. Ég hafði heyrt ávæning af tali um VIRK frá skyldfólki. Ég vildi alls ekki enda á örorku heldur reyna að komast út á vinnumarkaðinn aftur. Ég fór því til heimilislæknis míns. Hann sótti um fyrir mig hjá VIRK og einnig um endurhæfingarlífeyri.“

Fannst þér þetta erfitt skref?
„Nei, ég hafði enga fordóma gagnvart slíkri endurhæfingu, þvert á móti. Nærri ár var liðið frá slysinu og ég þurfti að bíða aðeins eftir samþykki fyrir þjónustu. Undir jól 2017 hitti ég fyrst ráðgjafa VIRK hjá Eflingu. Ég fór heldur hikandi á fund ráðgjafans, vildi prófa þetta þótt ég væri orðinn þunglyndur og dapur.

Ég hitti svo ráðgjafann minn, sem er kona. Hún var sérlega hress og hrein og bein í samskiptum. Viðmót hennar vakti hjá mér von um betri tíð og veitti ekki af. Þegar þarna var komið sögu var ég orðinn næsta viss um að mín biði ekkert nema basl í sárri fátækt.“

Ákvað að treysta öðrum

Hver voru úrræðin sem þú fórst í?
„Í fyrsta tímanum hjá ráðgjafanum fórum við yfir málið. Í næsta tíma átti ég að hafa velt fyrir mér framhaldinu. Ég var þá enn í meðferð hjá ágætum sjúkraþjálfara og vildi vera þar áfram samhliða öðrum úrræðum. Mér þótti ákaflega gott að vita til þess að úrræðin sem ég færi í myndi VIRK borga fyrir mig. Ég hefði alls ekki haft efni á að nýta mér þau ella. Ráðgjafinn sagði mér það í fréttum að ég yrði að mæta í öll úrræði áttatíu prósent – að mig minnir. Ella yrði ég að borga þau sjálfur. Ég hugsaði með mér: „Eins gott að mæta maður!“

Í öðrum tímanum settum ég og ráðgjafinn upp litla beinagrind að meðferðaráætlun. Viðræðurnar við ráðgjafann hrintu af stað ýmsum hugmyndum. Ég ákvað er frá leið að sleppa tökunum og leyfa fólkinu sem vildi hjálpa mér að gera það. Ég hafði fram að því verið mjög sjálfstæður í öllum ákvörðunum, kappsamur og vanastur því að hugsa fyrir mig sjálfur. Nú ákvað ég að sleppa, treysta öðrum til að vinna sína vinnu í mína þágu. Þetta fannst ráðgjafanum alveg stórkostlegt hjá mér.“

Og hvernig gekk?
„Ég fékk tíma í Heilsuborg. Ég átti kort hjá World Class en var á þessum tímapunkti orðinn nánast „áskrifandi“, mætti þar mjög illa. Fór þó stundum í klefa þar sem voru infrarauð ljós. Ég fann að þau gerðu mér gott. Í Heilsuborg komst ég í samband við sjúkraþjálfara sem var mjög góður. Sá sem ég hafði verið hjá áður var góður líka. Er frá leið fannst mér betra að vera á sama stað svo ég skipti alveg yfir í Heilsuborg. Farið var mjög vel yfir alla tækjanotkun, hvernig ég ætti að nota hvert og eitt tæki svo það hjálpaði mér. Ég mætti þrisvar í viku í Heilsuborg og svo fékk ég tíma hjá sálfræðingi. Mér fannst það í upphafi hálfgerður óþarfi, hélt að ég þyrfti ekki á slíku að halda. Samhliða sálfræðitímunum fór ég í hugræna atferlismeðferð. Ég hafði harla litla trú á því í upphafi. Þarna voru eldri konur, ég sá ekki hvaða erindi ég ætti í þann hóp. Ég mætti þó eins og fyrir mig var lagt. Hefði ég átt að stjórna mætingu þar sjálfur hefði ég líklega sjaldan mætt.“

Hvernig reyndust þér þessi andlegu úrræði?
„Ég komst að því strax í fyrsta tíma að ég væri haldinn miklum ranghugmyndum um sjálfan mig og það gerðu líka hinir sem með mér voru í hugrænu atferlismeðferðinni. Við áttum í upphafi að skrifa á blað hvað við horfðum mikið á sjónvarp og hvað við notuðum símann okkar og tölvuna mikið. Stjórnandinn tók svo við blöðunum sem við höfðum skrifað á þann tíma sem við töldum að við eyddum í þessi tæki. Síðan fékk hann okkur bók. Sagði okkur að skrá þar framvegis nákvæmlega hve miklum tíma við eyddum í að horfa á sjónvarp og notkun á síma og tölvu. Við gerðum líka dagbók yfir allt annað sem við gerðum. Allir voru furðu lostnir yfir niðurstöðunum – mismunurinn á því sem við áætluðum í upphafi og hver raunin varð var svo mikill. Ég frétti sem sagt ýmislegt um sjálfan mig bæði í hugrænu atferlismeðferðinni og á þeim tuttugu tímum sem ég fékk hjá sálfræðingnum. Þetta var frábært og gerði meira fyrir mig en ég hafði nokkurn tíma getað ímyndað mér.“

Nýtt starf á nýjum vettvangi

Hvenær fórstu að hugsa til þess að fá þér vinnu?
„Eftir svona helminginn af þeim tíma sem ég sótti þjónustu hjá VIRK. Í heild var ég þar í endurhæfingu í eitt og hálft ár. Ég fór sem fyrr sagði snemma að vinna fyrir mér. Fyrst ýmis verkamannastörf en lengstum ók ég sendibíl og var um tíma með fyrirtæki á þeim vettvangi. Mér varð ljóst að keyrsla myndi ekki henta lengur vegna axlarmeiðslanna og afleiðinga þeirra. Ég var þá búinn að fá mat frá tryggingafélaginu. Ég er fimmtán prósent öryrki og fæ aldrei fulla hreyfigetu í öxl og handlegg. Með miklum æfingum get ég þó haldið því við sem komið hefur til baka.

Ég varð því að finna eitthvert starf sem ekki gerði kröfu um að lyfta þungu eða annars konar erfiði. Í þessu ferli datt ég niður á vinnu sem mér leist vel á. Auglýst var eftir sundlaugarverði í Kópavogi, ég sótti um og fékk það starf. Ég er núna búinn að vinna þar í rúmt hálft ár og líkar vel. Þetta er rólegra starf en það sem ég var í áður en ég fæ útrás í hlaupum fyrir mína meðfæddu kappsemi. Tók þátt í tíu kílómetra hlaupi fyrir skömmu. Það var erfitt en hafðist. Ég hef alltaf haft áhuga fyrir félagsmálum. Fljótlega var ég kosinn trúnaðarmaður á nýja vinnustaðnum. Ekki í fyrsta skipti sem ég tek slíkt að mér,“ segir Heiðar Már og bregður fyrir stolti í röddinni.

Hvernig varstu undirbúinn fyrir þetta nýja starf?
„Ég varð að taka sundpróf og þá kom mér þrautseigjan vel, þetta reyndi heldur betur á meiddu öxlina. Ég kláraði prófið, synti sex hundruð metra á innan við tuttugu mínútum. Ég fer bráðlega aftur í próf, þau fara fram árlega. Satt að segja hafði ég aldrei séð mig fyrir mér sem sundlaugarvörð en lífið tekur stundum óvæntar beygjur.“

Áætlunin með VIRK gekk upp

Hvernig líður þér núna andlega?
„Öll sú sjálfsskoðun sem ég fór í hefur skilað mér rósemi í huga. Á einum tímapunkti í meðferðinni hjá sálfræðingnum ákvað ég að ég ætlaði framvegis að lifa í ljósinu. Þetta var ákvörðun. Þannig upplifði ég líka VIRK.

Þar mætti mér geislandi ráðgjafi og þær viðtökur vöktu von um betra líf. Mér var ekki sagt hvað ég ætti að gera heldur látinn finna að ég mótaði stefnu sjálfur í því verkefni að komast út á vinnumarkaðinn. Ráðgjafinn sá greinilega fljótt hvernig best væri að mæta mér. Áttaði sig á að ég væri samviskusamur og vildi standa við mitt. Væri tími bókaður þá myndi ég fara í hann.“

Hefðir þú farið að vinna aftur ef þú hefðir ekki verið hjá VIRK?
„Ég er ekki viss. Finnst þó líklegra að ég hefði ekki gert það. Sennilega endað sem öryrki. En áætlunin sem ég og ráðgjafi VIRK mótuðum saman í upphafi gekk eftir og nú er ég kominn í ágæta stöðu í lífinu. Ég er sáttur. Kominn framhjá því að hugsa um verki sem vandamál. Þetta er eins og það er og ég breyti því ekki. Það er auðvelt að stoppa við áföll en ég hef ekki leyft mér það. Á margan hátt finnst mér ég sterkari nú en ég áður var.

Ég hef oft þakkað Guði fyrir VIRK, þar voru þau verkfæri sem ég þurfti á að halda á sínum tíma. Ég, sem trúnaðarmaður á mínum vinnustað, sat fyrir nokkru námskeið hjá BSRB. Einn af fyrirlesurunum var ráðgjafi sem kynnti starfsemi VIRK. Þá sá ég þetta utan frá, sá heildarmyndina – hvað þar er unnið stórkostlegt starf.“

Texti: Guðrún Guðlaugsdóttir

Viðtalið birtist í ársriti VIRK 2019.
Lestu fleiri reynslusögur hér.


Hafa samband